16.12.1961
Efri deild: 35. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 323 í B-deild Alþingistíðinda. (319)

107. mál, verðlagsráð sjávarútvegsins

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Þó að aths. þær, sem fram hafa komið við þetta frv. hér, bæði frá hv. frsm. 1. minni hl. og hv. frsm. 2. minni hl., séu mjög svipaðar þeim aths., sem fram komu í hv. Nd. og var svarað þar, þá tel ég rétt að fara um þessar aths. nokkrum orðum. Það er líka þeim mun minni ástæða til þess að fjölyrða um þetta, að flestallar tillögurnar, sem minni hlutarnir bera fram, eru svo að segja nákvæmlega eins og brtt., sem fram komu í hv. Nd.

Hv. frsm. 1. minni hl., hv. 4. þm. Vestf., hóf sitt mál með því að átelja, — ég vil ekki segja víta, — en átelja þau vinnubrögð, sem höfð hefðu verið við afgreiðslu þessa máls, eða, eins og hann orðaði það, það flaustur, sem einkennt hefði afgreiðslu málsins. Um það skal ég aðeins endurtaka það, sem ég sagði í hv. Nd., að eftir að það hafði sýnt sig á landsfundi ísl. útvegsmanna, sem kom saman í byrjun nóvembermánaðar, að grundvöllur mundi vera fyrir því að setja upp eitthvert kerfi svipað og þetta, og vitað var, að sjómannasamtökin, a.m.k. nokkur hluti þeirra, voru sömu skoðunar, þá var þegar unnið að því að kalla saman fulltrúa allra aðilanna, sem hér áttu hlut að máli, og leita eftir því við þá, hvort ekki væri hægt að komast að samkomulagi. Það samkomulag náðist, eins og ég lýsti, þegar ég lagði þetta frv. fyrir hér í þessari hv. deild, og nefnd var skipuð, sem tók þegar til starfa og innti sitt verkefni af höndum með röggsemi, verð ég að segja, og skilaði áliti um mánaðamótin nóvember og desember. Strax á eftir var málið tekið til meðferðar í ríkisstj. og lagt fyrir hér í hv. Nd. fimm eða sex dögum eftir að ríkisstj. fékk málið í sínar hendur. Þessu var flýtt svona og eins meðferð málsins hér í þinginu vegna þess, eins og ég hef áður lýst, að það var talinn mikill ávinningur, ef málið yrði afgreitt fyrir þinghlé og fyrir áramót, þannig að það gæti komið til framkvæmda við fiskverðsákvörðunina í byrjun janúar, áður en vertíð hefst. Þetta er orsökin til þess, að málinu hefur verið flýtt eins og raun ber vitni. Ég skal viðurkenna, að því hefur verið flýtt, en ég tel ekki, að því hafi verið flaustrað af á einhvern hátt óforsvaranlega, því að hv. alþm. hafa áreiðanlega fengið tækifæri til þess að kynna sér það eins rækilega og þeir hafa viljað á þeim tíma, sem það hefur legið hér fyrir, frá því að það var lagt fram í hv. Nd. Hv. 4. þm. Vestf. þótti það líka átöluvert, að þessu væri svo fast fylgt eftir, að brtt. bæði hans og hv. 2. minni hl. hefðu ekki einu sinni verið fullprentaðar og lagðar hér fram, þegar hann hóf sitt mál, þó að þær raunar kæmu fram, á meðan hann flutti það. En um þetta vil ég segja, að þessar brtt. voru allar hv. þdm. kunnar, vegna þess að þær voru að langsamlega mestu leyti samhljóða því, sem flutt hafði verið í Nd.

