01.11.1961
Sameinað þing: 11. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 405 í D-deild Alþingistíðinda. (3296)

26. mál, síldarleit

Flm. (Jón Skaftason):

Herra forseti. Ég hef leyft mér á þskj. 26, ásamt tveim öðrum þm., þeim hv. 3. þm. Norðurl. v. og hv. 1. þm. Austf., að flytja svofellda till. til þál.:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að gera ráðstafanir til þess að fjölga þegar á næstu síldarvertíð fyrir Norður- og Austurlandi síldarleitarskipum um eitt. Sameinað Alþingi kýs fimm manna nefnd starfandi skipstjóra til ráðuneytis um stjórn síldarleitarinnar:

Á undanförnum árum hefur sá háttur verið á hafður, að síldar hefur verið leitað fyrir Norður og Austurlandi bæði úr lofti og eins á sjó. Tvær flugvélar hafa verið notaðar í þessu skyni, og síldarleitarskipin Ægir og Fanney hafa stundað síldarleitina á sjónum.

Það er ekkert vafamál, nú sérstaklega síldarleitin, sem skipin Ægir og Fanney hafa annazt, hefur komið að mjög verulegum notum fyrir síldarflotann og gert það að verkum, að miklu meiri afli hefur fengizt en ella hefði verið, ef aðstoðar þeirra hefði ekki notið við. Eins og allir hv. þm. vita, sem þekkja eitthvað til þessara mála, er það leitarsvæði, sem skip þessi hafa orðið að kanna á hverju sumri, mjög stórt. Það nær allt vestan frá Horni og austur að Hvalbak fyrir Austurlandi, og víðast hvar nær það allt að 100 sjómílur á haf út frá ströndinni talið.

Sem dæmi um, hversu svæði þetta er stórt, vil ég aðeins nefna, að það tekur t.d. Ægi um hálfan mánuð að fara eina venjulega rannsóknarferð yfir allt þetta svæði. Það hefur lengi verið krafa sjómanna og annarra þeirra, sem hafa átt afkomu sína að einhverju leyti undir síldveiðum komna, að síldarleitarskipunum væri fjölgað um eitt. Samþykktir hafa verið gerðar um þetta á fiskiþingum, og nú síðast fyrir nokkrum dögum var tillaga flutt á fundi í skipstjórafélaginu Öldunni hér í Reykjavík, sem hafði að geyma áskorun á ríkisstj. um að fjölga leitarskipunum um eitt. Ég hygg því, að það geti vart verið deilt um það, að þörfin fyrir þetta eina viðbótarskip sé mjög brýn.

Um það, hvort af þessu mundi verða mikill kostnaðarauki fyrir ríkissjóð, vil ég taka þetta fram: Það er að flestra manna áliti talið, að hægt væri að leggja aðra síldarleitarflugvélina niður, ef svo mætti segja, og nægja mundi að hafa eina flugvél í síldarleit í stað tveggja. Við það ætti að geta sparazt þó nokkurt fé. Sú breyt. hefur á seinustu árum orðið á, að síldin hefur mjög lítið vaðið á Norðurlandsmiðunum og einnig fyrir Austfjörðum, þannig að síldarleit úr lofti hefur af þeim sökum ekki komið að neinn verulegu gagni. Sem dæmi um þetta vil ég nefna, að á s.l. sumri, er mér tjáð, að síldarleitarflugvélar hafi ekki orðið varar við eina einustu vaðandi torfu fyrir öllu Norðurlandi.

Svo er annað, sem einnig gerir það að verkum, að leitarflug úr lofti er ekki eins hagkvæmt og áður var, og það er, að úr flugvélum eru ekki aðstæður til þess að sjá, hvort þær torfur, er kunna að koma upp á yfirborðið, séu stórar og þykkar eða ekki, og einnig að skipin eru nú flest útbúin mjög góðum asdictækjum, sem gera þeim síldarleitina miklu auðveldari en áður var.

Ég held, að þrátt fyrir það að síldarleitarskipum væri fjölgað um eitt þegar á næstu sumarvertíð, en ein flugvél lögð niður, þá mundi það ekki þýða nein aukin heildarútgjöld fyrir ríkissjóð til síldarleitar, og þurfa því alþm. ekki að óttast þá hlið málsins mjög.

Við flm. höfum gert það að till. okkar, að til aðstoðar þeim fiskifræðingum, sem stjórnað hafa síldarleitinni og koma til með að stjórna henni á komandi árum, verði kosin fimm manna nefnd starfandi skipstjóra þeim til ráðuneytis. Það er nú svo, að reynslumiklir skipstjórar hafa þekkingu, mikla þekkingu, á þessum málum, og ekki væri óeðlilegt, að þeir miðluðu fiskifræðingunum eitthvað af sinni reynslu í sambandi við síldarleitina. Tel ég því mjög vel til fundið, að sameinað Alþingi ljósi fimm manna nefnd starfandi skipstjóra til þessa verks.

Ég sé svo ekki ástæðu til, herra forseti, að lengja umr, um mál þetta meira, en legg til, að umr. verði frestað og málinu vísað til hv. allshn.