25.10.1961
Sameinað þing: 7. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 217 í D-deild Alþingistíðinda. (3212)

18. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Góðir hlustendur. Þetta er í annað skipti á þessu ári, sem vantrauststill. á ríkisstj. er flutt á Alþingi. Sá er munur á þessari till. og þeirri, er flutt var í fyrravetur, að þá gengu framsóknarmenn og Alþýðubandalagsmenn saman í einni fylkingu til atlögunnar. Í Þjóðviljanum hefur orðið vart greinilegra vonbrigða yfir því, að flokksmenn hans skyldu nú ekki fá að vera með í tillögugerðinni. Þau vonbrigði hafa orðið til þess, að Þjóðviljinn hefur að undanförnu skeytt skapi sínu á hv. þm. Eysteini Jónssyni. Hann var veikur, þegar hv. þm. Hermann og Karl skrifuðu upp á blaðið með hv. Hannibal og Lúðvík í fyrra.

Þjóðviljanum þykir nú einsætt, að vinstra samstarfi verði ekki komið á með Eysteini Jónssyni. Hann verði þess vegna að fjarlægja úr valdastóli Framsóknar, áður en dýrðardagar nýrrar vinstri samvinnu renni upp. En það mun alger misskilningur, að það sé sérstaklega verk Eysteins Jónssonar, að Framsókn hefur að þessu sinni viljað gera sem minnst úr samneyti sínu við Alþýðubandalagsmenn. Ástæðan til þess er fyrst og fremst sú, að vaxandi óánægju hefur gætt í hópi framsóknarmanna um allt land yfir þjónustusemi flokks þeirra að undanförnu við kommúnista. Hermann Jónasson varð að játa í ræðu í sumar, að úr hópi ungra manna innan flokksins hefði hann heyrt undrun yfir, að hann eftir fengna reynslu hygði enn á vinstra samstarf. Það var og sízt að ófyrirsynju, að Hermann gaf þessa játningu, því að skömmu áður hafði álitlegur hópur ungra framsóknarmanna gengið til samstarfs við aðra lýðræðissinna til eflingar vestrænni samvinnu. Það er því óttinn við almenningsálitið innan þeirra eigin flokks, sem nú hefur knúið foringja Framsóknar til þess að reyna að hreinsa kommúnista af sér.

Þá hefur Þjóðviljinn látið uppi kvíða yfir, að með flutningi vantrauststillögu sinnar nú séu framsóknarmenn í raun og veru að reyna að nálgast ríkisstj. og gefa til kynna, að þeir vilji semja um vandamálin á þeim grundvelli, sem núv. stjórnarflokkar hafa lagt, að því áskildu, að Framsókn fái að taka þátt í ríkisstj. Þessu til stuðnings er vitnað í hegðun Framsóknar 1960. Þá fékk hún fyrst samþykkt vantraust á þáv. ríkisstj. sjálfstæðismanna, en gekk fáum dögum síðar til samstarfs við okkur um myndun ríkisstj. og lögfestingu frv. til laga um gengisskráningu o.fl., er ríkisstj. hafði áður borið fram og var raunar aðaltilefni vantraustsins.

Eðlilegt er, að mönnum komi þetta fordæmi í huga, einkum þegar þeir rifja upp eitt aðalákvæði frv. þess, sem 1950 varð fyrst ásteytingarsteinn Framsóknar, en síðan undirstaða stjórnarmyndunar hennar og Sjálfstfl. Í 2. gr. frv., sem flokkarnir sömdu þá um, sagði svo :

„Eftir gildistöku laga þessara er ríkisstj. á ráðherrafundi rétt, að fengnum tillögum bankaráðs og bankastjóra Landsbanka Íslands, að ákveða gengi íslenzkrar krónu. Gengisskráning skal miða að því að koma á og viðhalda jafnvegisgengi, þ.e. að sem mestur jöfnuður sé í greiðslum við útlönd án gjaldeyrishafta.