Ýmis atriði önnur, smávægileg þó flest, minntist þessi hv. þm. á, eins og það t.d., að hann taldi, að sömu skilyrði hefðu átt að gilda um fulltrúa útvegsmanna í verðlagsráði og í yfirdómi, þannig að verðlagsráðsmenn útvegsmanna ættu eingöngu og mættu eingöngu hafa seljendasjónarmið, en alls ekki kaupendasjónarmið. Þessu hef ég áður svarað því og geri enn, að það er sitt hvað, hvernig menn eru valdir til verðlagsráðs og til yfirdóms, vegna þess að í verðlagsráði þarf fullt samkomulag, til þess að málið hljóti afgreiðslu, og hver einstakur verðlagsráðsmanna hefur þar neitunarvald, en í yfirdómi eru mál afgreidd með atkvæðamagni, þannig að meiri hluti atkv. ræður þar úrslitum, og verður þess vegna að mínu viti að gera meiri kröfur til mannavals þar en í verðlagsráðið sjálft. Hv. þm. vildi telja, að bæði vegna þessa ákvæðis og annarra og þó sérstaklega vegna kröfunnar um algert samkomulag í verðlagsráði væru líkur til þess, að flest mál mundu ganga til yfirdóms og ekki verða afgreidd í verðlagsráðinu sjálfu. Ég er alveg gagnstæðrar skoðunar. Ég hef þá trú, að megnið af málum og kannske flest eða öll muni verða afgreidd í verðlagsráðinu sjálfu með samkomulagi án þess að fara til yfirdómsins, og byggi ég það fyrst og fremst á því, sem gerzt hefur í verðlagsráði landbúnaðarins. Þar hefur reynslan orðið sú í þau mörgu ár, sem sex manna nefndin hefur starfað, að verðákvarðanir hafa verið gerðar þar, en ekki gengið til yfirdómsins, og það einfaldlega vegna þess, að ég tel, að þegar menn ákveða að vísa máli til yfirdóms, þá taka þeir á sig nokkra áhættu. Þeir vita ekkert, hvernig sá hlutlausi aðili, sem tilnefndur verður til þess að fara með oddaatkvæði í yfirdómi, kemur til með að greiða sitt atkv. og að hvaða niðurstöðu hann kemst. Þess vegna fylgir því alltaf nokkur áhætta fyrir hvaða verðlagsráðsmann sem er að neita samkomulagi og vísa máli til yfirdóms. Hins vegar, ef málið er afgreitt í verðlagsráðinu sjálfu, veit hann, um leið og ákvörðunin er tekin, að hverju hann gengur. Þetta finnst mér vera sá mesti spori, sem hægt er að fá fyrir verðlagsráðsmennina til þess að komast að lokaniðurstöðu um afgreiðslu málsins einmitt þar og láta það ekki ganga til yfirnefndarinnar.

Það er að vísu rétt, að það er náttúrlega mikið samkomulag, sem þarf að verða í verðlagsráðinu, að hver einasti maður verður að vera lausninni fylgjandi, — og alveg eins, þegar um val oddamanns er að ræða í yfirdóminn, ef þá leið á að fara þar. En ég tel, að það megi ekki láta sér lynda minna samkomulag en þetta, ef um samkomulag er að ræða, þá sé ekki rétt að afgreiða mál í verðlagsráðinu, eins og hv. þm. vildi láta vera og að mér skildist gerði till. um, að mál gætu verið afgreidd í verðlagsráði með kvalifiseruðum meiri hluta. (Gripið fram í.) Ja, hv. þm. minntist á það.

Fleiri atriði einmitt í sambandi við verðlagsráðið minntist hv. þm. á og sérstaklega um greiðslu kostnaðar af starfsemi ráðsins og taldi, að ég hefði farið rangt með, þegar ég í framsöguræðu minni hér í gær minntist á það, að verulegur hluti kostnaðar af starfi verðlagsráðs landbúnaðarins væri ekki greiddur af ríkissjóði, en væri greiddur af öðrum aðila. Ég ætla, að það sé þannig, að verðlagsráðsmennirnir þar fái sín laun að vísu greidd úr ríkissjóði, en annar kostnaður, sem er í sambandi við undirbúning málsins, sem hlýtur að verða mikill og í þessu tilfelli sjálfsagt meiri hluti kostnaðarins, þá sé sú vinna unnin af framleiðsluráði landbúnaðarins og komi þess vegna ekki sérstaklega til gjalda hjá ríkissjóðnum. Ég er ekki í vafa um það, að laun verðlagsráðsmanna sjávarútvegsins, þó að þeir séu kannske nokkuð margir, valda ekki neinum úrslitum, heldur kostnaðurinn við undirbúning mála og ýmsar rannsóknir og athuganir í því sambandi, að það er það, sem kannske mestum kostnaði kann að valda, og það er sambærilegt fullkomlega við störf framleiðsluráðs landbúnaðarins eða undirbúningsstörf þess ráðs fyrir sex manna nefndina.

