25.10.1961
Sameinað þing: 7. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 249 í D-deild Alþingistíðinda. (3218)

18. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Þegar flutt er vantraust á ríkisstj. í lýðræðisríki, er nauðsynlegt að svara tveimur spurningum, áður en menn taka afstöðu til vantraustsins. Hefur ríkisstj. brugðizt skyldu sinni við þjóðina? Hvaða leiðir eru hugsanlegar til þess að tryggja þjóðinni betri ríkisstj.?

Flm. þeirrar vantrauststillögu, sem nú er rædd, eru aðalforingjar stærri stjórnarandstöðuflokksins, Framsfl. Báðir hafa þessir menn setið flestum lengur í ráðherrastóli, og skæðar tungur hafa jafnvel stundum imprað á því, að þeir muni ekki treysta öðrum betur til þess að halda um stjórnvölinn. Hvað sem um það er, verður vantraust þeirra nú naumast skilið á annan veg en þann, að Alþingi eigi að fela þeim að hafa forustu um stjórn landsins, því að varla hugsa þeir sér að hafa landið stjórnlaust.

Ég ætla ekki að eyða þessum fáu minútum til þess að verja starf og stefnu hæstv. ríkisstj. Það verður ekki sagt með neinum rétti, að ríkisstj. hafi farið í felur með verk sín eða reynt að dulbúa þau, svo sem stundum hefur verið tíðkað. Stjórnarstefnan er því öllum þeim skiljanleg, sem á annað borð hafa áhuga á að sjá hlutina í réttu ljósi. Hæstv. ráðh., sem hér hafa talað við þessar umr., þurfa heldur enga aðstoð til þess að rökstyðja réttmæti sinna gerða. Hins vegar langar mig til, að við reynum að gera okkur grein fyrir því, hvort flm. þessarar till. eru verðir þess trausts, að þing og þjóð ljái vantrausti þeirra eyra.

Síðari flm. till., hv. 1. þm. Austf., ræddi við nýafstaðna fjárlagaumr. af mikilli eftirsjá framfarir og heillavænlega fjárhagsþróun á árunum fyrstu eftir 1950, meðan gætti áhrifa efnahagsráðstafana þeirra, sem ríkisstj. sjálfstæðismanna undirbjó veturinn 1949—1950. Víst væri margt á annan veg nú, ef sú stefna hefði ekki verið eyðilögð. Þá var samstjórn sjálfstæðismanna og framsóknarmanna. Það stjórnarsamstarf rufu þeir menn, sem nú biðja um traust. Til þess að eyðileggja það jafnvægi, sem þá hafði náðst í efnahagsmálum þjóðarinnar, voru sett á svið víðtæk verkföll, sem fyrri flm. þessarar vantrauststill. studdi leynt og ljóst og einnig aðalmálgagn flokksins, er hlaut að skemmdarverkinu fullnuðu sérstakar þakkir Þjóðviljans. Að vísu fordæmdi þá Eysteinn Jónsson verkfallið með orðum, sem átakanlega vel hæfa sem lýsing á verkum hans eigin flokks í nýafstöðnu verkfalli. En því miður brast þennan ágæta mann skjótt þrek til þess að standa gegn ásókn hv. 2. þm. Vestf. eftir að mynda þá samstjórn með kommúnistum, er hann hafði lagt grundvöll að með vinsamlegri afstöðu til verkfallsins 1955. Hv. 1 þm. Austf. varð þá að ganga undir það jarðarmen, sem mun hafa verið honum þung raun, að gleypa sínar fyrri kenningar og stefnu með húð og hári og gerast fremsti talsmaður stjórnarstefnu, er hann sízt vildi.

Tíminn sagði eitt sinn á síðustu samstjórnarárum Sjálfstfl. og Framsfl., að óþolandi væri, að Sjálfstfl. hefði öll lyklavöld um afgreiðslu mála. Þessi orð eru e.t.v. bezta skýringin á vinstristjórnarævintýri Hermanns Jónassonar. Framsfl. gat ekki unað því að vera í samstarfi við sér stærri flokk. Valdalöngun flokksins mundi verða betur fullnægt í samvinnu við minni flokka. Miklar áætlanir voru gerðar, er leiða skyldu til gerbyltingar stjórnmálaþróunar í landinu. Hræðslubandalagið svokallaða var stofnsett á grundvelli einstæðrar misnotkunar úreltrar kjördæmaskipunar, og það var næsta kaldhæðnislegt að heyra aðalhöfund þeirra bellibragða ræða hér t kvöld um misnotkun stjórnarskrárákvæða. Það vita allir í dag, að ætlun framsóknarforingjanna var, að þetta bandalag skyldi leiða til innlimunar Alþfl. og bróðurlegs samstarfs við þá Valdimarssyni í Alþb., sem treyst var á, að næðu yfirstjórn þess liðs. Þetta voru hinar stóru hugsjónir, er lágu að baki myndunar vinstri stjórnarinnar. Þessi nýja samfylking átti að tryggja það, að Sjálfstfl. hefði ekki lengur lyklavöld í þjóðfélaginu. En um úrlausn vandamálanna gleymdist að semja, og því fór sem fór. Hin fræga yfirlýsing Hermanns Jónassonar, er hann baðst að lokum lausnar, gat verið einkunnarorð alls stjórnarferils vinstri stjórnarinnar. Það var aldrei samstaða um neitt.

