26.10.1961
Sameinað þing: 8. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 294 í D-deild Alþingistíðinda. (3228)

18. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Góðir hlustendur. Hv. 4. þm. Sunnl. minntist á framsóknarskattana hér áðan. Það er rétt, að ég gerði þá að umtalsefni í síðustu kosningum. Bjargráðin 1958 voru sérstaklega þung fyrir bændur, þar sem landbúnaðurinn var látinn taka á sig skattana án þess að fá fulla tryggingu fyrir sölu afurðanna eins og aðrir framleiðendur höfðu. Voru bændur þess í stað látnir bera hallann sjálfir af því, sem flutt var út.

Það er rangt, að ég hafi lofað lækkun á vélum. En ég benti á misréttið, sem bændur bjuggu við í sambandi við sölu afurðanna úr landi. Það misrétti hefur verið lagfært, og bændur hafa nú fengið þá tryggingu, sem aðrir útflytjendur hafa ekki.

Umr. þær, sem nú fara fram um vantrauststill. framsóknarmanna, eru að ýmsu leyti gagnlegar. Greinilega kemur fram, hversu stjórnarandstaðan er laus við að hafa nokkra raunhæfa stefnu. Greinilegt er, að framsóknarmenn og kommúnistar hafa ekki öðlazt víðsýni, skilning eða úrræði í sambandi við þau vandamál, sem að þjóðinni steðja, fram yfir það, sem þeir höfðu til að bera í árslok 1958, þegar þessir flokkar gáfust upp við að stjórna þjóðarfleyinu. Vantrauststill. er dæmi um það, hversu einstakir menn og flokkar geta orðið blindir í eigin sök.

Fyrri flm. vantrauststill. talaði hér í gærkvöld, og eins og vænta mátti, var allt, sem hann sagði um þjóðmálin, neikvætt og einkenndist af sama stefnuleysinu, sem ráðið hefur gerðum Framsfl. í seinni tíð. Ræðumaður ræddi nokkuð um verkföllin s.l. sumar og þakkaði samvinnufélögunum að hafa haft forustu um samninga við launþega. Eftir að Framsókn hafði á þennan hátt veitt kommúnistum nægilega aðstoð við skemmdarverkin, talaði hv. 2. þm. Vestf. af mesta sakleysi um hina slæmu dýrtíðarskriðu, sem komizt hafi af stað.

Hv. þm. var svo óheppinn að tala um vísitöluhækkun og dýrtíðardraug frá árinu 1942. Fróðlegt er að gera sér grein fyrir því, hvers vegna vísitalan og dýrtíðin hækkaði þá. Það var vegna þess, að framsóknarmenn höfðu lengi haldið bændum landsins í spennitreyju, haldið afurðaverðinu niðri, svo að við borð lá, að heilar sveitir tæmdust, eftir að atvinna fór vaxandi við sjávarsíðuna og varnarliðið borgaði hátt kaup fyrir litla vinnu. Það var þetta haust, sem sjálfstæðismenn fengu aðstöðu til að bjarga bændastéttinni með því að hækka kjötverðið um 100% frá því, sem það var verðlagt af hendi Framsóknar. Í kjölfar þess hækkaði mjólkurverðið. Eftir þessa leiðréttingu var mörgum sveitahreppum forðað frá auðn. Bændur hættu við að fara í varnarliðsvinnu, landbúnaður var áfram rekinn á Íslandi. Þessi leiðrétting á afurðaverði landbúnaðarins var ekki aðeins gerð vegna bændanna. Þessi leiðrétting var þjóðfélagsleg nauðsyn, til þess að einn aðalatvinnuvegur og sá elzti færi ekki í rúst. Margra ára stjórnartímabil Framsfl. var vel á veg komið að lama framleiðslu landbúnaðarins með því að halda afurðaverðinu óhæfilega lágu. Framsóknarmenn gera kröfur fyrir hönd landbúnaðarins, þegar þeir eru ekki í stjórn. Þegar þeir eru í stjórn og geta haft áhrif á gang málanna, gleyma þeir hagsmunum þess atvinnuvegar, sem þeir telja sig helzt vera málsvara fyrir.

