01.11.1961
Sameinað þing: 11. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 429 í D-deild Alþingistíðinda. (3314)

31. mál, tjón af völdum vinnustöðvana

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það eru nokkrar athugasemdir, sem rétt er að gera í viðbót út af þeim umr., sem hér hafa orðið.

Hv. 9. landsk. minntist á vinnutímann og sagði næstum því í hæðnistón, heyrðist mér, hvort það gæti virkilega verið svo, að það þyrfti að berjast út af því núna, að heilsufari manna kynni að vera tjón af of löngum vinnutíma, eins og hefði verið hér t.d. 1930, eins og hv. 2. landsk. var að tala um. Ég er hræddur um, að sannleikurinn sé sá, að eitt af því, sem verkalýðshreyfingin alvarlega þyrfti að taka hér fyrir, það er beinlínis baráttan fyrir að fá vinnutímann styttan, þann raunverulega vinnutíma, af heilsufarsástæðum. Og þetta gildir ekki bara um verkamenn, þetta gildir um þorra starfsmanna í þjóðfélaginu. Ég er ekki í neinum vafa um, að það skiptir hundruðum og aftur hundruðum af mönnum, sem bókstaflega falla niður einn góðan veðurdag af of miklum þrældómi. Það er kallað kannske hjartaslag og allt mögulegt, en staðreyndin er sú, að það er unnið svo óhóflega langan tíma hérna. Þetta á jafnt við um verkamenn eins og lækna og aðra, að það nær ekki nokkurri átt. Ég veit, að þetta er ákaflega misjafnt. En ef við þekkjum til eitthvað hjá okkar nágrannaþjóðum, þá vitum við það, að 8 tíma vinnudagurinn er orðinn þar eins og helgidómur. Ef menn tala við sænskan eða danskan verkamann eða enskan, fara að tala um yfirvinnu, þá þykir það fáránlegt. Og það er enginn efi á því, að hér, vegna þess að það hefur mikið til á undanförnum 20 árum verið næg atvinna, með vissum undantekningum, hvað landshluta og eitt árabil snertir, þá hefur það verið svo, að þegar kjör verkamanna hafa rýrnað, þá hafa þeir reynt að bæta sér upp hin rýrðu lífskjör, hinn rýrða kaupmátt tímakaupsins með lengri vinnutíma, og skýrslur, sem hér hafa verið gerðar, sýna það t.d. alveg eftir þær launalækkanir, sem fram fóru bókstaflega að tilhlutun þess opinbera, að verkamenn hafa almennt bætt við einum klukkutíma í eftirvinnu. Í staðinn fyrir að vinna 2 klukkutíma í eftirvinnu, þá hafa menn unnið 8 klukkutíma í eftirvinnu til þess að reyna að hafa sömu tekjur. Maður veit, hvaða ástæður liggja til þess. Þær ástæður liggja til þess, að ákaflega mikið af fólki hér er t.d. að reyna að eignast íbúðir eða annað slíkt, er búið að binda sig á ýmsan hátt og þarf, hvað sem það kostar, að reyna að ná í þessa peninga, til þess að missa ekki eignir út úr höndunum á sér. Og það hefur þýtt, að fjöldi af fólki, sem hefur tækifæri til þess, vinnur 11 klukkutíma á dag, og það má spyrja hvaða lækni sem er að því, það er ekkert spursmál um, að slíkt er óhollt, slíkt er rangt, bæði frá sjónarmiði einstaklingsins og þjóðfélagsins. Og ekki sízt frá sjónarmiði atvinnurekandans, ef við viljum sleppa því að ræða þetta frá þeim heilsufarslegu ástæðum, sem eru þó sannarlega númer eitt í þessu, þá er þetta hringavitleysa frá sjónarmiði atvinnurekstrarins, vegna þess, og það var eitt af því, sem var sannað, þegar var verið að berjast fyrir 8 tíma vinnudeginum og knýja hann í gegn, að það, sem maðurinn skapar með 8 tíma vinnudegi, er jafnmikið og jafnvel stundum meira en það, sem hann skapar með 11–12 tíma vinnudegi, vegna þess að hans afköst minnka það mikið. þegar vinnutíminn er orðinn þetta langur. Þannig, ef maður væri að hugsa um almennilegan rekstur á atvinnuvegunum og framleiðslunni, þá er það hrein vitleysa af atvinnurekendunum að láta vinna meira en 8 tíma. Og þetta er eitt af því, sem er ekki bara meinsemd frá sjónarmiði heilsufarsins og menningarinnar í okkar þjóðfélagi, heldur líka bókstaflega frá sjónarmiði atvinnurekstrarins og framleiðslunnar. A.m.k. í öllum þeim hlutum okkar framleiðslu, þar sem ekki kemur til greina sérstök vertíð eða annað slíkt, við skulum segja iðnaði, byggingum og öðru slíku, þá er 8 tíma vinnudagur það eðlilega. Og það, sem ætti raunverulega að vera á þeim sviðunum, þar sem við skulum segja vertíðarvinnan kemur til, a.m.k. hvað vinnuna í landi snertir, það gegnir þarna nokkuð öðru máli um sjómennina, þá ætti yfirleitt að koma á vaktavinnu. Það útheimtir hins vegar allmikið annað skipulag á sjálfum atvinnurekstrinum en þar er. Það mundi útheimta það t.d. í sambandi við fiskiðjuverin, að þau væru færri, en væru rekin á þennan máta, helzt með vaktavinnu, en reynt að tryggja nokkurn veginn fullan rekstur. Það skapar okkur að vísu marga, marga erfiðleika í þessum efnum, sem útlendingar hafa ekki við að stríða í sinni almenn iðnaðarframleiðslu, hvað við erum vertíðarbundnir í þessu, þannig að þar verðum við á ýmsan hátt að taka þarna tillit. Þess vegna er það, að ég minntist nú á þetta, bara út frá því, að ég kunni ekki við hæðnistóninn í rödd hv. 9. landsk., þegar hann var að tala um heilsufar manna í þessu sambandi. Sá langi vinnutími á Íslandi er bókstaflega hættulegur heilsufari manna.