Landsbanka Íslands er skylt að taka sérstaklega til athugunar gengisskráningu íslenzkrar krónu, þegar almenn breyting verður á kaupgjaldi, önnur en sú, sem kveðið er á um í þessum lögum. Skal bankinn, svo fljótt sem kostur er, gera ríkisstj. grein fyrir niðurstöðum sínum:

Þetta ákvæði, sem flokkarnir höfðu samið um sín á milli, var að vísu tekið út úr frv. í síðari deild eftir óskum þáv. Alþýðusambandsstjórnar, sem skipuð var lýðræðissinnum. En ákvæðið sýndi engu að síður, hvernig Framsfl. og sjálfstæðismenn töldu þá, að gengisskráningu væri bezt fyrir komið. Skoðun þeirra var sú, að hún ætti ekki að vera hjá Alþ., heldur hjá Landsbanka Íslands og ríkisstj., þ.e.a.s. mjög svipað fyrirkomulag og lögfest var með brbl. frá því í ágúst í sumar. Flokkarnir sömdu meira að segja berum orðum um, að Landsbanka Íslands væri skylt að taka sérstaklega til athugunar gengisskráningu íslenzku krónunnar, þegar almenn breyting yrði á kaupgjaldi. Alþýðusambandsstjórninni þótti þetta ákvæði of fortakslaust og benti á, að ýmis fleiri atriði kæmu hér til álita. Vegna þess að sýnt var, að Alþýðusambandið mundi eira ráðstöfunum þessum að öðru leyti, ef gengisskráningarákvæðið væri fellt niður, var það gert. En ekki er um það að villast, að þarna lýsti sér skilningur framsóknar- og sjálfstæðismanna á samhengi gengisskráningar og almenns kaupgjalds í landinu. Framsókn þyrfti þess vegna ekki annað en vitna til, að hún væri að framkvæma gamalt stefnumál sitt, ef hún féllist á brbl. frá í sumar, eftir að hún væri komin í ríkisstj.

En mundi Framsókn ekki gersamlega brjóta á móti þeim kenningum, sem hún nú heldur fram um rétta lýðræðishætti og vald Alþingis, ef hún eftir að vera komin í stjórn samþykkti, að slik stórmæli hefði mátt lögfesta með brbl., sem hún hefur fordæmt harkalega að undanförnu? Þeirri spurningu er einnig bezt svarað með því að minnast þess, sem áður hefur gerzt. Af fáu hafa hv. flytjendur þessarar vantrauststill., Hermann Jónasson og Eysteinn Jónsson, hælt sér meir en því, að þeir á fyrsta stjórnarári sinu 1934 gerbreyttu löggjöfinni um afurðasölu bænda. Á sínum tíma var sú löggjöf hið mesta deilumál, ekki minna en gengisskráningin er nú. Þeir leituðu þó ekki fyrir fram samþykkis Alþ. til þessarar gerbreytingar. Hinn 9. ágúst 1934 gáfu þeir út brbl. um ráðstafanir til þess að greiða fyrir viðskiptum um sláturafurðir og ákveða verðlag á þeim og hinn 10. sept. s.á. um meðferð og sölu mjólkur og rjóma o.fl.

En lá þá ekki svo mikið á lögfestingu þessarar gerbreytingar, að ómögulegt hefði verið að biða atbeina Alþingis? Því fer fjarri, vegna þess að mjólkurlögin frá 10. sept. 1934 áttu ekki að meginefni að taka gildi fyrr en löngu eftir að Alþ. skyldi saman komið.

