26.10.1961
Sameinað þing: 8. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 274 í D-deild Alþingistíðinda. (3224)

18. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Björn Fr. Björnsson:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Það er alveg rétt hjá hæstv. fjmrh., að á árinu 1958 stóðu sjálfstæðismenn mjög fyrir verkföllum og það svo mjög, að aðrir voru þeim ekki fremri. Það er eðlilegt, að hæstv. fjmrh. sé ánægður með sín fjárlög, þau eru ein þau hæstu í sögu þjóðarinnar, mikill raunverulegur greiðsluhalli og tiltölulega lægst framlög til ýmiss konar opinberra framkvæmda. Að öðru leyti mun þessum ráðh. verða svarað hér á eftir.

Það er skammt liðið frá þeim tíma, er Íslendingar fengu í hendur óskorað forræði eigin mála. Baráttan fyrir frelsinu var oft tvísýn og háð við erlent vald og innlend afturhaldsog sundrungaröfl. Þegar henni lauk, var sem þjóðin varpaði af sér álagaham. Áður hafði hún átt við þröngan efnalegan kost að búa, áþjánarvald erlendra og óblíð kjör. Vonina um bjartari daga og betra gengi hafði hún alið í brjósti sér, sjálfstæðisbaráttan hafði stælt hana og hert í hverri raun, uppgjafarhugur vék frá henni, en framfaraþráin færðist í aukana. Búa skyldi að landi sínu, rækta það og bæta á hverja lund, sem unnt væri, og nýta að öðru leyti, sem föng leyfðu, lindir auðs og afls, sem gnóttir voru af. Þannig skyldi stefna í átt frá örbirgð til aukinnar velmegunar. Af fullum krafti var tekið til hendinni í markvissu umbótastarfi og því haldið fram við vaxandi velgengni allt fram til allra síðustu ára. Þjóðin vildi ekki, að slakað væri á. Hún átti líka kröfu til þess, að framfarahugur hennar og starfsorka fengi hæfilegt svigrúm til athafna og nýttist sem bezt. Þessi stefna og framkvæmd hennar var í höndum frjálslyndra umbótamanna til sjávar og sveita, sem öðrum betur skildu, að þetta var leiðin til þjóðarheilla. Til þess að ná fram að markinu, þurfti að sjálfsögðu að ýta til hliðar kyrrstöðu og afturhaldsöflum. Þau voru keyrð í kút um sinn og náðu ekki að hafa skemmandi áhrif á framvindu mála.

Í rúmlega 30 ár hafði Framsfl. forustu á hendi um þessa framfara- og uppbyggingarstefnu. Var með löggjöf frá Alþingi og margvíslegum fjárhagsstuðningi af opinberri hálfu veitt aðstoð atvinnuvegunum til lands og til sjávar, stofnlánasjóðir þeirra settir á fót, aflað með öllum ráðum fjármagns til þeirra. Ef ekki fékkst lánsfé nægilegt innanlands, var þess aflað erlendis. Slík lán voru ekki hrein eyðslulán, eins og nú tíðkast, heldur runnu beint til þjóðnytjaframkvæmda. Vaxtakjörum var haldið í skefjum, lánstími hafður svo rúmur sem tök voru á og hvers konar fyrirgreiðsla af öðru tagi viðhöfð. Við þessar aðgerðir fleygði atvinnuvegunum fram. Síldarverksmiðjur og vinnslustöðvar sjávarútvegs voru reistar og skipastóll aukinn, hafnar stórfelldar ræktunarframkvæmdir með aukinni tækni og risaátök í byggingarmálum sveitanna, mjólkur- og kjötvinnslustöðvar byggðar, afurðasölulöggjöf landbúnaðarins sett, raforkuver risu hvert af öðru og dreifing rafmagns haldið uppi af auknum krafti með ári hverju. Þetta mikla uppbyggingarstarf á þessu framfaratímabili hefur engan veginn látið sig án vitnisburðar. Það er sá mikli grunnur, sem efnahagskerfi þjóðarinnar hvílir á. Um þessar stórstígu framfarir hafði Framsfl. meginforustu. Í viðskiptum við aðra flokka hafði Framsfl. málefni atvinnuveganna til lands og sjávar ævinlega í fremstu röð og setti það sem skilyrði um samstjórn, að þeim væri séð sem bezt farborða. Þessi framkvæmdastefna var í fullu samræmi við þær hugsjónir, sem forustumenn sjálfstæðisbaráttunnar áttu í upphafi og hugðust koma fram, þegar landsmenn fengju þorra mála í sínar hendur.

