25.10.1961
Sameinað þing: 7. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 225 í D-deild Alþingistíðinda. (3213)

18. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Rétt tvö ár eru liðin síðan núv. ríkisstj. tók við völdum í landinu. Við valdatökuna gaf stjórnin út langan og mikinn loforðalista. Mest bar þar á tveimur fyrirheitum. Annað var það, að ríkisstj. ætlaði að taka upp nýja efnahagsmálastefnu, sem tryggði, að framleiðsluatvinnuvegir þjóðarinnar yrðu reknir eins og þar sagði: á heilbrigðum og traustum grundvelli án uppbóta eða styrkja. En hitt var, að stjórnin mundi þegar í stað stöðva frekari skuldasöfnum þjóðarinnar við útlönd, þar sem hún væri þegar sokkin í botnlausar skuldir erlendis.

Ríkisstj. gaf hinni nýju efnahagsmálastefnu sinni strax nafn og nefndi hana „viðreisn“. Nú hefur viðreisnin verið reynd í tvö ár, svo að telja verður, að hún hafi fengið fullan reynslutíma. Hvernig hafa fyrirheit viðreisnarinnar reynzt? Eru framleiðsluatvinnuvegir þjóðarinnar komnir á heilbrigðan og traustan grundvöll, án styrkja og uppbóta? Og hefur skuldasöfnun við útlönd stöðvazt?

Rifjum upp nokkrar staðreyndir frá síðustu áramótum, frá lokum fyrsta viðreisnarársins. Þá lýstu útgerðarmenn yfir því, að þeir teldu engan grundvöll vera fyrir útgerð í landinu að óbreyttu ástandi. Samtök þeirra undir forustu sjálfstæðismanna samþykktu m.a. eftirfarandi kröfur: Að ríkisstj. létti af 21/2% útflutningsgjaldi, sem viðreisnarlöggjöfin hafði ákveðið. Að lækka vexti niður í það, sem þeir voru fyrir viðreisnina. Að lækka flutningsgjöld. Að ríkisstj. hlutaðist til um að greiða vátryggingariðgjöld fiskiskipaflotans. Að veita útgerðinni almenn skuldaskilalán. Og að veita útgerðinni greiðslufrest á afborgunum stofnlána.

Í lok fyrsta viðreisnarársins neyddist ríkisstj. til þess að samþykkja flestar þessar kröfur útgerðarinnar. Þrátt fyrir þetta voru útgerðarmenn, þar á meðal Sjálfstæðisflokksmenn, allir svo reiðir út í viðreisnina, að þeir héldu uppi róðrarbanni allan janúarmánuð í flestum verstöðvum landsins og í stærstu verstöð landsins í janúar og febrúarmánuði s.l. vetur. Þannig hafði þá reynslan eftir eins árs viðreisn orðið á fyrirheitinu um heilbrigðan og traustan rekstur framleiðslunnar án styrkja og uppbóta.

Og hvernig fór um fyrirheitið að stöðva skuldasöfnun við útlönd á fyrsta viðreisnarárinu? Jú, niðurstaðan varð sú, að umsamdar skuldir þjóðarinnar við útlönd hækkuðu um 331 millj. á árinu, en gjaldeyrisstaðan versnaði raunverulega um 510.8 millj. kr., ef tillit er tekið til aukinna vörukaupalána og minnkandi birgða af útflutningsvörum í landinu.

