11.10.1961
Sameinað þing: 1. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 345 í B-deild Alþingistíðinda. (327)

1. mál, fjárlög 1962

Karl Guðjónsson:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Nýtt fjárlagafrv. hefur séð dagsins ljós, og hafa landsmenn nú fengið að hlýða á rökstuðning hæstv. fjmrh. fyrir því, svo og skýrslu hans um fjárreiður ríkisins, það sem af er árinu, og hvernig hann lítur á horfurnar. Ráðherrann virðist hafa von um, að ekki verði halli á ríkisrekstrinum allt til næstu áramóta. Það er vissulega gott, að svo skuli vera. En fulllítið fannst mér hann gera úr því, að til þess að hann öðlaðist þessa von, varð að skrá gengi íslenzkra peninga niður á árinu og ríkið að slá eign sinni á allan gengishagnaðinn, sem er af þeim vörum, sem framleiddar eru í landinu við fyrra gengi, en seldar á nýja genginu.

Ekki verður sagt, að boðskapur frv. sé í neinu merkilegur og óvæntur, nema máske fyrir þá, ef einhverjir væru, sem enn leggja trúnað á öfugmælið, sem hæstv. ríkisstj. hefur gefið fjármálastefnu sinni með því að kalla hana viðreisn. Ráðherrar og nákomnustu stuðningsmenn þeirra, svo sem ritstjórar íhalds- og kratablaðanna, þreytast þó ekki á að gera sig að athlægi með því að láta eins og með birtingu þessa fjárlagafrv. hafi komið fram nýtt sigurskjal stefnu sinnar. Þannig er frv. kynnt í Vísi undir yfirskriftinni: „Hagkvæmni aukin í ríkisrekstrinum“ — og talið, að þar gnæfi tekjurnar yfir gjöldin. Alþýðublaðið er að vísu ekki hrifnara en svo, að það notar smátt letur á skrumið, sem þó liggur ekki jafnan fyrir. Morgunblaðið er með stóru letri yfir þvera forsíðu með þetta siguróp: „Fjárlög 1962 án nýrra skatta.“ Viðreisnin var nú reyndar ekki einungis boðuð í upphafi sem viðspyrna nýrrar skattheimtu, þegar hennar færi að gæta, heldur sem blómi og batnandi tímar. Með henni voru, eins og orðrétt segir í ritinu fræga, sem stjórnin lét ríkissjóð gefa út og senda inn á hvert heimili í landinu í ársbyrjun 1960 sem sitt fagnaðarerindi: Skilyrði sköpuð fyrir aukinni þjóðarframleiðslu og batnandi lífskjörum. — En nú er það sem sagt kallað ágætt að leggja fram frv. að fjárlögum hins þriðja viðreisnarárs án nýrra skatta, svo að jafnvel ritstjórar stjórnarblaðanna eru nú örlítið teknir að nálgast jörðina.

En er hið nýja frv. þá án nýrra skatta? Nei, svo sannarlega er sú fullyrðing algert öfugmæli, eins og svo til allt, sem borið hefur verið á borð fyrir þjóðina úr herbúðum stjórnarinnar um þessi mál.