Í gærkvöld talaði hér Framsóknarþingmaður og taldi, að nú væri þrengt að bændum. Þessi sami þm. hafði lágt og sagði lítið, þegar hann var stuðningsmaður vinstri stj. og hagsmunir bænda voru fyrir borð bornir. — Þessi hv. þm. talaði um hátt verð á vélum, sementi, timbri og öðrum nauðsynjum. Slíkar raddir heyrðust einnig um þetta sama fyrstu árin eftír gengislækkunina 1950, en að þeirri gengislækkun stóðu framsóknarmenn. Það var ekki fyrr en á árinu 1952, sem jafnvægi komst á eftir þá gengislækkun. Þannig mun það einnig verða nú, ef frekari skemmdarverk verða hindruð, að jafnvægi kemst á og sú verðhækkun, sem leiddi af gengislækkuninni, mun ekki verða tilfinnanleg bændum né öðrum landsmönnum eftir hæfilegan tíma.

Hv. þm. talaði um, að ræktun og skurðgröftur færi minnkandi. Það er ofur eðlilegt, að skurðgröftur fari minnkandi um sinn, þar sem þannig er komið í mörgum hreppum, að grafið hefur verið allt það land, sem þörf er á að þurrka. Ræktunarframkvæmdir eru miklar og framleiðsluaukning landbúnaðarvara meiri á s.l. ári og yfirstandandi ári en verið hefur um langt tímabil. Það er þó nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því, að ræktunar- og framleiðsluaukning getur ekki orðið eins mikil eftirleiðis, nema fólkinu fjölgi, sem við landbúnað vinnur, og það er nauðsynlegt að vinna að því, að svo megi verða.

Framsóknarmenn halda því fram, að lög um lausaskuldir bænda séu ekki sambærileg þeim lögum, sem út voru gefin vegna skuldaskila sjávarútvegsins. Þannig er því þó varið að því leyti, sem um sambærilega úrlausn er að ræða. Ekki munu bændur sjálfir greiða þá vexti af þessum lánum, sem á bréfunum eru, nema þá að örlitlu leyti, en sjávarútvegurinn greiðir alla vextina af lánunum og býr því við óhagstæðari kjör að þessu leyti. Vonandi er sú skoðun röng, sem Jón Pálmsson hélt fram hér á Alþ., að kaupfélögin séu treg eða ófáanleg til þess að greiða fyrir skuldaskilum, nema þau verði skylduð til þess með lögum. Það er mikið hagræði fyrir bændur að breyta lausaskuldum sínum í 20 ára lán, eins og þeir eiga nú kost á.

Samgöngur um byggðir landsins fara ört batnandi, enda er það höfuðskilyrði til þess, að byggð haldist og til þess að byggðin þéttist. Rafvæðingunni miðar vel áfram, og munu 96% þjóðarinnar hafa rafmagn eftir að 10 ára áætluninni er lokið. Eftir þann tíma ber að stuðla að því, að þeir, sem eru án rafmagns, geti fengið það á einn eða annan hátt.

Þegar framsóknarmenn tala með yfirlæti eins og þeir hugsi sérstaklega um málefni landbúnaðarins og hinna dreifðu héraða, er fróðlegt að rifja nokkur atriði upp, sem sýna, hversu yfirlæti þeirra stangast á við allar staðreyndir. Það er staðreynd, að þann tíma, sem Framsókn hefur verið utan stjórnar, hafa hin þýðingarmestu lög verið afgreidd fyrir landbúnaðinn. 1946 voru raforkulögin samþykkt á Alþingi. Þá var Framsókn utan stjórnar. Eftir þessum lögum fer rafvæðingin fram um land allt. 1946 eru lög um landnám, nýbyggðir og endurbyggingar í sveitum samþykkt, en þá er Framsókn einnig utan stjórnar. Eftir þessum lögum hefur ræktun og byggingar í sveitum landsins verið framkvæmd. 1946 eru lög um jarðræktar- og húsagerðarsamþykktir einnig samþ. á Alþingi. Og eftir þeim lögum hefur verið unnið að skurðgrefti, þurrkun landsins og margháttuðum framkvæmdum í sveitum landsins.

Framsóknarmenn gætu sagt: Þetta hefði allt getað gerzt, þótt við hefðum verið í ríkisstjórn.