Enginn flokkur hefur talið sig eiga aðrar eins birgðir af ábyrgðartilfinningu og Framsfl. Þessi ábyrgðarþungi hefur valdið því, að foringjar Framsfl. fá miklar áhyggjur um velferð þjóðarinnar, ef þeirra forsjá nýtur ekki við. Þá er allt í voða og móðuharðindi á næstu grösum. Framsóknarmenn halda því gjarnan fram, að ábyrgðarlaus framkoma sjálfstæðismanna í verkalýðshreyfingunni hafi orðið banabiti vinstri stjórnarinnar. Það er nú út af fyrir sig ömurlegur dómur um starf vinstri stj. í þágu alþýðu landsins, er átti þó að verða hennar haldreipi, að eftir tveggja ára vinstri stjórn skyldi Sjálfstfl, ráða stefnu verkalýðsfélaganna, þegar þess er minnzt, að aðalrökin fyrir að rjúfa stjórnarsamvinnuna við Sjálfstfl. voru þau, að hann réði engu í verkalýðsfélögunum. En sleppum því. Sannleikurinn er sá, að draumar formanns Framsfl. um ævarandi veldi Framsóknar í skjóli samfylkingar verkalýðs og bænda voru hillingar einar. Alþfl. gerðist svo djarfur að neita að láta innlima sig í Framsókn, og Kanossaganga forsrh. vinstri stjórnarinnar inn á Alþýðusambandsþing er sú mesta niðurlæging, sem íslenzkur forsrh. hefur orðið fyrir, og voru það þó ekki sjálfstæðismenn, sem því þingi stýrðu.

Þegar íhuguð er ábyrgð flutningsmanna vantrauststillögu þessarar á þeirri stjórnmálaþróun, er leiddi til myndunar og síðar falls vinstri stjórnarinnar, sýnir það mikla dirfsku að heimta það, að Alþingi lýsi vantrausti á þá menn, er fengu það óvinsæla og erfiða hlutverk að reyna að forða þjóðinni úr þeim ógöngum, er vinstri stjórnin hafði með úrræðaleysi sinu leitt hana í.

En hefur þá ekki ábyrg stjórnarandstaða Framsfl. sannað það, að þeim geti nú verið treystandi til forustu? Við skulum láta verk þeirra sjálfra og málflutning tala. Framsfl. snerist gegn öllum þáttum viðreisnarlöggjafarinnar og taldi gengisbreytinguna fordæmanlega, enda þótt upplýst hafi verið, að framsóknarmenn hafi í vinstri stj. talið beina gengislækkun eðlilegustu lausn efnahagsvandamálanna og hafi staðið að öllum fyrri gengisbreytingum. Aftur voru teknar upp kröfurnar um brottför varnarliðsins og margir kunnir framsóknarmenn undirrituðu kröfur um úrsögn úr Atlantshafsbandalaginu, þótt ekkert væri við varnarliðinu hreyft í valdatíð vinstri stjórnarinnar. Hina happasælu lausn landhelgismálsins hafa framsóknarmenn reynt að afflytja, og snúizt hefur verið gegn öllum tillögum ríkisstj. í fjármálum og efnahagsmálum yfirleitt. Enginn hefur skýrar en Eysteinn Jónsson lýst, hvílíkt hættuspil það er fyrir þjóðina að veita kommúnistum valdaaðstöðu í verkalýðssamtökunum. Allt fram á daga vinstri stjórnarinnar var það líka svo, að lýðræðisflokkarnir þrír höfðu samstöðu í verkalýðsfélögunum, hverjir þeirra sem voru í stjórn landsins. Nú hefur hin ríka ábyrgðartilfinning framsóknarforingjanna leitt þá til þess að skipa og það oft með harðri hendi öllum liðsmönnum sínum í launþegasamtökunum að fylkja sér undir merki kommúnista og tryggja þeim hvarvetna valdaaðstöðu, ef þeir gætu því ráðið. Það er algerlega á ábyrgð flm. þessarar vantrauststill., að verkalýðssamtökin eru nú undir kommúnískri stjórn. Fyrir það biðja þeir um traust.