Á fyrstu síðu fjárlagafrv. er skrá yfir það, hvað áætla megi að almennir tollar og skattar muni færa ríkissjóði miklar tekjur yfir árið. Í fjárlagafrv. í fyrra nam þessi áætlun 1237 millj. kr. Nú er hún hlaupin upp í 1401 millj., þ.e.a.s. 1962 ráðgerir fjmrn. að taka 164 millj. kr. meira í tolla og skatta af landsmönnum en á yfirstandandi ári. Skyldi Gunnar Thoroddsen, hæstv. fjmrh., hafa haldið því fram, að svo gífurleg aukning skattanna ætti að teljast meinlaus eða engin ný skattheimta, ef t.d. vinstri stjórnin hefði staðið fyrir henni? Það er hætt við, að svo hefði honum ekki fundizt. Og það hefði honum sannarlega ekki heldur verið láandi, enda nemur þessi breyting því sem næst 4000 kr. hækkun útgjalda hjá hverri meðalstórri fjölskyldu í landinu, og er þetta þó ekki öll tekjuhækkun ríkissjóðs, sem frv. gerir ráð fyrir. Hitt er svo rétt, að þessi nýja skattheimta hefur ekki hlotið neitt nýtt nafn í lögunum. Hún verður næstum öll til við gengisfellinguna, sem stjórnin lét framkvæma í ágústmánuði í sumar og gaf út bráðabirgðalög um og þverbraut raunar þar í leiðinni með lögunum stjórnarskrá landsins. Sú gengisfelling, sem raunar er sérstakt mál fyrir þessu þingi og ég mun ekki ræða hér, nema að því leyti sem hún er einnig fjárlagamál, var augsýnilega gerð til að freista þess að hjálpa upp á það öngþveiti og volæði, sem hæstv. fjmrh. var sokkinn í með fjárreiður ríkisins, þótt stjórnin reyndi að leiða athygli þjóðarinnar frá ömurleik sinnar eigin stefnu með því að telja, að sú litla kaupgjaldsleiðrétting, sem verkalýðshreyfingin knúði fram í vetur og vor, væri ástæðan fyrir gengisfellingunni. Í gengisfellingarreglum stjórnarinnar er auk alls annars einnig ákveðinn nýr stórkostlegur skattur á útflutninginn, og þar að auki ætlar ríkið að taka til sín stórar fjárfúlgur í gengishagnaði. Þeim skatti er ætlað að létta á ríkissjóði með því að taka við sumum þeim útgjöldum, sem annars hafa hvílt á ríkissjóði og áætlað hefur verið fyrir í fjárlögum, svo sem greiðslu vaxta og afborgana af ríkisábyrgðarlánum, sem í vanskil eru fallin.

Hæstv. fjmrh. mun í ágústmánuði hafa gert sér vonir um, að með því að velta vænni sneið gjaldanna af ríkissjóði yfir á nýja skattheimtu utan ríkiskassans og með því að hækka innkaupsverð allrar innfluttrar vöru um góð 13%, sem ríkistollarnir og skattarnir kæmu á, svo sem gert er með gengisfellingunni nýjustu, mundi batna svo í búi hjá ríkissjóði, að hægt yrði að koma saman hallalausu fjárlagafrv. fyrir árið 1962. Nú fer það ekki á milli mála, að með gengisfellingunni fær ríkissjóður aðstöðu til þess að auka skatttekjurnar og þyngja á verðlaginu um 100–200 millj. kr. og gerir það, svo sem áður er rakið.

En það væri ranglátt að geta þess ekki, að þrátt fyrir þá heildarhækkun tolla og skatta, sem orðin er, þá er þó einn tollur, sem lækkun verður á í áætlun stjórnarinnar fyrir næsta ár, — lækkun, sem vafalaust mun standast. Það er vörumagnstollurinn. Hann á að lækka úr 35 í 33 millj. kr., eða því sem næst um 6%. Þessi tollur er sérstæður að því leyti, að hann er ekki bundinn af verðmæti vörunnar í krónutali, heldur við magn hennar í rúmmetrum eða tonnum. Lækkun stjórnarinnar á íslenzkri krónu breytir honum því ekki. Til þess hefðu bráðabirgðalögin þurft að minnka rúmmetrana eða létta tonnið. En hvort það hefur undan dregizt af vangá eða af öðrum ástæðum, þá er ekkert ákvæði í þeim um það, og því fór sem fór um þennan toll einan allra. En einmitt þessi tiltölulega litli tollur, sem óháður er gengisfellingunni, segir óneitanlega skýra, en alvarlega sögu um það, hvert stefnir hjá þjóð okkar. Hann er mælir, sem vert er að líta á.