Þá talaði hv. 9. landsk. þm. um, að það væri rangt, að það hefðu verið reyndar allar leiðir til sátta. Þetta er rangt hjá honum. Það er ekki hægt fyrir verkalýðsfélögin að gefa lengri tíma þeim aðilum, sem hafa áhuga fyrir að reyna að leysa vinnudeilur, heldur en þau 21/2 ár, sem beðið var, og það hefur engin ríkisstj. og engin atvinnurekendastétt á Íslandi fengið eins langan tíma og atvinnurekendastéttin og ríkisstj. fékk núna, til þess að reyna að komast að samningum við verkalýðinn um þessi mál, og aldrei verið sýnt annað eins skeytingarleysi í þeim málum og af hálfu yfirstéttarinnar og hennar ríkisstj. á þessum tíma, enda auðséð, að að því var stefnt af hálfu þessara aðila að reyna að brjóta verkalýðshreyfinguna á bak aftur. Það var af pólitískum ástæðum, sem ekki var samið þarna um að neinu leyti, — við skulum ekki fara í neinar grafgötur um það. Það átti að reyna að knésetja verkalýðshreyfinguna. Það átti að reyna að sýna henni, að hún væri veikari en auðvaldið í þjóðfélaginu, og það var það, sem mistókst, og það, sem olli allri reiðinni í þessu máli.

Svo kom hv. 9. landsk. inn á, að það væri furðulegt af mér að halda því fram, að verkföll hefðu verið árangursrík og samt hefði kaupmáttur tímakaupsins hjakkað í sama farinu í 20 ár. Það er ákaflega auðvelt, ef menn vilja ekki kryfja hluti til mergjar, að slengja svona hlutum fram. Við skulum þess vegna athuga, hvað þarna er um að ræða.