Ástæðulaust er að neita því. En á hitt ber að benda, að sá flokkur, sem er utan stjórnar, hefur ekki forgöngu um mikilvæga lagasetningu á Alþ., og verður það því hlátursefni margra, þegar framsóknarmenn þakka sér sérstaklega þá lagasetningu, sem hér hefur verið lýst. Lög um framleiðsluráð landbúnaðarins, þ.e. afurðasölulögin, eru frá árinu 1947. Þá voru framsóknarmenn komnir í ríkisstj., enda hafa þeir hrósað sér mikið af þeirri löggjöf. Ekki skal úr því dregið, að þessi lög voru um margt góð. En þau voru meingölluð að því leyti, að þau tryggðu á engan hátt, að bændur fengju það verð fyrir afurðirnar, sem þeim var reiknað í verðgrundvellinum og sex manna nefnd var sammála um, að þeim bæri að fá. Þessari löggjöf hefur oft verið lýst, og skal því ekki tímans vegna farið nánar út í það hér. En bændum er kunnugt, að lögin voru fyrst lagfærð, eftir að Framsfl. var farinn úr ríkisstj. 1959, og lagfæringin gerir það nú mögulegt að greiða bændum það verð, sem talið er að þeim beri samkvæmt verðgrundvellinum. Þetta var gert með því, að ríkissjóður greiði þann halla, sem er á útfluttum vörum, en áður urðu bændur að bera hallann. Þetta var mjög tilfinnanlegt á verðbólguárunum 1957 og 1958. En Framsóknarbóndinn, sem talaði hér í gærkvöld, og aðrir Framsóknarþingmenn gerðu ekki tilraun til þess að rétta við í bændastéttarinnar þágu. Að þessu sinni varð ekki samkomulag í sex manna nefnd um verðlagningu landbúnaðarvara. Fulltrúar bænda töldu nú eins og áður, raunar alltaf áður, að verðgrundvöllurinn væri ekki réttur. Í 18 ár hefur svo verið talað og barizt fyrir leiðréttingu. g þrjú skipti áður hefur yfirnefnd úrskurðað verðið. Þá skekkju, sem enn er á grundvellinum, þarf vitanlega að lagfæra, og er það baráttumál framleiðsluráðs.

Þegar talað er um, að viðreisnarlöggjöfin þrengi hagsmuni bænda og annarra stétta þjóðfélagsins, ber að hafa í huga, hvernig kjör almennings væru í dag, ef vinstri stefnan hefði ráðið lengur. Hv. 2. þm. Vestf. talaði um það í gærkvöld, að þm. hefðu ekki verið kosnir 1959 til þess að koma á óðaverðbólgu, heldur til þess að kveða verðbólguna niður. Það var óheppilegt fyrir þennan þm. að minnast á óðaverðbólgu, því að það hefur hann gert áður við eftirminnilegt tækifæri, en það var þegar hann, fyrrv. hæstv. forsrh., lýsti uppgjöf og úrræðaleysi vinstri stjórnarinnar. Það var þá sem hann sagði, að óðaverðbólga væri skollin yfir. Það er þessi óðaverðbólga, sem núv. ríkisstj. hefur verið að glíma við og gert ráðstafanir til að verði kveðin niður með viðreisnarlöggjöfinni. Það eru verðbólguhöfundarnir úr vinstri stjórninni, sem hafa tafið fyrir því, að áhrif verðbólgunnar fjari út. Stjórnarandstöðunni heppnaðist að vinna skemmdarverk á efnahagskerfinu s.l. sumar. Verði það reynt öðru sinni, verður að hindra það og koma í veg fyrir, að það verði eyðilagt, sem eitt getur bjargað efnahags- og atvinnumálum þjóðarinnar, en það er sú viðreisnarlöggjöf, sem sett var í ársbyrjun 1960.

Stjórnarandstaðan gerir ítrekaðar tilraunir til þess að blekkja almenning í landinu. Sagt er, að framsóknarmenn hafi góða aðstöðu til þess, þar sem Tíminn sé eina blaðið, sem kemur á mörg heimili, sérstaklega á Norðaustur og Austurlandi. Vonandi er, að fólk í þessum landshlutum sem öðrum láti sér ekki nægja að lesa málgagn Framsfl., sérstaklega eftir að það er sannað, að blaðið fer með blekkingar.