Frá því að þetta gerðist eru liðin 27 ár. Margt breytist á skemmri tíma, og kynni einhver að segja, að slík beiting bráðabirgðalöggjafarvaldsins hafi einungis verið bernskubrek þáv. hæstv. ráðh., Hermanns Jónassonar og Eysteins Jónssonar. Nú séu þeir orðnir þroskaðri og mundu þess vegna alls ekki grípa til slíkra ráða, ef þeir væru við völd. Sú tilgáta fær þó ekki staðizt, því að síðast þegar þeir sátu í ráðherrastólum var það eitt af fyrstu verkum þeirra eftir myndun vinstri stjórnarinnar 1956 að gefa út brbl. hinn 28. ágúst 1956 um festingu kaupgjalds og verðlags, en með þeirri lagasetningu voru launþegar sviptir kjarabótum, sem ná átti með verkföllunum miklu 1955, og þegar brbl. þóttu ekki hrökkva til, var hagur launþega enn skertur með lagasetningu Alþ., fyrst með jólagjöfinni 1956 og síðan með bjargráðunum 1958.

Þegar öll þessi dæmi eru höfð í huga, verður ljóst, að hv. flm. vantrauststill., Hermann Jónasson og Eysteinn Jónsson, hafa sízt á móti útgáfu brbl., ef þeir sjálfir eiga kost á því að gefa þau út.

Þegar litið er á sjálft efni málsins, verður hið sama upp á teningnum. Hv. tillögumenn halda því fram, að kauphækkanir í sumar hafi verið sáralitlar og sízt lagaðar til þess að trufla efnahag þjóðarinnar eða íþyngja útflutningnum, svo að nokkru næmi. Stjórnarandstæðingar vitna einkum til þess, að aukinn síldarafli og hækkað verðlag á útflutningsvörum á þessu ári hafi nú gert kauphækkanir mögulegar. En sjálfir héldu þeir því fram fyrir síðustu áramót, að þá væri sjávarútvegurinn svo illa staddur, að gera yrði sérstakar ráðstafanir til hækkunar á fiskverði, til þess að hann gæti haldið áfram, enda hafði þá orðið verðfall á ýmsum afurðum. Og allir landsmenn muna eftir fullyrðingunni um „móðuharðindi” af mannavöldum, sem 1960 var viðhöfð af einum greindasta og orðvarasta þingmanni Framsóknar. Að dómi hv. stjórnarandstæðinga var ástand atvinnuveganna þess vegna þá síður en svo gott. Þegar borið er saman verðlag sjávarafurða í ár, miðað við það, sem áður var, kemur í ljós, að meðalverð þorsk-, karfa- og síldarafurða í ágústmánuði 1961 er 3,8% lægra en í árslok 1959. Þrátt fyrir sæmilegan síldarafla í sumar og betra verð til bátaflotans er heildarframleiðsla sjávarafurða reiknuð á föstu verði 3.2% lægri 1961 en 1959, en við aflamagn og verðlag þess árs var miðað í undirbúningi viðreisnarlöggjafarinnar 1960.

Þessar einföldu tölur sanna, að í sumar var því miður enginn grundvöllur til svo gífurlegrar kauphækkunar sem varð. Einn reyndasti og hreinskilnasti athafnamaður í hópi stjórnarandstæðinga, Jakob Frímannsson, forstjóri á Akureyri og formaður SÍS, lýsti yfir því í vor, að gengislækkun mundi verða afleiðing almennra kauphækkana nú. Skömmu eftir þessa ótvíræðu yfirlýsingu sömdu fyrirtæki SÍS um þvílíkar kauphækkanir. Það tjáir þess vegna ekki að halda því fram, að þeir, sem ábyrgðina bera á þeirri samningsgerð, hafi ekki gert sér ljóst, hver afleiðingin mundi verða.

