08.11.1961
Sameinað þing: 13. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 456 í D-deild Alþingistíðinda. (3319)

31. mál, tjón af völdum vinnustöðvana

Flm. (Jón Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir, að mér er veitt hér tækifæri til þess að gera stutta aths., þar sem ég hafði áður talað þrisvar sinnum í þessu máli, og ég skal ekki reyna að misnota það, þó að ég hefði vissulega löngun til þess núna að halda langa ræðu.

Ég vil þá fyrst beina orðum mínum að þeim hv. þm., 11, landsk., sem talaði síðast. Hann taldi mig vilja afnema samningsrétt verkalýðsins og banna verkföll. Það er auðvitað reginfjarstæða, að þó að undir vissum kringumstæðum í þjóðfélaginu teljist réttlætanlegt að lögfesta sáttatillögu í kjaradeilu, þá sé í slíkum skoðunum það fólgið, að maður vilji afnema samningsrétt eða banna verkföll, enda tel ég þessa ásökun út af fyrir sig hreina fjarstæðu. Hitt vildi ég svo minna þennan hv. þm. á, að sjálfur formaður flokks hans, formaður Alþb., hv. 4 landsk. þm. (HV), var búinn að undirbúa lagafrv. um það 1957 að banna farmannaverkfallið. Að vísu átti að gera það á sérstakan hátt. Það var ekki berum orðum bannað, heldur átti meiri hluti þeirra stéttarfélaga, sem á skipunum voru, að samþykkja verkfallið, þannig að það var reiknað með, að það samþykki fengist ekki, svo að verkfall yrði þar með bannað. Nú er ég ekki að segja þetta foringja Alþb. til hnjóðs, að hann skyldi hafa þessar skoðanir, og mér skilst nú, að aðrir flokksmenn hans hafi sumir hverjir a.m.k. verið á móti þessu. En ég er bara að sýna, að það kemur úr hörðustu átt, þegar hv. 11. landsk. þm. er farinn að ásaka mig fyrir að hafa undir vissum kringumstæðum eitthvað hliðstæðar skoðanir og foringi hans eigin flokks hefur haft.

Ég tel það reyndar ekki svaraverða ásökun á mig, að ég vilji banna samningsrétt verkalýðsins. Hitt er svo annað mál, að manni kemur þetta dálítið undarlega fyrir sjónir frá mönnum, sem eru kommúnistar og telja allt til fyrirmyndar þar fyrir austan og sjálfsagt berjast fyrir því að koma á sovétskipulagi hér á Íslandi, því að allir vita, hvernig er með samningsréttinn hjá verkalýðnum þar.

Þá var þessi sami hv. þm. að spyrja um stefnu Alþfl. varðandi vinnulöggjöfina. Ég tel sjálfur, að það þurfi að breyta vinnulöggjöfinni. Ég vil nefna sem dæmi, að það þarf t.d. að stórauka sáttastörf í sambandi við vinnudeilur. Það væri líka mjög eðlilegt, að ákvarðanir um vinnustöðvanir væra teknar af miklu stærri hópi en nú er. Þannig er margt, sem þyrfti að breyta í vinnulöggjöfinni. En það er eins og kommúnistar haldi alltaf, af allar breytingar á vinnulöggjöfinni þurfi að vera andstæðar hagsmunum verkalýðsins. Ég á í raun og veru erfitt með að skilja þetta. En á sínum tíma, þegar vinnulöggjöfin var sett, börðust kommúnistar á móti henni og töldu hana frá hinu illa, þetta væru hin verstu þrælalög, sem sett hefðu verið á Íslandi. Nú mega þeir ekki heyra nefnt, að þessum lögum sé breytt. Ég geri ráð fyrir því, að þegar Alþfl. hefur endanlega markað stefnu sína til breytinga á vinnulöggjöfinni, verði sú stefna sjálfsagt birt opinberlega og þessi hv. þm. geti þá gengið úr skugga um það, hver sú stefna sé.