Það gæti verið gaman til dægrastyttingar að fara gegnum skrif Tímans, frá því að vinstri stjórnin lét af völdum, og reyna að búa til mynd af því efnahagskerfi, sem hér mundi vera nú, ef farið hefði verið eftir öllum röksemdafærslum blaðsins. Þá væri ekki amalegt að lifa hér á Íslandi. Engin gengislækkun, engin dýrtíð, síhækkandi kaup, nóg lánsfé, hækkað verð á landbúnaðarafurðum, auknir framleiðslustyrkir án nýrra skatta og sennilega engir vextir, nógur innflutningur og ekkert verðlagseftirlit. Það eina smávægilega, er láðst hefur að sjá fyrir í þessu dýrðarríki, er, hvar eigi að fá gjaldeyri til þess að fullnægja öllum þörfum framleiðslu og framfarastefnunnar, sem er sögð vera leiðarljós Framsfl. Það eru svo auðvitað smámunir, þótt við værum í stríði við Breta um landhelgina og komnir úr NATO og jafnvel Sameinuðu þjóðunum, af því að Bandaríkin hefðu ekki viljað beita hervaldi gegn Bretum fyrir að dirfast að bjóðast til að viðurkenna stærri landhelgi en við sjálfir höfðum tekið okkur. Auðvitað dettur mér ekki í hug að halda því fram, að foringjar Framsfl. hafi reynt að stjórna málum þjóðarinnar á þennan hátt, en því miður er þetta harla rétt mynd af hinum fjarstæðukennda áróðri þeirra í stjórnarandstöðunni. Fyrir þetta vilja þeir nú fá traust.

Ef taka ætti mark á áróðri framsóknarforingjanna og blaða þeirra, væru ráðherrarnir og raunar allir þm. stjórnarflokkanna hreinir misindismenn. Öll þeirra stjórnarstörf eiga að miða markvisst að því að gera þjóðinni illt og það að vel yfirlögðu ráði. Með kjördæmabreytingunni átti að leggja heil héruð í rúst, og grasið átti jafnvel að hætta að gróa. Skipulega hafi verið að því unnið að hefta þróun atvinnuveganna og búa alþýðu manna sem verst kjör. Launakjörin sé reynt að skerða eftir mætti til þess að gefa erlendum auðfélögum tækifæri til að arðræna þjóðina. Loks á síðasta gengisbreyting að hafa verið framkvæmd af þeirri ástæðu, að ríkisstj hafi viljað hefna sín á þjóðinni.

Það er auðvitað ekki að undra, þótt hinum ábyrgu foringjum Framsóknar hrjósi hugur við að vita slíka misindismenn sitja í þeim sætum, hvaðan þeir sjálfir áður jusu velgerðum yfir þjóðina. En þeim hefur láðst að gera nokkra grein fyrir því, hvernig það geti orðið ríkisstj. í lýðræðisríki til framdráttar að einbeita kröftum sínum til illverka. Hingað til hefur það þó verið talið líklegra til áhrifa og fylgisaukningar að geta fært þjóðinni hagsbætur.

En það er eftirtektarvert, að ríkisstj. virðist hafa mistekizt að framkvæma sinn illa ásetning. Framleiðsla í landinu hefur aldrei verið rekin með meiri krafti en í dag og atvinna almennings og tekjur aldrei verið meiri. Jafnvel Tíminn flytur flesta daga fregnir af því, að víðs vegar um landið, þar sem við atvinnuleysi var að stríða, meðan vinir strjálbýlisins voru í stjórn, sé svo mikil atvinna og velmegun, að fólk sé tekið að flytja aftur heim á æskustöðvarnar. Ýmsar óarðbærar framkvæmdir hafa að vísu minnkað, en vinnuaflið færist í ríkara mæli að framleiðslustörfum. Einstæðast mun þó það vera, að sjálfur prédikari móðuharðindanna lýsti slíku trausti á ríkisstj., að hann taldi árangur efnahagsstefnu hennar svo mikinn eftir rúmt ár, að hún gerði atvinnuvegunum bótalaust kleift að hækka kaupgjald meira en áður hefur þekkzt í einum áfanga. Við stöndum því nú andspænis því kynlega fyrirbæri, að stjórnarandstaðan telur stefnu ríkisstj. hafa bætt afkomu þjóðarinnar miklu meira en ríkisstj. fæst til að trúa sjálf. Líklega eru þetta ein rökin fyrir vantraustinu. Ég skal játa það, að ég hef ekki enn getað skilið, hvernig auðið var á fáum mánuðum að færa efnahag þjóðarinnar úr móðuharðindaástandi til slíkrar velmegunar atvinnuveganna. Vonandi á Tíminn eftir að skýra það.