Svo vill einnig til, að fyrir hendi eru yfirlýsingar og athafnir hv. þm. Eysteins Jónssonar, þegar svipuð almenn kauphækkun varð á árinu 1955 og hann var sjálfur í ríkisstj. Kauphækkanirnar þá voru svipaðar og nú. Áhrifum þeirra lýsti hv. þm. Eysteinn Jónsson svo hinn 18. okt. 1955, að þær hefðu valdið „nýju upplausnarástandi í efnahagsmálunum.“ Það sagði Eysteinn þá. Sams konar upplausnarástand hefði skapazt nú, ef ekki hefði tafarlaust verið gripið til gagnráðstafana. Hv. þm. Eysteinn Jónsson lét ekki sitja við orðin ein 1955, heldur greip til gagnráðstafana, raunar harla einkennilegra, en býsna afdrifaríkra. Þá höfðu sjálfstæðismenn og framsóknarmenn verið saman í ríkisstj. frá því snemma árs 1950. Hv. þm. Eysteini Jónssyni ægði svo „upplausnarástandið” 1955, að hann tók saman höndum við hv. meðflm. sinn að þessari till., Hermann Jónasson, sem allt frá 1953 vildi þáverandi stjórnarsamstarf feigt. Á flokksþingi Framsóknar snemma árs 1956 beittu þeir sér í sameiningu fyrir, að ákvörðun var tekin um að slíta samstarfinu við sjálfstæðismenn, með þeim rökstuðningi, að þessir tveir flokkar réðu ekki við vanda efnahagsmálanna. Þar yrði atbeini verkalýðsins í mynd Alþfl. að koma til. Kauphækkanirnar árið 1955 voru sem sagt svo afdrifaríkar í huga hv. þm. Eysteinn Jónssonar þá, að þær réttlættu algera stefnubreytingu Framsóknar í þjóðmálum. Annað mál er, að öll sú viðleitni, sem, eins og Hermann Jónasson hélt fram á Hólmavíkurfundi haustið 1958, stefndi að því að setja sjálfstæðismenn, nær helming þjóðarinnar, til hliðar, leiddi áður en yfir lauk til þeirrar einangrunar Framsóknar, sem hún nú er í og þessi vantrauststill. ber vitni um, að hún unir ákaflega illa. Enda sagði Hermann Jónasson nú í kvöld, þvert ofan í yfirlýsinguna frægu 4. des. 1958, þegar hann kom hingað á Alþingi og tilkynnti uppgjöf sína, hina hraklegustu í sögu þjóðarinnar, — þvert ofan í þá yfirlýsingu sagði Hermann nú, að Framsókn væri síður en svo uppgefin á því að stjórna.

Þegar allt þetta er skoðað, er von, að Þjóðviljanum og raunar ýmsum fleiri komi til hugar, að flutningur vantrauststill. nú sé eins konar ábending frá Framsókn um, að hún sé nú reiðubúin að breyta um og taka upp þveröfuga stefnu við þá, sem hún hefur fylgt um hríð, einungis ef hún fái að komast í ríkisstjórn. Slíkar bollaleggingar hafa styrkzt við það, að Framsókn hefur enn sýnt ábyrgðartilfinningu í umræðunum um hugsanlega aðild Íslands að Efnahagsbandalagi Evrópu. Þar er um að ræða eitt mesta vandamál, sem úrlausnar bíður. Svo sem kunnugt er, hafa hin svonefndu sexveldi komið á þessu bandalagi og með því mjög styrkt aðstöðu sina. Vegna hins stóra markaðar, sem myndazt hefur, og með sameiginlegum átökum hafa framfarir í þessum löndum aukizt ótrúlega og almenn velmegun skapazt. Af þeim sökum sækja önnur lönd Vestur-Evrópu mjög á um að gerast aðilar bandalagsins með einum eða öðrum hætti. Ef þau mörg eða flest gerast aðilar, verður bandalagið enn sterkara og staða hinna, sem utan standa, því örðugri og hættusamari. Ef litið er á efnahaginn einan og skilyrði fyrir almennri velmegun, er líklegt, að Íslendingar gætu með engu móti styrkt aðstöðu sína betur en með aðild að bandalaginu. Hér eru þó miklir annmarkar á. Í stofnskrá bandalagsins, Rómarsamningnum, eru ýmis ákvæði, sem eru eðlileg fyrir þær þjóðir, er búa í þéttbýlum, fullnýttum löndum, en eiga ekki við fyrir fámenna þjóð, sem lifir í stóru, lítt nýttu landi eins og við Íslendingar. Skilyrðislaus aðild okkar getur þess vegna ekki komið til greina. Ef öll þau lönd, sem nú eru horfur á að gerist aðilar, ganga í bandalagið, eru hins vegar innan þess þeir markaðir, sem með eðlilegum hætti taka við meiri hluta útflutnings okkar. Ef við verðum utangátta og missum þá markaði, er voðinn vís, auk þess sem við mundum þá ekki öðlast þau hlunnindi, sem samfara eru aðild að bandalaginu.

