25.10.1961
Sameinað þing: 7. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 242 í D-deild Alþingistíðinda. (3216)

18. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Háttvirtu áheyrendur. Eitt síðasta og alvarlegasta óhappaverk núv. ríkisstj. er hin gerræðisfulla og ástæðulausa gengisstýfing s.l. sumar. Mun ég gera það mál sérstaklega að umræðuefni.

Útgáfa brbl. um gengið var ekki aðeins óforsvaranleg, eins og á stóð, heldur og í raun réttri andstæð stjskr. Samkv. 28. gr. stjskr. er það meginskilyrði fyrir útgáfu brbl., að til hennar beri hverju sinni brýna nauðsyn. Það er sú efnisástæða, sem vera þarf fyrir hendi, til þess að grípa megi til bráðabirgðalaga. Þessu skilyrði var ekki fullnægt, er brbl. frá 1. ágúst s.l. voru gefin út, en með þeim brbl. var gengisskráningarvaldið tekið úr höndum Alþingis og flutt yfir til Seðlabankans, svo sem alkunnugt er. Ef brýna nauðsyn bar til gengisfellingar, sem alls ekki verður fallizt á og siðar verður nokkuð að vikið, þá átti auðvitað að breyta genginu beinlínis með sjálfum brbl. Sá háttur hefði sennilega ekki verið talinn andstæður stjórnarskránni, því að skilyrði þetta um brýna nauðsyn er óneitanlega matskennt og teygjanlegt, og er skylt að játa, að hér á landi hafa því miður ekki verið gerðar strangar kröfur í því efni. En gengið var alls ekki fellt með sjálfum brbl., heldur fluttu þau aðeins gengisákvörðunarvaldið til, afsöluðu löggjafanum því valdi og fengu það í hendur Seðlabankanum, sem ómögulegt var fyrir fram að fullyrða um með öruggri vissu, hvort liti sömu augum og ríkisstj. á verðgildi krónunnar. Það var því fyrir fram engan veginn sjálfgefið, a.m.k. ekki fræðilega, að Seðlabankinn mundi telja óhjákvæmilega þá gengisstýfingu, sem ríkisstjórnin taldi nauðsynlega. Það er gersamlega útilokað að ætla að halda því fram, að brýna og óhjákvæmilega nauðsyn hafi borið til að taka ákvörðunarvaldið úr höndum löggjafans og þar með úr höndum bráðabirgðalöggjafans sjálfs og fá það í hendur annarri stofnun, sem að lögum var algerlega óskuldbundin til að taka nokkra ákvörðun um gengisbreytingu. Eins og efni brbl. er, skortir því á, að það skilyrði stjskr., að brýna nauðsyn beri til lagasetningarinnar, sé fyrir hendi. Það getur enginn sýnt fram á það með nokkrum rökum, að svo brýna nauðsyn hafi borið til að flytja gengisskráningarvaldið úr höndum Alþingis yfir til Seðlabankans, að ekki mætti bíða ákvörðunar Alþingis sjálfs. Það geta vissulega verið skiptar skoðanir um það, hvort heppilegra og affarasælla sé, að gengisskráningarvaldið sé í höndum Alþingis eða þjóðbankans, og auðvitað eru þess mörg dæmi, að hlutaðeigandi þjóðbankar fari með það vald. En hvert sem viðhorf manna kann að vera til þess, þá haggar það eigi því, að hér átti ekki og mátti ekki gera breytingu nema með atbeina Alþingis sjálfs.

