28.02.1962
Sameinað þing: 38. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 332 í D-deild Alþingistíðinda. (3242)

91. mál, afturköllun sjónvarpsleyfis

Flm. (Alfreð Gíslason læknir):

Herra forseti. Góðir hlustendur. „Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að afturkalla þegar í stað leyfi til sjónvarpsstarfsemi bandaríska hersins á Íslandi. Jafnframt verði haldið áfram athugunum þeim, sem ríkisútvarpið hefur með höndum um möguleika á rekstri íslenzks sjónvarps” Þannig er orðalag till., sem hér er til umr., en hún er flutt af nokkrum þm. Alþb.

Nú er liðinn um aldarfjórðungur síðan sjónvarp fyrst kom til sögunnar í heiminum, en þó getur varla talizt, að það hafi slitið barnsskónum enn. Þó ber öllum saman um, að það sé þegar orðið eitt öflugusta tæki nútímans til áhrifa, góðra eða illra eftir því, hvernig á er haldið. Það hefur reynzt mjög vandmeðfarið, enda til þessa dags viðast hvar orðið beggja handa járn í menningarlegu tilliti, og er reynsluskorti og sums staðar óheppilegu rekstrarformi aðallega kennt um. Hvergi er reynslan af sjónvarpi orðin lengri en í Bandaríkjunum, og því kemur það kynlega fyrir, að sjónvarp þar skuli að efnisgæðum yfirleitt talið eitt hið lakasta í heiminum. Þetta á almennt við um sjónvarp þar og er ekki einungis álit útlendinga, heldur og Bandaríkjamanna sjálfra. Menningargildi þess er sérlega lágt metið og því kennt um, að sjónvarpsstöðvarnar eru í höndum gróðafélaga og reknar af þeim í áróðursog auglýsingaskyni. Annars virðist víða pottur brotinn í þessum efnum, og eiginlega mun sjónvarp hvergi komið af gelgjuskeiðinu. Þessar skoðanir fara erlendir sjónvarpsmenn ekki dult með. Og einkum benda þeir á, að þessari starfsemi sé í rauninni markaður harla þröngur bás. Forstjóri BBC-sjónvarpsins brezka lýsir nýlega þeirri skoðun sinni í blaðaviðtali, að hlutverk sjónvarps sé fyrst og fremst fréttaflutningur, sýning atburða, um leið og þeir gerast. Þetta verkefni getur sjónvarpið eitt leyst af hendi og gert það vel. Flutning annarra menningarþátta geti það að vísu annazt, en ekki eins vel og á þeim sviðum séu aðrir aðilar hæfari.

Almennt er sjónvarpið sakað um að hafa óholl áhrif á uppvaxandi kynslóð, svo og á fjölskyldulif og félagslif yfirleitt, og hafa þegar farið fram skipulegar rannsóknir á sanngildi þeirrar sakargiftar. Einni slíkri rannsókn, mjög víðtækri, er nýlega lokið í Bretlandi, og leiddi hún í ljós m.a., að börn innan 16 ára aldurs eyða að meðaltali eins miklum tíma fyrir fraraan sjónvarpstækið og þau nota til skólans og annarrar félagslegrar starfsemi samanlagt. Flest börn, sem eru að byrja í skóla, nota 14 klukkustundir vikulega til að horfa á sjónvarp og 11–13 ára börn eyða í það 28 stundum í viku. Afleiðingin verður minni bóklestur, minna félagslíf og minni tími til útivistar og leikja. Þessar löngu setur framan við sjónvarpstækið torvelda börnum með dula skapgerð að samlagast jafnöldrum sínum, og þær auka á einræningshátt og draumóra viðkvæmra barna. Brezku sérfræðingunum, sem þessar athuganir gerðu, þótti niðurstaðan ekki glæsileg, en þeir hugguðu sig við það, að enn verra hefði ástandið reynzt í Bandaríkjunum, þar sem samsvarandi rannsóknir höfðu farið fram. Þar fannst 7 ára barn, sem hafði laumað muldu gleri í mat fjölskyldunnar, til þess, eins og það sagði, að sjá, hvort það dræpi hana, eins og í sjónvarpinu. Þar hafði einnig komið í leitirnar 9 ára stúlka, sem í hefndarskyni hafði sent kennara sínum öskju með eitruðu sælgæti, en fyrirmyndina hafði hún úr ameríska sjónvarpinu.