Því hef ég getið þessa svo sem til minnis, að aðgerðir hæstv. ríkisstj. og stuðningsflokka hennar koma þvert á hina fyrri framkvæmda og uppbyggingarstefnu og hafa haft þegar háskalegar afleiðingar, sem þjóðin getur ekki sætt sig við og vili ekki sætta sig við. Samdráttur og afturför eru megineinkenni efnahags og afkomu íslenzku þjóðarinnar í dag. Þetta nýja tímabil, viðreisnartímabilið, hefst með kjördæmabyltingunni og fær síðan fast svipmót með viðreisnarlöggjöfinni 1960.

Þessari nýju stefnu, viðreisnarstefnunni, en það er að sjálfsögðu öfugmæli að nefna hana svo, hafa stjórnarflokkarnir haldið mjög fast fram með vaxandi krafti og ýmsum ráðum beitt í leiðinni. Svo miklu ástfóstri hefur Sjálfstfl. tekið við þessa nýjung, að hann hefur gert hana á s.l. landsfundi sínum að stefnuskráratriði. Viðreisnin, eins og hún í framkvæmd snýr að þjóðinni, er af hálfu Sjálfstfl. og Alþfl. fullnæging loforða, sem þessir flokkar gáfu þjóðinni í kosningunum 1959, en loforðin voru m.a. bætt lífskjör, stöðvun dýrtíðar, aukinn þróttur atvinnuveganna og yfirleitt vaxandi velmegun. Allt þetta, sögðu stjórnarflokkarnir, mun ég veita þér, ef þú fellur fram. Örlítill meiri hluti þjóðarinnar lét fallast fram. Átti hann sér ekki ills von, vildi að sjálfsögðu eins og aðrir framhald uppbyggingarinnar, sem þjóðin hafði búið við. Talsmenn stjórnarflokkanna kunna vel tök á því, ef þeir vilja við hafa, að velja málafylgju sinni skrautyrði og málefninu skartklæði. Sjaldan mun hrapallegar hafa til tekizt um framkvæmdir á fyrirheitum. Um það vitnar öngþveiti efnahagsmála þjóðarinnar í dag og kjaramál almennings.

Þeir ræðumenn Framsfl., sem talað hafa fyrr í þessum umr., hafa skilmerkilega dregið upp myndir af stjórnmálaástandinu, eins og það horfir við í dag, og rakið ýmsa veigamikla þætti þess og hversu uggvænlega horfir, ef fram heldur sem nú hefur verið stefnt, og hversu tímabært og eðlilegt er, að vantraust á ríkisstj, komi fram.

Ráðh. reyndu ekki í gærkvöld að verja nema að örlitlu leyti stjórnmálaþróunina frá 1959 og afleiðingar hennar. Þeir vita sem er, að hversu sem að er farið, er engan veginn hægt að breiða yfir það, sem flestir þjóðfélagsþegnar hljóta að finna með sjálfum sér. Var þó sannarlega búizt við því, að þeir snerust með oddi og egg til varnar afkvæmi sínu. Hins vegar var kunngert, að í ráði væri að gefa út nýja loforðaskrá, áætlun um, hvað stjórnarflokkarnir hyggjast gera í framtíðinni. Verður það væntanlega myndarleg bók og myndskreytt vel, svo að ekki fari á milli mála, og lítt spöruð fyrirheitin. Þannig á að vega tvisvar í sama knérunn og freista þess að dreifa hug fólks frá staðreyndum og stöðva eftir megni flóttann frá stjórnarflokkunum. Það er vissulega mikil nauðsyn, að þjóðin átti sig í tíma á slíkum endurteknum töfrabrögðum og verði viðbúin, áður en tjaldið er dregið frá og sviðið kemur í ljós.