Iðulega hefur Tíminn og reyndar Þjóðviljinn líka talið, að gjaldeyrismál þjóðarinnar hafi ekki batnað síðan viðreisnin hófst. Því hefur einnig verið haldið fram, að sparifjáraukning hafi ekki verið meiri en áður og jafnvel minni. Einnig hefur verið fullyrt, að fjárhagur ríkisins væri í kaldakoli og greiðsluhalli stórkostlegur. Ætlast verður til, að þeir, sem lesa Tímann og Þjóðviljann og þær fullyrðingar, sem þar eru viðhafðar, vilji sannprófa, hvort rétt er með farið. Leiðin til þess að sannprófa, hvort þessi blöð segja satt eða eru að blekkja, er sú að fletta upp í Hagtíðindum, sem til eru hjá hreppstjórum, oddvitum, kaupfélögum og víðar. Þeir, sem hingað til hafa látið sér nægja Tímann einan, en sannfærast um, að hann blekkir og skrökvar að lesendum, ættu ekki að láta sér nægja lengur að lesa þetta eina blað, og er þá mikið fengið, ef almenningur í landinu leitar eftir réttum heimildum og myndar sér skoðun á grundvelli þess, sem sannast er,

Undanfarna áratugi hafa samtök launþega haft forustu um kauphækkanir. Á fyrstu árum launþegasamtakanna mun oft hafa verið eðlileg ástæða fyrir þeim kröfum, sem gerðar voru. Á seinni árum hafa kröfurnar oftast verið óraunhæfar og ekki miðað við það, sem atvinnuvegirnir geta greitt. Af þessum ástæðum hefur fólkið ekki fengið þær kjarabætur, sem æskilegar eru og hefði verið unnt að ná, ef rétt hefði verið á málunum haldið. Það er staðreynd, að þjóðartekjurnar vaxa á ári að meðaltali um 4—5%. Af því leiðir, að kjarabætur almenningi til handa eru mögulegar árlega, sem nemur allt að 3%. Ef unnið hefði verið eftir þessu lögmáli, eins og nágrannaþjóðirnar hafa gert, væru kjör almennings mun betri nú en var í stríðslok, eða allt að 40% betri. En verkfallsforingjarnir telja, að lífskjörin séu lítið eða ekkert betri nú en var fyrir 15–16 árum.

Fram undan eru mörg verkefni í íslenzku þjóðlífi. Mörg framfaramál þarf að leysa og tryggja með því afkomu þjóðarinnar í nútíð og framtíð. Þetta mun ekki takast fljótt og vel, nema almenningur í landinu stuðli að bættum og betri vinnubrögðum í kjaramálum og taki völdin af verkfallsbröskurunum. Nauðsyn ber til að halda þannig á málum, að verðlagið geti verið stöðugt, að gjaldmiðillinn njóti trausts og gengi íslenzku krónunnar verði tryggt.

Ríkisstj. hefur fengið færustu menn til þess að vinna að fimm ára áætlunum um allsherjarframkvæmdir í landinu. Gerð verður áætlun um uppbyggingu í landbúnaði, samgöngum, hvers konar iðnaði, sjávarútvegi, vatnsvirkjunum og öðrum atvinnugreinum þjóðarinnar. Með því að framkvæma áætlunina verður lagður traustur grundvöllur að atvinnulífi landsmanna. Framleiðslan verður aukin, útflutningur fer vaxandi, gjaldeyrisöflun þjóðarinnar eykst, og sá skortur, sem þjóðin hefur áður búið við í gjaldeyrismálum, hverfur. Atvinna verður nóg fyrir alla, sem gefa unnið. Tekjur þjóðarbúsins munu vaxa fram yfir það, sem áður hefur verið, og grundvöllur verða lagður að auknum kjarabótum fyrir allan almenning. Með skemmdarverkum þeim, sem stjórnarandstaðan hefur unnið og hótað er enn að halda áfram, er hagsmunum þjóðarinnar ógnað. Takist skemmdarverkið öðru sinni, verður öll uppbygging og viðreisn tafin og ef til vill gerð óframkvæmanleg. Það er á valdi almennings, á valdi þínu, áheyrandi góður, hvort þjóðholl stefna verður hér ráðandi eða upplausnar- og niðurrifsstefna. Það er skylda hvers Íslendings að kynna sér á hlutlausan hátt stefnur og störf stjórnmálaflokkanna og mynda sér hlutlausa skaðun um það, sem deilt er um. Framtíð og velferð þjóðarinnar byggist á því, að dómgreind almennings verði öfgum og áróðri yfirsterkari. Því skal treyst, að það megi verða. Þess vegna ber að halda áfram af dugnaði og festu og með bjartsýni að vinna að lausn hinna mörgu verkefna, sem enn biða úrlausnar. — Góða nótt.