28.03.1962
Sameinað þing: 46. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 382 í D-deild Alþingistíðinda. (3267)

104. mál, sjónvarpsmál

Flm. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Við útvarpsumr., sem fóru fram 28. f.m., gerði ég nokkra grein fyrir þessari till., sem nú er fyrir tekin, af því að umr. komu, eins og eðlilegt var, inn á svið það, sem tillagan fjallar um.

Nú vil ég, með leyfi hæstv. forseta, minna á till. með því að byrja á því að lesa hana upp. Tillagan er svo hljóðandi:

Alþ. ályktar að skora á ríkisstj.:

1) Að gera nú þegar fullnægjandi ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir þá stækkun sjónvarpssviðs, sem fyrirhuguð hefur verið, frá Keflavíkurstöð varnarliðsins.

2) Að ganga ríkt eftir því, að af hálfu varnarliðsins sé fullnægt þeim skilyrðum, sem sett voru árið 1954 fyrir sjónvarpsleyfi þess.

3) Að láta ríkisútvarpið hraða ýtarlegri athugun á möguleikum þess, að íslenzka ríkið komi upp vönduðu sjónvarpi, er nái til allra landshluta og sé rekið sem þjóðlegt menningartæki.

Áætlanir um stofn- og rekstrarkostnað slíks sjónvarps svo og álit sitt og tillögur um þetta mál leggi stjórn ríkisútvarpsins sem fyrst fyrir Alþingi:

Við lögðum fram þessa tillögu, fimm framsóknarmenn, í nóv. í vetur, af því að sannazt hafði þá fyrir skömmu, að hæstv. ríkisstj. hafði af mikilli skyndingu, en þó mjög hljóðlega í apríl s.l. veitt varnarliðinu skilyrðislaust leyfi til þess að fimmfalda kraft sjónvarpsstöðvar sinnar á Keflavíkurflugvelli. Þetta var ótrúleg saga, en reyndist því miður vera sönn saga. Það er sennilegt talið, að fimmföldun sendikrafts stöðvarinnar þýði það, ef útsendingin er hömlulaus, að sjónvarpið geti náð til meira en helmings þjóðarinnar.

Við skulum engu moldviðri hleypa upp í sambandi við þessa till., heldur skoða málið blátt áfram og útúrdúralaust. Það kemur t.d. till. ekki við, hvort menn eru á móti dvöl varnarliðsins á Reykjanesskaga eða ekki. Hitt er aðalatriðið, hvort menn telja, að leyfa eigi varnarliðinu að hafa þar sjónvarpsstöð. Ég tel eðlilegt að leyfa varnarliðinu þetta, á meðan það fær að dveljast á Keflavíkurflugvelli, en leyfa það þó því aðeins, að sjónvarpið sé fyrir varnarliðið eitt. Sjónvarpssviðið sé bundið við samningssvæðið, eins og það líka átti að vera, samkvæmt þeim grundvallarsamningum, sem gerðir voru um þessi efni 1954 og 1955 og ég kem að seinna. Hvers vegna ættum við að banna setuliðinu að hafa hér í útlegð sinni sjónvarp sem heimilistæki fyrir sig og rekstur sjónvarpsstöðvar, ef hann er innilokaður örugglega, svo að hann truflar ekki líf okkar sjálfra í landinu? Ég sé engin frambærileg rök fyrir því að neita varnarliðinu um þetta. En vitanlega byggist þetta á því, að sjónvarpsreksturinn sé örugglega einangraður við dvalarsvæði varnarliðsins. Það þótti tiltækilegt að einangra að mestu sjónvarpssviðið 1954 og 1955, síðan hafa skilyrðin til þess að einangra fullkomnazt. Nú er þráðbundið sjónvarp komið á hér og þar, t.d. hjá háskólum vestan hafs. Með þráðbundnu sjónvarpi er óumdeilanlega hægt að takmarka sjónvarpssviðið algerlega við varnarliðssvæðið.

Þó að þráðbundið sjónvarp verði dýrara en lausbeizlað sjónvarp, getum við ekki látið slíkt hafa áhrif á afstöðu okkar. Það væri þýlegt að slaka til vegna kostnaðarspursmáls. Fyrir okkur Íslendinga er meira í húfi en til peninga verði metið.

