25.10.1961
Sameinað þing: 7. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 254 í D-deild Alþingistíðinda. (3219)

18. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Björn Jónsson:

Herra forseti. Heiðruðu tilheyrendur. Nú eru nær þrjú ár liðin frá því að núv. stjórnarflokkar tóku höndum saman um stjórn landsins og tvö ár frá valdatöku núv. ríkisstj. Þessum flokkum hefur því gefizt ærinn tími til þess að sanna með verkum sínum vilja sinn og getu til þess að ráða fram úr vandamálum íslenzks efnahagslífs með þeim stóru fyrirheitum um stöðvun verðbólgu og bætt lífskjör að leiðarljósi. Um það verður ekki deilt, að þeir hafa haft valdið, tímann og tækifærin. Spurningin er sú ein, hvernig þeir hafa notað vald sitt og hver árangurinn hefur orðið.

Þegar litið er yfir valdatímabil stjórnarflokkanna, blasir við ein staðreynd öllum öðrum augljósari, sú, að hver athöfn þeirra, sem nokkru verulegu máli hefur skipt, hefur leitt af sér versnandi lífskjör, að sá reginmunur til hins verra, sem orðinn er á launakjörum, verðlagi og tekjuskiptingu fyrir launastéttirnar, verður í einu og öllu rakinn beint til athafna og aðgerða stjórnarflokkanna. Önnur er sú, að enn í dag halda lífskjör almennings áfram að versna hröðum skrefum, að hver verkamaður, hver launamaður finnur með hverjum degi sem líður óðaverðhækkanir leggjast æ þyngra á herðar sér, á afkomu sína og á vonir sínar um bærilegt líf.

Fyrsta skref stjórnarflokkanna í efnahagsmálum voru hin svokölluðu niðurfærslulög í ársbyrjun 1959. Með þeim var allt kaupgjald fært niður um 13.4% að krónutölu þvert ofan í gildandi samninga verkalýðsfélaga og atvinnurekenda og kaupmáttur samkvæmt mati stjórnarvaldanna sjálfra rýrður um 5.6%. Næst kom sjálf viðreisnin, þ.e.a.s. gengisfelling, sem hækkaði verð gjaldeyris um allt að 79%, jafnhliða lögbanni við ,greiðslu verðlagsbóta í nokkru formi á laun, nýrri riftingu allra kjarasamninga verkalýðsfélaganna og að auki umbyltingu á öllum skatta- og útsvarslögum, sem færði allan þunga skattheimtunnar af bökum gróðafélaga og hátekjumanna yfir á almenna neyzlu, nauðþurftir jafnt sem miður þarfa eyðslu. Í kjölfar viðreisnarinnar og skattabyltingarinnar fylgdu síðan ofsalegri skattahækkanir en sagan kann frá að greina, og hafa samanlagðir skattar og tollar hækkað um full 100% á valdatíma stjórnarflokkanna, þremur árum.

Viðreisnin var fyrsta aðgerð Sjálfstfl. til efnda á því fyrirheiti sínu í kosningunum 1959 að leiða þjóðina inn á braut bættra lífskjara.

Hæstv. forsrh. og ríkisstj, kváðu nú að vísu þá braut ekki jafnbeina og slétta sem þeir höfðu útmálað fyrir kosningar. Nokkrar lítilfjörlegar byrðar yrði að leggja á almenning í bili. En yrði aðgerðunum eirt um stundarsakir, í nokkra mánuði, hálft ár, í hæsta lagi eitt ár, og verkalýðshreyfingin sýndi aðgerðunum biðlund og hefðist ekki að um beinar kauphækkanir skamma hríð, þá mundi örugglega sannast, að aðgerðirnar færu innan tíðar að skila árangri, eins og til væri stofnað, þ.e.a.s. bættum lífskjörum og traustari efnahag þjóðarheildarinnar. Biðlundin var sýnd og fullur reynslutími veittur. Viðreisnin hafði staðið í eitt og hálft ár, þegar verkalýðshreyfingin lét til skarar skriða um aðgerðir til almennra launahækkana láglaunafólks. Og hvernig stóðu reikningarnir þá? Þeir stóðu þannig, að kaupgjaldið hefði þurft að hækka um 18% með óbreyttu verðlagi, til þess að kaupmáttur þess gagnvart verðlagi, vörum og þjónustu yrði hinn sami og hann var við upphaf viðreisnarinnar, og um 24%, til þess að raunveruleg launakjör væru óbreytt frá upphafi valdaskeiðs stjórnarflokkanna. Þetta eru ekki ágizkunartölur mínar eða annarra stjórnarandstæðinga. Þær eru tölur Hagstofu Íslands um þróunina mótaða í þeim útreikningslistum, sem sjálf ríkisstj. hefur ákveðið að beitt skuli til að sýna sem mildilegasta niðurstöðu.