Hér ríður þess vegna mjög á, að rétt sé á haldið. Afla verður skilnings á sérstöðu okkar, þannig að við komumst í eitthvert það samstarf eða samband við þetta bandalag, að hagsmunir okkar verði ekki fyrir borð bornir. Við verðum að kanna rækilega, með hverjum hætti við getum tryggt hag okkar, fylgjast náið með athugunum og samningum annarra og meta eftir framvindu þeirra, hvenær tímabært sé að kanna til úrslita, hvort við getum fengið aðgengileg kjör. Ég hygg, að um þetta geti enginn ágreiningur verið á milli þeirra, sem, ekki vilja einangra þjóð okkar frá þeim, sem okkur eru skyldastir og eðlilegast er að við höfum náin viðskipti við. Hitt er skiljanlegt, að hinir, sem umfram allt vilja hrekja okkur í faðm einræðisherra austan járntjalds og gera okkur þeim háða í einu og öllu, ærist út af hugsanlegri aðild okkar að Efnahagsbandalaginu. Ánægjlulegt er, að Framsfl. vill, að minnsta kosti þessa stundina, ekki skipa sér í þá sveit. Meðan svo er, mun ríkisstj. að sjálfsögðu hafa við hann heilshugar samstarf um þetta mikla vandamál.

Horfur í heimsmálum eru nú svo ískyggilegar, að einn þeirra, sem gerst mega vita, sagði fyrir skömmu, að ástandið hefði aldrei verið alvarlegra en nú. Síðan hefur það enn versnað, nú síðast með ógnarsprengjum Sovétstjórnarinnar yfir og í Norðurhöfum. Af hálfu íslenzku stjórnarinnar hafði þeim ósköpum þegar verið mótmælt á þingi Sameinuðu þjóðanna. Ítreka ég þau mótmæli nú og vænti þess, að mótmælatill., er útbýtt var á Alþ. nú í upphafi fundar, fái stuðning allra góðra Íslendinga. Samhugur um varnir landsins og styrkari tengsl okkar við þær þjóðir, sem halda uppi friði og frelsi, ætti að vera hafinn yfir allan flokkaríg og deilur um dægurmál.

En af því leiðir engan veginn, að æskilegt sé, að Framsfl. komi nú í ríkisstjórn. Á sínum tíma höfðu Sjálfstfl. og Framsfl. fullkomið samstarf við Alþfl. um undirbúning og gerð varnarsamningsins við Bandaríkin 1951, og var Alþfl. þó í harðri stjórnarandstöðu. Með sama hætti á að vera unnt að hafa samstarf við Framsókn um undirbúning og athugun á aðild okkar að Efnahagsbandalaginu, þó að hún haldi áfram að vera utan ríkisstjórnar. Segja má, að Framsókn lendi vegna stjórnarandstöðu sinnar ef til vill í meiri freistingu en ella um að hlaupa útundan sér og slást í för með kommúnistum. Við, sem höfum verið með Framsókn í ríkisstj., vitum, að engu minni hætta er á, að hún falli í þá freistni, þótt hún sé innan stjórnar. Nægir í því efni að minna á hinar furðulegu ákvarðanir hennar í varnarmálunum veturinn 1956, þegar kjörorðið var, að betra væri að vanta brauð en hafa hér í landi. Þau orð mælti Hermann Jónasson klökkum rómi í eyru alþjóðar rétt fyrir kosningar 1956. Allir kannast við efndirnar á því heitorði, og er það eftir öðru, að þessi hv. þm. skyldi gera vanefndir loforða að aðalumræðuefni sínu í kvöld.

