28.02.1962
Sameinað þing: 38. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 378 í D-deild Alþingistíðinda. (3251)

91. mál, afturköllun sjónvarpsleyfis

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Það er algerlega rangt hjá hv. 5. þm. Vesturl., Benedikt Gröndal, að hv. 1. þm. Norðurl. e., Karl Kristjánsson, hafi lesið upp úr röngu bréfi. Í bréfinu, sem Karl las upp úr, voru tilgreind skilyrði, sem sett voru fyrir sjónvarpsleyfinu, og leyfið sjálft var ekki veitt, fyrr en í bréfi, sem var skrifað nokkru síðar eða eftir að á skilyrðin hafði verið fallizt. Ég vil ekki ætla hv. 5. þm. Vesturl. svo illt, að hann sé vísvitandi að bera hér fölsun á hv. 1. þm. Norðurl. e., heldur hafi hann ekki aflað sér nægra upplýsinga um það, sem hann var að tala um.

Hv. stjórnarsinnar hafa sagt, að lítill munur sé á leyfi því, sem nú hefur verið veitt til sjónvarpsrekstrar, og því leyfi, sem var veitt af dr. Kristni Guðmundssyni 1955. Þetta er fullkomlega rangt. Í fyrsta lagi verður sú sjónvarpsstöð, sem nú hefur verið leyfð, fimm sinnum sterkari en sú, sem var leyfð 1955. Í öðru lagi fylgdu leyfinu 1955 ákveðin skilyrði um ýmsar tálmanir, sem torvelduðu, að sjónvarp sæist að gagni utan Keflavíkurvallar. Nú eru ekki nein slík skilyrði sett. Í þriðja lagi var sett það meginskilyrði 1955, að leyfið yrði afturkallað, ef áðurnefndum tálmunum yrði ekki fullnægt eða ef þær reyndust ekki fullnægjandi. Því var skýrt tekið fram, að hér væri um bráðabirgðaleyfi eða tilraunaleyfi að ræða. Nú er ekki minnzt á neitt slíkt. Munurinn er því ekki minni en sá, að 1955 var veitt bráðabirgðaleyfi til sjónvarpsrekstrar, sem var stranglega bundinn við umráðasvæði varnarlíðsins, en nú fær varnarliðið ótakmarkað leyfi til sjónvarps, sem nær til meiri hluta íslenzku þjóðarinnar. Meðan íslenzkt sjónvarp er ekki til, er varnarliðinu þannig sköpuð stórfelld einokunaraðstaða til notkunar á mesta áróðurstæki nútímans. Ísland er fyrsta ríkið, sem telst sjálfstætt, er veitir útlendum aðilum slíkan einokunarrétt.

Hv. stjórnarsinnar hafa sagt, að ekki sé meira að veita varnarliðinu leyfi til að reka sjónvarpsstöð en útvarpsstöð, sem nái til allra landsmanna. Á þessu er sá meginmunur, að hér er fyrir íslenzk útvarpsstöð og að útvarpið er stórum minna áróðurstæki en sjónvarpið.

Hæstv. stjórnarsinnar hafa sagt, að það sé ekki framkvæmanlegt að takmarka sjónvarp við dvalarstaði varnarliðsmanna. Víða erlendis er haft á takmörkuðum svæðum svokallað þráðbundið sjónvarp, og slíkt sjónvarp er einmitt mjög vel framhvæmanlegt á Keflavíkurflugvelli. Það er algerlega rangt, að dr. Kristinn Guðmundsson hafi hafnað þessari leið 1954, heldur var aðeins frestað að reyna hana þá, unz séð yrði, hvort hægt væri að ná sama árangri eftir öðrum leiðum, eins og sérfræðingar varnarliðsins héldu þá fram, og má þar visa til bréfs, er hv. 4. þm. Reykn., Jón Skaftason, las upp úr hér áðan.

Það er rangt, sem kom fram hjá hæstv. utanrrh., að samið hafi verið um sjónvarpsleyfið 1955 í sambandi við samninga, sem voru gerðir um ferðir varnarliðsmanna út af Keflavíkurflugvelli. Þeir samningar voru gerðir vorið 1954 eða ári áður og ekki tengdir á neinn hátt sjónvarpsmálinu.

Hv. stjórnarsinnar segja, að það stríði gegn frelsishugsjóninni að leyfa mönnum ekki að horfa á Keflavíkursjónvarpið. Hvað stríðir mest gegn frelsishugsjóninni? Ég get svarað því með einu orði: Einokun. Hér er einum útlendum aðila veitt einokunaraðstaða til sjónvarpsstarfsemi í landinu. Er það frelsi? Væri það kannske frelsi, ef t.d. Árvakur fengi einkaleyfi til að gefa út eina dagblaðið í Reykjavík? Það, sem hér er fyrst og fremst um að ræða, er það, að einum útlendum aðila er veitt einokunaraðstaða. Það sannar mér bezt, hve frelsishugsjónin ristir djúpt hjá þm. Sjálfstfl., að lofsyngja þessa útlendu einokun eins og hið fullkomna frelsi.