Ef efnahagsþróunin hér væri með eðlilegum hætti, ætti vörumagn til þjóðarþarfanna auðvitað að fara vaxandi frá ári til árs, bæði vegna þess, að aukin tækni hefur á þessari öld fært flestum þjóðum aukna kaupgetu til handa hverjum einstaklingi, og svo hefur þetta einnig verið um Íslendinga allt til hinna síðustu ára. En alveg sérstaklega kallar hin öra fjölgun þjóðarinnar, sem nemur nú árlega hart nær 4 þús. manna, á aukið vörumagn bæði til neyzlu og framkvæmda. Óbreytt vörumagnsvelta þýðir ekki kyrrstöðu í lífskjörunum, heldur beina afturför, sem nemur því, að vörurnar skiptast á 4000 fleiri menn 1962 en þær gera 1961, og kemur því drjúgum minna í hvers eins hlut. Áætlanir stjórnarinnar telja þó, að sama vörumagn verði ekki til skiptanna á næsta ári og á þessu ári hefur verið, heldur 6% minna magn, sem skiptist á 4000 fleiri staði en áður. Hér er því um stórkostlegri samdrátt vörumagns í hlut hvers einstaklings að ræða en ég veit dæmi um hjá nokkurri sjálfstæðri menningarþjóð á þessari öld, þegar ekki geisar styrjöld. En þetta minnkaða vörumagn á að kosta drjúgum meira en það, sem til skiptanna var áður. Ríkissjóður ætlar að taka á annað hundrað millj. kr. meira í tolla af því, og ríkisstj. hefur einnig leyft kaupsýslumönnum að leggja miklu meira á vörurnar en leyfilegt hefur verið hingað til. Það mun vera þessi ráðabreytni, sem varðar leiðina til bættra lífskjara, en um síðustu kosningar kallaði Sjálfstfl. stefnuskrá sína svo og skráði það ekki einasta í blöð sín, heldur voru líka fjölmargir húsveggir, portþil og götustaurar höfuðborgarinnar þá þakin málverkum íhaldsins upp á það, að stuðningur við Sjálfstfl. væri leiðin til bættra lífskjara. Og það er svo í framhaldi af þessu sjálfsagt góð og gegn háttvísi, þegar ráðherra Sjálfstfl. leggur með stolti og skrumi fram það fjárlagafrv., sem segir þá sögu, sem hér hefur verið rakin.

Við að líta yfir tekjubálk frv. blasir það við, að fögru var lofað, en illt aðhafzt, og ofan í kaupið fullyrt frá hærri stöðum, að ekki sé efnt til nýrrar skattheimtu og allt sé á góðri leið.

Á meðan litið er frá skattahliðinni á frv. yfir á útgjaldabálkinn, væri bezt viðeigandi að hafa upp fyrir munni sér þessar einföldu og miðlungi andríku ljóðlínur: „Þetta var fyrsta vers, svo kemur annað vers, það er alveg eins.“ Svo mjög eru þar hlutföllin á milli loforða og efnda á sömu bókina lærð.

Það var ekkert smáræði, sem hæstv. fjmrh. boðaði af umbótum og sparnaði hina fyrstu daga í sinni stjórnartíð, og hann var raunar alls ekki uppgefinn á því enn í ræðunni, sem hann hélt hér áðan. Og lítilsigld fannst honum í upphafi fjármálastjórn landsins hafa verið allt til þess dags, er hann tók hana í sínar hendur. Fjárlagafrv., sem fyrirrennari hans í fjármálaráðherrastóli og samráðherra hans æ síðan hafði nýlokið við að semja, var tafarlaust borið á skarnhaug, sem vel má vera að hafi verið því verðugur samastaður, og boðuð var koma stimpilklukku í stjórnarráðið, svo vandlega átti að gæta hagsmuna ríkissjóðs. Sá gripur virðist þó dálítið torfenginn, því að ókomin var klukkan þar, síðast þegar ég til vissi. Sparnaðurinn átti að vera mikill og margþættur, þegar fram liðu stundir. Í framkvæmd hefur hann raunar orðið minni en enginn. Þar hefur allt farið á sömu leið og í baráttunni við selshausinn á Fróðá, ef ekki verr, því að hafi einhvers staðar verið fækkað um einn ríkisstarfsmann, hafa óðara gosið upp mörg embætti í staðinn og raunar ekki bara einstök embætti, heldur stórar og ferlegar stofnanir með rúmgóðum kontórum, bílakosti og margs konar öðrum tilkostnaði. Má sem dæmi um þetta nefna ferföldun sakadómaraembætta í Reykjavík, nýtt embættisbákn saksóknara ríkisins, sem vinna á part af störfum dómsmrn., að ógleymdu flóði erlendra sérfræðinga, sem helzt virðist ætlað það hlutverk, að stjórnin geti vitnað í einhverja parta úr álitsgerðum þeirra við framkvæmd þeirra stjórnaraðgerða, sem þjóðin á hvað erfiðast með að sætta sig við. Með þessu er auðvitað ekki hálftalin starfsliðs- og embættaaukningin, þótt hér verði að láta staðar numið í því að sinni.