Þá sagði þessi sami hv. þm., að ég hefði sagt, að Dagsbrún hefði átt kost á því að fá sömu samninga og á Akureyri 2–3 vikum áður en verkfalli hjá Dagsbrún lauk. Þetta tel ég mig alls ekki hafa sagt. Það, sem ég sagði, var það, að Dagsbrún hefði 2–3 vikum áður en verkfalli lauk átt kost á að fá sömu samninga og hún fékk að lokum. Og ég vil meina það, það er mín skoðun, að með því að forsvarsmenn kommúnista í Dagsbrún fengu félagið til þess að fella sáttatillöguna, þá hafi Dagsbrúnarmenn á því tapað mörgum milljónum. Hitt er svo auðvitað annað mál, að till. mín um það að rannsaka tjón af völdum vinnustöðvana á árinu 1961 og í framtíðinni er auðvitað hafin yfir það að vera deila um eitt og eitt verkfall, hver beri ábyrgð á því, hvort það sé verkalýðsfélag eða atvinnurekandi eða ríkisstj. Þetta eru í raun og veru alltaf pólitísk deilumál, og það verður þessi hv. þm. að skilja, að mín till. er í raun og veru hafin yfir það. Það á bara að vera tæknileg rannsókn á vissu fjárhagslegu tjóni, sem leiðir af vinnustöðvunum, sem eðlilegt er að þjóðin geti gert sér grein fyrir.

Þá kem ég að því, sem hv. 7. þm. Reykv. ræddi hér um. Hann fór í raun og veru ákaflega lítið inn á þetta mál, þessa tillögu, sem hér er til umræðu. Mér fannst ræða hans að mestu leyti eiga að vera svar við ræðu minni, sem ég hélt í útvarpsumr. um daginn, og ég skal ekki heldur eyða mörgum orðum að þeirri ræðu, þó að það væri vissulega ástæða til. Sérstaklega var hann að leggja áherzlu á, eins og hann hefur oft gert áður, að atvinnuvegirnir gætu vei staðið undir þessari 13% kauphækkun frá í vor, eins og kaupfélögin á Akureyri og Vinnumálasamband samvinnufélaganna í Reykjavík höfðu markað þá lausn. Í raun og veru liggur nú fyrir yfirlýsing sjálfs Vinnumálasambandsins um þetta, þar sem það segir, eftir að það gerði þessa samninga, að atvinnurekstur almennt sé illa fær um að taka á sig kauphækkanir. Að vísu eru til einstaka atvinnugreinar, sem þola þetta betur en aðrar, en maður verður að taka þetta almennt á breiðum mælikvarða, þegar lagður er dómur á þetta. Ég veit t.d. ekki betur en þegar þessar kauphækkanir voru afstaðnar, þá hafi Samband ísl. samvinnufélaga heimtað hækkaða álagningu. Ég veit ekki betur en t, d. kjörbúð SÍS hér í Austurstræti hafi farið í sölubann á kjöti, af því að þeir fengu ekki strax nógu mikla álagningu. Ég veit ekki betur en Sambandið og KRON hafi alveg staðið við hliðina á kaupmönnum í því að krefjast hærri álagningar. Mér er t.d. sagt, að fulltrúi Framsfl., — og það sýnir nú eiginlega bezt tvískinnunginn í málflutningi umbjóðenda þessa flokks, — að fulltrúi Framsfl. í verðlagsnefndinni hafi alltaf greitt atkv. með verðhækkunum í n., aldrei á móti verðhækkunum, en stundum hafi hann setið hjá að vísu, en þá hafi hann oftar setið hjá vegna þess, að honum þótti verðhækkunin ekki nógu mikil, sem lögð var til. (Gripið fram í: En fulltrúi Alþfl.?) Ég held, að það sé ekkert launungamál, hvernig hann hafi greitt atkvæði. (Gripið fram í: Hann mætti ekki.) Hann mætti ekki á sumum fundum, meðan aðalfulltrúinn var erlendis. En ég er hér að ræða um stefnu Framsfl. og hvaða afstöðu hans fulltrúi tekur, að þegar framsóknarmenn í sínu blaði annars vegar og sínu málgagni eru sífellt að prédika, að það sé enginn vandi fyrir atvinnuvegina að standa undir þessu, en svo þegar atvinnuvegirnir koma og biðja um verðhækkanir, þá berjast þeir eins og ljón fyrir því í þeirri nefnd, sem þar á að fjalla um.