Hv. stjórnarþingmenn segja, að við Íslendingar verðum að treysta á okkar eigin menningu, þora að umgangast aðra og treysta ekki á einangrun sem verndara okkar á öld geimferðanna. Ég tek alveg undir þetta. En ég hygg, að það sé líka jafnrétt, að við þurfum að kunna okkur nægilegt hóf í þessum efnum, sýna nægilega varasemi, vera stöðugt á varðbergi. Það hefur hent margar smáþjóðir að glata menningu sinni, glata tungu sinni og glata sjálfstæði sínu, vegna þess að þær gættu ekki nægilega hófs í þessum efnum. Ég hygg, að það brjóti fullkomlega gegn nauðsynlegri varasemi á þessu sviði, þegar útlendum aðila er veitt einokunaraðstaða til sjónvarpsrekstrar og erlent tungumál og erlendar kvikmyndir verða þannig látnar móta íslenzk heimili að meira eða minna leyti.

Þess hefur orðið greinilega vart, að fáar eða engar ráðstafanir núv. ríkisstj. hafa vakið eins sterka andúð meðal margra stuðningsmanna hennar og sú ákvörðun að veita varnarliðinu óbeint einkaleyfi til rekstrar sjónvarps, er nær til meiri hluta þjóðarinnar. Fjöldi manna í stjórnarflokkunum hefur játað, að hér hafi stórfelld mistök átt sér stað. Stjórnarsinnar hafa ekkert síður staðið að mótmælum gegn þessari ráðstöfun en stjórnarandstæðingar í þeim félögum og skólum, sem slik mótmæli hafa gert. Það er full ástæða til þess í tilefni af þessu, að ekki sízt fylgismenn stjórnarflokkanna varpi fram spurningum eins og þessum: Hvers vegna hafa slík mistök átt sér stað? Hvað veldur því, að ríkisstj. afhendir erlendum aðila eins konar einkaleyfi til að ráða yfir mesta áróðurstækinu í landinu? Hvers vegna dylst öllum hinum sjö ráðh., sem skipa ríkisstj. Íslands, að hér sé nokkuð varhugavert og hættulegt á ferðum? Hvers vegna dylst þeim, að það sé ósamboðið sjálfstæði og metnaði þjóðarinnar að láta erlendum aðila slíkt einokunarvald í hendur? Hvað geta þeir menn ekki látið af hendi, sem þannig veita erlendum mönnum aðhaldslaust hina öflugustu aðstöðu til áhrifa á skoðanir og menningu þjóðarinnar? Hvar getur, verið að finna takmörkin á uppgjöfinni og afsalinu hjá slíkum mönnum? Þessar spurningar eru vissulega einar hinar þýðingarmestu, sem þjóðinni ber að svara í dag, þegar fyrir dyrum stendur að marka afstöðu til eins veigamesta og örlagaríkasta utanríkismáls, sem þjóðin hefur fengið til meðferðar.

Svarið við þeirri spurningu, hvers vegna slík mistök sem sjónvarpsleyfið hafi átt sér stað, er næsta augljóst. Við þekkjum vel, að hér á Íslandi eru til þeir menn, sem vilja rjúfa sem mest öll tengsl við vestrænar þjóðir í þeim tilgangi að koma Íslandi í meiri eða minni tengsl við kommúnistalöndin. Þetta er orðin trú hjá þessum mönnum. Þeir sjá kommúnistalöndin í rósrauðum hillingum. Þar er allt í stakasta lagi, og hvað eina, sem valdhafar þeirra gera, er gott og rétt, þótt í dag sé sá stimplaður glæpamaður, er var dýrkaður og dásamaður í gær. Af þessum ástæðum er það talin íslendingum hin eina hagnaðarvon og sálubót að komast í samfélag við kommúnistaríkin. Á sama tíma og kommúnistar hafa tekið þessa trú, hafa forustumenn núv. stjórnarflokka tekið ekki ólíkan átrúnað, þótt hann beinist í aðrar áttir. Þeir sjá geislabaug kringum allt, sem gerist í vestrænum löndum, og þar getur, valdamönnum hinna stærri ríkja ekki neitt mistekizt. Í hæsta lagi getur eitthvað gerzt misjafnt hjá ráðamönnum hinna smærri ríkja þar, eins og Salazar og Franco, en hjá ráðamönnum hinna stóru vestrænu ríkja, eins og Adenauer og Macmillan, fer ekki neitt á verri veg. Íslendingar eiga ekki aðeins að dásama allt það, sem í þessum löndum gerist, heldur ber þeim að haga svo málum sínum og utanríkisstefnu, að það sé þessum valdamönnum þóknanlegt. Íslendingum ber að skilja svo þátttöku sína í vestrænu samstarfi, að þeir eigi að haga sér, sitja og standa eins og hinir útlendu aðilar vilja. Ef Macmillan vill fá undanþágur fyrir enska togara í íslenzkri fiskveiðilandhelgi, þá ber hiklaust að veita þær og vera ekki að haga sér neitt ókurteislega í hinu vestræna samstarfi. Ef Home lávarður vill fá rétt til að geta stöðvað útfærslu íslenzkrar fiskveiðilandhelgi næstu áratugina, þá á að fallast á það, því að annars getur aðild Íslands að vestrænu samstarfi verið í hættu. Ef ameríska varnarliðið á Keflavíkurflugvelli vill fá leyfi til að byggja öfluga sjónvarpsstöð, þá á umhugsunarlaust að veita það og án minnsta tillits til þess, hver áhrifin geti orðið á menningu þjóðarinnar. Annars geti sambúð okkar við vestrænar þjóðir verið í alvarlegri hættu.