Sá hluti fjvn., sem styður stjórnina, hefur líka fundið sárt til þess við fjárlagaafgreiðslu að undanförnu, að þunglega gekk um framkvæmdir hins boðaða sparnaðar. Og í nál. sínum hefur hann því brugðið á það ráð í stað raunverulegra sparnaðarráðstafana að birta langar skrár um sparnaðaráform, sem fyrir dyrum stæðu, og áminnt stjórn sína um að láta ekki lengur undir höfuð leggjast að undirbúa sparnaðinn fyrir setningu næstu fjárlaga. Á síðasta vetri var áminning meiri hl. fjvn. í ekki færri en 23 liðum og þess þó getið, að það væri engan veginn tæmandi eða fullnægjandi sparnaður, sem í þessum 23 liðum fælist, heldur yrði miklu betur gert. Hér eru auðvitað engin tök á því sökum takmarkaðs ræðutíma að rekja það í öllum liðum, hvernig brugðizt hefur verið við þessari bænaskrá stjórnarstuðningsmannanna í fjvn. við samningu þessa fjárlagafrv., en með leyfi hæstv. forseta, vildi ég mega lesa hér upp fáein af formálsorðum sparnaðarskrárinnar miklu úr nál. meiri hl. fjvn., útgefnu 2. des. í fyrra, og grípa síðan aðeins ofan í, þótt ekki sé nema upphafið á skránni sjálfri, skrá hinna góðu áforma, ef verða mætti mönnum til svolítillar glöggvunar á því, hvort sparnaðurinn er að komast í framkvæmd eða ekki. Í álitinu segir m.a.:

„Meiri hluti nefndarinnar telur því rétt að benda á nokkur atriði, sem ætti nú þegar að taka til athugunar eða hraða athugun á, þannig að niðurstöður gætu legið fyrir við undirbúning næstu fjárlaga.“

Er því hér auðvitað ekki um neina tæmandi upptalningu að ræða. En meiri hl. n. beinir þeim tilmælum til ríkisstj., að hún m.a. láti rannsaka, hvort ekki sé hægt að gera eftirtaldar ráðstafanir til þess að draga úr ríkisútgjöldum og síðan koma liðirnir 23. Fyrsti liðurinn og að því er ætla má sá, sem hvað mest áherzla er lögð á af nefndarmanna hálfu, er þannig: „1) Að fækka enn sendiráðum Íslands erlendis, t.d. leggja niður tvö sendiráð á Norðurlöndum, og jafnvel lækka launagreiðslur til sendiherra og annarra starfsmanna sendiráðanna.“ Það er fastur liður stjórnarinnar að taka illa öllum tillögum andstæðinga sinna, en þetta var tillaga Magnúsar Jónssonar frá Mel, Birgis Finnssonar, Guðlaugs Gíslasonar, Jóns Arnasonar og Jónasar Rafnars, svo að það hefði mátt ætla, að stjórnin vildi nú hlýða á, þótt ekki væri nema fyrstu óskina á bænaskrá þeirra. Og nú hafa menn það svart á hvítu í nýju frv. til fjárlaga, hvernig greiðslur hafa verið áætlaðar til utanríkisþjónustunnar. Sendiráðunum fækkar ekkert, en kostnaður við þau hækkar úr rúmum 17 millj. kr. í síðasta frv. í 21 millj. nú, eða um svo sem 20%. Ekki þætti mér ólíklegt, að stjórnin hefði tilhneigingu til þess að afsaka svo háðulega meðferð á tillögu eða frómri bæn eins skjólstæðinga sinna með því að segja sem svo, að þegar gengi er fellt á Íslandi, hljóti auðvitað erlendur kostnaður að vaxa. En þar er því til að svara, að gengisfellingin er eingöngu verk þeirrar sömu ríkisstj., sem beðin var að draga úr erlenda kostnaðinum, og henni því engin afsökun. En þar að auki er þessi hækkun miklu meiri en sem nemur gengisfellingunni, enda er þess sérstaklega getið í athugasemdum við fjárlagafrv., að víða hækki laun og kostnaður í sendiráðunum umfram gengisfellingu og almenna launabreytingu ríkisstarfsmanna. T.d. á sendiherrann í London að fá hækkaða sérstaka staðaruppbót á laun sín, og í tveim sendiráðum á Norðurlöndum, máske þeim, sem nm. vildu leggja niður, á þetta að ske: Allt sendiráðsstarfsliðið í Kaupmannahöfn fær 5% aukakauphækkun vegna dýrtíðar þar í landi, og í sendiráðinu í Osló á að greiða 6% dýrtíðaruppbót umfram almennu launahækkunina vegna hækkaðs verðlags í Noregi. Þannig eiga sendiherrar og sendiráðsstarfsmenn einir allra ríkisstarfsmanna að fá dýrtíðarvísitölu á laun sín með einföldum úrskurði þeirrar sömu ríkisstjórnar, sem lögfesti bann við því, að dýrtíðaruppbót mætti greiða á kaup, og stjórnin seilist til að gera þetta helzt þar, sem þingmenn hennar telja ekki þörf neinna sendiráða. Þar að auki er vöxtur dýrtíðarinnar í umræddum löndum ekkert svipaður og hér heima. Á sínum tíma verður nokkur fróðleikur að sjá, hvernig þeir stuðningsmenn stjórnarinnar, sem gerðu sparnað í utanríkisþjónustunni að fyrsta boðorði sínu á skránni löngu, bregðast við þessu atriði fjárlagafrv. Uni þeir því vel, er a.m.k. óþarfi fyrir þá að endurtaka hinar bænirnar sínar um, að dregið verði úr opinberum veizluhöldum, takmörkuð verði tala sendimanna á alþjóðaráðstefnur o.s.frv., o.s.frv., o.s.frv., því að þá má öllum ljóst vera, að enginn hugur fylgir máli, þótt þeir biðji langra bæna.