Munur á samstarfi núv. stjórnarflokka og samstarfi við Framsókn er sá, að Framsókn hefur aldrei tamið sér að sitja á friðstóli með samstarfsmönnum sínum. Hún virðist ætíð þurfa að standa í illindum og telur stjórnarsamstarf til þess valið að reyna að grafa undán samstarfsmönnum sinum. Sjálfstfl. og Alþfl. eru auðvitað ósammála um margt, en enn hefur þeim tekizt að vinna af fullum heilindum saman að lausn þeirra vandamála, sem þeir hafa samið um. Á meðan svo fer fram, er þess vegna einsætt, að þeim ber samkvæmt því umboði kjósenda, er þeir hlutu við síðustu almennar kosningar, að halda stjórnarsamstarfi sínu áfram einir og leggja síðan gerðir sínar undir dóm þjóðarinnar við reglulegar alþingiskosningar.

Í Framsfl. er margt mætra manna. Þeir eiga nú um þá kosti að velja að yfirgefa flokk sinn eða reyna að koma þar á þeirri hugarfarsbreytingu, að flokkurinn verði samstarfshæfur. Líklegast til árangurs er, að þeim gefist nokkurra ára tóm til að vinna að slíkum mannbótum.

Löglega kjörið Alþ., sem styðst við meiri hluta þjóðarinnar, á að hafa úrslitavald í málum þjóðarinnar. Misbeiting almannasamtaka til þess að gera að engu ákvarðanir Alþ. er í senn hættuleg fyrir það fólk, er forustumenn í samtökum þess misbeita svo umboði sínu, og fyrir allt þjóðfélagið. Hér er svo mikið í húfi, að snúast verður við áframhaldandi skemmdarverkum með fullri festu. Í þeirri baráttu er ekki einungis um að ræða skilyrði fyrir bættum lífskjörum á næstu árum, heldur alla framtíðarheill íslenzku þjóðarinnar.

Ekki þarf að eyða orðum að því, að þessi ríkisstj., eins og raunar allir alþm., vill, að lífskjör verði sem bezt og framfarir mestar. Ágreiningsefnið er, hvernig þessum markmiðum verði náð. Ríkisstj. er sannfærð um, að þar sé viðreisnin, sem hófst með ráðstöfunum hennar snemma á síðasta ári, grundvallarskilyrði. En hún gerir sér grein fyrir, að það þarf ýmislegt fleira til að koma.

Þá atvinnuvegi, sem þegar eru fyrir hendi, ber að efla og tryggja og aðra nýja þarf að hefja. Sá undirbúningur fiskræktar, sem nú er hafinn fyrir forgöngu stj., er einn vísir þessa. Svipuðu máli gegnir um undirbúning vinnslu kísilgúrs úr Mývatni. Athugun á möguleikum til stóriðju, sem nú á sér stað, stefnir í sömu átt. Með virkjun hinna stærri fallvatna skapast slíkir möguleikar, samfara því að ódýrari orka fæst til heimilisnotkunar og margs konar smáiðnaðar. Í þessu sambandi kemur til athugunar, hvort og með hverjum hætti rétt sé að veita erlendu fjármagni inn í landið. Auðvitað kemur ekki til mála, að það verði gert, nema tryggilega sé um búið. í þeim efnum eins og ýmsum fleirum er fordæmi frænda okkar, Norðmanna, mjög til leiðbeiningar. Við styðjumst nú þegar mjög við reynslu þeirra við samningu 5 ára áætlunarinnar, sem nú er verið að vinna að.

