28.03.1962
Sameinað þing: 46. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 393 í D-deild Alþingistíðinda. (3270)

104. mál, sjónvarpsmál

Utanrrh. (Guðmundur Í. Guðmundsson):

Herra forseti. Það mátti glöggt heyra af niðurlagi ræðu hv. þm., að hann er enn haldinn sínum móðuharðindahugleiðingum, og verð ég að harma það, hvað honum sækist batinn seint.

Hv. þm. vill enn halda því fram, að fyrir sjónvarpsleyfinu á Keflavíkurflugvelli séu önnur og frekari skilyrði en þau, sem fram koma í leyfisbréfunum sjálfum í marz 1955. Virðist hann gera tilraun til að finna þessum fullyrðingum sínum stað með því að lesa sjálf leyfisbréfin með mjög undarlegum hætti. Hann talar um, að leyfisbréfin vitni í nótur og vitni í bréf, sem á milli hafi farið áður. Þetta er algerlega rangt. Í sjálfum leyfisbréfunum er hvergi vitnað í neinar nótur eða nein bréfaskipti. Leyfisbréf utanrrn. frá 7. marz 1955 hefst á því, að sagt er, að vitnað sé til ýmissa viðræðna í varnartnálanefnd um sjónvarp á Keflavíkurflugvelli. Þetta er tölul. nr. 1. Síðan kemur töluliður nr. 2, og í honum segir, að varnarliðinu sé hér með heimilað að reka í tilraunaskyni sjónvarpsstöð á Keflavíkurflugvelli, með því skilyrði, að stöðin sé ekki yfir ákveðinn styrkleika og að skorinn sé viss partur úr hringnum. Skilyrðin eru talin upp í bréfinu sjálfu. Þetta er leyfisbréfið og það eina, sem fyrir liggur. Á þessu er sjónvarpsreksturinn byggður. Allt annað eru hreinar blekkingar, fals og útúrsnúningur af hálfu þessa hv. þm., og er næsta furðulegt, að hann skuli vera að reyna að halda slíku fram, þegar til þess er hugsað, hvaða mynd hann bregður upp af utanrrh. Framsfl. og fyrrv. form. Framsfl. með þessum fullyrðingum sínum. Þessir menn, dr. Kristinn Guðmundsson og Hermann Jónasson, gáfu Alþ. báðir tveir skýrslu í nóvembermánuði 1954 um gang varnarmúlanna til þess tíma. Þeir skýrðu ýtarlega frá öllum þeim umr., sem farið höfðu fram milli utanrrn. og varnarliðsins um breytingar í sambandi við aðgerðir varnarliðsins á Íslandi. Þeir töldu upp allt, sem um hafði verið rætt, og skýrðu frá öllum þeim breytingum, sem þeir voru búnir að ganga frá samkomulagi um. Hvorugur þeirra minnist einu einasta orði á það, að sjónvarp hafi verið rætt eða farið hafi verið fram á sjónvarpsleyfi. Nú kemur þessi hv. þm. hér og segir okkur, að þá daga, sem utanrrh. Framsfl. og form. Framsfl. eru að gefa þingheimi skýrslu um varnarmálin, þá eru þessir tveir heiðursmenn búnir að lofa varnarliðinu því, að það skuli fá sjónvarp, þeir eru búnir að setja fyrir því viss skilyrði, en þeir, þessir tveir þm., leyndu Alþ. þessum upplýsingum. Þegar hv. 1. flm. þessarar till. er að staðhæfa, að leyfið hafi verið gefið út eða því hafi verið lofað og skilyrðin verið sett haustið 1954, þá er hann þar með að gera þessa tvo menn, dr. Kristin Guðmundsson og Hermann Jónasson, að heldur undarlegum persónum í augum Alþ. En sem betur fer eiga þessir menn ekki skilið þá meðferð, sem þessi hv. þm. er að gera tilraun til að veita þeim hér, vegna þess að leyfið hafði ekki verið gefið út eða lofað, eins og hann þó vill halda fram.

Það ætti að vera alveg ástæðulaust að deila um skilyrðin fyrir þessu sjónvarpi. Leyfið er svo skýrt og afdráttarlaust, að um það verður ekki villzt.

Hv. þm. minntist á það, að lokaða sjónvarpið hefði komið til sögunnar, síðan sjónvarpið á Keflavíkurflugvelli hófst. Þetta er algerlega rangt. Lokaða sjónvarpið var komið til sögunnar þá, og það hefur engin breyting orðið á því á þeim tíma, sem liðinn er síðan Keflavíkursjónvarpið kom. Utanrrn. lét athuga það haustið 1954, eins og ég hef margsagt, hvort hægt væri að koma þarna við lokuðu sjónvarpi eða ekki. Og niðurstöður þeirrar rannsóknar voru þær, að utanrrn. hafði þá kröfu ekki í frammi, það sá ekki ástæðu til þess. Á þessu máli hefur engin breyting orðið síðan þetta var gert.

Það er dálítið broslegt að hlusta á hræsnina í þessum hv. þm., þegar hann er að tala um, að ég hafi látið Bandaríkjamenn ráðast inn í menningarhelgi Íslendinga með því að leyfa þeim stækkunina á sjónvarpinu á Keflavíkurflugvelli og ekki einu sinni haft fyrir að skýra þinginu frá þessu. Þetta segir þessi þm., á sama tíma sem hann er að fræða okkur um það hér, að fyrrv. form. flokks hans og fyrrv. utanrrh. flokks hans hafi upphaflega opnað dyrnar, boðið Bandaríkjunum inn í þessa menningarhelgi, og eftir að þeir voru búnir að gera þetta, hafi þeir leynt þingið og þjóðina því og það enda þótt þeir hafi staðið í a.m.k. tveggja daga umr. hér á Alþ. til þess að gera grein fyrir sínu máli í þessu sambandi. Ég vildi nú vænta þess, að þessi hv. þm. ræddi eitthvað við þessa ágætu flokksmenn sína um það, hvernig þeir hafi leikið menningarhelgi íslendinga, og ef hann vill halda því fram enn þá, að leyfinu hafi verið lofað haustið 1954, þá krefji hann þá um svör við því, hvers vegna þeir leyndu Alþ. því haustið 1954 í umr., að þeir væru búnir að opna þessa menningarhelgi Íslendinga. Ég vildi gjarnan mælast til þess, að þessi hv. þm. legði þetta ómak á sig.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara inn á fleiri atriði þessa máls.