Fulltrúar ríkisstj. hafa mjög reynt að villa um fyrir mönnum um það, hver raunveruleg útkoma hafi orðið árið 1960 í gjaldeyrismálum þjóðarinnar. Þeir hafa í sífellu klifað á því, að gjaldeyrisstaða bankanna hafi batnað um 240 millj. kr. á árinu. Ætlun þeirra hefur síðan verið, að þetta yrði skilið svo, að gjaldeyrisstaða þjóðarinnar hafi batnað um þessa fjárhæð. En því er nú ekki að heilsa. Það veit ríkisstj. bezt sjálf. Gjaldeyrisstaða bankanna segir ekki nema hálfa sögu í þessum efnum. Það var einmitt eitt af ráðum viðreisnarinnar að heimila innflytjendum að flytja inn almennar vörur án þess, að þær væru greiddar strax af bönkum landsins. Þessi stuttu vörukaupalán verður því að taka með í reikninginn, ef gera á upp gjaldeyrisstöðu þjóðarinnar. Þessi vörukaupalán námu í árslok 1960 214.7 millj. kr. samkv. áliti bankanna. Og auk þessa verður svo að taka tillit til þess, að á árinu 1960 minnkuðu birgðir útflutningsvöru í landinu um 204.6 millj. kr., þ.e.a.s. á árinu 1960 voru fluttar út meiri vörur en framleiddar voru á því ári. Slík minnkun á birgðum jafngildir minnkun á gjaldeyriseign. Séu gjaldeyrisviðskipti þjóðarinnar sem heild gerð rétt upp á árinu 1960, kemur í ljós, að gjaldeyrisstaða þjóðarinnar versnaði um 510.8 millj. kr. Þannig hafa grundvallarloforð viðreisnarinnar orðið sér til skammar.

Þegar viðreisnarstjórnin hafði setið að völdum í eitt og hálft ár, eða í maímánuði í sumar, áður en hin almennu verkföll skullu á, var þó allt ástand efnahagsmálanna orðið hálfu verra en það var um s.l. áramót. Þá var svo komið fyrir ríkissjóði, að hann lifði í rauninni á daglegri framfærslu Seðlabankans. Skuldir ríkissjóðs höfðu aldrei áður orðið svo háar við bankann. Orsökin var sú, að „viðreisnarstefnan” hafði stórdregið úr innflutningi og þar með brugðust tekjur ríkissjóðs. Þá — í maímánuði — lá það skýrt og ótvírætt fyrir, að þjóðarframleiðslan fór minnkandi, vegna langvarandi stöðvana á vetrarvertíðinni. Þá var svo komið verðlagi, að enginn reyndi lengur að festa kaup á nýjum bát eða nýjum framleiðslutækjum. Þá var svo komið verðlaginu í landinu, að vörur og þjónusta höfðu hækkað samkv. útreikningum Hagstofunnar um 18% í tíð viðreisnarinnar. Hiti og rafmagn hafði hækkað um 26%, fatnaður og álnavara um 25%, mjölvara um 52% og nýlenduvörur um 26%, allt samkv. útreikningi Hagstofunnar. Alla þessa gífurlegu verðhækkun höfðu launþegar orðið að bera bótalaust. Þannig var málum komið í maímánuði í sumar. Og svo segja talsmenn ríkisstj. nú, að þegar verkföllin skullu á s.l. vor, hafi greinilega verið um batamerki að ræða í ýmsum greinum efnahagslífsins.

