26.10.1961
Sameinað þing: 8. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 288 í D-deild Alþingistíðinda. (3227)

18. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Hæstv. viðskmrh., Gylfi Þ. Gíslsson, talaði hér í gærkvöld hjartnæmt um, hve óekta og ljótt það væri að segja eitt, þegar menn eru í stjórnarandstöðu, en gera annað, þegar menn eru í stjórn. Þessi siðgæðispostuli skoraði á íslenzka stjórnmálamenn að leggja niður þennan ljóta „strompleik.” Stingdu hendinni í eigin barm, herra siðgæðispostuli. En mundu, að það er ekki gott að kasta grjóti, þegar menn búa í glerhúsi, herra ráðherra. Hvað sagði þessi hæstv. ráðh. um þá aðgerð, sem nú er harðast deilt um, það að ræna gengisskráningarvaldinu af Alþingi, þegar hann var hagfræðiprófessorinn Gylfi Þ. Gíslsson í stjórnarandstöðu 1950? Hann sagði eftirfarandi, orðrétt, í umr. um gengisskráningarfrv. 15. marz 1950:

„Þá er gert ráð fyrir því í 2. gr., að Alþingi afsali sér þýðingarmiklu valdi, sem það hefur haft allt frá 1924 til að ráða gengi krónunnar, og Landsbankanum fengið það í hendur. Ég álít, að það komi ekki til mála, að Alþingi afsali sér þessum rétti. Sérstök ástæða er og til að gagnrýna, hvernig komizt er að orði í niðurlagi þessarar greinar, en þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Landsbanka Íslands er skylt að taka sérstaklega til athugunar gengisskráningu íslenzkrar krónu, þegar almenn breyting verður á kaupgjaldi önnur en sú, sem kveðið er á um í lögum þessum.” Nú er hagfræðingum þeim, sem undirbjuggu þetta frv., auðvitað ljóst, að kaupgjald getur haft áhrif á gengi. En þeim hlýtur líka að vera ljóst, að þar er aðeins um að ræða einn þátt af mörgum, sem áhrif hafa á gengið, og alls ekki hinn mikilvægasta, heldur eru það markaðsskilyrði og framleiðslugeta þjóðarinnar í heild. En hvað á það að þýða að nefna kaupgjaldið eitt? Með þessu er verið að hóta launþegasamtökunum í landinu. Það er ekki verið að tala um að breyta genginu, ef verðlag breytist erlendis, en því er hótað, að gengisbreyting skuli verða framkvæmd, ef kaupgjald hækkar. Það hafa engin samráð verið höfð við launþegasamtökin í sambandi við þetta frv., og er það illt. Hitt er þó verra, að í því skuli vera slíkar hótanir í garð launþegasamtakanna. Ég hef af þessum ástæðum leyft mér að bera fram á þskj. 429 brtt. um, að þessi grein skuli felld niður:

Svo mörg voru þau orð Gylfa Þ. Gíslssonar fyrir 11 árum. Og hvað gerir hann nú sem ráðh.? Hann gefur út sjálfur með aðstoð forseta, sem var sömu skoðunar í þessu máli og hann 1950, brbl. til þess að svipta Alþingi þessu valdi, fremur þar með versta einræðisverk á Íslandi á þessari öld og lætur síðan beita þessum ólöglegu brbl., ekki til þess að hóta launþegasamtökunum, heldur til þess að niðast á þeim og ræna af verkalýðnum öllum kauphækkunum, er hann samdi um í frjálsum samningum, og meira til.

Er þetta bara „strompleikur”, herra ráðh., eða er það annað verra? Eru það ekki heldur svik og gerræðisverk einræðissinnaðrar ríkisstj., sem svikið hefur öll sín loforð og treystir nú á valdið, ofbeldið eitt til þess að kúga alþýðu Íslands? Og þegar svo er klykkt út eins og í umr. í gærkvöld með hótunum manns eins og Jóns Þorsteinssonar um ofbeldislög gegn verkalýðshreyfingunni, þegar aumustu húskarlar auðvaldsins á Íslandi eggja afturhaldið í landinu til fantaskapar við alþýðu manna, þá er sannarlega tími til kominn, að alþýðan sameinist og láti hart mæta hörðu, ef afturhaldið kýs að láta sverfa til stáls.

