16.12.1961
Efri deild: 35. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 329 í B-deild Alþingistíðinda. (320)

107. mál, verðlagsráð sjávarútvegsins

Frsm. 2. minni hl. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Ég hef enga tilhneigingu til þess að lengja umr. mikið, úr því sem komið er, og ekki er heldur ástæða til þess, og ég hefði gjarnan getað lokið því að segja þau örfáu orð, sem ég vildi segja í tilefni af ræðu hæstv. ráðh., áður en kaffihlé var gefið, svo að þess vegna hefði umr. getað verið lokið fyrr. En ég tel mig ekki alveg geta komizt hjá því að segja nokkur orð út af ummælum hæstv. ráðh. í hans síðari ræðu.

Það var þá í fyrsta lagi út af því, að hann vildi reyna að fá sér einhverja syndakvittun út af gerðardómsákvæði þessa frv., í því fólgna að benda á, að ekki væru nú mínir flokksmenn, þeir sem hefðu flutt í fyrra frv. um verðflokkun á nýjum fiski, betri en hann. Þeir hefðu líka viljað skipa þessum málum með gerðardómi. Það er að vísu rétt, sem ráðh. tók fram, að í þessu frv., sem fyrst og fremst fjallaði um verðflokkun á nýjum fiski til þess að ráða bót á því öngþveiti, sem skapaðist í byrjun s.l. árs, var ákvæði, sem hann fór alveg rétt með, um það, að ef ekki næðist samkomulag í samninganefnd, skyldi verðið ákveðið í þeirri n. með sáttasemjara sem oddamann. Þetta er alveg rétt. En ég tel, að samanburður á þessum tveim frv. geti ekki verið réttmætur, nema borin séu saman þau skilyrði, sem nú eru, og þau skilyrði, sem voru, þegar þetta frv. var flutt á s.l. ári. Þá stóð svo á, að sjómenn höfðu víða átt í mjög langvarandi vinnudeilum út af kjarasamningum sínum og höfðu nýlega bundið samninga sína til ársins. Þeir höfðu a.m.k. sums staðar staðið í svo löngu verkfalli, að það hefði verið algerlega útilokað af þeirri ástæðu einni, að þeir hefðu getað farið að heyja nýja vinnudeilu. En þó skipti þar mestu um, að þeir höfðu gengið frá kjarasamningum sínum í því trausti, að fiskverðið yrði ákveðið með sanngirni. Þegar svo verðflokkunarreglur Landssambands ísl. útvegsmanna komu til, skapaðist algert öngþveiti í þessum málum, sem brýna nauðsyn bar til að ráða bót á, og það er við þessi skilyrði, sem þetta frv. er flutt. En það er eitt atriði enn í þessu sambandi, sem skiptir auðvitað höfuðmáli, að þetta frv. gerði ekki ráð fyrir því, að lögin ættu að gilda nema fyrir árið 1961, þ.e.a.s. fyrir þann tíma, sem sjómenn höfðu alveg nýlega bundið sína samninga. Það er því fullkomlega órétt, að þetta frv., þótt að lögum hefði orðið, hefði í rauninni svipt sjómenn nokkrum rétti til þess að semja um kjör sín á sama hátt og þetta frv. gerir, þar sem það átti aðeins að gilda þann tíma, sem sjómenn höfðu rétt áður verið búnir að binda kjarasamninga sína yfir. En það er svo aftur út af fyrir sig dálítið skemmtilegt, að það skuli vera skoðun hæstv. ráðh., að af því að þessir tveir þm. hafi borið fram frv. um gerðardóm, hljóti það að vera yfirleitt ágætt. Það er meiri viðurkenning á þessum tveim hv. þm. í Nd. af hendi hæstv. ráðh. en ég hefði getað vænzt.