Nú vil ég spyrja þessa málsvara „viðreisnarinnar“: Var skuldasöfnun ríkissjóðs hjá Seðlabankanum batamerki? Var það að þeirra dómi batamerki í efnahagsmálum landsins, að framleiðslan hafði stórminnkað? Þýðingarmesti útflutningsiðnaður landsmanna, hraðfrysting á fiski dróst saman um 12.8% fyrsta ár „viðreisnarinnar”, 1960, en þó miklu meir á yfirstandandi ári. Þann 1. ágúst s.l. var heildarframleiðsla á hraðfrystum fiski hjá öllum frystihúsum innan Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna aðeins 22.8 þús. tonn, á móti 36.4 þús. tonnum á sama tíma í fyrra, eða hafði enn minnkað um 36%: Er slíkur stórkostlegur samdráttur í þýðingarmestu útflutningsgrein þjóðarinnar batamerki í efnahagsmátum landsins að dómi ríkisstj.? Nei, auðvitað er minnkandi framleiðsla og minnkandi fiskiðnaður ekki batamerki í efnahagsmálum landsins. Slík staðreynd er alvarleg aðvörun um, að stefnan í efnahagsmálum sé röng og hættuleg afkomu landsmanna allra. Sú efnahagsmálastefna leiðir af sér framleiðslustöðvanir, verkföll og minnkandi framleiðslu, minnkandi þjóðartekjur og endurteknar gengislækkanir. Hún er röng. Slík stefna á ekki rétt á sér. Það var þetta, sem hafði kveðið upp dauðadóminn yfir „viðreisninni“, áður en til verkfallanna kom s.l. vor. Sú kauphækkun, sem samið var um í lok verkfallanna í sumar, 10—12%, nam aðeins hluta þeirrar kjararýrnunar, sem viðreisnarpólitíkin hafði valdið launþegum í landinu. En samt þoldi ríkisstj. ekki þá leiðréttingu. Þann 4. ágúst greip hún í örvæntingu sinni, sjáandi, hvert viðreisnarstefnan hafði leitt, til nýrrar gengislækkunar. Það virtist engin áhrif hafa á ríkisstj. í þessum efnum, að sumarsíldveiðarnar höfðu heppnazt með ágætum. Sumaraflinn varð helmingi meiri en hann hafði orðið um 18 ára tímabil. Verðmæti sumarsíldaraflans mun vera um 600 millj. kr. Þjóðarbúið mun því fá um 300 millj. kr. meiri gjaldeyrisverðmæti úr síldaraflanum en venjulega hefur verið. Slík höpp höfðu engin minnstu áhrif á ríkisstj. 13% hækkun á erlendum gjaldeyri varð að koma þrátt fyrir það. En hver hefði gengislækkunin orðið, ef aðeins meðalárferði hefði verið á síldveiðum? Síldveiðarnar í sumar voru annars sérstök áminning fyrir viðreisnarpostulana. Þegar viðreisnin var fyrst boðuð, var það ein aðalfullyrðing viðreisnarsérfræðinganna, að á árunum 1957, 1958 og 1959 hefði þjóðin lífað um efni fram með því að kaupa þá óvenjumikið af nýjum fiskiskipum, reisa verksmiðjur og annað þess háttar. Síldarverksmiðjurnar á Austurlandi, sem reistar voru í tíð vinstri stjórnarinnar, voru einmitt taldar sérstakt dæmi um verðbólgu- og kjördæmapólitík. Sú stefna vinstri stj. að greiða fyrir kaupum á nýjum og stærri fiskibátum, á nýtízku veiðarfærum og fiskileitartækjum leiddi auðvitað til nokkurrar skuldasöfnunar erlendis og til þess, að gjaldeyrisstaðan varð nokkru knappari í bili. Slík stefna var talin þjóðhættuleg af hagfræðiráðunautum viðreisnarinnar og flokkuð undir verðbólgupólitík. En hvað var það, sem gerðist á síldveiðunum í sumar? Verðbólgubátarnir, verðbólgunælonnæturnar, verðbólgufiskileitartækin og verðbólguverksmiðjurnar á Austurlandi, allt þetta, sem olli viðreisnarpostulunum sem mestu hugarangri, varð nú uppistaðan í því, að 600 millj. kr. gjaldeyrisverðmæti voru dregin á land á tveimur mánuðum í sumar. Hefðu síldarverksmiðjurnar á Austurlandi ekki verið byggðar, mundi helmingur þeirrar síldar, sem veiddist í sumar, enn synda í sjónum.

Efnahagsstefna ríkisstj. hefur beðið algert skipbrot. Kenningar hagfræðinganna og ráðherranna hafa reynzt rangar. Útreikningarnir hafa ekki staðizt. Afleiðingarnar hafa orðið framleiðslustöðvanir, verkföll, minnkandi þjóðarframleiðsla og endurteknar gengislækkanir.

En þó að ríkisstj. hafi ekki tekizt að ná þeim árangri í efnahagsmálum, sem hún lofaði, hefur hún þó komið fram ýmsum öðrum áhugamálum sínum. Foringjar Sjálfstfl. hældust um yfir því á nýafstöðnum landsfundi sínum, að þeim væri að takast að koma fram hugsjónum flokksins í verzlunar- og skattamálum. Hin nýja stefna í verzlunarmálum heitir því fagra nafni frjáls verzlun, og stefnan í skattamálum heitir líka fallegu nafni: lækkun skatta. Skattalækkunin kemur fram í því, að tiltölulega lágir beinir skattar eru lækkaðir, en jafnframt eru óbeinir skattar eins og söluskattur hækkaðir um miklu hærri upphæð. Beinir skattar eru hér miklum mun lægri en í nágrannalöndum okkar. Þeir nema hér um 5% af heildartekjum ríkisins, en í Noregi, Finnlandi og Danmörku um 25—30% af heildartekjunum þar. Samanlögð skattheimta viðreisnarstjórnarinnar hefur hækkað um nokkur hundruð millj. kr. þrátt fyrir alla skattalækkunarstefnuna.