Sjónvarpið hefur að sjálfsögðu ekki eins djúptæk áhrif á fullorðna og börn. Þó þykir það verka þvingandi á heimilin og draga úr æskilegu félagslífi, auk þess sem það stelur tíma frá hollri tómstundaiðju. Víða er kvartað um þverrandi aðsókn að leikritum, hljómleikum og öðrum mannfundum og sjónvarpinu kennt um.

Sjónvarpsstarfsemi er svo viðamikill og dýr rekstur, að smáþjóðir, sem þó eru 20–30 sinnum fólksfleiri en Íslendingar, hikuðu lengi við að ráðast í hann. Það er því ekkert tiltökumál, að íslenzkt sjónvarp er enn ekki orðið að raunveruleika. Íslenzkir menntamenn, sem til sjónvarps þekkja, harma þetta ekki, því að þeir telja það ekki enn eiga til okkar brýnt erindi. Þetta hafa margir þeirra vottað opinberlega síðustu mánuðina, og kann ég að nefna úr þeim hópi biskup landsins, háskólakennara, fræðslumálastjóra, þjóðleikhússtjóra, námsstjóra, rektor og nemendur menntaskóla, rithöfunda og íslenzka stúdenta við nám erlendis.

Ekki virðast stjórnarvöld okkar alveg sammála menntamönnunum um ágalla sjónvarps. Raunar hafa þau ekki haft hátt um áhuga sinn á íslenzku sjónvarpi, en þeim mun betur hafa þau stutt að því, að útlent sjónvarp og einmitt heimsins lélegasta fengi að flæða sem víðast yfir byggðir þessa lands. Þetta er sannleikur, þótt kyndugur sé. Blaðið Íslendingur á Akureyri sagði nýlega frá á þessa leið:

„Einn íslenzku blaðamannanna, sem vestur fór í vetur sem leið, horfði eina kvöldstund á sjónvarp í hótelherbergi sínu og kvaðst hafa komizt upp í 16 morð það kvöldið í sjónvarpinu:

Það er þetta sjónvarp, sem íslenzkir ráðherrar virðast hafa sérstakt dálæti á. Árum saman hafa stjórnarvöld okkar látið purkunarlausa útlendinga hafa sig að ginningarfíflum. Þann veg var Íslandi laumað inn í stríðsbandalag, og með sama hætti voru herstöðvar leyfðar í landinu og herseta. Síðan hefur aldrei orðið lát á ásókn erlends valds í þessu landi, og jafnlátlaust hefur undanhald íslenzkra ráðamanna verið. Á það við jafnt í stóru sem smáu. Sérhver ósk hins erlenda hers er uppfyllt, óðar en hún er látin í ljós. Það sér hinn þjónustusami andi, ríkisstj. Íslands, um. Í hvert sinn sem setuliðið t.d. telur sig þurfa að smala íslenzku kvenfólki í herbúðirnar mannskapnum til stundargamans, er sótt um leyfi til hins háa íslenzka utanríkisráðuneytis. Ekki vantar það, að um leyfi er sótt. Við þessum umsóknum sem öðrum er ævinlega orðið, og hermennirnir geta skemmt sér. Um hitt er minna hugsað, velferð íslenzku heimilanna, sem sjá á eftir dætrum sínum ofan í þetta fen óreglu og siðspillingar á Suðurnesjum. Kveinstafir þessara heimila berast ekki til varnarmáladeildar utanrrn. á Laugavegi 13.