Í þessum brbl. felst furðuleg lítilsvirðing á Alþingi. Bráðabirgðalöggjafinn, sem á ekki að vera annað en varaskeifa, ræðst í það einsdæmi að taka af Alþingi og afsala því mikilvægu og viðkvæmu valdi, sem þingið hingað til hefur óumdeilt farið með. Það er álíka og ef einhver af skrifstofustjórum stjórnarráðsins skrifaði í ráðherranafni bréf, þar sem hann afsalaði ákvörðunarvaldi ráðherra um eitthvert mikilvægt málefni í hendur einhverri sérstakri ríkisstofnun. Þessi ákvörðun brbl. verður þó enn óskammfeilnari í Alþingis garð og verður enn augljósara stjórnarskrárbrot, þegar þess er gætt, að síðasta Alþingi fjallaði um og setti ný heildarlög um Seðlabanka Íslands. Það stjórnarfrv. sögðu stjórnarstuðningsmenn alveg óvenjulega vel og vandlega undirbúið. Hvorki í þessu frv., grg. þess né umr. um það var að því vikið, að nauðsynlegt væri að fela Seðlabankanum ákvörðunarvald um gengi krónunnar. Þvert á móti var það rækilega undirstrikað, að í þeim efnum skyldi einmitt óbreytt skipun haldast, þ.e., að gengi krónunnar skyldi áfram ákveðið með lögum. Með seðlabankalögunum, sem sett voru síðla vetrar, staðfesti Alþ. þann vilja sinn, að ákvörðunarvald um gengi gjaldmiðilsins skyldi framvegis sem hingað til vera í þess höndum. Fáeinum mánuðum síðar kemur svo sú sama ríkisstj., sem stóð að setningu seðlabankalaganna, og hrifsar gengisskráningarvaldið af Alþingi með brbl. og fær það Seðlabankanum. Ég ætla, að það sé þó óumdeilt, að sýnu ríkari ástæðu en ella þurfi til bráðabirgðalaga, sem þverbrjóta ákvörðun, sem Alþingi hefur nýlega tekið.

Þegar öll þau atriði, sem hér hafa verið rakin, eru athuguð, hlýtur niðurstaðan að verða sú, að skilyrðum stjórnarskrár til útgáfu bráðabirgðalaga hafi ekki verið fullnægt við hér um rædda lagasetningu. Það held ég, að allir, sem um málið hugsa hleypidómalaust, hljóti að skilja og viðurkenna, enda þótt þeir leggi svo misjafnlega mikið upp úr því, að fyrirmæli stjskr. séu í heiðri haldin.

Mér er að sjálfsögðu ljóst, að ég verð nú ekki talinn hlutlaus dómari um þetta, en ég ætla að spá því, að í framtíðinni verði þessi brbl. jafnan nefnd sem dæmi um brbl., sem sett hafa verið, án þess að skilyrðum stjórnarskrár hafi verið fullnægt.

Það er eðlilegt, að sú spurning vakni, hvers vegna sú krókaleið var farin að flytja gengisskráningarvaldið frá Alþingi til Seðlabankans og láta síðan stjórn hans verðfella krónuna, í stað þess að ákvarða gengið beint með brbl. Skýringin er nærtæk. Ástæðan er ugglaust sú, að sumir þm. stjórnarliðsins hafa ekki viljað eða hafa blátt áfram ekki þorað að greiða atkv. beint um krónulækkunina, en það hefðu þeir orðið að gera siðar, ef gengisstýfingin hefði verið beinlínis ákvörðuð með bráðabirgðalögunum. Nú setja þeir hinir sömu þm. upp sakleysissvip og berja sér á brjóst og segja við kjósendur: Við ákváðum ekki gengisfellinguna, við höfðum engin skilyrði til að meta það, hvað gengislækkun ætti að vera mikil. Það voru seðlabankastjórarnir, sem sögðu, að krónuna þyrfti að lækka svona mikið. Það voru þeir harðstjórar, sem ákváðu gengisfellinguna. — Þessi framkoma er kannske skiljanleg, þegar höfð eru í huga sum fyrri ummæli hv. Alþýðuflokksþm., en stórmannleg er þessi framkoma ekki.