Þannig voru viðhorfin í kjaramálum launastéttanna á s.l. vori. Brautin til bættra lífskjara hafði verið troðin aftur á bak. Fjórða hlutanum af kaupgetu launamanns, sem vann sinn fulla vinnudag, hafði verið rænt. Þrátt fyrir þessa reynslu af viðreisn stjórnarflokkanna, þessa einu reynslu, sem launastéttirnar höfðu af henni haft, gerðu alþýðusamtökin bókstaflega allt, sem hugsanlegt var að gera til þess að firra vandræðum. Í fulla 7 mánuði hafði bæði A.S.Í. og verkamannafélögin reynt að koma á alvarlegum viðræðum við atvinnurekendur og ríkisstj. um kjarabætur í formi lækkunar á vöruverði, m.a. með afnámi svonefnds bráðabirgðasöluskatts í tolli, með afléttingu vaxtaokurs, með ráðstöfunum til lækkunar almennra útsvara eða hverjum öðrum leiðum til lækkunar almennra útgjalda, sem tiltækilegar þættu, og loks með því að afnema lagabann við greiðslu verðlagsbóta á laun og skapa þannig stjórnarvöldum á ný aðhald varðandi taumlausar verðhækkanir og láglaunafólki nokkra tryggingu gagnvart frekara bótalausu kjararáni. En allt kom fyrir ekki. Öllum kröfum og tilmælum, ábendingum og rökum alþýðusamtakanna var mætt með fullkomnu tillitsleysi og þvermóðsku. Hvað sem í skærist, skyldi kaupránið standa sem óumbreytanlegt lögmál. Þannig var vísvitandi og af ráðnum hug efnt til stórstyrjaldar gegn verkalýðshreyfingunni, þar sem sameinuðum styrk ríkisvalds og stóratvinnurekenda skyldi beitt án nokkurrar miskunnar í þeim tilgangi að knésetja hana varanlega, brjóta niður samtakaþrótt verkamanna og sanna, að ríkisvaldið hefði öll þeirra ráð í hendi sér. Með niðurfærslulögum Alþfl. og enn frekar með sjálfri viðreisninni hafði ríkisstj. í reynd hrifsað úrskurðarvaldið yfir sjálfu kaupgjaldinu og launastéttirnar þannig verið sviptar þeim grundvallarréttindum að mega búa við svipað réttaröryggi um lögmæta samninga við atvinnurekendur eins og aðrir þeir aðilar í þjóðfélaginu, sem semja sin í milli um efnahagsleg samskipti. Með friðsamlegum samningum um kjarabætur, samningum, sem ríkisvaldið hefði stuðlað að, hefðu þessi réttindi verið viðurkennd á ný. Ekki getur vafi leikið á, að ein höfuðástæðan fyrir því, að ríkisstj. vildi enga friðsamlega samninga og hélt þúsundum manna í verkfalli vikum saman, til stórtjóns fyrir þjóðina, var sú, að hún vildi með engu móti þola, að verkalýðshreyfingin endurheimti þessi grundvallarréttindi sín. Hvað sem það kostaði, skyldi valdboðið eitt gilda, ef ekki bókstafur þess, þá innihald þess, og þannig nást sami árangur eins og ef verkalýðsfélögin hefðu verið bönnuð að sið nazista og nýlendukúgara.