Öll leyfi eru veitt. Ekki var herinn fyrr kominn til landsins en hann heimtaði leyfi til að reka útvarp. Það var sumarið 1951. Hér var að vísu úr vöndu að ráða, því að íslenzk lög harðbanna þá starfsemi, sem fram á var farið. Nokkur dráttur varð á leyfisveitingunni þrátt fyrir harðfylgi þáv. menntmrh. við málið, og mun drátturinn hafa átt rót sína að rekja til sómatilfinningar útvarpsstjórans, sem þá var. En herinn beið ekki boðanna og hóf útvarpsstarfsemi sína í heimildarleysi. Að því kom þó skömmu síðar, að útvarpsstjóri var beygður, íslenzk lög þverbrotin, en Alþingi og þjóðin ekki virt viðlits. Síðan hefur amerískt hermannaútvarp af lægstu gráðu keppt við hið íslenzka um að móta hugsunarhátt og smekk æskulýðsins í þessu landi.

Bandaríska setuliðið hér virðist heldur slælegt í vörn, ef marka má viðbrögð þess, er Bretar réðust á Ísland 1958. Hins vegar hefur það margsannað hæfni sina til sóknar. Stanzlaust og með glæstum árangri hefur það herjað á íslenzk stjórnarvöld og knúið þau til þrotlausra tilslakana. Árið 1954 heimtaði herinn að fá að reka sjónvarp í landinu. Það leyfi, sem raunar jafngilti einkaleyfi, var veitt þegjandi og hljóðalaust af þáv. utanrrh., sem hvorki spurði kóng né prest. Þó voru viss skilyrði sett, a.m.k. til málamynda. Styrkleiki stöðvarinnar skyldi ekki fara fram úr 50 wöttum og stefnuverkunin takmörkuð í átt til þéttbýlisins við Faxaflóa. Þessa heimild veitti hvorki útvarpsráð né útvarpsstjóri, og menntmrh. kom þar lítt eða ekki við sögu. Nú var skipt um hlutverk og símamálastjóri látinn gefa út leyfi að boði utanrrh., enda ekki ósanngjarnt, að menn skiptust á um að vinna óþrifalegustu verkin. Annars var aðferðin söm og áður, t.d. hvorki stuðzt við lög né leitað álits Alþingis.

Þegar hér var komið sögu, tók setuliðið til óspilltra málanna að selja Íslendingum sín úreltu sjónvarpsviðtæki. Salan mun hafa gengið vel, og brátt vildu yfirvöld hersins fá að stækka stöðina. Sóttu þau um heimild til að auka sendiorkuna upp í 250 wött og mega hafa stefnuverkunina ótakmarkaða í allar áttir. Um þetta er sótt árið 1956, og þá skeði sá einstæði atburður, að setuliðið fékk synjun hjá íslenzkum ráðherrum. Um ástæðu til þessarar synjunar veit ég ekki með vissu, en þess má minnast, að árið 1956 var kosningaár og á því ári komust vinstri menn til valda í landinu. Hvað sem um þetta er, þá liggur það nú fyrir, að hernum var neitað um stækkun sjónvarpsstöðvarinnar á árinu 1956, enda lá tilgangurinn með þessari starfsemi þá þegar í aurum uppi. En herstöðvamenn eru iðnir viti kolann og hafa raunar ekki öðru að sinna hér en að færa út áhrifasvið ameríkanismans. Þeir héldu því sókninni áfram, og vorið 1961 unnu þeir sigur í sjónvarpsmálinu. Stækkunarleyfi fékkst, og amerísku viðtækin runnu út eins og heitar lummur að sögn Alþýðublaðsins. Enginn veit með vissu um fjölda sjónvarpsviðtækja í landinu utan herstöðvanna, en gizkað er á, að þau hafi verið á annað þúsund í Reykjavik á s.l. sumri. Ekki hafði viðtækjaverzlun ríkisins þá flutt inn nema örfá sjónvarpstæki, og mun obbinn af þessum tækjum landsmanna ýmist kominn frá setuliðinu eða sem smyglvarningur inn í landið. Útvarpstæki eru vandlega skrásett, en samsvarandi skráning sjónvarpstækja hefur aldrei farið fram. Er hér allt á eina bókina lært. Íslenzkt sjónvarp ekki til, en íslenzkir sjónvarpsnotendur skipta mörgum hundruðum. Reglur eru engar að fara eftir í þessum efnum, og þannig láta stjórnarvöldin reka á reiðanum ár eftir ár. Sjónvarpsviðtæki kosta nú að sögn 15–22 þús. kr. Það eru þannig miklir fjármunir, sem renna til þessara tækjakaupa, og munu þegar nema tugmilljónum. Þessi sóun er mjög varhugaverð. Sennilega líða ekki ýkjamörg ár, þar til íslenzkt sjónvarp hefst, og um leið eru öll þessi verðmæti farin í súginn. Það er þegar ráðgert, að senditæki íslenzka sjónvarpsins verði sömu tegundar og notuð eru í Evrópulöndum, en til þess að ná stöð með þeim útbúnaði duga amerísku viðtækin ekki. Evróputækin eru nýtízkulegri og myndgerðin öll önnur en amerísku tækjanna. Þetta er mál, sem ekki var vanþörf á að kynna almenningi, og raunar hefur útvarpsstjóri bent á það í blaðaviðtali, en hæstv. ríkisstj. virðist kæra sig kollótta um þetta hagsmunamál fólksins, eins og fleiri.