Ég ætla ekki að óska þingeyskum samvinnumönnum til hamingju með það, að samtök þeirra hafa af pólitískum forkólfum í höfuðborginni verið valin til þess að koma af stað nýrri verðbólguskriðu í landinu. Ég efast mjög um, að frumherjar samvinnuhreyfingarinnar í Þingeyjarsýslu hafi ætlað henni það hlutskipti. Ég ætti e.t.v. að óska hv. 1. þm. Norðurl. e. til hamingju með verkalýðsforingjahlutverk sitt, en ég læt það bíða. Ég get hins vegar ekki stillt mig um að lofa hv. 1. þm. Austf. fyrir það reikningsafrek að sanna, að 14—20% kauphækkun auki tilkostnað um 1%. Það verður sannarlega ekki erfitt um kauphækkanir í landinu, þegar sú regla er orðin ráðandi. Þjóðinni er sagt, að 5% kauphækkun á dánarári vinstri stjórnarinnar hafi orðið hennar banabiti. Nú er þjóðinni sagt, að eftir alla viðleitni núv. ríkisstj. til að eyðileggja afkomu atvinnuveganna sé auðvelt að láta þá taka á sig 13–20% kauphækkun, aðeins með því að færa vexti til þess sama, er gilti í tíð vinstri stjórnarinnar.. Ef þessi staðhæfing framsóknarforingjanna er rétt, sýnist mér þeir sjálfir færa sterkustu rökin gegn vantrauststill. sinni.

Það mun svo væntanlega sanna þjóðinni hugvitssemi flm., að þeir telja það nú úrlausn allra efnahagsvandræða atvinnuveganna að lækka vexti og ausa út sem mestu lánsfé úr bönkum, án hliðsjónar af sparifjármyndun. Ég býst naumast við, að nokkur vilji verða til þess að taka af þeim heiðurinn af að verða upphafsmenn og sennilega einu boðberar slíkrar fjármálakenningar.

Herra forseti. Vafalaust er ýmislegt aðfinnsluvert í starfi og stefnu núv. ríkisstj. En um það verður ekki deilt, að hún fylgi fastmótaðri stefnu. Framsóknarmenn sanna hins vegar ótvírætt, að stefna Framsfl. markast af vindáttinni dag hvern, og það eitt stefnuskráratriði virðist fast mótað, að þjóðinni sé það lífsnauðsyn, að flm. þessarar vantrauststill. stjórni málum hennar. Flutningur vantrauststill. er skemmtilegur. Flm. hennar er vel kunnugt um það, að stjórnarflokkarnir eru einhuga um að fylgja fram þeirri efnahagsmálastefnu, sem þeir hafa markað. Ef Framsfl. telur sér það vegsauka að ljá sitt lið til þess að aðstoða kommúnista við að reyna að koma í veg fyrir, að íslenzka þjóðin geti lagt traustan grundvöll að hröðum framförum í landi sínu, svo sem er í öðrum vestrænum ríkjum, þá er það þeirra mál. En það er mikil bjartsýni og sýnir mikið vantraust á dómgreind þjóðarinnar að ímynda sér, að fyrir þann verknað hljóti þeir traust.

Framsóknarmenn hafa lýst fullri andstöðu við viðreisnarstefnu ríkisstj., og því eiga þeir enga samleið með stjórnarflokkunum. Með vantrausti sínu hafa þeir því ekki annað að boða þjóðinni en stjórn Framsóknar og kommúnista. Skyldu margir Íslendingar í dag vilja fela talsmönnum helsprengjustefnunnar forustu sinna mála, þótt Lúðvík Jósefsson hafi látið sig dreyma um slíka stjórn hér í kvöld?

Herra forseti. Allir vita, að verkföllin í sumar voru sett á svið, af því að stjórnarandstaðan sá, að barátta stjórnarflokkanna fyrir jafnvægi í efnahagsmálum þjóðarinnar var að takast. Svar framsækinnar þjóðar er það eitt að reisa nýja varnargarða gegn uppreisnaröflunum. Með skipulögðum framkvæmdum í landinu til eflingar framleiðslu og framförum mun grundvöllur lagður að betra og fullkomnara þjóðfélagi. Ríkisstj. og flokkar hennar munu í næstu kosningum hlíta dómi þjóðarinnar um verk sín, en láta nú sem vind um eyru þjóta vandlætingarorð og hrópyrði þeirra manna, sem skildu þjóðarfleyið eftir stjórnlaust í brimgarðinum. Þeir menn eru sízt trausts verðir.