Það eru að vísu ærin afglöp að setja brbl. í blóra við stjskr. og þætti sjálfsagt sums staðar nægileg afsagnarástæða fyrir ríkisstj. og þá ekki hvað sízt stjórn, sem hvað eftir annað hefur gripið til gerræðisfullra og vafasamra brbl., svo sem hæstv. núv. ríkisstj. hefur gert. Hitt er þó sjálfsagt í margra augum enn þá alvarlegra og ámælisverðara, að sjálf gengislækkunin, sem framkvæmd var á þeim óstjórnskipulega grundvelli, sem ég hef lýst, var algerlega ástæðulaus, eins og á stóð.

Þó að ástand í efnahagsmálum geti vissulega verið slíkt, að gengisbreyting sé óumflýjanleg, hljóta menn almennt að játa, að gengislækkun er jafnan neyðarúrræði, sem ekki má grípa til, nema hennar sé óhjákvæmileg nauðsyn, og alveg sérstaklega á það við, ef stórfelld gengisfelling er nýlega um garð gengin, svo sem hér var.

Þeim, sem að gengisfellingu standa, er því skylt að sýna fram á óumflýjanlega nauðsyn hennar. Því fer að mínum dómi víðs fjarri, að ríkisstj. hafi getað rökstutt þær harkalegu aðgerðir gegn öllum almenningi í þessu landi, sem felast í eða leiðir af gengislækkuninni s.l. sumar. Þvert á móti hafa stjórnarandstæðingar sýnt fram á, að gengislækkunin var gersamlega óþörf og óforsvaranleg, eins og á stóð. Þeirri hlið málsins verða gerð fyllri og rækilegri skil af öðrum en mér í þessum umr. Ég mun þó aðeins drepa á örfá atriði, staðhæfingu minni til styrktar og sönnunar.

Því skal að sjálfsögðu ekki neitað, að kjarasamningarnir s.1. sumar hefðu að óbreyttum aðstæðum haft í för með sér nokkurn kaupgetuauka hjá almenningi og nokkra útgjaldahækkun hjá atvinnurekendum og því opinbera. En þetta virðist mér vera þau tvö atriði, sem gengislækkunin er sérstaklega rökstudd með. Útgjaldaaukning vegna kauphækkananna mundi þó í fæstum tilfellum hafa orðið atvinnurekstrinum ofviða, ef jafnframt hefðu verið gerðar ráðstafanir til að draga úr öðrum tilkostnaði, svo sem með því að lækka verulega vexti og tryggingarkostnað ýmiss konar. Það bil, sem brúa þurfti, var ekki kauphækkunin öll, heldur mismunur þeirrar kauphækkunar, sem atvinnurekendur treystu sér til þess að greiða, og þeirrar kauphækkunar, sem endanlega var samið um. Enginn trúir því, að atvinnurekendur hafi hætt sér of langt. Í utanþingsumr. um þessi mál hefur verið sýnt fram á það með órækum tölum, að þetta bil var ekki breiðara en svo, að það var auðve:it að brúa án nokkurrar gengisfellingar. Þar að auki er þess að gæta, að af gengisfellingu leiðir verulega útgjaldaaukningu fyrir atvinnureksturinn, svo sem ljóst hefur orðið í sambandi við verðlagsákvarðanir að undanförnu. Gengisfelling er þess vegna engan veginn það bjargráð atvinnuvegunum, sem sumir vilja vera láta. Afkoma atvinnugreinanna hér á landi er einnig og verður svo misjöfn og breytileg, að erfitt mun að komast hjá einhverjum miðlunarúrræðum, a.m.k. öðru hvoru. Þannig verður t.d. sjálfsagt ekki hjá því komizt nú að gera sérstakar ráðstafanir togaraútgerðinni til styrktar, alveg jafnt þótt gengislækkunin hefði átt sér stað og alveg án tillits til þess, hvort kauphækkanirnar hefðu átt sér stað eða ekki.