„Íslenzkri tungu og íslenzkri menningu hlyti að verða stefnt í voða, ef hér yrði erlendur her að staðaldri: Þannig komst að orði núv. hæstv. menntmrh. árið 1949. Orð þessi voru sönn þá, og þau eru jafnsönn enn í dag, þótt hæstv. ráðh. telji það líklega ekki lengur henta sér að flíka þeim. Frá herstöðvum berast margháttuð siðspillandi áhrif, og löng erlend herseta getur sýkt hugsunarhátt, tungu og siðvenjur heillar þjóðar miður í rætur. Þetta eru gamalkunn sannindi, sem ekki verður í móti mælt. Það má loka augunum fyrir þeim, þegja um þau og neita að hlýða á þau, eins og íslenzkir ráðherrar löngum gera. En óhagganleg eru þau engu að síður. Það var gengið út frá því sem gefnu, að þjóðlegri menningu okkar yrði skeinuhætt af nábýlinu við útlenda herstöð. Hjá tjóni var ekki komizt, jafnvel þótt fyllstu varúðar í öllum samskiptum hers og þjóðar hefði verið gætt. Þetta var íslenzkum þjóðarleiðtogum ljóst, svo sem gömul ummæli þeirra sanna. Samt var látið skeika að sköpuðu og góðfúslega leyft, að erlendur her tæki sér bólfestu í landinu. Og ekki nóg með það, engrar varúðar var gætt í samskiptunum, heldur voru allar dyr opnaðar á gátt fyrir því óheilnæmi, sem frá herbúðunum stafar. Á þessa sveifina hafa íslenzk stjórnarvöld og bandarísk lagzt sameiginlega, hin íslenzki með ístöðuleysi sínu og þau bandarísku með markvissri ágengni.

Þess hefði mátt vænta, að ríkisstj. vinveittrar þjóðar eins og Bandaríkjanna léti ekki hernámið hvíla á þessari litlu þjóð og menningu hennar með meiri þunga en nauðsynlegt var. En hér fór á aðra leið, svo ótrúlegt sem það er. Bandarísk stjórnarvöld virðast leggja á það ríka áherzlu að gera tíð strandhögg og stór á íslenzku menningarsviði og ná þar sem öruggastri fótfestu. Þessi fáheyrða viðleitni vinveittrar þjóðar speglast mjög greinilega í sjónvarpsmálinu.

Sú hugsun er fráleit, að bandarísk yfirvöld oti hermannasjónvarpi sínu að Íslendingum þeim til menningarauka. Svo einföld eru þau sannarlega ekki. Þeim er vel kunnugt um álit heimsins á bandarísku sjónvarpi, og vafalaust þekkja þau eitthvað til skoðana manna hér. Hvað segja annars íslenzkir menningarfrömuðir nm þetta sjónvarp sérstaklega? Ég skal rifja upp nokkur dæmi um þeirra álit.