Mér finnst, að í raun og veru liggi þetta að sumu leyti einfaldar fyrir en maður skyldi ætla. Það er t.d. þegar talað er um frystihúsin og þeir framsóknarmenn segja, að frystihúsin standi vel undir þessari kauphækkun og aðrir útflutningsframleiðendur. Mér finnst, að í raun og veru ætti ekki að þurfa neitt að deila um þetta. Ef frystihúsin gátu staðið undir þessari 13% kauphækkun, sem framkvæmd var í sumar, án þess að fá gengislækkun eða nokkrar uppbætur á móti, hlýtur gengislækkunin að sjálfsögðu að vera frystihúsunum til hagsbóta. Þau hafa þá hagnazt á því að fá þessa gengislækkun, þar sem þau gátu komizt af án hennar. Nú ráða Sambandið og kanpfélögin yfir mörgum frystihúsum úti um allt land. Nú vil ég skora á þá framsóknarmenn að beita sér fyrir því, að öll frystihús á landinu, sem eru í eigu Sambandsins eða kaupfélaganna eða stofnana, sem þessi félög ráða yfir, taki nú gengislækkunargróðann og skipti honum upp á milli starfsfólksins, sem vinnur í frystihúsunum. Þá skyldi ég viðurkenna, að þeir væru sannir samvinnumenn, og þá skyldi ég viðurkenna, að þeir hefðu rétt fyrir sér. En á meðan þeir gera það ekki, tek ég ekkert mark á þeim. Þeir verða að sýna trú sína í verki.

Framsfl. hefur yfirleitt verið á móti verðlagsákvæðum. Hann hefur viljað hafa frjálst verðlag og talið, að það væri nóg að það væri öflug samvinnuhreyfing í landinu, og hún mundi sjá um, að það væri hóflegt verðlag. En nú vildi ég spyrja: Hvernig er í rann og veru, ef kauphækkanir verða í landinn, sem við skulum segja að atvinnuvegirnir ættu að geta þolað, hvernig eigum við að geta tryggt það, að þessu sé ekki velt yfir á verðlagið, kauphækkunum, ef verðlagið er frjálst? Ég sé í raun og veru ekki, hvernig þetta getur farið saman. Og ég man ekki betur en þegar Framsfl. var í ríkisstj. og þegar vinnudeilur hafa átt sér stað og kauphækkanir hafa fylgt í kjölfar þeirra, þá hafi alltaf komið verðhækkanir á eftir og Framsfl. hafi talið það alveg óhjákvæmilegt. Ég man ekki eftir einu einasta öðru tilfelli. Það getur verið, að þau séu til. Það væri þá gott, að fulltrúar þess flokks kæmu fram með þau.

Það, sem þessi hv. 7. þm. Reykv. var þó mest að deila á mig fyrir, var afstaða mín til sáttatill. í vor, sú afstaða, að ég taldi miklu skynsamlegra að lögfesta þá sáttatillögu en láta verkföllin halda áfram með óhjákvæmilegum verðhækkunum eða gengislækkun, eins og kom á daginn. Ég vil aðeins í þessu sambandi benda á, að það hefur t.d. skeð á Norðurlöndunum, að sáttatillögur væru lögfestar, þó að þær væru felldar af báðum delluaðilum.

Á hinu vildi ég svo að síðustu vekja sérstaka athygli, að 1957 skipar Framsfl. eða reyndar þáv. forsrh. þriggja manna nefnd til að endurskoða vinnulöggjöfina. í þeirri nefnd voru þrír menn, allt framsóknarmenn. Það var hv. þm. Karl Kristjánsson, það var Vilhjálmur Jónsson og það var Sveinbjörn Dagfinnsson. Í þessu plaggi leggja þeir til, að bönnuð verði uppsögn og breyting á öllum kjarasamningum í landinu í 2 ár, frá 1957—1959, og það var ekki þannig, að þeir væru að lögfesta 6% hækkun eða neina hækkun, 6% strax og 4% eftir ár, eins og sáttatillagan, eða eitthvað slíkt. Nei, nei, það var bara verið að lögfesta kaupið, eins og það þá var, án nokkurra undangenginna kjarabreytinga. Svo kemur fulltrúi þessa flokks og á ekki nógu stór orð til þess að hneykslast yfir því, að ég skuli vilja láta lögfesta sáttatillögu, sem fól reyndar í sér á tveimur árum 13% kauphækkun. Ég tel í raun og veru, að þetta sé hámark hræsninnar, sem maður heyrir hér í þingsölunum.