Þá er það í öðru lagi viðkomandi því, sem hæstv. ráðh. sagði um aðild Alþýðusambandsins og sjómannanna að yfirdóminum. Ég hafði bent á það í minni framsöguræðu, að það væru miklar líkur til þess og jafnvel langmestar, að Alþýðusambandið hefði engan fulltrúa í yfirnefndinni, en þar væri fulltrúi fyrir mikinn meiri hl. sjómannastéttarinnar, og að þessi ákvæði gætu jafnvel jafngilt því, að frv. útilokaði algerlega fulltrúa meiri hl. sjómannastéttarinnar frá því að geta borið hönd fyrir höfuð sér og þá vitanlega að geta haft með atkvæði sínu áhrif á ákvarðanir yfirnefndarinnar.

Hæstv. ráðh. greip til þess í þessu sambandi að rangfæra orð mín, og virðist mér það ekki styrkja málstað hans. Ég sagði aldrei, eins og hann hafði eftir mér, að sjómannastéttin öll væri útilokuð frá því að eiga fulltrúa þarna, heldur að fulltrúi meiri hl. sjómannastéttarinnar væri útilokaður, og það skiptir auðvitað miklu máli. Mín orð um þetta voru engan veginn á þann veg, að þau gætu skoðazt, eins og hæstv. ráðh. hélt fram, einhver móðgun við Farmannasambandið og Sjómannasambandið. Ég efast ekkert um, að fulltrúar beggja þessara samtaka muni verða góðir fulltrúar fyrir sína umbjóðendur, fyrir sína skjólstæðinga, enda eru þeir ábyrgir gagnvart þeim, en þeir eru ekki heldur ábyrgir gagnvart neinum öðrum. Þeir eru ekki ábyrgir gagnvart sjómannafélögunum, sem hafa beina aðild að Alþýðusambandinu, og þeir eru ekki ábyrgir þannig gagnvart meiri hl. sjómannastéttarinnar.

Ég tók það líka fram í ræðu minni, að það gæti auðvitað hæglega átt sér stað, að allir fulltrúar sjómannasamtakanna yrðu sammála, svo að þetta kæmi ekki að sök, og þetta hlýtur hæstv. ráðh. að hafa heyrt, en það væri líka alveg eins hugsanlegt, að sínum augum liti hver á málið. Og ég vil nú benda hæstv. ráðh. á, að það kemur í ljós í sambandi við undirbúning þessa frv., að þar er engin samstaða um afstöðuna til frv. Farmannasambandið mælir með gerðardómnum, fulltrúi Sjómannasambandsins situr hjá og fulltrúi Alþýðusambandsins er á móti. Bendir þetta ekki ótvírætt til þess, að það geti hæglega verið skiptar skoðanir milli þessara aðila, og eru yfirgnæfandi líkur fyrir því, að einn fulltrúinn af þremur frekar en einhver annar komist í yfirnefndina? Ég þekki mitt heimafólk engu síður en hæstv. ráðh., og ég er nokkurn veginn viss um það, að allar líkur eru til þess, að fulltrúi Alþýðusambandsins verði útilokaður, enda er það áreiðanlega ætlunin frá hendi hæstv. ríkisstj. Þannig hefur verið staðið að málinu. En viðkomandi þessu, að það sé alveg sjálfsagt, að fulltrúi Sjómannasambandsins eða fulltrúi yfirmanna á skipunum sé fulltrúi allrar sjómannastéttarinnar, þá vil ég bara spyrja hæstv. ráðh.: Eru hugmyndir hans um lýðræðislegar vinnuaðferðir þannig, að hann telji það fullkomlega eðlilegt, að það eigi að skipa fyrir um það með lögum, hver eigi að vera fulltrúi fyrir yfirgnæfandi meiri hluta sjómannastéttarinnar? Eiga ekki aðilarnir sjálfir að ráða því, hvern fulltrúa þeir kjósa sér?

Ég held, að það hafi raunverulega ekki verið fleira, sem ég hef ástæðu til þess að svara, af því, sem kom fram í ræðu hæstv. ráðh.