Þegar vér, fulltrúar hinna vinnandi stétta landsins, nú deilum á hæstv. ríkisstj., þá er ekki barizt um, hvort hún eigi að fá að sitja áfram, heldur fyrst og fremst hitt, hvort hún eigi að fá að beita ríkisvaldinu miskunnarlaust til kúgunar og rána gagnvart alþýðu landsins og hvort henni eigi að takast að enda sinn illa feril með því að afmá sjálfsforræði íslenzks þjóðfélags og innlima ísland sem óaðskiljanlegan hluta í Vestur-Evrópustórveldið, hið nýja ríki auðvaldsins, sem er að vaxa upp undir nafni Efnahagsbandalagsins.

Íslendingar ! Við lifum nú á hættulegra skeiði en við höfum nokkru sinni lifað á síðan við urðum til sem þjóð, jafnvel hættulegra en fyrir réttum 700 árum, á árinu 1261, þegar þáverandi yfirstétt landsins var að búa oss þau illu örlög, sem þjáðu oss í 6 aldir og höfðu nærri riðið þjóð vorri að fullu. Höfðingjar Sturlungaaldarinnar höfðu með svikum og eiðrofum, ránum og gripdeildum þjarmað svo að alþýðu Íslands, sem þeir áður höfðu stolið jörðunum frá, og mótspyrna bændaalþýðunnar að mestu brotin á bak aftur, og þegar þróttur alþýðunnar var þrotinn, var samvizkulausum yfirstéttarmönnum, sem reka erindi erlendra drottna, leiðin greið til innlimunar Íslands í erlent ríki. Svo var það 1262. Þeir, sem verstir voru eiðrofanna og yfirgangsmannanna, voru frakkastir í áróðri og ógnunum. Svo segir í Sturlungu:

„Gissur jarl safnar nú liði að sér. Hann sendir menn sína norður um land til Skagafjarðar og Eyjafjarðar að kveðja lið upp og gaf landráðasök þeim, er eigi fóru.”

Íslendingar ! Hvort heyrið þið þennan tón Gissurar jarls í dag af síðum Morgunblaðsins og annarra málgagna ríkisstj., þegar hver sá aðili, er eigi vill innlima Ísland í ríki Efnahagsbandalagsins, allt frá stjórn Alþýðusambandsins til vissra framsóknarmanna, er brennimerktur sem erindreki heimskommúnismans og gefin landráðasök? Þegar svo er komið í landi voru og þjóð vor stendur frammi fyrir ákvörðunum, sem eru þær örlagaríkustu, er hún hefur nokkru sinni tekið á allri sinni þjóðarævi, og geta valdið útþurrkun íslenzks þjóðernis, ef röng stefna er tekin þá er það skylda hvers einasta Íslendings að kryfja til mergjar, hvað hér er að gerast, hvað í húfi er og hverjar orsakir liggja til svo ógnþrunginna ákvarðana valdhafanna.

