01.11.1961
Sameinað þing: 11. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 407 í D-deild Alþingistíðinda. (3303)

30. mál, jarðhitaleit og jarðhitaframkvæmdir

Flm. (Jón Skaftason):

Herra forseti. Ég hef leyft mér á þskj. 30 að flytja ásamt fjórum meðþingsmönnum mínum svo hljóðandi till. til þál., með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að undirbúa löggjöf fyrir næsta Alþingi um fjárhagslegan stuðning við sveitarfélög til jarðhitaleitar og jarðhitaframkvæmda.“

Tillögu þessa flutti ég á síðasta þingi ásamt nokkrum öðrum hv. þingmönnum, en hún náði þá ekki að verða útrædd, og hef ég því leyft mér að endurflytja hana að þessu sinni.

Ég tel ekki ástæðu til að fara mörgum orðum um þau rök, sem mæla með því, að löggjöf sé sett, er stuðli að því, að sveitarfélög geti notað sér þann jarðhita, sem er að finna í næsta nágrenni þeirra. Eins og hv. alþm. vita, eru a.m.k. fjögur bæjarfélög þegar búin að leggja hitaveitu hjá sér, og ýmis önnur bæjarfélög hafa ákveðið að byrja jarðhitaframkvæmdir heima fyrir. En það, sem strandar á, er fyrst og fremst skortur á fjármagni til framkvæmdanna. Ég tel, að ekki væri óeðlilegt vegna hinna miklu þjóðfélagslegu hagsmuna, sem bundnir eru því, að hægt sé að nýta jarðhitann meira en gert hefur verið hingað til, að ríkið með löggjöf ákveði leiðir til þess að aðstoða sveitarfélög til að geta ráðizt í þessar framkvæmdir. Og þá kemur tvennt til: Annað, að myndaður verði sjóður, er ríkið legði verulegt fjármagn til þegar í upphafi og sveitarfélög þessi gætu síðan fengið lán úr til þessara framkvæmda. Einnig kæmi til álita, að hið opinbera tæki þátt í kostnaði við þessar framkvæmdir að einhverjum hluta, eins og nú er gert t.d. í sambandi við hafnargerðir.

Ég tel ástæðulaust að fylgja þessari þáltill. úr hlaði með fleiri orðum. Ég legg því til, að umræðu um málið verði frestað og því vísað til hv. allshn.