Eins og kunnugt er, hefur lengi legið í landi, að við höfum keppzt við að gera allt í senn og ráðizt í að framkvæma meira en unnt var að hrinda áleiðis samtímis. Vegna þessa hefur öllu seinkað og leitt til fjármunasóunar og skorts á erlendum gjaldeyri. 5 ára áætluninni er ætlað að ráða bót á þessu. Efni hennar má skipta í 3 meginþætti. Í fyrsta lagi verði samið almennt yfirlit eða heildarmynd af þjóðarbúskapnum og væntanlegri og æskilegri þróun hans næstu 5 árin. Af þessu heildaryfirliti á að sjást, hvaða fjármunum þjóðin muni væntanlega ráða yfir til þess að fullnægja þörfum sínum og óskum, bæði um neyzlu og framkvæmdir. Á þeim grundvelli verður hægt að ákveða, hve mikið megi ráðast í án þess að bera getu þjóðarinnar ofurliði. Í öðru lagi verða samdar rækilegar og heilsteyptar áætlanir um opinberar framkvæmdir, svo að þær geti orðið sem mestar og hagkvæmastar. Er þar nm að ræða raforkuframkvæmdir, vegagerð, hafnarmannvirki; skólabyggingar, heilsuhæli o.fl. í þriðja lagi verða gerðar áætlanir um þróun atvinnuveganna. Þar ráða einstaklingar og félög mestu um framkvæmdir. Getur sú áætlun þess vegna ekki orðið annað en almennur rammi, sem mundi hafa þá meginþýðingu að skapa grundvöll fyrir stefnu ríkisstj. og opinberra aðila varðandi þróun atvinnuveganna. Með þessari framkvæmdaáætlun er ekki stefnt að því að skipuleggja allt og alla eða hneppa menn í fjötra áætlunarbúskapar. Tilgangur hennar er tvíþættur: Annars vegar að koma fastri skipun á framkvæmdir ríkisins og annarra opinberra aðila og marka stefnu ríkisins í atvinnumálum. Hins vegar að sýna einstaklingum og samtökum landsmanna, hverju þjóðin getur áorkað, ef hún sameinar krafta sína til skipulegrar, en frjálslegrar uppbyggingar á efnahagskerfi landsins.

Enginn efi er á því, að ef vel tekst til um þessa áætlun, getur hún orðið að ómetanlegu gagni. En er þar ekki um að ræða framtíðarhillingar, sem eiga að sætta menn við bág kjör í dag? Það er það, sem Hermann Jónasson reyndi að gefa í skyn áðan. Svarið við því er, að lífskjarabætur fást ekki með neinum kraftaverkum. Þar verður að byggja á staðreyndum. Hagur þjóðarheildarinnar og þar með allra hinna meiri háttar starfsstétta verður einungis bættur með vaxandi arði atvinnuveganna, einkum framleiðsluaukningu. Sjálfsagt er að leita allra ráða, sem geta nú þegar orðið til raunhæfra kjarabóta fyrir almenning. Í nafni ríkisstj. lýsi ég yfir því, að hún er reiðubúin til samstarfs við hvern sem er um það.

Launþegar og vinnuveitendur þurfa að setjast á rökstóla til þess að finna ráð, er tryggi hagkvæmara vinnufyrirkomulag, framleiðsluaukningu og vaxandi arð atvinnuveganna og að almenningur njóti þeirra kjarabóta, sem við þetta verða mögulegar. Samstarfsnefndir beggja aðila mundu geta unnið ómetanlegt gagn í þessum efnum, ef þær gengju til starfsins með góðum hug og glöggum skilningi á því, sem við liggur. Þá er höfuðnauðsyn að koma sér saman um óhlutdrægan aðila, er hafi aðstöðu og vald til að kynna sér, hver greiðslugeta vinnuveitenda í raun og veru er, og gefi síðan um það hlutlausa skýrslu og leiðbeiningar. Ef slíku sambandi tækist að koma á, mundi þar með vera lagður grundvöllur að friðsamri lausn þeirra deilumála, sem hrjáð hafa þjóðfélag okkar að undanförnu, öllum til ills öðrum en þeim, er vilja upplausn og öngþveiti.

Látum ekki óheillaöfl ráða, heldur sameinumst um það, sem bezt tryggir hagsæld allra. Minnumst þess, að með lögum skal land byggja, en ólögum eyða. Höfum í huga orð skáldsins, er sagði:

„Litla þjóð, sem átt í vök að verjast, vertu ei við sjálfa þig að berjast.”