Það, sem gerzt hefur á landi voru undanfarin ár, er þetta: Þeir valdamenn íslenzkir, sem handgengnastir eru erlendum auðmannastéttum, hafa að ráði erlendra erindreka, sem gerzt hafa þaulsætnir á efnahagslegum biskupsstólum Íslands, afráðið að afnema það ástand, að við Íslendingar reynum að reka þjóðarbúskap vorn sjálfstætt til sjálfsbjargar þjóð vorri. Kardinálar heimsauðvaldsins kalla það frekju mikla af kotþjóð vorri, ef hún vill ekki hafa Mammon konung alráðan yfir sér og hlíta gróðalögmálum hans, heldur vill brjótast í því í blíðu og stríðu að stjórna þjóðlífi voru að eigin lögum og hafa að engu boðskap erkibiskupa efnahagskirkna auðvaldsins úti í löndum. Þessum valdamönnum og stefnu þeirra er aðeins eitt heilagt: gróðinn. Maðurinn, manngildið og lífshamingja fjöldans er þeim einskis virði. Þessir valdhafar hófu aðgerðir sínar gegn almenningi í landinu með allsherjarsamningsrofum 1. febr. 1959, er vísitalan var afnumin með ólögum og allir samningar verkamanna og atvinnurekenda þar með sviknir og rofnir. Því næst hófust gripdeildirnar með gengislækkuninni í marz 1960. Þegar komið var fram að 1. maí 1961, sýndu skýrslur, að þessir þokkalegu höfðingjar ránsflokkanna, er með ríkisvaldið fóru, höfðu stolið fjórðungi af kaupi hvers manns, er vinnur fyrir launum á Íslandi, miðað við laun hans í janúar 1959, og voru þar með teknir að ræna íbúðum manna og íbúðarvonum. Þá reis almenningur upp, þoldi ágengni auðmannavaldsins ekki lengur og hóf verkfall. Ríkisstj. hafði lýst því yfir hátíðlega, að hún mundi láta allar vinnudeilur atvinnurekenda og verkamanna afskiptalausar. Hún mundi ekki sleppa kauphækkunum inn í verðlagið. Atvinnurekendur yrðu að standa á eigin fótum og verkamenn skyldu vera frjálsir að semja. En þegar verkamenn svo sigra og knýja fram hóflega kauphækkun, þá kasta þessir valdhafar hlutleysis- og lýðræðisgrímunni. Þá rýfur ríkisstj. eigin eiða, fremur griðrof á alþýðu manna. Þá gerir ríkisstj. ríkisvaldið tafarlaust að vægðarlausu kúgunarvaldi, sviptir verkamenn frelsinu og ávöxtum þess, rænir Alþingi gengisskráningarvaldinu, lætur greipar sópa um kaup verkafólks og stelur af því á þremur mánuðum öllu, er það hafði áunnið sér með frjálsum samningum. Illvirki þetta, gengislækkunin í ágúst, var í senn gerræði og einræði. Með henni var ekki aðeins verkamönnum og launþegum öllum valdið stórtjóni, heldur töpuðu bændur og atvinnurekendur tugum milljóna króna, þjóðarbúið beið óbætanlegan hnekki, sparifjáreigendur biðu stórtap, og áliti landsins var hnekkt. Aðeins erlendir auðmenn græddu, en það virðist komið svo, að þeirra hagur sé sá eini, sem einræðisklíka sú, sem nú stjórnar landinu, ber fyrir brjósti. Og hvernig stendur á því? Benedikt Gröndal, hv. 5. þm. Vesturl., viðurkenndi orsökina í ræðu sinni um fjárl. nýlega. Hann sagði orðrétt:

„Þó er rétt að minnast þess, að nauðsynleg erlend lán til framkvæmda á næstu árum fást því aðeins, að gjaldeyrismál okkar séu í góðu lagi og þjóðarbúið ekki rekið með halla. Ef ekki hefði verið gripið til gengislækkunarinnar á þessu hausti, er algerlega útilokað, að það hefði verið hægt að hugsa til nýrrar framkvæmdaáætlunar í byrjun næsta árs.”

Svo mörg voru þau orð. M.ö.o., valdamenn Íslands álíta sig svo háða erlendum auðdrottnum, að þeir verði að hlýða boði þeirra og banni í hvívetna. Kannast menn ekki við hið sama hjá þeirri yfirstétt Sturlungaaldar, sem steypti Íslandi í glötun? En þessir fulltrúar erlends auðs og valds á Íslandi láta sér ekki nægja að ræna alþýðuna launum erfiðis hennar. Þeir eru líka að reyna að drepa sál þjóðarinnar, ræna hana trúnni á sjálfa sig, trúnni á, að hún sé fær um að stjórna landi sínu sjálf og ein. Í tvö ár hafa öll málgögn erlends valds á Fróni verið látin berja þá lygi inn í þjóðina, að hún hafi lifað yfir efni fram. Og kreppuklerkar Mammons hafa verið látnir þylja það sýknt og heilagt yfir þjóðinni, að hún hafi undanfarna áratugi verið ófær um að sjá fótum sínum forráð og verði því nú að fela sig á vald Mammoni, hinum lítilsigldasta guðanna, svo að notuð séu lýsingarorð Miltons, og gróðalögmálum hans.

