29.11.1961
Sameinað þing: 18. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 401 í D-deild Alþingistíðinda. (3287)

51. mál, meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Það er alltaf leiðinlegt að vera að þræta við mann, sem getur ekki haft rétt eftir það, sem sagt var. Ég sagði berum orðum í ræðu minni áðan, að eitt af vandamálunum í þessum efnum, — eitt af þeim, — væri það, að læknunum kæmi alls ekki saman innbyrðis í þessu efni. Þessu sneri lm. ræðumaður þannig, að ég héldi því fram, að það ætti að taka meira mark á því, sem leikmenn segðu, en læknar, eins og öllum leikmönnum kæmi saman og allir læknar væru svo á öðru máli, því að sannleikurinn er sá, að leikmenn greinir mjög innbyrðis á um, hvaða aðferðir eigi að hafa, og lækna greinir mjög innbyrðis á um, hvaða aðferðir eigi að hafa. Þetta ætti hv. þm. að vita. Hann hlustar ekki á annað en það, sem hann vill heyra. Ég hef talað við marga af þessum mönnum og veit, að þeim kemur ekki saman um eðli þessa vanda. En ekki er mikilsverður vitnisburður manns, sem getur ekki farið rétt með, þegar hann situr í næsta stól við þann, sem talar, heldur snýr öllum ummælum við. Það er ekki mikið mark á því takandi, hvað slíkur maður segir.

Eins og ég sagði áðan, ef honum hefur fundizt ótækt, að þetta frv. hefur ekki verið lagt fram, af hverju hefur hann þá ekki aflað sér frv. og borið það sjálfur fram óbreytt? (AGI: Ég hef lagt fram frv. tvisvar á þinginu.) Já, en er það þá sama frv. og hitt? (Gripið fram í.) Já, því hefur hann ekki aflað sér frv.? Hefur því verið haldið fyrir honum? Eins og ég segi, ef hann hefði nokkurn tíma beðið mig, meðan ég hafði meðferð þessara mála með höndum, að fá að sjá þetta frv., þá hefði hann fengið að sjá það tafarlaust, og ég efast ekki um, að hann gæti fengið frv. strax í dag ag lagt það fram hér á morgun, ef það er það, sem á stendur.

Svo segir hv. þm., að það væru rök í málinu, að það væri skynsamlegt að bera þetta undir prófessorinn í geðsjúkdómum við háskólann. Nú stendur þannig á, að þessi maður var nýlega skipaður prófessor og er enn þá að búa sig til hlítar undir það að taka við embættinu. Var hægt að leggja málið undir hans dóm sem prófessors, fyrr en hann var skipaður í embættið? Og er ekki einmitt eðlilegt, að sá maður, sem á á næstu árum að hafa forustu í þessum efnum, fái þetta vandamál til meðferðar, eftir að búið er að skipa hann í hans vandasömu stöðu? Mér skilst, að hv. þm. sé þessu í raun og veru sammála. En ef hann er því sammála, því er hann þá með allt á hornum sér út af því? Ef hann vill fá frv., sem samið var fyrir nokkrum árum, getur hann áreiðanlega fengið að leggja það fram. Ef hann er því sammála, að þessi nýi embættismaður fái málið til meðferðar, þá er að bíða eftir því, að hann fái málið til skoðunar og það verði að fenginni hans umsögn og annarra og íhugun stjórnarvaldanna síðan á þeirra tillögum lagt fyrir Alþingi, og það verður áreiðanlega ekki gert strax eftir áramót, það þori ég að fullyrða.

En jafnframt því sem ég skal fúslega játa, að ég hef ekki lagt þetta frv. fyrir Alþingi vegna þess, að ég taldi það enga fullnægjandi lausn á þessu máli, þá er rétt að geta þess, að það hefur mikið verið aðhafzt á s.l. missirum til þess að greiða götu þeirra manna, sem hér hafa mest og bezt að unnið, á móti því böli, sem við allir viljum berjast gegn. AA-samtökin, sem áreiðanlega hafa unnið heillavænlegast starf á síðari árum hér á landi í þessum efnum, hafa m.a. fyrir mína tilhlutan fengið styrk, sem hefur gert þeim mögulegt að efla og auka starfsemi sína á þann hátt, sem forustumenn þeirra telja viðhlítandi, og eins var með mínum atbeina og ríkisstj, aukin og stórbætt aðstaða í Gunnarsholti fyrir drykkjusjúklinga þar. Þetta voru allt atriði, sem þurfti að gera, og hefur í raun og veru verið jafnvel séð fyrir, þó að þetta frv. væri ekki lagt fram, en aðalefni þess var í raun og veru það að ætla ákveðnar fjárveitingar í þessu skyni. Það var aðalbreytingin og sú, sem mestu hefði áorkað, a.m.k. í fyrstu, svo að því fer fjarri, að þessi mál hafi verið vanrækt eða ekki um þau hugsað. Hitt er annað mál, að vafalaust má gera betur og verður að gera betur. Þar er ég hv. þm. fyllilega sammála.