Kaupmáttur tímakaupsins 1945, sem venjulega er lagður til grundvallar, þegar rætt er um kaupmátt tímakaupsins nú eftir stríð, ef hann er reiknaður sama sem 100, þá er rétt fyrst að athuga hann í hlutfalli við það, sem var fyrir stríð. Ég býst við, — hv. 11. þm. Reykv. hlustar líka á mál mitt, því að hann getur að ýmsu leyti sagt sem fræðimaður um þetta, — ég býst við, að það sé ekki að öllu leyti fjarri, og byggi ég þar einmitt á útreikningi hans, prófessors Ólafs Björnssonar, og Jónasar Haralz frá 1948, að áætla kaupmáttinn, sem þá er knúinn fram, um 50% hærri en kaupmáttur tímakaupsins var fyrir stríð. Sú lífskjarabreyting, sem knúin er fram með verkföllunum 1942, þýðir hvað kaupmáttinn snertir á tímakaupinu um 50% hækkun frá því, sem áður var. Svo ber hins vegar að athuga, ef maður ætlar að athuga lífskjarabreytingarnar, að vinnustundirnar, sem menn fengu tækifæri til að vinna á krepputímunum fyrir stríð, voru það miklu færri, að það má óhætt fullyrða, að frá þriðjungi upp í 2/3, a.m.k. hjá hafnarverkamönnum í Reykjavík, hafi fallið úr af vinnudögum, a.m.k. á verstu árunum. Og svo bætist eitt við. Það er, að oft var það svo, að eingöngu höfuðfyrirvinna fjölskyldunnar fékk þessa stopula vinnu, og t.d. piltar 17–18 ára gengu kannske atvinnulausir árið um kring að heita má, þannig að a.m.k. ég hef haldið því fram, og ég held, að bað sé ekki rangt, að lífskjörin 1942 á móts við það, sem var á árabilinu fyrir stríð, hafi hér um bil þrefaldazt, 50% bein aukning á kaupmætti tímakaupsins og að öðru leyti við það, að öll fjölskyldan getur fengið tækifæri til þess að vinna og það er möguleiki til þess að vinna hvern dag ársins og ég tala nú ekki um eftirvinnuna. Þá er, held ég, ekkert spursmál um það, að það stökk, sem verður t.d. hjá íslenzkum hafnarverkamanni almennt með lífskjarabyltingunni 1942, hefur þrefaldað hans lífskjör frá því, sem var á atvinnuleysisárunum fyrir stríð.

En höldum okkur hins vegar að kaupmætti tímakaupsins, en ég vil aðeins taka þetta fram til þess að gera grein fyrir þeim stóra mun, sem er á lífskjörunum í því, að við höfum haft fulla atvinnu, a.m.k. í Reykjavík, öll árin nema tvö að heita má á þessum 20 árum, þó að það hafi oft verið tilfinnanlegt atvinnuleysi úti um land, móts við hins vegar það vandræðaástand, sem var fyrir stríð í þeim efnum. Stökkið, sem er tekið 1942, leiðir þess vegna til þess, að íslenzkur verkalýður stekkur úr því ástandi að vera með fátækari verkalýð Evrópu, a.m.k. Norður- og Vestur-Evrópu, yfir í það að vera einn bezt Stæði eða a.m.k. með eina beztu afkomu, sem verkalýðurinn í Vestur- og Norður-Evrópu þá hefur. Það, sem þurfti að gera til þess að tryggja að geta haldið því áfram að bæta þessi lífskjör, sem þá voru sköpuð, var tvennt. Það þurfti annars vegar að umskapa þann tæknilega grundvöll fyrir þjóðfélaginu, þannig að það kæmi það mikið af vélum til Íslands, að þær bæru uppi ekki bara þau lífskjör, sem með þeim voru sköpuð, heldur gætu bætt þau. Og í öðru lagi þurfti að sjá um, að skipulagið á þessari tækni, sem var aflað, og rekstur hennar væri það góður, að það stæði undir síbatnandi lífskjörum. Þetta var það, sem við og Sósfl. þá barðist fyrir, bæði með nýsköpuninni og með þeim tillögum, sem við fluttum um skipulagningu þjóðarbúskaparins, og fengum ekki nema að nokkru leyti framgengt. Og það, sem verður þess vegna að muna síðan, það er sú stóra sögulega sök yfirstéttarinnar á Íslandi að hafa vanrækt að fara að þeim tillögum að tryggja hagkvæman rekstur á þjóðfélaginu og tryggja enn þá betri tæknilegri undirstöðu þess en þá hafðist fram. Þess vegna er það, þegar skorizt hefur í odda oft siðan, við skulum segja t.d. við lok vinstri stjórnarinnar og þegar barizt hefur verið um það, hvort þjóðfélagið þyldi þær kauphækkanir, við skulum segja kauphækkanirnar, sem fallizt var á í sept. 1958, þá er a.m.k. mitt svar við því þetta: Þjóðfélagið þolir þessar kauphækkanir, sérstaklega svo framarlega sem það eru gerðar vissar þjóðfélagslegar ráðstafanir til betri rekstrar þjóðfélagsins um leið. Það er það, sem um leið er barizt um allan þennan tíma.

