08.11.1961
Sameinað þing: 13. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 462 í D-deild Alþingistíðinda. (3322)

31. mál, tjón af völdum vinnustöðvana

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það voru aðeins þrjú atriði, sem ég vildi minnast á.

Í fyrsta lagi er það, sem hv. 9. landsk. sagði hér áðan, flm. till., þegar hann var að ræða um samvinnuhreyfinguna og verkalýðshreyfinguna og þá samninga, sem þær höfðu gert. Hann komst þannig að orði, að samvinnuhreyfingin ætti að sýna trú sina í verki í því, að atvinnurekstur hennar gæti staðið undir kauphækkuninni, sem hún samdi um í sumar. Ég vil spyrja: Hví í ósköpunum var ekki samvinnuhreyfingin látin fá í friði að sýna trú sína í verki í samningunum, sem samvinnufélögin gerðu við verkalýðsfélögin? Samvinnufélögin lýstu því yfir, að þau gætu staðið undir þessu kaupgjaldi. Hví voru þau ekki látin fá að sýna það, að þau stæðu undir þessu kaupgjaldi? Hvað var ríkisstj. að skipta sér af því? Mátti ekki einkaatvinnurekstur í landinu fá að sýna það, hvernig hann treysti sér til þess sama og samvinnureksturinn, og ef einkarekstuninn treysti sér ekki til þess, hver hlaut þá að verða afleiðingin eftir reglum þeirrar frjálsu samkeppni? Það þýddi, að taka varð það upp að fara að reka í samvinnurekstri fyrirtæki á Íslandi. Hvort sem Eimskip hefði líkað betur eða verr, þá hefði Sambandið átt að yfirtaka skipin hjá því. Þetta eru reglur þeirrar frjálsu samkeppni. Hvað er verið að sletta sér fram í þetta þannig? Því mátti ekki samvinnuhreyfingin sýna trú sína í verki? Þurfti að hlaupa þarna inn í til að bjarga einhverjum hálfföllnum einkaatvinnurekendum? Hver var meiningin? Við getum rætt þetta seinna meir. Ég veit, að hv. flm. er „dauður” eins og ég, svo að það þýðir lítið að fara að ræða þetta meira núna.

Í öðru lagi: Hv. 3. þm. Sunnl., sem hér var að tala áðan, minntist á, að verkalýðsfélög hefðu nokkuð stuttan aðdraganda að því að skella á verkföllum og reyndu litla samninga. Mér finnst þetta nú koma úr hörðustu átt. Það líða 21/2 ár næstum því, frá því að 1. febr. 1959 eru allir samningar að lögum rofnir með lagaboði atvinnurekendastjórnar, allir samningar, sem verkamenn hafa gert um kaupgjald í landinu, — það líða 21/2 ár, áður en verkamenn leggja til verkfalls. Það líða yfir 7 mánuðir, frá því að kröfur eru útbúnar og sendar til atvinnurekenda og bæði ríkisstj. og atvinnurekendum gefið tækifæri til þess að semja um þessa hluti. Það var sannarlega langur aðdragandi. Það var þannig ekki hægt að ásaka verkalýðsfélögin um, að þau væru að flýta sér út í verkföllin, enda fengu þau ásakanir um það víða, að þau væru allt of, allt of lengi að þessu. En ég heyrði ekki nokkra rödd um það, að verkalýðsfélögin hefðu þarna flýtt sér of mikið, þvert á móti. Ég held, að það hafi aldrei, allan þann tíma a.m.k., sem ég man eftir, og ég held, að ég þekki persónulega lengst af þessum tíma, sem verkföll hafa verið háð í verulega ríkum mæli á Íslandi, — ég held, að það hafi aldrei verið beðið svona lengi til þess að svara eins miklum aðgerðum og gerðar hafa verið á hlut verkamanna eins og nú hefur verið gert. Það er því sannarlega að ófyrirsynju að saka verkalýðsfélögin um slíkt. Þau hafa sannarlega haldið sér mjög réttilega í fyrsta lagi að öllum bókstaf í vinnulöggjöfinni, en enn fremur sýnt ákaflega mikla tillitssemi, hæði gagnvart atvinnurekendastéttinni og gagnvart ríkisstj., sem þó sýndi sig að vera skeytingarlaus og fjandsamleg við þessa menn. Ég vil vekja athygli á, að ríkisstj. talaði víst tvisvar sinnum allan tímann við verkamenn, við Alþýðusambandsstjórnina, út af þessu máli. Það var allt saman. Og bað þó Alþýðusambandsstjórnin að fá þær viðræður oftar. En hvað var ríkisstj. fljót aftur á móti, þegar átti að fara — eins og hún kallar það — að rétta hlut atvinnurekendanna? Þá liður ekki nema mánuður, frá því að samið er, eða rúmur mánuður þangað til gengislækkuninni er skellt á. Nei, ég er hræddur um, að menn verði að vera ofur lítið sanngjarnari í þessum málum.