Og hvernig er svo verzlunarfrelsið? Útflutningsverzlunin er bundnari en nokkru sinni fyrr. Frelsið í innflutningsverzluninni lýsir sér bezt í því, að innflutningurinn dregst saman. Verzlunarfrelsi Sjálfstfl, hefur alltaf einkennzt af því að veita kaupmönnum frelsi til álagningar og heildsölum aðstöðu til þess að ráðstafa gjaldeyri þjóðarinnar eftirlitslitið eða eftirlitslaust. Þetta verzlunarfrelsi er nú verið að framkvæma. Verðlagseftirlit er verið að leggja niður í áföngum. Nýlega var þannig samþykkt að gefa álagningu frjálsa á mörgum vörutegundum og þ. á m. á ýmsum almennum nauðsynjavörum. Þannig er nú álagningin orðin frjáls á flestum tegundum af ytri fatnaði, og þar með töldum vinnufatnaði. Vinnufatnaður hafði þó hækkað í verði frá því að viðreisnin hófst og þar til nú um 50%, beint vegna efnahagsstefnu stjórnarinnar. Slík hækkun var ekki nægileg, heldur var öllum álagningarhömlum létt af þessari vöru. Þá hefur einnig nýlega verið samþykkt að stórhækka álagningarreglurnar á ýmsum vörutegundum. Hækkunin nemur 12–33%. Í þessum efnum er nú verið að framkvæma nákvæmlega sömu stefnuna og Sjálfstfl. reyndi að koma hér á eftir gengislækkunina 1950. Stefnan þá hét líka verzlunarfrelsi. En eitt hefur breytzt frá því, sem var í þessum málum 1951 og 1952 og allar götur fram til 1955. Þá var það einn kunnasti heildsalinn í liði Sjálfstfl., Björn Ólafsson, sem reyndi að koma á hugsjónum Sjálfstfl. í verzlunarmálum, en nú er það Alþýðuflokksmaðurinn Gylfi Þ. Gíslsson, viðskmrh., sem látinn er framkvæma hugsjón íhaldsins í þessum málefnum. Árin 1951 og 1952 var það einmitt þessi sami Gylfi Þ. Gíslsson. sem mest barðist í ræðum á Alþ. gegn þessari hugsjónastefnu íhaldsins. Þá upplýsti hann hér á Alþ., að álagningarfrelsið hefði leitt til þess, að meðalálagning heildsala hækkaði um 180% á vefnaðarvörum og að meðalálagning heildsala og smásala á bátagjaldeyrisvörum hafi hækkað um 128% við frelsið. Þá nefndi Gylfi Þ. Gíslsson þetta verzlunarfrelsi siðlaust athæfi, fjárplógsstarfsemi af versta tagi. Þá sagði Gylfi Þ. Gíslason m.a. í ræðu hér á Alþingi, orðrétt:

„Það hefur verið eitt helzta baráttumál Alþfl., frá því að verðlagseftirlit var hér fyrst sett á 1938, að auka það og efla. Alþfl. hefur flutt um það ótal frv., að nauðsynlegt væri að halda hér uppi öflugu verðlagseftirliti:

Þá var þetta skoðun Alþfl., og þá voru ummæli hæstv. núv. viðskmrh., Gylfa Þ. Gíslasonar, þessi. En hvað gerist nú? Nú er hann látinn framkvæma sjálfur siðleysi íhaldsins í verzlunarmálum, látinn lögleiða á ný það verðlagskerfi, sem leiddi til fjárplógsstarfsemi af versta tagi. Þegar Gylfi viðhafði sín stóru orð um verzlunarfrelsi íhaldsins, voru þó í gildi þær reglur í landinu, að hækkuð álagning og hækkað vöruverð kom fram í hækkandi kaupgjaldsvísitölu, og þannig fengu launþegar nokkra uppbót á laun sín til þess að vega á móti verzlunarokrinu. En nú hefur Alþfl. fallizt á kröfur íhaldsins og afnumið kaupgjaldsvísitöluna. Nú verða allir launþegar að taka á sig hækkandi verzlunarálagningu bótalaust með öllu. Sjá ekki Alþýðuflokksmenn, hvert verið er að leiða þá?