Nú skulum við svo snúa okkur að því, sem hv. 9. landsk. var að staðhæfa, hvernig í ósköpunum gæti nú staðið á því, að verkföll væru árangursrík og samt hefði kaupmáttur tímakaupsins ekki batnað frá því á árinu 1945. Þá var hann 100. Árið 1947 er verkfall um mitt árið. Kaupmáttur tímakaupsins er knúinn upp, hann fer upp í 107 eftir það verkfall, og meðaltalið á kaupmætti tímakaupsins það ár, verður 102.7. Það er knúin fram kauphækkun, sem gætir allan síðari hluta ársins, þetta mun hafa verið um miðsumar, þá er kaupmáttur tímakaupsins frá 103 upp í 107 eftir mánuðunum að telja. Sem sé, það hafðist fram hækkun. Með þeim ráðstöfunum, sem gerðar eru af hálfu ríkisstj. um tollalækkanir og annað slíkt, tekst að lækka aftur á næsta ári nokkuð, þannig að 1948 er aftur lægra, kaupmátturinn er 98.6 fyrir árið í heild. Það er verkfall, ef ég man rétt, í maí 1949, mjög stutt verkfall, eitthvað fjögurra daga eða svo eða viku eða eitthvað þess háttar, — ég þori nú ekki alveg að fullyrða það, — og kaupið er hækkað nokkuð og fer upp í 101 fyrir heildina árið 1949. Síðan er tekið að gera ráðstafanir í ársbyrjun 1950 til lækkunar kaupsins með gengislækkuninni, og kaupið lækkar þannig, að á árinu 1950 er kaupið 92.4, sem sé, það er lækkun um næstum 10% á kaupmætti tímakaupsins, með ráðstöfunum, sem gerðar eru af hálfu hins opinbera, með gengislækkuninni, 10% kauplækkun, sem þarna fer fram. Og þessar ráðstafanir halda áfram að hafa áhrif. Árið 1951 er kaupmáttur tímakaupsins 84.7 að meðaltali yfir árið. Árið 1952 er hann 84.9. M.ö.o.: hann ér milli 84 og 85 þessi tvö ár, 1951 og 1952, og það eru um leið atvinnuleysisár hér í Reykjavik og alls staðar um allt land, neyðarár, bókstaflega hungursár fyrir marga. Þá var búið að lækka kaupið um 16% frá því, sem það hafði verið 1949. Þá er lagt í verkfall, sem er eitt af þeim erfiðustu verkföllum, sem verkalýðurinn hefur háð hérna, þungbærustu verkföllum, það er desembermánuðurinn 1952, — verkfall, sem fyrst og fremst miðaðist við það að knýja fram lækkanir á vöruverði. Og það tekst að knýja fram hækkun. Úr 84 fer kaupmáttur tímakaupsins upp í það að vera 91.6 á árinu 1953 að meðaltali. Og ef hv. 9. landsk. vill athuga skýrsluna um mjólkursölu í Reykjavík á árunum frá marz 1950 til janúar 1953, þá mun hann sjá það, að allan þennan tíma er mjólkursalan í Reykjavík minni í hverjum einasta mánuði heldur en var í marz 1950. Gengislækkunin svarf þannig að almenningi hérna, að þó að bættust við 2—3 þúsund manns í Reykjavík á ári, höfðu verkamenn ekki efni á því að kaupa eins mikla mjólk og þeir þurftu handa sínum börnum. Svona var ástandið. Með janúar 1953, eftir verkfallið í desember, gerbreytist þetta og mjólkursalan fer vaxandi og kemst upp yfir það, sem hún var í marz 1950. Ég nefni þetta bara sem dæmi, svo að menn fái fyrir utan þessar þurru tölur dálitla hugmynd um, hvað þessir hlutir þýða gagnvart almenningi, gagnvart verkamönnum. Kaupið heldur áfram að lækka svo og kaupmáttur tímakaupsins fram á árið 1955, að verkamenn taka sig aftur til að hækka það. Því var slegið föstu í þeim rannsóknum, sem þá fórn fram, og það voru bæði Sósfl. og Alþfl., sem stóðu að þeim rannsóknum, að nú væri búið að rýra kaupgjaldið, þegar lagt var til verkfallsins þá, um 20% frá því, sem það hafði verið í júlí — held ég — 1947, þegar lagt var út í sex vikna verkfallið í marz 1955. Og með því verkfalli er kaupmáttur tímakaupsins knúinn þannig upp, að hann kemst upp í 100, sama og hann var 1945, og meðaltal ársins 1955 verður 97, þannig að vegna þessa verkfalls er nú kaupmátturinn hækkaður upp í 97. Og hann helzt í svipuðu ástandi, milli 96 og 99, næstu 5 árin, þangað til á árinu 1960 eftir gengislækkunina. Hann byrjar að lækka; hann er kominn í okt. 1960 niður í 86, og hann er kominn 1. maí 1961 niður í 84. Allan þennan tíma er ekkert verkfall. Hann er kominn niður í 84, sem sé 16 stigum, 16%, undir því, sem hann var 1945. 1. maí 1961, 16 árum siðar, stendur hann í því sama og stóð á atvinnuleysisárunum 1951 og 1952, þó heldur lægri 1961.

