29.11.1961
Sameinað þing: 18. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 400 í D-deild Alþingistíðinda. (3286)

51. mál, meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra

Flm. (Alfreð Gíslason læknir):

Herra forseti. Ég þarf ekki að svara ræðu hæstv. forsrh. mörgum orðum. Lögin um meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra ræða eingöngu um læknismeðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra. Ég sagði í minni ræðu, að skilin á milli ölvaðra manna og drykkjusjúkra væru ekki skörp. Hæstv. forsrh. virtist ekki vera mér sammála í þessu. En ég ætla ekki að gera nánari grein fyrir skoðun lækna á því máli. Það er mjög erfitt að deila við leikmann um læknisfræðileg efni, og ég álít það aðeins tímasóun og til einskis að ræða það mál frekar. En ég get fullyrt það, að sérfróðir læknar gera ekki mjög mikinn greinarmun á því, hvernig fara beri með í lækningalegu tilliti ölvaða menn og drykkjusjúka, þar séu skilin ekki glögg á milli.

Þá virtist mér hæstv. forsrh. hafa á undanförnum tímum hugsað um þetta vandamál og hann hafa hlustað á skoðanir manna, bæði lækna og leikmanna. Og mér skildist á honum, að hann treysti sér ekki til að gera upp á milli þess, sem leikir og lærðir meintu um þessa hluti. Þetta kemur mér dálítið á óvart. Ég hélt, að hæstv. forsrh. hefði reynslu fyrir því, að þegar um slík efni er að ræða, þá er öruggast að treysta þeim, sem kunnáttuna hafa og reynsluna, en síður þeim, sem gutla í málunum. Mér skildist á honum í kafla af ræðu hans, að hann legði töluvert upp úr þessu, að það hafi einmitt veríð þetta, sem hafi tafið málið að undanförnu, að leikir og lærðir væru ekki alveg sammála um sín á milli, hvernig leysa bærí úr vandanum. Hann tók beinlínis fram, hæstv. ráðh., að í þessu lægi vandinn. En í lok ræðu sinnar kom hæstv. ráðh. inn á málefni, sem gladdi mig að heyra að vissu leyti. Þar var á honum að skilja, að ungur, sérfróður læknir, prófessor í geðlæknisfræði, væri að koma hingað og eftir honum væri beðið um álit í þessu efni. Þetta ber að viðurkenna sem nokkurt sjónarmið, er réttlæti þá töf, sem orðið hefur á þessu máll. Og það lýsir því, að hæstv. ráðh. þrátt fyrir allt ætlar nú að taka meira mark á lækni eða læknum en leikmönnum um meðferð sjúkra manna.

Ég fagna því eins og hæstv. ráðh., að innan skamms kemur hingað ungur, sérfróður læknir á sviði geðlækninga, og mér finnst það eðlilegt, að hans álits verði leitað í þessu efni. En ég tel það þó ekki réttlæta þann óhæfilega drátt, sem orðið hefur á málinu, jafnmikilvægt og það er. Tillögur n., sem átti að endurskoða þessi lög, hafa legið frammi í rn. í nærri því tvö ár. Það á að öllum líkindum að bæta við þriðja árinu. Þetta er ekki forsvaranlegt, og það því siður sem önnur leið var til í þessu máli, og það mátti vel bera þetta mái undir álit prófessorsins í geðlæknisfræði, þótt hann væri erlendis.

Ég hlýt því að hafa sömu afstöðu eftir ræðu hæstv. ráðh. eins og áður í þessu efni, að það er óforsvaranlegur dráttur orðinn á leiðréttingu eða endurskoðun þessara laga, og það, sem hæstv. ráðh, sagði til málsbóta hér, hefur ekki nema mjög takmarkað gildi.