Stefna núv. ríkisstj. er ómenguð íhaldsstefna, eins og Gylfi nefndi íhaldsstefnuna, sem hér ríkti 1950-1955. Kórónuna á þessa afturhaldsstefnu á svo að setja með því að koma Íslandi inn í Efnahagsbandalag Evrópu. Þannig á að leiða erlent fjármagn, erlenda auðmenn til vegs og valda í íslenzku þjóðlífi. Að undanförnu hafa hagfræðiráðunautar ríkisstj. og ráðherrarnir notað hvert tækifæri til þess að halda uppi áróðri fyrir því, að Ísland verði að ganga í Efnahagsbandalag Evrópu. Í landsfundarræðu sinni sagði Bjarni Benediktsson forsrh., að efalaust tryggðu Íslendingar sér bezt lífskjör og mest öryggi með því að ganga í bandalagið. Þó játaði hann, að á því væru nokkrir meinbugir að ganga inn skilmálalaust. En hver eru grundvallarstefnumál Efnahagsbandalags Evrópu? Þau eru þessi: 1) Stefnt er að því berum orðum að stofna nýtt ríki, nýtt stórveldi. 2) Framkvæmdastjórn bandalagsins tekur í sínar hendur í ýmsum greinum vald þjóðþinganna og ríkisstjórnanna. 3) Hreyfingar fjármagns innan bandalagsins skulu vera frjálsar. 4) Hreyfing vinnuafls innan bandalagsins skal vera frjáls. 5) Aðstaða til atvinnurekstrar innan bandalagsins skal vera frjáls. 6) Ein og sama stefna skal ríkja innan bandalagsins í landbúnaðar- og sjávarútvegsmálum og í verzlunarmálum. Þetta eru grundvallaratriðin, sem gera bandalagið, eins og forustumenn þess játa, að pólitískri samsteypu.

Í norskum blöðum hefur allmikið verið rætt um það að undanförnu, hvort tiltækilegt væri fyrir Noreg að ganga í Efnahagsbandalag Evrópu. Það hefur komið skýrt fram, að gangi Noregur í bandalagið, sé landhelgismál þeirra raunverulega úr sögunni, nema aðeins gagnvart þeim, sem standa utan bandalagsins. Það hefur einnig komið fram mikil andstaða við þá hugsun, að brezkir og þýzkir útgerðarmenn fái fiskveiði- og atvinnurekstraraðstöðu í Noregi. En hvernig færi t.d. í sjávarútvegsmálum okkar, ef við gerðumst aðilar þessa bandalags? Samkvæmt grundvallarreglum bandalagsins ættu sjómenn og útgerðarmenn í öðrum löndum bandalagsins sömu réttindi til fiskveiði í íslenzkri landhelgi og Íslendingar sjálfir. Mér er ljóst, að talsmenn þess hér á landi, að við göngum í Efnahagsbandalagið, munu a.m.k. í fyrstu lotu segja, að frá þessu ákvæði verðum við að fá undanþágu. En slíka undanþágu fengjum við aldrei, nema til bráðabirgða, á meðan verið væri að lokka okkur inn í bandalagið, því að hér er um eitt af grundvallarstefnumálum bandalagsins að ræða.

Hinn 11. júlí í sumar hélt Gylfi Þ. Gíslsson viðskmrh. ræðu á fundi Verzlunarráðs íslands og vék þá að þessum málum. Hann taldi auðvitað nauðsynlegt, að við sæktum um undanþágu vegna veiðanna, en um aðstöðu útlendinga að öðru leyti sagði ráðherrann orðrétt: „Hins vegar kæmumst við ekki hjá að athuga stefnu okkar varðandi réttindi útlendinga til löndunar á fiski og rekstrar fiskiðjuvera, ef til aðildar okkar ætti að koma,” — eða m.ö.o.: strax á fyrsta stigi málsins, á meðan áróðurssvipurinn er þó á öllu, sem sagt er af hálfu ríkisstj. um bandalagið, gloprast það upp úr viðskmrh., að annað komi ekki til mála en að útlendingar fái að landa hér fiski úr sínum skipum og að þeir fái að eiga hér og reka fiskiðnaðarfyrirtæki. Hvað mundi slíkt þýða í framkvæmd? Stóru auðhringarnir í Bretlandi og Vestur-Þýzkalandi, eins og t.d. Unileverhringurinn, sem á marga tugi togara, gætu þá gert út togara sína frá íslandi og lagt hér upp afla sinn. Unilever mundi þá ekki aðeins eiga frystihús og verkunarstöðvar í Hull og Grimsby og fiskdreifingarkerfi og fisksölustöðvar um allt Bretland. Þetta mikla risafyrirtæki gæti auðveldlega eignazt hér útgerðarstaði, eins og t.d. Sandgerði, Vestmannaeyjar og Keflavík, svo að nokkrir staðir séu nefndir. Slíkur auðhringur mundi fljótlega verða hér allsráðandi í okkar fiskiðnaði. Það yrði þá heldur lítið úr þeim metnaði okkar að búa um fiskafurðir okkar í íslenzkum umbúðum og stjórna sjálfir sölu á framleiðsluvöru okkar á erlendum mörkuðum.