Þessi undirlægjuafstaða gagnvart vestrænum þjóðum og vestrænu samstarfi er vissulega ekki aðeins óraunsæ, heldur getur hún verið hin háskasamlegasta. Vissulega valda lega landsins og sögulegar, menningarlegar og viðskiptalegar ástæður því, að þótt okkur beri að kappkosta góða sambúð við allar þjóðir, þá hljóta tengsl okkar við þær vestrænu þjóðir, sem eru næstar okkur, að verða mest og nánust, og þar tel ég persónulega, að ekki eigi síður að koma til samvinna við Bandaríkin en Vestur-Evrópu. En því aðeins verður þessi þátttaka okkar í vestrænu samstarfi okkur hagkvæm og happadrjúg, að við höldum í hvívetna á rétti okkar, að við gleymum aldrei sérstöðu okkar, að við séum stöðugt á varðbergi um menningu okkar og sjálfstæði. Allar þær þjóðir, sem hér taka þátt í samstarfi með okkur, eru margfalt stærri en við, og þótt þær séu okkur meira og minna vinveittar, hugsa þær eðlilega meira um hagsmuni sina en hagsmuni okkar. Í mörgum málum er það eðlilegt og óhjákvæmilegt, að hagsmunir þeirra og okkar rekist á, og þá reyna þær að sjálfsögðu að koma sínu máli fram án þess að vera að hugsa um okkur og gæta þess sérstaklega, hver sérstaða okkar er. Ef við lítum þannig á, eins og forvígismenn stjórnarflokkanna virðast gera, að við séum einhverjir vargar í véum, ef við höfnum slíkum kröfum og höldum fram rétti okkar og sérstöðu, þá erum við sannarlega komnir inn á háskabraut. Þá verður hverju undanhaldinu af öðru boðið heim. Ef sá fáránlegi áróður fær að festa rætur, að það sé kommúnismi eða kommúnistadekur að láta ekki undan, eins og gert hefur verið í landhelgismálinu og sjónvarpsmálinu, þá getur vestræn samvinna orðið okkur til jafnmikillar óhamingju og hún getur orðið okkur til gagns og heilla, ef með árvekni og einbeitni er haldið á málum. Það, sem við þurfum að gera, þegar hagsnunir okkar og vestrænna þjóða rekast á, er að halda fram og gera grein fyrir rétti okkar og sérstöðu, en slá ekki strax undan. Ég efast ekki um, að við hefðum strax getað leyst sjónvarpsmálið í góðu samstarfi við varnarlið Bandaríkjanna á þann hátt, að sjónvarp þess yrði ekki menningarvoði á íslenzkum heimilum, ef við hefðum skýrt sérstöðu okkar nægilega vel fyrir ráðamönnum þess. Ég efast ekki heldur um, að enn er hægt að leysa þetta mál við stjórnarvöld Bandaríkjanna á þann veg, að báðir megi vel við una, ef íslenzkir valdamenn verða ekki hræddir við að viðurkenna, að þeir séu búnir að gera vitleysu. Sú hræðsla er þó ástæðulaus. Sá, sem játar villu sína og bætir úr henni, vex, en minnkar ekki.

Ég vil ljúka þessum útvarpsumræðum með því að skora í nafni Framsfl. á hæstv. ríkisstj. að láta skynsemi, en ekki ofurkapp og misskilinn metnað, móta framhald þessa máls. Ríkisstj. mundi vissulega vaxa mest á því, ef hún hæfi að nýju samninga við stjórnarvöld Bandaríkjanna um að leysa svo þetta mál, að íslenzk menning og íslenzk heimili þurfi ekki að bíða neitt tjón af því. Á þann veg má auðveldlega leysa þetta mál, svo að báðir geti vel við unað. Jafnhliða því ber svo ríkisstj. að hefja undirbúning að íslenzku sjónvarpi, sem miðað sé við íslenzka staðhætti og fjárhagsaðstæður. Ef ríkisstj. lætur það ógert að leysa þetta mál á framangreindan veg, þá hefur þjóðin fyrir augum glöggt dæmi þess, hvernig ríkisstj. heldur á utanríkismálum og hvað sé því í vændum, þegar hafnir verða samningar um hið mikla örlagamál, sem fram undan biður, ef þar eiga þeir stjórnmálamenn og flokkar að ráða mestu, sem álíta íslendinga því aðeins hlutgenga í vestrænni samvinnu, að þeir standi og sitji svo sem þeim er sagt, hvort sem það hentar betur eða verr sjálfstæði þjóðarinnar og menningu. — Góða nótt.