Sannleikurinn er, að þjóðin hefur undanfarna tvo áratugi unnið langt yfir getu fram, unnið lengri vinnutíma en nokkur önnur Norðurálfuþjóð, og hundruð dugandi Íslendinga hafa dáið langt fyrir aldur fram beinlínis af þrældómi. Þjóðin hefur lagt þriðjunginn af öllu, sem hún hefur unnið, til hliðar í varanleg verðmæti. Hún hefur á þessum tveimur áratugum skapað meiri varanleg efnahagsleg verðmæti en á heilum öldum áður samanlagt. Og hún hefur aldrei lífað við betri lífskjör á allri sinni ævi. En af því að þjóðin hefur ekki borið gæfu til að taka upp sósíalistíska búskaparhætti, koma á viturlegri heildarstjórn á þjóðarbúskapnum, þá hefur fjárfestingin farið aflaga, sakir óhagsýni og stjórnleysis valdhafanna ekki gefið eins hraða framleiðsluaukningu og áætlunarbúskapur hefði gert. En í staðinn fyrir að verða við síendurteknum kröfum alþýðunnar um að taka upp áætlunarbúskap og tryggja þar með a.m.k. 10% aukningu þjóðarframleiðslunnar á ári, eins og er lágmark í sósíalistískum löndum, þá reyna valdhafarnir og áróðurshagfræðingar þeirra einmitt að nota sjálfa óreiðu og óstjórn auðvaldsskipulagsins, sem alþýðan heimtar afnumda, sem rök fyrir því, að þjóðin verði að gefa upp efnahagslegt sjálfstæði sitt og láta innlimast í ríki erlendra auðkonunga.

Valdaklíkan á Íslandi örvæntir um það eftir ósigur sinn í sumar að geta haldið völdunum gegn sameinaðri alþýðu landsins. Þess vegna greip valdaklíkan til þess örþrifaráðs efnahagslegrar harðstjórnar, sem gengislækkunin 1. ágúst var, og þess vegna býr hún sig undir að koma landinu sem skjótast undir erlenda auðkonunga, fá þá hingað sem bandamenn sína gegn íslenzkri alþýðu og herra. Það á að gerast með því að láta Ísland ganga inn í Efnahagsbandalagið, og það átti upphaflega að æskja inngöngu í það þjóðinni að óvörum, strax eftir 16. ágúst í sumar. Öll helztu samtök atvinnuveganna voru á grundvelli ófullnægjandi og sumpart rangra upplýsinga látin lýsa stuðningi við slíka inngöngu fyrir 16. ágúst. Þegar Alþýðusambandið eitt þverneitaði, var það óðar brennimerkt í Morgunblaðinu 19. ágúst sem erindrekstur fyrir heimskommúnismann að vera á móti svo sjálfsögðum hlut sem inngöngu Íslands í Efnahagsbandalagið.

Hvað er Efnahagsbandalagið? Það er nýtt voldugt auðvaldsríki, sem verið er að skapa úr gömlum þjóðlöndum Evrópu, svo sem VesturÞýzkalandi, Frakklandi, Ítalíu og nú máske Englandi og Danmörku, eins konar Bandaríki Vestur-Evrópu. Grundvallarlög þessa nýja ríkis eru, að auðmenn þessa ríkis skuli hafa sama rétt til að eignast lönd og lóðir, fyrirtæki og fésýslustofnanir í hvaða þjóðlandi sem er og ríkinu tilheyrir. Það þýðir, ef Ísland er innlimað í ríki Efnahagsbandalagsins, að þá hafa þýzku og ensku auðhringarnir og aðrir rétt til þess að kaupa upp hvaða eignir á Íslandi sem væri, reisa hér og reka útgerð og hvers kyns atvinnu, flytja hér inn verkafólk hvaðan sem er, m.ö.o.: leggja Ísland efnahagslega undir sig. Og þegar svo væri komið, mætti ætla, að mörgum Íslendingum þætti vera orðið þröngt fyrir dyrum í sínu eigin landi, ekki aðeins alþýðufólki, heldur og íslenzkum atvinnurekendum.