Það er deginum ljósara, að hæstv. fjmrh. hefur lagt allt sitt sparnaðarplan á hilluna og hann blæs á allar tillögur sinna manna, er í þá átt fara, svo að ekki sé nú minnzt á afstöðu hans til tillagna andstæðinga sinna. Hjá honum virðist gilda sú regla, að sparnaður sé til þess að tala um hann, bruðl til að framkvæma.

Svo sem áður var á drepið, hafði eyðslusemin í fjármálastjórn ríkisins dregið til þess á miðju ári og áður en nokkurrar launabreytingar gætti hjá ríkinu, að greiðsluhalli hafði myndazt og ríkissjóður lifði frá degi til dags á náðarbrauði Seðlabankans og var orðinn þar vafinn skuldum, eins og fjmrh. hæstv. reyndar viðurkenndi í ræðu sinni hér áðan. Það mun hæstv. fjmrh. hafa þótt fremur dauflegar framtíðarhorfur að eiga þannig að vera þurfalingur Vilhjálms Þórs, svo sem hver annar hreppsómagi á sinni sveit, ómegnugur alls af eigin rammleik í bráð og lengd. Þá var bágt til bjargar fyrir blessaða rjúpuna hvítu. Ráðh. mun hafa fundizt, að þá mundi bjargast af rekstur ríkisins, ef hægt væri að innheimta alla aðflutningstolla og söluskatta af svo sem 13% hærra innflutningsverði en áður. Gengið var umsvifalaust fellt, og í leiðinni var valdið yfir gengisskráningunni afhent Seðlabankanum, svo sem eins og til þess að tryggja það, að ekki þyrfti fjmrh. að vera framar venjulegur bónbjargamaður bankans, heldur hefði fyrir fram lagt nokkuð á borð með sér og gæti því fremur talizt próventukarl hjá Vilhjálmi en réttleysingi, ef allt um þryti.

Svo var farið að telja út til nýrra fjárlaga, og hér er árangurinn kominn. Tekjur ríkissjóðs aukast auðvitað stórlega, og nýi útflutningsskatturinn léttir eitthvað á ríkissjóði. Allar verklegar framkvæmdir eru stórlega dregnar saman, þar eð yfirleitt er ætlaður til þeirra óbreyttur krónufjöldi frá því, sem áður var, en þeim mun minna vinnst auðvitað fyrir óbreytta upphæð sem krónan smækkar, en í þá átt hefur stefnt óslitið alla tíð núv. stjórnar. Og fjmrh. hæstv. sýnir fram á það, að sífellt fækki vinnustöðum, t.d. í vegagerð, og telur sér til dyggða. En það er hans misskilningur, að meira sé unnið á hverjum vinnustað en áður var.