Snorri Sigfússon námsstjóri segir: „Ég var einu sinni í Ameríku, og sá þar sjónvarp og gazt illa að því.”

Þjóðieikhússtjóri komst þannig að orði í blaðaviðtali: „Ef ég ætti að dæma af því sjónvarpsefni, sem ég sá í ameríska sjónvarpinu fyrir 5—6 árum, mundi ég ekki telja það hafa mikið menningargildi: Og hann bætti við, að hann liti á ameríska sjónvarpið frekar sem afmenningartæki, en menningar.

Sigurður A. Magnússon rithöfundur og blaðamaður Morgunblaðsins hefur í sjálfu ríkisútvarpinu kallað ameríska sjónvarpið vágest hinn mesta, menningarspilli og beinlínis mannskemmandi. Og þetta álit kvaðst hann byggja á þriggja og hálfs árs kynnum sínum af þessu sjónvarpi.

Þá var Guðmundur Hagalín rithöfundur og ríkisbókavörður ekki sérlega myrkur í máli í Vísi nýlega. Þar skrifaði hann m.a. þetta: „Ég hef ávallt litið á dvöl hins erlenda herliðs hér á landi sem illa nauðsyn. Og það er víðs fjarri, að ég telji okkur Íslendingum skylt eða sæmandi að niðurlægja okkur svo, að til að skemmta erlendum her á landi hér stofnum við riðandi þjóðmenningu okkar í aukna hættu. Og ógeðslegri sýn getur ekki við mér blasað en þúsundir af ungu fólki flatmagandi dag eftir dag og kvöld eftir kvöld við að horfa á bandarískt hermannasjónvarp:

Á þessa lund eru öll ummælin, sem ég hef heyrt og séð um þetta mál, að tveim undanteknum. Útvarpsstjórinn sagði í blaðaviðtali fyrir jól:

„Ég get ekki séð, að nein menningarleg hætta stafi af Keflavíkursjónvarpinu.“ E.t.v. er útvarpsstjórinn maður nærsýnn eða þá hann hefur lokað augunum, um leið og hann brá sjóngleri sínu fyrir þau.

Einn af ritstjórum Morgunblaðsins veittist harkalega að flm. till., sem hér er rædd nú, í greinarstúf hinn 26. nóv. s.l. Kallaði hann tvo þeirra kommúnista, en hina svikara, og veit ég ekki, hvort verra er að hans dómi. Í greininni segir ritstjórinn, að kommúnistar skjóti svikurunum fram fyrir sig og síðan orðrétt: „Þess vegna flytja þeir nú nokkrir saman tillögu á Alþingi til áfellis sjónvarpi varnarliðsins. Með þessu á að reyna að gera varnir tortryggilegar og blása það upp sem stórmál, hvort sjónvarp, sem hér hefur verið rekið árum saman, án þess að íslenzkri menningu yrði meint af, verði svo skýrt, að þeir, er það vilja skoða, geti notið þess með svipuðum hætti og sjónvarps er notið í öðrum löndum.“ Slík er rökræða þessa ritstjóra, og sýnist heiðríkja huga hans ásamt orðbragðinu vera í fyllsta samræmi við málstaðinn. Með till. á að reyna að gera varnir tortryggilegar, segir ritstjórinn. Hugsunargangurinn er bersýnilega þessi: Ef Íslendingar gera sig svo digra að hafna hermannasjónvarpinu á Keflavíkurflugvelli, sjónvarpi, sem menntaðir Bandaríkjamenn hafa skömm á, þá skulu þeir sömu Íslendingar sakaðir um fjandskap við hervarnir vestrænna þjóða og svikarar heita. Minna má það ekki kosta. Því er nú verr, að málflutningur sem þessi sést of oft í Morgunblaðinu og minnir ónotalega mikið á áróður nazista fyrir stríð. Með tillögunni erum við flm. að mótmæla amerísku sjónvarpi á Íslandi, og svipað hafa ótalmargir Íslendingar aðrir gert, menn úr öllum stéttum og flokkum. Skyldi ekki allur sá hópur vera að gera vestrænar hervarnir tortryggilegar að dómi ritstjórans? Ég vænti þess, að skoðanabræður hans á Alþingi svari, ef einhverjir eru.