Þá minntist hv. þm. á, að það væri kannske ekki rétt að láta fiskimálasjóð greiða þennan kostnað, heldur bæri ríkinu að gera það. En eins og ég hef sýnt fram á með þessum orðum, greiðir annar aðili en ríkissjóður verulegastan kostnað af landbúnaðarvöruverðsákvörðununum, og er þess vegna ekki óeðlilegt, að fiskimálasjóður taki nokkurn þátt í eða greiði, eins og hér er lagt til, kostnaðinn í þessu tilfelli.

Ég skal ekki vefengja það, að fiskimálasjóður hafi ýmsum merkilegum verkefnum að sinna, þannig að hann þurfi á öllu sínu fé að halda. En ég held þó, að sum af þeim útgjöldum, sem ég hef séð fiskimálasjóð ráðast í, séu kannske ekki öllu þarfari fyrir sjávarútveginn en ef þeim væri varið á þann hátt, sem þetta frv. gerir ráð fyrir.

Hv. þm. minntist á aðild landshlutanna að verðlagsákvörðuninni og taldi, að réttur héraðanna væri að einhverju verulegu leyti a.m.k. fyrir borð borinn með þeirri skipan ráðsins, sem hér er gert ráð fyrir. Ég vil í því sambandi vekja athygli á, að frv. var breytt í hv. Nd., sem ég kom ekki inn á í minni framsöguræðu hér í gær, þannig að heimilt er að skipta um fulltrúa í ráðinu, — ja, eiginlega eins og aðilarnir sjálfir óska, til þess einmitt að geta tekið fulltrúa frá landshlutunum inn, þegar þeirra mál eru sérstaklega til umr. Í niðurlagi 1. gr. frv. var — í næstsíðustu mgr. — sagt, en hún kom inn ný í hv. Nd., svo, með leyfi forseta: „Heimilt er aðilum þeim, sem tilnefna eiga aðila af hálfu fisksölu- og fiskkaupaaðila skv. þessari grein, að skipta um fulltrúa sína í verðlagsráði, eftir því sem þeim þykir rétt, til þess að sjónarmið þeirra fiskseljenda og fiskkaupenda, sem hlut eiga að máli við hverja verðákvörðun, komi sem bezt fram.“ Ég sé ekki betur en með þessu ákvæði sé tryggilega frá því gengið, að þeir, sem tilnefna eiga fulltrúa, geti einmitt valið þá fulltrúa, sem bezt eru hæfir, til þess að koma fram fyrir þeirra hönd og fyrir hina einstöku landshluta, og þurfi ekki að gera því skóna, að þeir muni tilnefna einhverja aðra, sem þekki ekki nógu vel til. Ég held einmitt, að með þessari breytingu sé það tryggt, að sjónarmið landshlutanna komi fram fullkomlega nægilega til þess, að það verði ekki fram hjá þeim gengið.

Hv. þm. var að „pólemisera“ yfir því, að hér væru nefndar verksmiðjur, sem ættu að tilnefna fulltrúa af hálfu fiskkaupenda, en þar er gert ráð fyrir einum fulltrúa, sem er tilnefndur af verksmiðjum á Suðvesturlandi, og að vísu stendur í næstnæstu línu á undan, að einn fulltrúi skuli tilnefndur af samtökum síldarverksmiðja á Norður- og Austurlandi. Ég hélt, að það væri alveg auðskilið mál, enda viðurkenndi hv. þm. það, að hér væri ekki átt við dósaverksmiðjuna né súkkulaðiverksmiðjur eða aðrar þær, sem koma ekki nálægt fiskiðnaðinum beinlínis, og mætti þó segja kannske, að dósaverksmiðjan sé ekki alveg óskyld í þessu sambandi. En ég held, að það ætti að vera alveg ljóst, bæði af því, sem áður segir í þessari upptalningu, og eins af því, sem segir í 4. gr., að hér er greinilega um að ræða þær verksmiðjur, sem kaupa síld til vinnslu, og það þurfi ekki að fara neitt á milli mála, að það er við þær átt.