Í umr., sem fram fóru í vetur í útvarpssal um sjónvarpsmál út af leyfinu um stækkunarsvið sjónvarpsstöðvar varnarliðsins, notaði próf. Þórhallur Vilmundarson orðið „menningarhelgi“. Það orð hafði ég aldrei heyrt fyrr, en þetta er svo ágætt og vel valið orð, að festa ætti það í málinu. Orðið er í bezta lagi rökrétt og táknrænt, og það er hliðstætt orði, sem hefur huggróna og ljósa merkingu. Þar á ég við orðið „landhelgi“.

Hér er um þann alvarlega verknað að ræða að ætla að opna íslenzka menningarhelgi fyrir erlendu varnarliðssjónvarpi skilmálalaust, svo að meira en helmingur þjóðarinnar geti fengið yfir sig andlegan umsköpunarkraft hinnar erlendu þjóðar, sem sjónvarpið rekur og rekur til að láta varnarliðið gleyma leiðri dvöl á útskaga og sætta sig við varðstöðu í hálfsturluðum heimi styrjaldarótta.

Hinn geysilega áhrifamátt sjónvarps og talvarps, sem fylgir að sjálfsögðu sjónvarpi, er barnaskapur — eða annað verra — að draga í efa og telja ástæðulaust að óttast. Menningarhelgi lítillar þjóðar, sem þannig er opnuð alla leið inn í barnaherbergið og þar með inn að hjartarótum þjóðarinnar, veitir ekki lengi sjálfsvörn, — hún veitir ekki sjálfsvörn sú helgi. Þjóðtungan er sett í hættu, þjóðarmetnaðurinn, — sjálfstæðisviljinn og heimahugurinn einnig. Svo gálauslega má engin þjóð fara með fjöregg sitt.

Mér finnst það helzt líkjast skáldsögu eftir óskiljanlega bölsýnan höfund, að íslenzk ríkisstj. skuli hafa gefið út leyfi fyrir stækkun sjónvarpsstöðvarinnar hjá varnarliðinu. Það er meiri fljótfærnin og skorturinn á því að finna til eins og Íslendingur.

Byron sagði, svo sem frægt er: „Maður á auðvitað ekki að gera yfirsjón, en enginn kemst samt alveg hjá því. En það næsta, sem hver maður á að gera“, sagði Byron, „er að reyna að bæta úr yfirsjóninni, og það getur hver maður reynt að gera.“

Þetta er það, sem ríkisstj. á að reyna að gera, að fá stækkunarleyfi sjónvarpsins eftirgefið eða afturkallað. Um það er aðalatriði till., sem hér liggur fyrir. Mér finnst þetta ekki vera nema sanngjörn og sjálfsögð krafa, og ég trúi ekki öðru en leyfishafinn, Bandaríkjastjórn, taki kröfuna til greina, ef Alþ. samþ. hana. Og hvers vegna ætti ekki Alþingi að fallast á þessa tillögu? Mér þætti fróðlegt að heyra svar við þeirri spurningu. Mér þætti skrýtið, ef nokkur gæti haft á móti slíku með rökum. Síðan vitnaðist um stækkunarleyfið, hefur fjöldi manna úr öllum stjórnmálaflokkum látið til sín heyra um þetta mál. Fjöldi áskorana hefur komið fram til ríkisstj. og Alþingis um að afturkalla stækkunarleyfið. Engrar áskorunar minnist ég í gagnstæða átt frá nokkrum mannfundi. Nýlega birtist svo hljóðandi frétt í dagblöðunum frá Rithöfundafélagi Íslands:

„Undanfarnar vikur hefur Rithöfundafélag Íslands leitað undirskrifta meðal meðlima sinna og annarra rithöfunda hér í bæ að eftirfarandi áskorun: „Undirritaðir skora hér með á Alþingi og ríkisstj. að afturkalla útgefið leyfi til stækkunar á sjónvarpsstöð Keflavíkurflugvallar. Álftum við fráleitt og Íslendingum ósamboðið, að erlent herlið eða nokkur erlendur aðili hafi aðstöðu til að reka hér sjónvarpsstöð og leiða þannig stórkostlega hættu yfir íslenzka tungu og menningu.” Alls hafa 67 rithöfundar skrifað undir áskorunina. Af þeim 71, sem náðst hefur til, eru aðeins 4, sem einhverra hluta vegna hafa ekki kært sig um að undirrita hana:

Þetta er frétt frá Rithöfundafélagi Íslands, sem birtist í dagblöðunum. Þessi áskorun frá 67 rithöfundum þjóðarinnar er í fullri samhljóðan við meginefni þessarar þáltill. Það þjóðþing, sem gerði ekkert með álit og áskorun meginþorra aðalrithöfunda þjóðar sinnar í máli sem þessu, væri furðuleg samkunda.