M.ö.o.: allan þennan tíma höfum við þurft að fara út í þessi verkföll til þess að ná þessum kaupmætti upp. Í hvert skipti, sem við förum út í verkföllin allan þennan tíma, stigur kaupmátturinn. Og allan tímann þess á milli lækkar hann. M.ö.o.: verkföllin voru óhjákvæmileg þennan tíma, og leið samt oft langt á milli þeirra og aldrei lengur en einmitt nú í tíð þessarar stjórnar, 21/2 ár. Verkföllin voru nauðsynleg og óhjákvæmileg allan þann tíma, því miður, til þess að geta hækkað kaupmátt tímakaupsins, og það tókst með þeim. Af þessu held ég, að hv. 9. landsk., ef hann vill reyna að setja sig nokkurn skapaðan hlut inn í þessi mál, hljóti að sjá, að þessi verkföll voru árangursrík. Í krafti þessara verkfalla náði verkalýðurinn því upp aftur, sem búið var að ræna af honum, en af því að hann hafði ekki ríkisvaldið í sínum höndum, heldur hefur atvinnurekendastéttin haft það, þá varð hann í sífellu að berjast, fara í verkföll, til þess að ná þessu. Stöðugasti tíminn var frá 1955–1959, að báðum árum meðtöldum.

Svo talar hv. 9. landsk. um, að það hafi ekki verið um frjálsa samninga að ræða í sumar, atvinnurekendur hafi ekki gert frjálsa samninga. Hver kúgaði atvinnurekendur? Hvað er eiginlega hv. þm. að láta út úr sér? Var ekki Vinnumálasamband SÍS frjálst að semja? Heldur hann, eins og einhver fulltrúi Vinnuveitendasambands Íslands, að Vinnumálasamband SÍS sé eitthvað, sem Vinnuveitendasamband Íslands eigi að hafa í vasanum? Eða hvað heldur hann? Voru það ekki frjálsir samningar, sem gerðir voru af Vinnumálasambandinu? Voru það ekki frjálsir samningar, sem voru gerðir af hinum? Og hver kúgaði þá? Var það ríkisstj., sem setti lög? Hver kúgaði? Er hann bara að meina, að þeir hafi verið nauðbeygðir til þess að semja, að þeir hafi legið í því? Flestir vilja nú orða það öðruvísi. Þeir höfðu sitt frelsi til þess að hætta öllum atvinnurekstri á Íslandi, eins og þeir hafa enn. Það tók enginn það frelsi af þeim. En þeir bara lágu, þeir gáfust upp. Hvaða nauðung var það? Af hverju er hann að tala um, að það séu ekki frjálsir samningar? Eru það ekki frjálsir samningar, nema það séu atvinnurekendur, sem sigra? Er það það, sem hann meinar? Hefðu það verið frjálsir samningar, ef verkamenn hefðu gefizt upp? Hefðu það verið frjálsir samningar? Er það þetta, sem hann meinar? Hefði gengið verið hækkað, ef verkamenn hefðu orðið að fallast á kauplækkun? Er hann að tala utan að því, að fyrst atvinnurekendurnir voru sigraðir í verkfallinu, fyrst þeir urðu að fallast á kauphækkanir, þá hafi það verið nauðung og þess vegna hafi orðið að svara þeirri nauðung með einræðislögunum 1. ágúst um gengislækkunina? Það er bezt fyrir þennan hv. þm. að athuga ofur lítið betur, hvað hann segir, áður en hann talar svona. Viðvíkjandi gengislækkuninni, þá er vert kannske að undirstrika það við hv. þm., að nú er svo komið eftir þessa gengislækkun, sem hann stendur að og vill helzt framfylgja með enn harðvítugri einræðislögum, að amerískur hafnarverkamaður, sem 1947 hafði sömu laun og reykvískur hafnarverkamaður, hefur nú fimm sinnum hærri laun. Þetta er þróunin.