Með engu öðru taldi hún, að efnahagsstefna hennar fengi staðizt. Það er þungur dómur, kveðinn upp af henni sjálfri. Nú eftir verkfallið er deilt um það innan stjórnarliðsins, hvort réttara hefði verið að beita lögbindingu á hinu skráða kaupgjaldi en gengisfellingu. Annað en eitt af þessu tvennu kom ekki til greina af þess hálfu, ekki sú leið að láta atvinnurekendur vera ábyrga samningsaðila og láta þrautsannast með reynslunni, hvort atvinnuvegirnir gætu borið þau launakjör, sem þeir höfðu gengizt inn á, og ekki sú leið að vernda gildi samninganna með því að lagfæra verstu agnúa efnahagskerfisins fyrir þá þætti atvinnulífsins, sem höllustum fæti stóðu, og beina heildargetu þjóðfélagsins þangað. Var slíkt mögulegt? Voru samningarnir, sem verkalýðssamtökin knúðu fram, svo óhóflegir, ósanngjarnir og óbærilegir atvinnulífinu, að þeir hefðu orsakað hrun, atvinnuleysi og ríkisgjaldþrot, eins og fullyrt er nú af stjórnarliðinu, að þeir hefðu gert, ef ekki hefði verið gripið til hinnar nýju gengisfellingar?

Með samningum s.l. vor náðu verkamenn aftur réttum helmingi þeirrar kjaraskerðingar, sem þeir höfðu orðið að þola í valdatíð stjórnarflokkanna. Kaupmáttur tímakaups óx úr 84 stigum, miðað við kaup árið 1945, í tæp 92 stig. Þetta þýðir, að a.m.k. annað eins átak þurfi til þess, að laun þeirra yrðu sambærileg við það, sem þau voru fyrir hálfum öðrum áratug. Þetta þýðir, að óskert laun eftir samningana voru lægri en atvinnuvegirnir hafa borið síðasta hálfan annan áratuginn, þ.e.a.s. það tímabil, sem þeir hafa verið að byggja sig upp á nútímamælikvarða og þjóðin í heild hefur verið að efnast gífurlega í formi margfaldrar fjárfestingar og gróða auðmannastéttarinnar, miðað við það, sem áður hefur þekkzt. Það er viðurkennt af stjórnarliðinn, að 3% árleg kauphækkun sé eðlileg og bærileg sómasamlega reknu atvinnulífi. Staðreyndir sanna líka, að víða um heim er þróunin miklu örari í þessum efnum. Samkvæmt því ættu launin nú að vera 60—70% hærri en þau voru 1946. Staðreyndin er hins vegar sú, að þau eru um 16% lægri. Lífskjör alþýðumanna hafa í engu notið tilkomu aukinnar tækni, aukins gróða, aukinnar fjárfestingar og stórfelldrar aukningar þjóðarframleiðslunnar. Þótt hún hafi vaxið um 4–5% á ári á mann, hafa launin staðið í stað eða lækkað. Þrátt fyrir þessar staðreyndir sýndi verkalýðshreyfingin slíkt langlundargeð og hófsemi að bjóða fram með samningum í sumar tveggja ára samfelldan vinnufrið, þ.e.a.s. út lengsta hugsanlega valdatíma núv. hæstv. ríkisstj., á þeim grundvelli að fá þegar réttan helming endurheimtan af kauplækkun síðustu þriggja ára og síðan á ári 4% hækkun. Þannig hefði það tekið full þrjú ár að ná aftur sömu kjörum og hér giltu við valdatöku stjórnarflokkanna. Því marki hefði ekki verið náð við lok kjörtímabilsins. Ég spyr: Er unnt að fella þyngri dóm yfir stefnu ríkisstj. í efnahagsmálum en hún sjálf hefur dæmt með því að hafna slíku boði og keppast við að útmála getuleysi sitt og efnahagskerfis sins til þess að standa undir slíkum skilmálum? Sízt skal því andmælt, að efnahagskerfi núv. ríkisstj. þurfi gerbreytingar við, til þess að atvinnulíf og lífskjör geti þróazt með eðlilegum og æskilegum hætti. En hitt er þó enn augljósara, að hin nýja gengisfelling magnar enn alla verstu eiginleika þess, en leysir engan vanda. Enn fráleitara er þó að reyna að halda því fram, að kaupsamningarnir hafi gert gengisfellinguna óhjákvæmilega, en sú fullyrðing, studd engum rökum, er það hálmstrá, sem stjórnarliðið heldur nú dauðahaldi í.