Þá vil ég fara nokkrum orðum um 2. lið þáltill., að gengið skuli nú og eftirleiðis ríkt eftir því af hálfu íslenzkra stjórnarvalda, að varnarliðið fullnægi þeim skilyrðum, sem sett voru 1954 fyrir sjónvarpsleyfi þess. Við útvarpsumr. 28. f.m. gerði ég grein fyrir því, hver aðalskilyrðin hefðu verið, og las upp í því sambandi meginmáli bréfs frá valdhöfum Íslands 26. nóv. 1954, þar sem grundvöllur sjónvarpsleyfisins fyrir núverandi stöð var lagður. Þetta er svo sögulega þýðingarmikill grundvöllur, að ég vil leyfa mér að lesa hann einnig upp að þessu sinni. Skilyrðin í þessu bréfi voru:

1) Að nothæfri sjónvarpssendingu verði ekki náð í neinni íslenzkri byggð. Þetta skal prófa af fulltrúum ríkisstj. með góðum sjónvarpstækjum, sem varnarliðið lætur í té. Gæði sjónvarpsins skulu dæmd af íslenzkum fulltrúum.

2) Ef hægt er að ná nothæfri sjónvarpssendingu í íslenzkri byggð og varnarliðið getur ómögulega eytt slíku nothæfu sjónvarpi, skal eigi starfrækja stöðina.

3) Allur kostnaður greiðist af varnarliðinu. Þetta voru grundvallarskilmálarnir, sem ég vitnaði til. Nú skeði það í nefndum útvarpsumr., að. hv. 5. þm. Vesturl., Benedikt Gröndal, sagði, að ég hefði lesið upp úr skökku bréfi. Hann sagði, að leyfisbréfið hefði ekki verið gefið út fyrr en 7. marz 1955, og vitnaði í bréf frá þeim degi, án þess þó að lesa það. Hér var um vöflur að ræða hjá hv. 5. þm. Vesturl., að vísu var bréfið skakkt miðað við hans afstöðu í málinu. Nótur gengu á milli íslenzku valdhafanna og varnarliðsins. þegar samningurinn um sjónvarpsleyfið var að skapast. Ég tók þýðingarmestu nótuna eða bréfið og las meginmál þess bréfs. Þar var undirstöðuna að finna. Það var þess vegna hið rétta bréf. Nótan eða bréfið frá 7. marz 1955, sem hv. þm. vitnaði til, var framhaldsbréf. Það hljóðaði, með leyfi hæstv. forseta, á þessa leið:

„Efni: Sjónvarpsstöð á Keflavíkurflugvelli. 1) Skírskotað er til ýmissa umræðna, er átt hafa sér stað á milli fulltrúa ísl. utanrrn. og varnarliðsins. 2) Varnarliði Íslands er hér með í bili og þangað til annað verður því tilkynnt veitt heimild til að framkvæma tilrauna-sjónvarpssendingar á bandinu 180–186 H–c/s, með því skilyrði, að sjónkraftshámark til sjónvarpsnets fari ekki yfir 50 wött og að sterkustu eða maximum geislum verði beint að radarstöðinni, þ.e.a.s. 345 gráður.“

Á bréfi þessu, ef athugað er og báðir liðir þess teknir með, svo sem skylt er að sjálfsögðu, sést greinilega, hve valdhafarnir fóru á þeim tíma varlega. Í fyrri liðnum er skírskotað til þess, sem fram hafði farið áður, m.a. í bréfinu 26. nóv., þar sem nákvæmast voru fram tekin skilyrðin og höfuðskilyrðin. í seinni liðnum er framkvæmdarleyfið veitt í bili sem tilraun og afturkallanlegt með tilkynningu, hvenær sem væri og út af bæri. Hér er ekki verið að flana fyrirvaralaust að neinu, eins og í apríl 1961, þegar stækkunarleyfið er veitt hömlulaust. Grundvöllur samninga er lagður með bréfi 26. nóv. 1954. Svo líða 3 mánuðir. Þá, 7. marz 1955, er leyft að hefjast handa með tilraun. Viku áður hafði ríkisstj. skipað sem tæknilegan fulltrúa ríkisins í þessum efnum þáverandi yfirverkfræðing pósts og síma, Gunnlaug Briem, núverandi póst- og símamálastjóra. Allt er þetta með glöggum einkennum þess, að fullur vilji var þá til þess að fara varlega og glopra ekki úr höndum sér fjöreggi.