Það kann að vera, að það hafi verið eitthvað fleira, sem hv. þm. gat um í sinni ræðu af smærri atriðum, en ég hef þá ekki skrifað það hjá mér. En það, sem mér þótti aðalatriðið í hans ræðu, var það, að þegar hann var búinn að breiða sig út yfir það, sem hann kallaði galla á frv., þá lýsti hann því þó yfir, að hann væri tilbúinn til þess að fylgja því óbreyttu eins og það væri, að sínum brtt. föllnum, og það þykir mér vænt um, því að það gefur mér ástæðu til þess að ætla, að það sé þó ekki alveg út í bláinn, sem frv. fer, þar sem hann telur sig geta veitt því sitt brautargengi, þó að till. hans yrðu felldar.

Hv. 5. þm. Norðurl. e., frsm. 2. minni hl., hafði eiginlega eina aths. eða þá stærstu a.m.k. að gera, að gerðardómur væri fráleitt verkfæri til þess að ákveða fiskverðið, og taldi, að með ákvæðunum í 9. gr. væri stefnt í þá átt, sem verkalýðssamtökin í landinu gætu alls ekki unað við, og beindi til mín sem formanns Alþfl. nokkrum vel völdum orðum í því sambandi. Ég held nú, að hann hafi ekki óskipt fylgi verkalýðshreyfingarinnar á bak við sig um þessa skoðun. Það er að vísu rétt, að fulltrúi Sjómannasambandsins greiddi atkvæði gegn till., — hann sat hjá við atkvgr. um till., sem minni hl. n. flutti, — en hann skrifar undir nál. fyrirvaralaust, og mér er kunnugt um það af samtali við hann, að hann er ekki andvígur frv., heldur þvert á móti, þannig að ég tel, að a.m.k. hann og hans samtök séu því ekki andvíg, að þessi háttur verði hafður á. Það má kannske geta þess í þessu sambandi, að núv. formaður Þingflokks Alþb. á Alþingi og hv. 6. þm. Sunnl., þeir Lúðvík Jósefsson og Karl Guðjónsson, fluttu hér í fyrra frv., sem fór nákvæmlega í sömu átt hvað þetta snertir. Í frv. þeirra segir svo, með leyfi hæstv. forseta, — Það er 2. gr. þess frv.: „Fiskverð í hverjum verðflokki skal ákveðið af nefnd fisksölu- og fiskkaupaaðila. Ráðh. skipar nefndina að fenginni tilnefningu eftirtalinna aðila.“ Svo koma tilnefningaraðilarnir, og svo segir í lok gr.: „Nú næst ekki samkomulag nm. um fiskverðið, og tekur þá sáttasemjari ríkisins sæti í n., og fellir hún úrskurð þannig skipuð.“ Er þetta ekki gerðardómur, eða er þetta eitthvað annað? Ég held, að það sé alveg nákvæmlega það sama, sem hér var lagt til hjá þessum hv. Alþýðubandalagsmönnum og sérlegum fulltrúum verkalýðsins, sem vilja kalla sig, eins og lagt er til í þessu frv., sem hér liggur fyrir. Ég sé engan mun á því.

Ég fyrir mitt leyti hef aftur þá trú, að samkomulagsleiðin verði það, sem úrslitum ræður að langsamlega mestu leyti, þannig að verðlagsráðið komi til með að koma sér saman um fiskverðið, en því verði ekki eða í tiltölulega fáum tilfellum vísað til yfirdómsins. Auðvitað getur maður ekkert um þetta sagt, reynslan ein getur skorið úr um þetta. Og ef eitthvað kemur þar fram, sem er sérstaklega óeðlilegt eða þannig, að menn geti ekki við það unað, þá má hafa það í huga, að öll frumsmíð stendur til bóta, og má þá vitaskuld freista þess að færa það til betri vegar, sem reynslan kynni að sýna að þyrfti að lagfæra.