Þegar litið er til einstakra atvinnugreina, verður ljóst, að sú atvinnugreinin, sem einna flesta launamenn hefur í þjónustu sinni, iðnaðurinn, var fyllilega fær um að standa undir umsömdu kaupgjaldi. Þetta hefur verið viðurkennt af ríkisstj, með því, að hún kveðst ekki hafa leyft þessari atvinnugrein neinar verðhækkanir vegna hækkaðra launa, heldur aðeins vegna gengisfellingarinnar. Hækkuð laun hlutu alltaf að koma fram í verðlagi landbúnaðarvara samkvæmt gildandi löggjöf og bændastéttin þannig að fá sín kjör samræmd kaupgetu verkafólks. Til þess þurfti enga gengisfellingu. Verzlunin skaðaðist síður en svo á kauphækkununum. Aukin kaupgeta og vaxandi viðskipti bættu fyllilega upp aukinn tilkostnað þeirra vegna. Bátasjómenn höfðu áður fengið sín kjör lagfærð nokkuð, og var því ekki um að ræða neinn teljandi aukinn tilkostnað bátaflotans, en togarasjómenn hafa enn engar kauphækkanir fengið, svo að ekki verða vandamál togaraútgerðarinnar til kauphækkana rakin.

Fiskiðnaðurinn hefur á þessu ári átt við verulegar hagsbætur að búa vegna verðhækkana á erlendum mörkuðum, sem nema varla minna en 10% til jafnaðar. Þó hafa frystihúsin verið nefnd sem dæmi þess, hve kauphækkanirnar væru óbærilegar. Óyggjandi sannanir eru þó fyrir hendi um það, að þau gátu auðveldlega staðið undir hækkununum án gengisfellingar. Þær sannanir liggja skjalfestar fyrir í reikningum frystihúsa, sem allir eiga auðveldan aðgang að. Hér skal tilfært eitt dæmi af mörgum. Frystihús greiðir árið 1960 5.8 millj. kr. í öll vinnulaun. Ríflega áætluð kauphækkun á ári verður hjá þessu fyrirtæki um 800 þús. kr. Útflutningsverðmæti á ári eru um 37 millj. kr. Kauphækkunin öll jafngildir því 2.1% hækkun á útflutningsverðmæti, eða miklu minni upphæð en hækkununum, sem orðið hafa á markaðsverði. Þetta sama frystihús skilaði 1960 gróða og afskriftum upp á 2.7 millj. kr., en greiddi í vexti 2.1 millj. Þetta fyrirtæki gat því ekki aðeins haldið öllum hagnaði sínum, heldur aukið hann verulega, ef vextir hefðu verið lækkaðir um þriðjung eða í sama og þeir voru fyrir viðreisnina.

Þannig standast allar gullyrðingar stjórnarliðsins um nauðsyn gengisfellingarinnar dóm staðreyndanna. Talsmenn ríkisstj. fullyrða, að engin leið sé til þess finnanleg eða fær að framkvæma þá tekjutilfærslu í þjóðfélaginu, sem launahækkanirnar leggja því á herðar. En sjálf hefur hún staðið fyrir tekjutilfærslu, sem er mörgum sinnum meiri, en aðeins til andstæðrar áttar, og hún hyggst nú auka þá tilfærslu frá vinnustéttunum til auðmannastéttarinnar stórlega frá því, sem þegar er orðið. Þannig fær verzlunarstéttin nú ekki einasta að leggja fulla álagningu á gengismismuninn nýja og allar tolla og aðflutningsgjaldahækkanir, sem af gengisbreytingunni leiðir, enda þótt það þýði samkvæmt útreikningum verðlagsyfirvalda a.m.k. 3% hækkun umfram það, sem aukinn tilkostnaður gefur tilefni til, heldur er álagningin stórhækkuð í ofanálag. Á sama tíma er boðuð stórfelld skattalækkun á gróðafélögum og því haldið fram sem þjóðarnauðsyn, að miklu stærri hluti af hagnaði þeirra verði verndaður fyrir ásókn frá hendi hins opinbera, en neyzluskattar, sem þegar eru orðnir gildasti hluti skattheimtunnar, verði hins vegar hækkaðir að sama skapi. Þá er boðað að leyfa stórfellda hækkun á skattfrjálsum arðgreiðslum hlutafélaga. Þetta eru greinileg dæmi þess, hvers ríkisstj. væntir í kjölfar síðustu aðgerða hennar: stórfelldari auðsöfnunar en nokkru sinni fyrr og margfalds arðráns af þeim, sem verðmætin skapa.