Bandarísk yfirvöld stofnsetja sjónvarpsstöð hér og siðar fimmfalda þau sendikraft þessarar stöðvar. Þetta er ekki eingöngu gert til þess að veita nokkrum hermönnum dægrastyttingu, heldur á einnig að ná sjónum og hlustum Íslendinga. Sá tilgangur sannast bezt á því, að stöðin var ekki fyrr tekin til starfa en farið var að selja íslenzkum borgurum sjónvarpstæki út um bakdyr herstöðvanna. Einnig reynist upplýsingaþjónusta Bandaríkjanna gegna því hlutverki að auðvelda íslenzku fólki notin af þessu erlenda sjónvarpi. Sannleikurinn er sá, að hér er raunverulega um viðtækt hernám að ræða. Hinir stóru vinir okkar í NATO hernema ekki aðeins landið og fiskimiðin, heldur ráðast þeir og inn í íslenzka menningarhelgi og setjast þar að. Vafalaust er þetta hyggilegt frá þeirra sjónarmiði. Þeir vilja fá að ala þjóðina upp í þeim anda, sem þeim hentar, og því reyna þeir að brjóta niður viðnámsþrótt íslenzkrar menningar. Þegar það hefur tekizt, eiga herveldin landið og þjóðina og þurfa ekki að óttast brottrekstur úr því.

Útvarpið og sjónvarpið á Keflavíkurflugvelli eru ein beittustu vopn þeirra, sem nú reyna að rugla heilbrigða dómgreind þjóðarinnar. En þeir eiga fleiri vopn, þeirra á meðal heilar stofnanir og félög, og ekki skortir þá fé. Ungum og myndarlegum Íslendingum er boðið til Bretlands og Bandaríkjanna, þar sem leikið er við þá og dekrað um hríð. Heimkomnir eru þeir látnir stofna félög með áferðarfallegum nöfnum ag undir merkjum þeirra, en á vegum NATO eru þessir piltar látnir endasendast um landið líkt og Ameríkuagentar forðum, boðandi hatur milli þjóða og glórulausar stríðsæsingar þeirra afla, sem menningarsnauðust eru í vestrænum heimi, afla afturhalds, auðshyggju og kúgunar. Þannig er nú unnið hér á landi, og til þess hentar forheimskandi hermannasjónvarp prýðilega vel.

Í Frakklandi er sögð barátta hafin gegn skaðlegum áhrifum ameríkanismans á franska tungu og franskan hugsunarhátt og tjáningarmáta. Hvað mættum við gera, lítil þjóð? „Gætum vandlega frelsis þjóðarinnar. Varðveitum tungu vora. Hún er dýrmætasta sverð þjóðarandans: Þessum hvatningarorðum beindi Benedikt Sveinsson til þjóðarinnar árið 1944, og mér sýnist brýn þörf á að minna á þau nú, þegar hart er sótt að íslenzkum þjóðaranda.

Hæstv. ráðherrar eru allir vel menntaðir menn, og ekki færri en þrír þeirra eru fyrrv. prófessorar. Finna þessir menn ekki auðmýkinguna í hinum endalausu tilslökunum við ágeng yfirvöld hins erlenda hers, og sjá þeir ekki hættuna, sem í því felst að veita hernum einkaaðstöðu til sjónvarpsstarfsemi í landinu? Auðvitað sjá þeir þetta. En mega þeir þá ekki rönd við reisa? Það er spurning, sem ég læt ósvarað, en beini til réttra aðila í von um svar.