Bjartmar Guðmundsson vék að landbúnaðarmálunum, taldi þar vel á haldið, bændur mættu vel við una og gerðu það. Hann sagði m.a., að á árinu 1960 hefðu bændur fengið nokkru hærri lán í Búnaðarbanka Íslands en áður hafði verið. Hann gætti þess ekki, sá góði maður, að þessi lán voru veitt út á framkvæmdir, sem áttu sér stað á árunum 1958, 1959 og 1960. En sannast sagna er það, að þó að mörgum málefnum þjóðarinnar sé illa farið í dag, er landbúnaðurinn ekki hvað sízt harkalega leikinn. Á kosningafundum í Suðurlandskjördæmi árið 1959 átti hæstv. landbrh., Ingólfur Jónsson, ekki nógu sterk orð til að lýsa dýrtíðinni, bændur væru að sligast undir álögunum, sem væru bæði ranglátar og ástæðulausar. T.d. taldi hann og var þá mikið í mun, að vélakaup af hálfu bænda væru frágangssök með öllu. Framsóknarsköttunum skyldi aflétt, þegar Sjálfstfl. kæmist til valda. Þessu var trúað af ýmsum.

Hver eru svo örlög landbúnaðarins undir stjórn þessa sama hæstv. ráðh.? Jú, hiklaust má segja, að öll tækni í landbúnaði sé að verða útilokuð af völdum viðreisnaráþjánar. Hvað þýðir það? Einfaldlega, að bændur gefast almennt upp og leita sér staðfestu í annarri atvinnu. Án nauðsynlegra tækja rekur enginn og fæst enginn til að reka búskap. Þetta er að ske, einmitt þegar hvað mest er þörf fyrir að auka ræktun lands og efla landbúnaðarframleiðslu eins og auðið er. Og á því sviði er sannarlega hægt að vinna stórvirki, ef réttilega væri að staðið. Ef eigi hefði komið til frábært góðæri til landsins yfirleitt undanfarin tvö ár, hefði fjöldi bænda staðið uppi örþrota sakir viðreisnaraðgerðanna þrátt fyrir þrautseigju bænda og dugnað. Hefur forsjónin gripið hér í taumana og bjargað úr heljarklóm rangsnúinnar stjórnarstefnu.

Þegar svo er ástatt orðið, að hagkvæmasta árferðið fær ekki markað spor, að segja má, til betri hags, sjá allir, hversu hörmulega er komið, enda er það mála sannast, að lengra niður efnahagslega verða bændur ekki keyrðir, án þess að þeir og þjóðin öll brenni sig alvarlega. Einróma samþykktir landsfundar sjálfstæðismanna breyta engu um þessa staðreynd.