Á þessum degi er svo komið, að síðasta gengisfellingin hefur rænt aftur af launastéttum hverjum eyri af þeirri leiðréttingu, sem þær sömdu um á s.l. sumri. Í byrjun þessa mánaðar var hin löggilda vísitala framfærslukostnaðar 114 stig á móti 104 í upphafi vinnudeilnanna, þ.e. hefur hækkað nákvæmlega jafnt og bein hækkun verkamannalauna. Kaupmáttur tímakaupsins hefur aftur hrapað í 84 stig miðað við 1945, eða í nákvæmlega hið sama og hann var 1. júní s.l. En því fer þó víðs fjarri, að hér séu öll kurl til grafar komin. Um eða upp úr næstu áramótum, þegar allar verðhækkanir af völdum gengislækkunarinnar eru komnar fram, verður framfærsluvísitalan orðin 120 stig, eða 16 stigum hærri en 1. júní s.l. Fyrirhuguð lækkun á niðurgreiðslum á vöruverði um 70 millj. kr. samkvæmt því, sem fjárlagafrv. ríkisstj. boðar, mun valda 2–3 stiga hækkun og fer vísitalan þá í 122–123 stig, eða verður 18–19 stigum hærri en 1. júní.

Þessar staðreyndir um verðlagsþróunina þýða einfaldlega, að í taumlausu verðhækkunaræði sínu hefur ríkisstj. gengið svo langt að láta ekki staðar numið við að ræna aftur öllum kauphækkununum, sem um var samið, heldur hefur hrifsað a.m.k. 8–9% af laununum, eins og þau voru eftir viðreisnina, en fyrir kauphækkanirnar.

Eftir að verkföllin voru skollin á, sagði ríkisstj., að 3% kauphækkun væri framkvæmanleg og eðlileg. Þegar verkalýðssamtökin höfðu sýnt samheldni sína í fárra daga verkfalli, bauð hún 6% raunhæfa kjarabót. Eftir gengisfellinguna fóru ráðherrarnir, eins og t.d. Emil Jónsson, um landið og fullyrtu, að ríkisstj. mundi tryggja, að gengisfellingin skildi eftir 6% raunverulega kauphækkun. En nú á að skammta laun, sem verða 8–9% lægri en þau áður voru og um þriðjungi lægri en þau voru fyrir þremur árum.

Þetta eru óhugnanlegar staðreyndir, jafnt um heilindi og orðheldni stjórnarherranna sem um allan ávöxtinn af stjórnarstefnu þeirra. Í hvers manns hug krefst sú spurning svars, hvernig við þessum staðreyndum og reyndar mörgum öðrum, sem þær snerta, skuli bregðast á örlagastund. Og engum efa er bundið, að mikill meiri hl. þjóðarinnar hefur þegar gert upp við sig svörin í meginatriðum. Það, sem koma verður, er annars vegar órjúfandi samstaða innan verkalýðshreyfingarinnar um verndun lífskjaranna, — samstaða, sem þvert í gegnum allar stjórnmálaskoðanir og flokkaskipun setur sér þau markmið að endurheimta þau launakjör, sem verkalýðshreyfingin hafði me,ð lögmætum hætti samið um við stétt atvinnurekenda, samstaða, sem slær skjaldborg um grundvallarréttindi alþýðusamtakanna og er reiðubúin að verja samtakafrelsið með öllu sínu afli fyrir hverri árás, sem enn kann á það að verða gerð. Þessi samstaða er nú að skapast, og er ráðstefna Alþýðusambands Íslands, sem haldin var um s.l. mánaðamót, þar gleggst vitni. Þar voru allir fulltrúar verkalýðsfélaganna sammála um, að svo fremi sem ekki fengist fram friðsamleg leiðrétting á launakjörunum, sem svaraði til þess, að raunveruleg laun yrðu hin sömu og um var samið s.l. sumar, væri óhjákvæmilegt að beita afli samtakanna til þess að knýja slíka leiðréttingu fram. Þarna gerðust þau sögulegu og góðu tíðindi, að þessi afstaða var samþykkt jafnt af stjórnarandstæðingum sem þeim mönnum, sem taldir eru fyrirsvarsmenn stjórnarflokkanna innan verkalýðshreyfingarinnar. Er það glöggt tímanna tákn, að hæstv. forsrh. eyddi nokkru af tíma sínum í ræðustóli á landsfundi flokks síns til þess að hirta sína menn innan verkalýðshreyfingarinnar fyrir afstöðu þeirra á ráðstefnunni. Í þeirri hirtingarræðu gægðist fram ótti stjórnarliðsins við dóm verkalýðshreyfingarinnar og þó kannske enn fremur í hótunum þessa sama ráðherra, bæði nú í kvöld og áður, um skerðingu á samtakafrelsinu með svonefndri endurskoðun vinnalöggjafarinnar.