Menningu viljum við Íslendingar sækja til vestrænna þjóða, en ómenningu ekki. Við virðum Breta og Bandaríkjamenn fyrir margra hluta sakir og óskum að eiga ýmislegt sameiginlegt með þeim. En við tökum þá ekki sem neina guði, ekki einu sinni sem hálfguði, og þegar þeir gerast ágengir við okkur, mótmælum við og snúumst til varnar. Við dáum vestrænar þjóðir fyrir það, sem gott er í fari þeirra, en álösum leiðtogum þeirra, þegar þeir beita valdi sínu til ójafnaðar. Hlutdeild í hernaði hæfir okkur Íslendingum engan veginn, og hvers konar ómenningu aðra, jafnvel þótt vestræn sé, eigum við hiklaust að frábiðja okkur, og eru þar með talin afmenningartæki á borð við amerískt sjónvarp.

Þá óhæfu þarf að uppræta, sem þetta sjónvarpsmál er. Að áliti dómbærra manna er starfsemin bein ógnun við íslenzka tungu, menningu og siði. Þetta skiptir höfuðmáli og réttlætir, að gripið sé nú til þess ráðs, sem eitt dugir, en það er að banna þessa sjónvarpsstarfsemi með öllu. Annað mun reynast gagnslaust kák. Ágengur aðili virðir aldrei sett skilyrði. Þjóðin á hér mikið í húfi, og því legg ég eindregið til, að tillagan um afturköllun sjónvarpsleyfisins verði samþykkt.

Samtímis því, að við losum okkur við þá smán, sem hermannasjónvarpið er, ber að halda áfram að athuga möguleika til að koma á fót íslenzku sjónvarpi, en um það fjallar tillaga okkar einnig. Athugunin er þegar hafin. Fyrir atbeina ríkisútvarpsins kom hingað erlendur sérfræðingur s.l. sumar þeirra erinda að kynna sér aðstöðu til íslenzkrar sjónvarpsstarfsemi. Þessi maður mun hafa skilað álitsgerð, þar sem hann lýsir jákvæðri niðurstöðu athugana sinna. Vitanlega verður stofnkostnaður gífurlega hár og árlegur rekstrarkostnaður hærri, þannig að þetta verður þungur baggi á þjóðinni. Rannsókn þessa sérfræðings er ekki annað en frumathugun máls, sem þarfnast mikils undirbúnings. Að áliti okkar flm. ber að halda áfram athugun, hver svo sem endanleg niðurstaða verður. Þótt sjónvarp hafi harla takmarkað gildi sem menningarmiðill og enn loði við það stórir gallar, þá finnst mér eðlilegt, að við stefnum að því að eignast það, enda mun þorri þjóðarinnar þess fýsandi. Sjónvarp er ágætur fréttamiðill. Það er einnig hentugt til fræðslustarfsemi. Og loks má nota það til dægrastyttingar, ef rétt er á haldið. Önnur menningarhlutverk þess eru talin hverfandi, og hef ég orð á því til þess að vara við ofmati á gildi sjónvarps.

Það væri óskynsamlegt að flana að neinu í þessu sjónvarpsmáli okkar, en hyggilegt að fylgjast vei með því, sem erlendis er að gerast. Það er nú spáð allt að því tæknilegri byltingu á þessu sviði í náinni framtíð, og á ég þar við endurvarp frá gervihnöttum og sjónvarpsmyndir í litum auk almennra tækniframfara í gerð tækjanna. Þess er vænzt á næstu árum, þ.e.a.s. innan þeirra tímamarka, sem við þurfum til undirbúnings eigin sjónvarps. Óhjákvæmilegt er, að sjónvarp verði okkur þungt í skauti fjárhagslega, en ef hagsýni er gætt í undirbúningi sem og í framkvæmd og hæfileg biðlund sýnd, aukast líkurnar fyrir því, að fyrirtækið blessist.

Að lokum skal áherzla lögð á þetta: Það er þúsund sinnum hollara þjóðinni að hafa ekkert sjónvarp en lúta afsiðandi amerísku hermannasjónvarpi, og því er brýnast af öllu að losna við það. Megi hamingjan gefa ísl. stjórnarvöldum þennan skilning og þrek til athafna í samræmi við hann.