Það er fljótséð, hvað yrði um íslenzkan sjávarútveg og íslenzkan fiskiðnað, ef svo færi. Hvað segja íslenzkir sjómenn um það, ef greiða á þannig fyrir veiðum útlendinga við Ísland, að þeir geti landað hér afla sínum að vild og þannig verið hér helmingi eða þrisvar sinnum lengri tíma á miðunum í kringum landið en þeir geta nú, og hvað segja þeir og íslenzkir sjávarútvegsmenn, ef útlendir auðhringar í fiskkaupum eiga að fá slíka aðstöðu í landi okkar? Það má vel vera, að félag stórkaupmanna, Verzlunarráð Íslands og félag smákaupmanna geti samþykkt aðild Íslands að Efnahagsbandalagi Evrópu upp á slík býti, en geta aðrir Íslendingar gert það, þegar þeir íhuga málið?

Stefna núv. ríkisstj. einkennist af vantrú á íslenzka atvinnuvegi og Íslendinga. Ráðunautar ríkisstj. sjá verðbólgu í nýjum fiskibátum og nýjum verksmiðjum. Þeir tala því í sífellu um nýjar atvinnugreinar, stóriðju, erlent fjármagn og erlenda atvinnurekendur til þess að leysa vandamál okkar. Það er einmitt slíkur áróður, sem hefur orðið til þess, að nýlega skrifar landsþekktur útgerðarmaður og sjálfstæðismaður, Finnbogi frá Gerðum, aðvörunar og áminningarorð til ríkisstj. Finnbogi segir í Morgunblaðinu 21. þ.m.: „Háttsettur hagfræðingur, sem miklu hefur ráðið í okkar efnahagsmálum, hefur látið þau orð falla í mín eyru, að nauðsynlegt væri að koma öllum aflakóngum á land: Þannig er mikill afli aflakónganna þyrnir í augum ráðunauta ríkisstj.

Finnbogi segir enn fremur í Morgunblaðsgrein sinni til þess að leiða athyglina að stefnu ríkisstj. gagnvart sjávarútvegi, — orðrétt segir hann: „Þótt athafnafrelsi eigi að heita í landinu, eru möguleikar á innflutningi fiskiskipa og búnaði þeirra takmarkaðir harkalega.” Og enn segir Finnbogi: „Innflutningur bifreiða er frjáls, en bankakerfið setur miklar hömlur á innflutning skipa.“ Þannig er trúleysið á íslenzkum sjávarútvegi ríkjandi í flestum stjórnarathöfnum viðreisnarstjórnarinnar og ráðunauta hennar.

Góðir hlustendur. Sú vantrauststill. á ríkisstj., sem hér liggur fyrir, verður, ef að líkum lætur, felld hér á Alþ. af meiri hl. þeim, sem ríkisstj. hér ræður yfir, en það liður óðum að þeim tíma, að önnur vantrauststill. á ríkisstj. verði til afgreiðslu. Um þá till. greiða fleiri atkvæði en þeir menn, sem nú eiga sæti á Alþingi. Um þá till. greiðir þjóðin öll atkvæði í almennum kosningum. Þá till. verður að samþ. En til þess að því tækifæri verði ekki sleppt, þurfa allir raunverulegir íhaldsandstæðingar, allir þeir, sem eru andstæðir þeirri afturhaldsstefnu, sem nú er rekin, að hafa með sér samstöðu og vera ákveðnir í því að standa saman um framkvæmd á nýrri stefnu, á raunverulegri vinstri stefnu.