Í hverju horfi eru annars byggingamál í sveitum og bæjum? Hverjir eru möguleikar unga fólksins og annarra þeirra, sem þurfa að koma sér upp íbúðarhúsnæði og öðrum byggingum. Þetta er stórfelldur þáttur afkomumála. Eftir að viðreisnin hefur farið um þau höndum, eru þessar staðreyndirnar: Byggingarkostnaður hóflegs íbúðarhúsnæðis árið 1959 var 350 þús. talinn, en orðinn 466 þús. í sept. 1961. Hækkun 116 þús. kr. Þar af hefur byggingarefni hækkað um 91 þús., eða 74.4%, og vinna um 25 þús., eða 11%. Í dag eru byggingarlánin um 100 þús. kr. Slíkt lán tekið í dag, ef það fengist, nægir vart til að greiða þá hækkun, sem orðið hefur einungis á byggingarefni. Lánið fer í viðreisnarhækkunina og ekkert til greiðslu á öðrum kostnaði. Þetta bendir okkur strax á þá sjálfsögðu ráðstöfun, að byggingarlánin verði hækkuð upp í að minnsta kosti 200 þús. kr., ef nokkurs samræmis á að gæta, miðað við árið 1958–59. Auk þessarar alvarlegu skekkju kemur svo til stórkostlega aukin greiðslubyrði vegna vaxtahækkunar, hinnar almennu kjaraskerðingar, ásamt lánsfjárhöftum. Þetta gildir að sjálfsögðu einnig um byggingar í sveitum. Samdrátturinn í húsbyggingarmálum, sem hefur skapazt, er hið mesta alvörumál. Í fyrirmyndarríki viðreisnarmanna er auðsætt, að útvaldir auðmenn einir eiga að hafa tökin á því að byggja. Fer það eftir öðru.

Það er ekki aðeins byggingarefnið og landbúnaðarvélar, sem dýrtíðin festi klóm sínum í. Verðiag á öllum nauðsynlegum neyzluvarningi er komið upp úr öllum veðrum, og eigi er að vita, hver hækkunin er á hverjum tíma. Það vefst hratt upp á dýrtíðarspólu stjórnarflokkanna.

Ég get ekki stillt mig í sambandi við verðlagið að minnast á höfuðfarartæki landsmanna, bifreiðina, sem er nauðsynleg, svo sem hestar voru áður fyrr. Í blöðum stjórnarflokkanna sagði fyrir nokkru: „Innflutnings- og gjaldeyrishöft vegna bifreiða leyst upp. Nú geta allir fengið nýjar bifreiðar“. Við þetta er að athuga: Áður þurfti að hefta innflutning, svo margir gátu og vildu kaupa bifreið. Nú þarf þess ekki, fæstir geta keypt sér nýja bifreið. Fátæktin er í þessu efni, sem og svo mörgu öðru, orðin skömmtunarstjóri. Af verðlagsmálunum er ósvikið viðreisnarbragð.

Ég hef aðeins stiklað á örfáum atriðum, sem til athugunar koma, þegar viðreisnarmálin eru til umræðu. Framsóknarmenn hafa frá upphafi barizt gegn viðreisnaráformum stjórnarflokkanna, og þeir sögðu fyrir um það, að þau væru glæfralegt áhættufyrirtæki, sem hlyti að hafa skemmdaáhrif á efnahagsstarfsemina og bryti í bág við framfaraþróun fyrri ára. Þjóðin þyldi ekki verðbólguflóðið. Atvinnuvegirnir til lands og sjávar kæmust á heljarþröm og kjaraskerðingin yrði óbærileg. Flest annað færi sömu leið. Allt hefur þetta komið á daginn. Síðasta gengisfellingin rak smiðshöggið á. Viðreisnin sló striki yfir framfarastefnuna, sem hægt var án erfiðleika að halda uppi með smávægilegum lagfæringum. Í landi mikilla framtíðarmöguleika, þar sem flest er enn ógert og mæta þarf sífellt vaxandi verkefnum og nútímaviðhorfum, getur og má ekki undanfarin tveggja ára öfugþróun eiga sér lengur stað. Þess vegna verður að víkja til hliðar kyrrstöðuöflum og afturfararstefnu núv. stjórnarflokka og hefja sem fyrst aðra sóknarlotu í alhliða framfara- og endurreisnarstarfi, sem hefur að marki aukna hagsmuni og hamingju þjóðarinnar. Þess vegna horfir samþykkt vantrauststill. á þskj. 18 í rétta átt og yrði fyrsta tilraun til að leiðrétta þá alvarlegu meinsemd, sem grafið hefur um sig um hríð í efnahagskerfinu og þjóðin hefur svo ómaklega og harkalega fundið fyrir. — Góða nótt.