Svo er bezt, að við snúum okkur að einu spursmáli á þessu, sem hv. 11. þm. Reykv. kom inn á líka. Það er viðvíkjandi ávinningnum fyrir þjóðarheildina og þeim þætti í verkföllunum, sem að því snýr. Er ávinningur fyrir þjóðarheildina af þessari verkfallsbaráttu, kauphækkunarbaráttu? Það er ótvíræður ávinningur af kauphækkunarbaráttunni, svo fremi sem ekki eru gerðar ráðstafanir af hálfu þess opinbera til að eyðileggja þann ávinning. Það kom hv. 2 landsk. nokkuð hér inn á líka áðan. Og einmitt vegna þess; sem hv. 11. þm. Reykv. sagði, þá vil ég gera þetta að nokkru umtalsefni. Ef atvinnurekendur eru sjálfir látnir bera ábyrgð á sínum gerðum, ef þeir eru sjálfir látnir standa við þá samninga, sem þeir hafa gert, þá þýðir það, að fyrir hverjum atvinnurekanda liggur, um leið og hann er búinn að undirskrifa samninga um kauphækkun við verkalýð eða verkafólk sitt: Hvernig á ég nú að fara að því að standa undir þessari kauphækkun og græða engu að síður? Það þýðir, að atvinnurekandinn fer að hugsa: Hvaða nýjar vélar get ég fengið, sem séu afkastameiri en þær, sem ég hafði áður? Hvaða betra skipulag get ég haft á vinnunni heldur en það, sem ég hafði áður? Hvernig get ég framleitt meira á hverja vinnustund heldur en ég framleiddi áður? Hvernig get ég keypt hráefnin til mín enn ódýrari en ég gerði áður? Hvernig get ég látið vextina, sem ég verð að borga af mínum, lánum, vera lægri en áður? — Hann reynir á allan hátt að spara á öllum þessum liðum og reka sinn atvinnurekstur betur og praktiskar, þegar hann kemst ekki undan að greiða verkamönnunum hækkað kaup. Þetta þýðir stundum, að atvinnurekandinn kemst að þeirri niðurstöðu: Ef við ætlum að reka atvinnureksturinn praktískt, þá verðum við að slá okkur saman fleiri, við verðum að koma upp stærri fyrirtækjum, við verðum að reka atvinnureksturinn í stærri stíl. — Þróunin í því kapítalíska þjóðfélagi hefur þess vegna eðlilega verið, að atvinnureksturinn hefur venjulega verið rekinn í stærri og stærri stíl og praktískar og praktískar með hverju árinu og áratugnum sem liður. Sjálf kauphækkunarbarátta verkalýðsins hefur verið svo að segja hvöt fyrir atvinnureksturinn og atvinnurekendurna til þess að bæta í sífellu sinn rekstur. Kauphækkunarbarátta verkalýðsins hefur þannig verið eitt aðalframvinduafl mannfélagsins. [Frh.]