Ríkisstj. þorði ekki að sækja um inngöngu strax, er það kom í ljós um miðjan ágúst, hve skiptar skoðanir voru á Norðurlöndum um þetta örlagaríka mál. En auðséð er á öllu, að unnið er að fullu kappi að tjaldabaki að innlimun Íslands í þetta nýja stórveldi, sem verður undir ægishjálmi vestur-þýzkra auðhringa, er áður gerðu Hitler út og hleypt hafa tveimur heimsstyrjöldum af stað. Eða hvað voru þeir hæstv. fjmrh. og menntmrh., Gunnar Thoroddsen og Gylfi Þ. Gíslsson, að gera í Bonn dögum saman að afloknum Vínarfundi? Það hefur verið hljótt um þeirra leynimakk við „þann gamla“ þar, eins og stundum var og um samninga stórhöfðingja Sturlungaaldar við Hákon gamla í Noregi.

Þegar erlendir auðkýfingar hefðu rétt til þess að kaupa upp allt á Íslandi, sem þeim þóknaðist, og flytja inn erlent fólk að vild, þá væri efnahagslegu sjálfsforræði og pólitísku valdi íslenzku þjóðarinnar yfir Íslandi lokið. Þannig á að svíkja allt, sem vér Íslendingar höfum barizt fyrir öldum saman, svíkja það, að Ísland sé fyrir oss Íslendinga sjálfa og oss eina. Þannig er verið að brugga banaráð, fyrst sjálfstæði voru og svo síðar meir þjóðerni voru, þegar við værum orðnir minni hluti í þessu fagra og auðuga landi. Hvernig geta nokkrir Íslendingar sokkið svo djúpt að stefna að slíku, blindandi eða vísvitandi?

Þegar menn taka að hafa gróðann fyrir sinn guð og hershöfðingja Atlantshafsbandalagsins fyrir sína spámenn, þarf ekki nema áratugs vist í slíkum félagsskap, til þess að menn fari að verða reiðubúnir til að fórna Íslandi og íslenzkri þjóð á gróðastalli auðvaldsins í Evrópu. Svo hefur farið valdamönnum vorum. Þeir reyna nú að afsaka sig fyrir þjóðinni með því, að þeir muni gera sérsamninga og bjarga þjóðinni þannig frá því versta, sem Efnahagsbandalaginu fylgi. Hæstv. forsrh., Bjarni Benediktsson, sagði hér í gærkvöld: Við munum afla skilnings á sérstöðu Íslands. — Kannizt þið við orðalagið? Við þekkjum þeirra sérsamninga. Vont er þeirra ranglæti, verra er þeirra réttlæti, stendur þar. Vondir eru samningar þeirra, svo sem samningurinn um Atlantshafsbandalagið, verri eru þeirra sérsamningar, - eða hvort munið þið, að því var yfirlýst 1949 við inngönguna í NATO, að sérsamningar hefðu verið gerðir, að skilnings á sérstöðu Íslands hefði verið aflað um, að aldrei yrði her á Íslandi á friðartímum. Og tveimur árum síðar, 1951, var þessi sérsamningur framkvæmdur á þann hátt, að hingað var sendur her og hefur verið hér síðan.

Íslendingar, trúið engu orði þeirra. Ef þessi valdaklíka kemst upp með það að tengja Ísland á einhvern hátt við Efnahagsbandalagið, þá verða þau tengsl við fyrsta tækifæri gerð að þeim fjötri, sem getur orðið þjóð vorri að fjörtjóni. Það er tignunin á peningunum og trúin á auðvaldið, sem er að leiða valdamenn Íslands og flokka þeirra til fjörráða við þjóðina, eins og valdagirnin leiddi vissa höfðingja Sturlungaaldar sömu leið. En eins og höfundur kristindómsins sagði við kristna menn: Þér getið ekki þjónað bæði Guði og Mammon, — svo verða og Íslendingar að gera sér ljóst, að þeir verða að velja á milli Íslands og Efnahagsbandalagsins. Og vér skulum muna, að Efnahagsbandalagið er í rauninni Atlantshafsbandalagið í hærra veldi, sem eitt ríki, þar sem búið er að afnema sjálfsforræði þeirra þjóða í því, sem nú eru sjálfstæðar, og steypa þeim saman í eitt. Það er ekki nóg að segjast elska Ísland í áferðarfallegum ræðum 17. júní. Menn verða líka að sýna það, þegar Íslandi ríður á og öll framtíð þjóðarinnar er í veði, að menn vilji berjast fyrir frelsi þess og jafnvel fórna stundarhagsmunum fyrir frelsi þess og afkomenda vorra, ef þess gerist þörf og erlend stórveldi færu að reyna að þjarma að oss, eins og Atlantshafsbandalagið með England í broddi fylkingar áður hefur sýnt sig í.