Ekki munu fyrsta kastið hafa komið fram kvartanir yfir sjónvarpinu. Dr. Kristinn Guðmundsson, sem var á þessum tíma utanrrh., hætti störfum 1956. Síðan hefur hv. núverandi utanrrh. farið samfleytt með völdin í þessum málum. Honum var svo vel í hendur búið sem ég hef lýst og sannað með upplestri úr bréfum. Talið er, að varnarliðið hafi, þegar fram í sótti, brotið samningana og sjónvarpið náð til íslenzkra byggða. En hæstv. ráðh. hefur ekki tekið í taumana og stöðvað tilraunaframkvæmdina, sem hann gat þó haft aðstöðu til að stöðva með einfaldri tilkynningu, sbr. bréfið okkar hv. 5. þm. Vesturl. frá 7. marz.

Það virðist nú einboðið að gera kröfu til, eins og gert er í þáltill., að varnarliðið standi við fyrri samninga. Um það er 2. liður till. En sjónvarpsmál íslenzku þjóðarinnar verður ekki að fullu leyst með því að banna erlendum aðilum sjónvarpsrekstur í landinu nema innilokaðan. íslendingar geta ekki einangrað sig í þessum efnum, enda ekki æskilegt fyrir pá að gera það. Útvarpstækninni hraðfleygir fram. Líkur benda til, að gervihnettir helli bráðum sjónvarpi yfir lönd og álfur. Íslendingar verða, svo fljótt sem þeir með góðu móti geta, að koma sér upp sjónvarpi, sem þeir ráði sjálfir yfir og reki sem menningartæki. Það sjónvarp þarf að ná til allrar þjóðarinnar, ef unnt er. Sjónvarp íslendinga á að vera þjónustutæki íslenzka þjóðlífsins og íslenzkrar menningar. Um það sjónvarp á að leiða hið bezta, sem völ er á erlendis frá, inn í okkar menningarhelgi til að auðga hana. Öll ráð um það sjónvarp eiga að vera í okkar höndum. Þetta er einn þáttur sjálfstæðisbaráttunnar. Landhelgi ver sig ekki heldur sjálf, hana þarf að verja.

3. liður þáltill. er um að undirbúa með fyllstu ráðdeild þennan þátt sjálfstæðisbaráttu okkar. Hinn 8. þ. m. skrifaði skáldið Hannes Pétursson í Vísi grein, er snertir sjóvarpsmálið og leyfið um stækkun sjónvarpsstöðvar setuliðsins. Þar segir hann orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Sagt hefur verið, að maður skyldi vara sig á vinum sínum, og margt er vitlausara en það. Enda þótt við tökum þátt í vörnum Atlantshafsríkjanna með því að ljá Keflavíkurflugvöll amerískum her, á vera hans ekki að koma hér við sögu að öðru leyti. Hann á ekki að hafa með höndum skemmtistarfsemi í landinu. Nærvera hans á ekki að teygja sig inn á annað hvert íslenzkt heimili. Og það er í engu viðspyrna við Atlantshafsbandalagið að hamla gegn því. Við viljum hvorki láta „sovétisera“ né „ameríkanisera“ okkur. Gerist annað tveggja, sama hvort er, lít ég svo á, að Atlantshafsbandalagið hafi brugðizt íslendingum.“

Þetta er skörulega mælt hjá skáldinu. Ég tek undir þessi orð og bæti þeim við framsögn mína með þáltill.

Herra forseti. Að svo mæltu leyfi ég mér að leggja til, að till. verði vísað til hv. utanrmn. til athugunar og umsagnar. Umr. sé frestað, meðan á þeirri athugun stendur. Ég vænti, að sú athugun þurfi ekki að taka langan tíma.