Samhliða verkalýðshreyfingunni, sem nú býst í næstu framtíð til nýrrar varnarbaráttu, verða öll frjálslynd öfl að fylkja sér til sóknar fyrir nýrri stjórnarstefnu í þjóðfélaginu, fyrir endurreisn lýðræðislegra og þingræðíslegra stjórnarhátta, sem fótum hafa verið troðnir af viðreisnarstjórninni, fyrir vernd íslenzks sjálfsákvörðunarréttar efnahagslega og félagslega, sem nú er ógnað frekar en nokkru sinni fyrr, fyrir framfarastefnu í stað kyrrstöðustefnu og samdráttar, fyrir brottvikningu herstöðva af íslenzku landi og fyrir eflingu íslenzkra atvinnuvega undir íslenzkri stjórn, og siðast, en ekki sízt fyrir sáttum ríkisvaldsins og hagsmunasamtaka almennings. Með heilbrigðu stjórnarfari gætu þær sættir auðveldlega tekizt og í kjölfar þeirra fullkomið samstarf, sem hefði síbatnandi lífskjör og menningarskilyrði alþýðu að markmiði. En þá fyrst eru þær sættir hugsanlegar, þegar ríkisvaldinu er beitt almenningi til styrktar í lífsbaráttunni og sú tíð er liðin, að hver hræring alþýðusamtakanna til þess að rétta hlut vinnustéttanna er jafnharðan stimpluð sem árás á ríkjandi stjórn, eins og nú er gert, heldur mætt með sanngirni og velvilja.

Ríkisstj. mun nú geta látið þinglið sitt fella þá till. um vantraust, sem hér er flutt, og hún mun enn um sinn geta reyrt sig við ráðherrastólana í krafti þess bókstafs stjórnskipunarlaga, að ekki er skylt að láta fara fram almennar þingkosningar fyrr en á árinu 1963, enda þótt henni hafi fyrir löngu borið siðferðísleg og lýðræðísleg skylda til að skjóta verkum sínum undir þjóðardóm í nýjum kosningum, eftir að hafa í öllum atriðum bæði brugðizt loforðum þeim, sem hún var kosin upp á, og trausti þess nauma meiri hl., sem flokkar hennar hlutu 1959 og ekki meiri en svo, að völd hennar hanga á einu atkvæði í annarri d. Alþingis. En hverjum getur komið til hugar, að ríkisstj. mundi ekki fús að efna til nýrra kosninga nú þegar, ef hún hefði vísa von um, að svo tækist til, að völd hennar yrðu með því framlengd í fjögur ár? En sá tími kemur örugglega, hvort sem það verður árinu fyrr eða síðar, að þessi minnst virta ríkisstj. og óþokkasælasta, sem ráðið hefur fyrir landi á þessari öld, verður að víkja. Sú skylda hvílir á ykkur, góðir tilheyrendur, og þó fyrst og fremst á öllum vinstri mönnum á Íslandi að vera þá viðbúnir að taka til höndum við að byggja upp það, sem nú hefur verið lagt í rústir, gefa alþýðunni og allri þjóðinni nýja trú á framtíðina og láta þá trú rætast í verki.