Við skulum ekki fara í neinar grafgötur um, hvað innganga í Efnahagsbandalagið þýðir. Hér er á ferðum alvarlegasta og hættulegasta málið, sem þjóð vorri hefur borið að höndum síðan Ísland hyggðist. Ég tel mig með afskiptum mínum af íslenzkum stjórnmálum hafa frekar reynt að bera sáttarorð milli flokka og stétta, þegar þess hefur verið þjóðarþörf, heldur en hitt, þó að ég hafi verið og sé enn reiðubúinn til að berjast, ef nauðsyn krefur. En í þessu máli er engin sætt til. Annaðhvort eru menn með því, að íslenzkt þjóðerni þróist í þessu landi og íslenzk þjóð lífi hér ein og ráði landinu sjálf, eða menn eru á móti því og verða að taka afleiðingunum. Íslendingar munu ekki gefast upp 1962, eins og þeir gáfust upp 1262 og gengu erlendu valdi á hönd. Öll okkar sára reynsla í sjö hundruð ár og aldalangt frelsisstríð kúgaðra þjóða er ekki unnið fyrir gíg. Íslendingar hafa lært og munn standa á verði.

Íslenzk alþýða! Það er barizt um rétt þinn og frelsi þitt til að lífa sómasamlegu lífi í þínu eigin landi. Núv. ríkisstj. og ránsflokkar hennar hafa rænt þig fjórðungi launa þinna á tveimur árum. Þeir hóta að beita þrælatökum ríkisvaldsins til að kúga þig og arðræna áfram, steypa þér niður í fátæktina, sem feður þínir og mæður bjuggu við. Þannig eru þeir að búa í haginn fyrir erlent auðvald, svo að því lítist það gróðavænlegt að arðræna þig, en gera þá að þessum feitu þjónum.

Íslenzk alþýða, ristu upp gegn þessari kúgun með öllum þeim ráðum, sem þér eru tiltæk. Gerðu hvern vinnustað að vettvangi umræðna og baráttu út af þeirri launakúgun, sem ríkisstjórnardýrtiðin er. Aleflið öll verkalýðsfélög landsins með virkri þátttöku ykkar og búið þau þannig undir úrslitabaráttuna. sem hnekkir kaupráni einræðisherranna í stjórnarráðinu. Munið, að þið, launþegarnir, eruð þrír fjórðu hlutar þjóðarinnar. Ykkar er mátturinn, hvenær sem þið standið sameinuð. En vitið um leið, að varanlegar kjarabætur, sífelldar raunhæfar kauphækkanir frá ári til árs án verðbólgu og dýrtíðar fást aðeins með því, að hinar vinnandi stéttir heila og handa, sjávar og sveita sameinist á vettvangi stjórnmála í þeim samtökum alþýðunnar, er taki meiri hluta á Alþingi og myndi með öllum frjálshuga Íslendingum og framsæknum íslenzkum atvinnurekendum þá þjóðfylkingu Íslendinga, er taki ríkisvaldið úr höndum fulltrúa hins erlenda valds.

Alþýða Íslands! Á þínar herðar er nú lagt helgara hlutverk en lagt hefur verið nokkru sinni fyrr á herðar nokkurrar stéttar í Íslandssögunni. Munið það, alþýðumenn og konur, að með því að frelsa ykkur sjálf undan ranglæti og kúgun ríkjandi valds, þá frelsið þið og Ísland frá þeirri innlimun í Efnahagsbandalagið, sem yfir oss vofir, frá þeirri ógn, að þjóðerni vort verði sundur malað í þeirri gróttakvörn auðvaldsins í Evrópu.

Það er ljóst, hvernig um þessa vantrauststillögu fer hér á Alþingi, eins og það nú er skipað. En það vantraust þjóðarinnar, sem verður upp kveðið í öllum vinnustöðvum landsins, í verkalýðsfélögunum og verkföllunum og að síðustu í kosningum til Alþingis, sem orðið geta að ári, — það vantraust mun fella þessa ríkisstj. og afstýra þeim voða, sem stórhættuleg stefna hennar leiðir yfir þjóðina. — Góða nótt.