Svo kom að því, að mæla skyldi, hvort tekjur og gjöld gætu staðizt á. En þá uppgötvar hæstv. fjmrh. það, að enn er allt sigið á svartabólakaf, og þrátt fyrir óumdeilanlegan dugnað hans í gengisfellingum hefur hann þar þó ekki við eyðslusemi sinni nú fremur en áður. En það stóð aldrei til að láta það koma fram á opinberu skjali, að engin úrræði fyndust þrátt fyrir nýframkvæmda gengisfellingu og álögu útflutningsskattsins, sem henni var samfara, til þess að koma saman hallalausum fjárlögum. Þess vegna er í ofanálag við allt annað sprett burt yfir 60 millj. kr. úr útgjaldabálkum frv., enda þótt þar sé um að ræða óhjákvæmileg og sumpart lögbundin útgjöld. Ekki er því heldur neins staðar haldið fram, að komizt verði hjá að greiða þetta fé, heldur er þess getið í skýringum við frv., að lán verði væntanlega tekið fyrir 33 millj. kr. kostnaði við undirbúningsrannsóknir rafvirkjana og jarðborana, og allt framlagið til atvinnuleysistrygginganna, 28 millj., á að greiða með skuldabréfum.

En þótt þarna sé ráðgert að safna yfir 60 millj. kr. skuld til að nota í venjuleg rekstrarútgjöld ríkissjóðs, er því eftir sem áður haldið fram, að fjárlagafrv. sé hallalaust. Segja má, að stjórninni sé ekki of gott að flytja mál sitt með svo fjarstæðukenndum hætti. En sá einstaklingur, sem sýndi svona umgengni við almenn hugtök, yrði auðvitað færður til læknis og það rannsakað, hvort hann hefði ekki fengið þungt högg á höfuðið.

Um framlagið til atvinnuleysistrygginganna er það að segja sérstaklega, að auk þess sem það er ákveðið í lögum, þá er það samningsatriði stjórnarvaldanna og verkalýðshreyfingarinnar, gert til lausnar vinnudeilunni miklu 1955. Brotthlaup frá því samkomulagi er auðvitað síður en svo til þess fallið að efla vinnufrið í landinu. En það virðist raunar sérstakt keppikefli stjórnarinnar að þverbrjóta sem flesta samninga við verkalýðshreyfinguna og kippa þar með öllum stoðum undan því, að vinnufriður sé hugsanlegur. Málum atvinnuleysistryggingasjóðs er annars svo háttað, að frá þeim sjóði hafa verið veitt lán til ýmissa þjóðþrifaframkvæmda að undanförnu, þegar allt hefur þrotið um önnur lán, og lánaupphæð hans á síðasta ári nam svipaðri fjárhæð og ríkisframlagið á að vera. Hafnarframkvæmdir víða um land hafa byggzt að verulegu leyti á slíkum lánum, og hinar nýju síldarverksmiðjur væru ekki það, sem þær nú eru, ef aðstoð atvinnuleysistrygginganna hefði ekki komið til, svo að mörg síldin, sem nú er þjóðinni gjaldeyrisgjafi, synti enn í sjó og kæmi hvergi við sögu í þjóðarbúskap okkar, ef sá háttur, sem ríkisstjórnin nú áformar, hefði verið upp tekinn. Nú ætlar ríkið sér einu öll lán sjóðsins á næsta ári. Með lánastarfseminni hefur sjóðurinn einnig stutt svo við bakið á atvinnulífinu, að lítið atvinnuleysi hefur kallað á bætur sjóðsins, og víst má telja, að honum aukist bótaskylda, þegar lánsmöguleiki hans er þorrinn.

