01.11.1961
Sameinað þing: 11. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 412 í D-deild Alþingistíðinda. (3309)

31. mál, tjón af völdum vinnustöðvana

Flm. (Jón Þorsteinsson):

Herra forseti. Hv. 9. þm. Reykv. virtist helzt finna það till. minni til foráttu, að það sé vanrækt að láta reikna út ávinninginn, það ætti bara að reikna út tapið. En út af fyrir sig getur það verið fróðlegt að draga tapið frá ávinningnum. Það er auðvitað eitt af því, sem eðlilegt er að fólk þurfi að geta gert sér grein fyrir í sambandi við þetta. Og þá fannst honum það alveg á skorta, að ávinningurinn væri reiknaður út. En mér fannst reyndar gæta ærið mikils ósamræmis í málflutningi þessa hv. þm., þar sem hann á annan bóginn kvartaði undan því, að ávinningurinn væri ekki reiknaður út og metinn, en í hinu orðinu var hann að tala um, að ávinningurinn af verkföllum væri ómetanlegur. Þetta fæ ég ekki skilið, hvernig á að láta einhverja stofnun meta það, sem að hans dómi er ómetanlegt. Hitt er svo auðvitað annað mál, að ekki hef ég neitt á móti því, að hagstofunni væri falið að reikna út ávinninginn, en ég hef ekki tekið það upp hér í minni till., vegna þess að ég tel, að hagstofan geri það nú þegar. Hagstofan reiknar út framfærsluvísitölu og hún reiknar út vísitölu kaupmáttar, sem t.d. flokksbræður þessa hv. þm. flíka mjög í umr, hér um pólitísk mál í þinginu, þessari vísitölu kaupmáttarins, þannig að ég tel, að þessi útreikningur sé þegar fyrir hendi. En ef þessi hv. þm. telur, að það skorti eitthvað á, að þetta sé nægilega reiknað út, skal ekki standa á mér að styðja það, að það fari fram fyllri útreikningar á því.

Síðan var þessi hv. þm. að nefna dæmi um verkföll, sem hefði orðið mjög mikill ávinningur að. Það fólst ekkert í minni till. eða minni grg. eða minni ræðu um, að það væri ekki oft og tíðum mjög mikill ávinningur af verkföllum. Það vitum við allir. Hins vegar var hann nú helzt að nefna verkföll frá því í gamla daga, þegar verkföllin voru fátíðari og árangursríkari en þau eru í dag.

Það fannst mér eiginlega sorglegast við undirtektir þessa hv. þm., að hann virtist ekki hafa neinn áhuga á því, að verkafólk gæti sparað sér fórnir verkfallsbaráttunnar. En með því að reyna að leggja hér einhvern grundvöll að því, að hægt sé að spara þessar fórnir, er það vitanlega gert og hugsað þannig, að það sé gert án þess að glata neinum ávinningi. Það er frumundirstaðan að þessu, hvort ekki sé hægt að spara þessar miklu og margvíslegu fórnir án þess að glata ávinningi, og til þess er bent á ýmsar leiðir, en þessi hv. þm. tók nú bara eitt atriði þar út úr og virðist ætla að leggja það eitt til grundvallar.

Þá tel ég það líka alveg rangt hjá þessum hv. alþm., að það séu atvinnurekendur, sem bíði mesta tjónið af vinnustöðvunum. Því miður eru það nú frekar aðrir, sem þar verða fyrir tjóni. Eins og hefur komið fram í minni grg., er þetta alls ekki eingöngu mál verkalýðsfélaganna og atvinnurekenda, hinna beinu aðila vinnudeilna, hvort sem það er verkfall eða verkbann, heldur bitna afleiðingarnar af þessu á fjölda manns, sem stendur þar utan við, og reyndar þjóðinni allri í heild, þannig að það er vissulega mjög þýðingarmikið verkefni, ef hægt væri að bægja einhverju af þessu tjóni frá.