Í dag blasir við sú staðreynd, að núv. ríkisstj. ætlar sér að koma hér á nýjum þjóðfélagsháttum. Hér á lögmál peninganna að ráða. Hér eiga hagsmunir þeirra ríku að sitja í fyrirrúmi. Réttindi verkalýðsfélaganna á að skerða með nýrri vinnulöggjöf. Stöðu samvinnufélaganna á að veikja. Kaup launþega og bænda er raunverulega lækkað og bundið með lögum. Milliliðirnir eiga að fá frjálsar hendur í verðlagsmálunum. Skattar hlutafélaga og hátekjumanna eiga að lækka, en söluskattar á nauðsynjavörum að hækka. Erlendir auðhringar eiga að fá aðstöðu í atvinnulífi landsins. Landhelgismálið á að gera að engu með því að hleypa útlendingum enn í auknum mæli inn á fiskimið landsmanna. Stefnt er að því, að Ísland gangi í Efnahagsbandalag Evrópu og afsali sér þar með sjálfstæði sinu í mikilvægum atriðum.

Vinstri menn í landinn geta ekki staðið sundraðir, á meðan þessu fer fram. Við Alþýðubandalagsmenn leggjum áherzlu á, að samstarf megi takast með öllum andstæðingum núv. afturhaldsstjórnar. Vinstri menn mega ekki óttast hrópyrði íhaldsins. Þeir verða að sýna, að þeim er alvara að fella íhaldsstjórnina frá völdum og standa síðan ábyrgir fyrir nýrri, frjálslyndari stjórnarstefnu.

Við Alþýðubandalagsmenn bendum á eftirfarandi atriði meðal annarra sem sjálfsögð stefnumál slíkrar stjórnar:

1) Að láta allan erlendan her tafarlaust víkja úr landinu og lýsa yfir hlutleysi þess í átökum stórvelda.

2) Að lýsa yfir því, að haft skuli vinsamlegt samstarf við launastéttirnar í landinu um lausn efnahagsmála, og koma þannig í veg fyrir eilífa árekstra og framleiðslustöðvanir.

3) Að uppbygging atvinnulífsins í landinu skuli fyrst og fremst grundvölluð á aðalatvinnuvegum landsins: sjávarútvegi, landbúnaði og iðnaði, og með það fyrir augum, að landsmenn einir eigi og reki atvinnutæki þjóðarinnar.

4) Ný stórfyrirtæki í landinu verði í opinberri eigu eða eign almannasamtaka.

5) Að standa gegn inngöngu Íslands í Efnahagsbandalag Evrópu og gegn öllu afsali á íslenzkum réttindum í hendur erlendra aðila.

6) Að endurheimta landhelgina fyrir Íslendinga eina.

7) Að lýst verði yfir því, að kaup vinnustéttanna verði hækkað og hagur framleiðslunnar bættur frá því, sem nú er, m.a. með eftirfarandi ráðstöfunum: Með almennri vaxtalækkun og mikilli lækkun vaxta á framleiðslulánum. Með gerbreyttu fyrirkomulagi á afurðasölu landsins framleiðslunni til hagsbóta. Með nýju ríkisvátryggingakerfi, sem stórlækki vátryggingarkostnað framleiðslunnar. Með lækkun flutningsgjalda. Með nýju skipulagi á sölu og dreifingu á olíu. Með lækkun verðlags á kostnað milliliða. Með hagstæðari viðskiptastefnu fyrir útflutninginn en ná á sér stað. Með öflugu verðlagseftirliti.

Hér hafa verið nefnd nokkur atriði, sem íhaldsandstæðingar ættu að sameinast um. Við skulum gera okkur ljóst, að núv. íhaldsríkisstjórn lífir á því einu, að andstæðingar hennar, sem eru tvímælalaust í meiri hluta með þjóðinni, standi sundraðir. Samstarf vinstri manna er því orðið aðkallandi. Það samstarf þarf að undirbúa strax og undanbragðalaust. Sé það gert, er sigur vinstri manna í næstu kosningum vís.