Ég held þess vegna, að ef þessi gerðardómur, sem hv. þm. nefnir svo, væri ekki til staðar, þá værum við nákvæmlega í sömu förunum og við erum í dag, þ.e.a.s. ef samkomulag næst ekki á milli aðilanna, þá er vinnustöðvun, og það er einmitt það, sem verið er að reyna að koma í veg fyrir. Það er ekki nema mánuður síðan samningar um síldarverð hér við Faxaflóa tókust, og það var komið svo í því samningaþófi, að vinnustöðvun var hótað af sjómannafélögunum, ef samkomulag næðist ekki, og það leit út fyrir, að til vinnustöðvunar mundi koma, ef samkomulagið næðist ekki. En það fór svo, að samkomulag tókst og til vinnustöðvunar kom ekki, en hættan var yfirvofandi, og hefði vel getað til stöðvunar komið, ef þrjózka hefði hlaupið í samkomulagstilraunirnar.

Ég held, að það, sem er aðalatriði þessa frv., sé fyrst og fremst það, að til sé úrskurðaraðili, sem málið getur gengið til, ef samkomulag næst ekki í verðlagsráði. Og ég trúi því, að einmitt tilvist þessa yfirdóms sé spori fyrir aðilana í verðlagsráði til þess að koma sér saman, af því að þeir vilji ekki eiga það á hættu að hleypa málinu til yfirdómsins.

Þá sagði hv. þm., að fulltrúi Alþýðusambandsins einn gæti verið forsvarsmaður sjómannanna í þessu máli. Þetta er fullkomlega rangt. Ég læt mér ekki detta í hug, að Sjómannasambandsfulltrúinn og fulltrúinn frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands hafi ekki nákvæmlega sömu afstöðu til mála og Alþýðusambandsfulltrúinn. Ég hef enga trú á því, að Alþýðusambandsfulltrúinn sé neitt fyrir fram ákveðinn betri forsvarsmaður fyrir sjómennina en hinir tveir aðilarnir. Og að segja það, að sjómenn eigi engan fulltrúa í yfirdómnum, ef Alþýðusambandsfulltrúinn sé ekki þangað valinn, það er álíka mikil fjarstæða. Mér dettur ekki í hug að efast um það, að hver sem er af þessum þremur sjómannafulltrúum geti gætt hagsmuna sjómannanna alveg jafnvel — og Alþýðusambandsfulltrúinn ekki neitt frekar en hinir.

Svo sagði hv. þm., sem mig furðaði ákaflega mikið á, að Alþýðusambandsfulltrúann ætti að útiloka úr yfirdómnum. Hvernig veit hann það? Er nokkur ástæða til þess að ætla það, að Alþýðusambandsfulltrúinn geti ekki eins vel verið kosinn í yfirdóminn og hinir fulltrúarnir, þó að það sé ekki ákveðið með lögum, að hann skuli einn og fyrir fram eiga sæti í dómnum? Ég tel, að það sé nánast móðgun við hina fulltrúa sjómannanna að halda því fram, að fulltrúi Alþýðusambandsins einn geti gætt hagsmuna sjómanna.

Að undanförnu hefur sú ósk verið mjög uppi af hálfu sjómanna í landinu, að þeir fengju aðild að verðákvörðun fisksins. Það hefur verið svo að undanförnu, að þeir hafa þar ekki mikið nærri komið. Síldarverðið hefur verið ákveðið eins og lýst hefur verið, og þorskverðið og verð á öðrum fiski hefur verið ákveðið oft og tíðum og kannske oftast án þess, að sjómennirnir hafi komið þar nærri. Nú er hér verið að gera tilraun til þess að gera sjómenn að þátttakendum í fiskverðsákvörðuninni, og það er einmitt einn höfuðkjarni málsins, að hér er í fyrsta sinn gerð skipuleg tilraun til þess, að þeir fái aðild að þessum verðlagsákvörðunum. Og ég vildi vænta þess, að það verði ekki af einhverri tortryggni eða af einhverjum annarlegum ástæðum reynt að koma því til vegar, að þessi starfsemi yrði, áður en hún hefst, gerð tortryggileg, því að sá hugur fylgir máli að reyna að fá alla aðila á eitt sátta um það, að þessi verðákvörðun geti tekizt friðsamlega.