Hvað hinni aðalröksemd krónulækkunarmanna viðvíkur, er það algerlega órökstudd staðhæfing, að hin aukna kaupgeta hefði leitt til svo mikillar gjaldeyriseftirspurnar, að til gjaldeyrisvandræða hefði komið. Þegar krónulækkunin var ráðin á s.l. sumri, voru aflabrögð á síldarvertíð alveg óvenjulega góð, framleiðsla í ýmsum greinum heldur vaxandi þrátt fyrir allt, verðlag á sumum útflutningsafurðum hækkandi og gjaldeyrishorfurnar tiltölulega góðar og gáfu alls ekki tilefni til sérstaks ótta. Þegar þannig stóð á, var óverjandi að grípa þegar í stað til gengisfellingar. Það átti að bíða átekta og sjá, hverju fram yndi, þangað til þing kæmi saman, og hefði þá mátt kveðja það saman eitthvað fyrr en gert var, ef ástæða hefði þótt til. En þá var það Alþingis að meta, hvort ástandið væri slíkt, að tilefni væri til sérstakra ráðstafana og þá hverra. Hjá hinum kjörnu trúnaðarmönnum fólksins var gengisskráningarvaldið, og það átti ekki án þeirra samþykkis að taka af þeim með brbl. Vegna gjaldeyrisstöðunnar var engin ástæða til, eftir því sem séð varð í sumar, að taka af launamönnum aftur þær kjarabætur, sem þeir fengu með hinum nýju vinnusamningum. Og víst er um það, að verkamönnum og öðrum láglaunamönnum hefði sannarlega ekki veitt af að fá þær kjarabætur og fá að halda þeim óskertum, og ef nú niðurstaðan skyldi verða sú, að við bættum verulega gjaldeyrisstöðu okkar á árinu, sem auðvitað er ekki nema gott eitt um að segja, þá væri það óneitanlega nokkur sönnun þess, að gengisfellingar hefði ekki verið þörf vegna gjaldeyrisástandsins.

Það fer svo ekki á milli mála og verður ekki um deilt, að með gengislækkuninni s.l. sumar hafa stórkostlegar nýjar, óbeinar álögur verið lagðar á landsmenn. Hafa fróðir menn reiknað út, að verðhækkunaráhrif gengisbreytingarinnar muni nema yfir 500 millj. kr. Með gengislækkuninni eru þær kjarabætur, sem launamenn fengu í sumar, að engu gerðar.. Með gengisfellingunni er nýju dýrtíðarflóði steypt yfir þjóðina og var þó sannarlega ekki á bætandi viðreisnaráhrifin. Nefna mætti margar tölur til sönnunar hinni sívaxandi verðbólgu nú. En um þetta þarf ekki að fjölyrða. Hinn magnaða dýrtíðareld finnur hver og einn á sjálfs sín baki brenna. Allur almenningur veit blátt áfram ekki, hvernig hann á að komast af, hvernig hann á að hafa í sig og á. Þess vegna eru áreiðanlega margir af stuðningsmönnum stjórnarinnar stjórnarherrunum sárreiðir fyrir hinar gerræðisfullu tiltektir þeirra á síðastliðnu sumri. Með aðgerðum sínum hefur ríkisstj. sett af stað nýja dýrtíðarskriðu og beinlínis espað til nýrra vinnudeilna og verkfalla í stað varanlegs vinnufriðar, sem tryggja mátti á grundvelli kjarasamninganna frá í sumar. ef rétt var á haldið. Sannleikurinn er sá, þó að ótrúlega hljómi, að gengislækkunarfrumhlaupið verður ekki skýrt á annan veg en sem hefndarráðstöfun reiðra manna, sem töldu sig hafa orðið undir í vinnudeilunum s.1. sumar og þoldu ekki ósigurinn. Slík vinnubrögð henta ekki landsstjórnarmönnum á Íslandi. Ef hæstv. ríkisstj. fengist til að skjóta málum sínum undir þjóðardóm, mundi hún komast að raun um það. — Góða nótt.