En hallarekstrarsaga ríkissjóðs er ekki öll á enda, þótt taldar hafi verið þær milljónir, sem meðgengið er í frv. að tekið verði lán til greiðslu á. Framlagið til niðurgreiðslu vöruverðs og útflutningsuppbóta er lækkað um 14 millj. kr., án þess að nokkur rök séu leidd að því, að skyldur ríkissjóðs í þessum efnum gefi tilefni til þessarar lækkunar, aðeins sagt, að greiðslur þessar séu í endurskoðun. Óbreytt upphæð er ætluð til greiðslu ríkisábyrgðalána og það mál ekki á neinn hátt skýrt í frv. En á yfirstandandi ári eru í þessar þarfir ætlaðar 38 millj. kr., og hefur það svo illa hrokkið til, að á miðju ári voru á ríkissjóð fallnar um 50 millj. kr. af slíkum greiðslum. í brbl. um ráðstafanir í sambandi við gengisfellinguna segir hins vegar um fé, sem ríkissjóður ætlar að ná til sín í gegnum hana: „Að öðru leyti skal fé þetta notað til þess að létta byrðar ríkissjóðs vegna áfallinna ríkisábyrgða í þágu atvinnuveganna.“ Svo linlega er það rökstutt, að ekki þurfi á næsta ári að ætla hærri upphæð til ábyrgðargreiðslnanna á fjárlögum. Og reynsla þessa árs, það er enginn skóli talinn.

Það er því greinilegt, að á þeim liðum, sem hér hefur verið minnzt á, vantar meira en 100 millj. upp á, að gjöld séu eðlilega áætluð í frv. En það er ekki tilgangurinn með þessu fjárlagafrv. að leggja fram raunhæfa áætlun um tekjur ríkissjóðs og gjöld, heldur hitt, að sýna plagg, sem fjallar að vísu um þessi mál, en að því leyti sem borginmennska stjórnarvaldanna heldur ekki hlut sínum fyrir eðlilegri reikningsfærslu, þá skal hið síðar talda víkja, því að það er stjórninni fyrir öllu að látast vera góð og merkileg stjórn, alveg án tillits til þess, hvað hún raunverulega er.

Þegar ráðherrar gerast hnarreistir og hátíðlegir, róma stjórnvizku sína og telja sig dugandi lækna í fjármálakerfinu, er kunni ráð við hverju meini, stingur það alveg í stúf við álit hinna óbreyttu stuðningsmanna þeirra á viðreisnaraðgerðunum, enda er nú margur upphaflegur liðsmaður stjórnarinnar orðinn að fyrrverandi liðsmanni, sem segir farir sínar ekki sléttar fremur en afturbatasjúklingurinn, sem verið hafði á geðveikraspítala og strauk þaðan loksins heim til sín. Þegar hann kom heim, var hann spurður, hvernig honum hafi líkað vistin og hvað hann hefði haft fyrir stafni. Hann kvað vistina hafa verið leiðinlega og vinnubrögðin fráleit. „Við vorum,“ sagði hann, „stöðugt látnir bera sama sandinn upp stiga og hella honum þar í rennu, sem flutti hann niður á sama staðinn aftur, alltaf sömu bjánalætin alla daga.“ „Já, en ætli þetta geti nú ekki verið að einhverju gagni samt?“ var hann þá spurður. „Eða hafa ekki einhverjir trú á þessu?“ „Nei,“ svaraði hann gramur, „Það sjá allir, að þetta er eintóm vitleysa, nema bara læknirinn. Það hefur enginn trú á þessu nema hann Þórður.“ — Um viðreisnina má segja alveg sömu sögu. Það hefur enginn trú á henni nema ráðherrarnir. Og þó er mér nær að halda, að þeirra viðreisnartrú sé í raun réttri sýnu minni en trú Þórðar á sandburðinn, enda áforma þeir nú að hlaupast undan því að halda uppi efnahagslegu sjálfstæði þjóðarinnar með því að undirbúa inngöngu Íslands í svonefnt markaðsbandalag Evrópu, sem jafngildir afhendingu íslenzku atvinnuveganna í hendur auðhringa voldugustu þátttökuríkjanna, væntanlega Breta og Frakka, en einkum þó Þjóðverja, sem greinilega yrðu herraþjóðin í slíkri samsteypu og næðu þannig upp á billegan hátt því marki, sem Hitler sálugi tapaði heimsstyrjöld á að reyna sig við. En þreyttir menn og bugaðir, sem geta ekki stjórnað Íslandi á annan hátt en að kreppa stöðugt að lífskjörum þjóðarinnar, meðan flestar aðrar þjóðir þróast fram á við, — menn, sem ekki einu sinni koma saman forsvaranlegu fjárlagafrv. og ekki koma auga á neitt nema uppgjöf og ósjálfstæði á komandi tímum, ættu að segja af sér og leyfa þjóðinni að velja sér nýja forustu. — Góða nótt.