Svo kom hv. 3. þm. Sunnl. inn á, að það væri slæmt, hve sjaldan allsherjaratkvgr. færi fram í sambandi við vinnudeilurnar, þegar þær væru hafnar. Það er ekki rétt hjá honum, að þetta sé ákaflega sjaldan. Það er tiltölulega oft, að það kemur fyrir, að allsherjaratkvgr. eru hafðar, áður en lagt er út í vinnudeilur. Hitt er aftur á móti orðið ákaflega títt, að þau réttindi, sem vinnulöggjöfin hefur viðvíkjandi trúnaðarráði og viðvíkjandi almennum félagsfundum, séu líka notuð. Það er ekki verið að svipta neinn mannréttindum með því. Á fundina í félögunum getur hver maður komið. Ef einhver er þar t.d. andvígur verkföllum og slíku, vill ekki leggja út í þau, þá hefur hann sannarlega aðstöðu til þess að geta látið heyra sína rödd þar. En ég vil benda hv. þm. á annað og hans flokki, fyrst þeir eru að nota þetta sem rök fyrir því, að það ætti að fara að breyta vinnulöggjöfinni. Sáttasemjari hefur samkv. vinnulöggjöfinni rétt til þess að bera fram till., hvenær sem hann vill, eftir að vinnudeila er hafin eða máli verið visað til hans, og láta greiða um hana atkv. með allsherjaratkvgr., hvenær sem hann vill. M.ö.o.: af hálfu þess opinbera og hálfu ríkisvaldsins hefur þessi fulltrúi í þessum efnum, sáttasemjarinn, aðstöðu til þess að láta fara fram allsherjaratkvgr. í hverju einasta verkamanna- og atvinnurekendafélagi um verkföllin. Og þetta hefur venjulega verið gert, þannig að það hefur sýnt sig, undireins og verkfall hefur verið byrjað, hvort verkamenn í viðkomandi verkfalli stæðu með þessu verkfalli eða ekki. Það hefur sýnt sig við allsherjaratkvgr. Við skulum segja, að ríkisvaldið álíti sem svo og fulltrúi þess, sáttasemjari: Nú hefur þetta félag, hvað sem það nú heitir, ákveðið að fara út í verkfall, og það er okkar álit, að þetta verkfall sé hafið án þess, að meiri hluti verkamannanna í verkamannafélaginu sé samþykkur því. — Og það þýðir auðvitað, að sáttasemjari, sem eingöngu er að hugsa um að reyna að koma þarna sem fyrst á sáttum að fá samþykkta einhverja till., hann leggur fram tillögu, sem er kannske svo að segja með óbreytt kaupgjald, og lætur hana fara til atkvgr. Þá kemur undir eins í ljós, hvort viðkomandi verkamenn í verkamannafélagi eru samþykkir því að fara út í verkfall eða ekki. M.ö.o.: ef ríkisvaldið hefur einhverja rökstudda ástæðu til þess að álykta, að ákvæðið um heimild trúnaðarráðs til að lýsa yfir verkfalli sé misnotað, þá er ríkisvaldinu innan handar að láta sinn sáttasemjara gera þetta undireins, prófa þetta undireins, og það hefur sannarlega verið gert. Í verkföllunum í sumar var, eins og menn muna, — ég man nú ekki, hvort það var ein vika, sem var liðin, eða það var a.m.k. varla lengri tími, áður en sáttasemjari lagði fram till. um 8% hækkun. Það fer fram allsherjaratkvgr. um þær tillögur, og það sýnir sig, hver afstaða mannanna í verkalýðsfélaginu er um slíkar tillögur: Og við vitum báðir, hvernig atkvgr: reglurnar eru í þessu. Það kom sem sé greinilega í ljós strax við þá atkvgr., að yfirgnæfandi meiri hluti í öllum þorra verkalýðsfélaganna var meira að segja á móti því að samþykkja 6% kauphækkun, svo að það lá í augum uppi, að menn höfðu ekki aðeins verið samþykkir því að fara í verkfallið, heldur voru menn meira að segja samþykkir því að fara í verkfallið og hætta því ekki, þótt 6% kauphækkun væri boðin, heldur bíða eftir því, sem þeir álitu að mundi fást, að meiri kauphækkun fengist. Þess vegna eru það engin rök til þess að breyta vinnulöggjöfinni, að ýmsum verkalýðsfélögum þyki þægilegra að boða verkföll með því að nota ákvæði í c-lið, sem ég held að sé trúnaðarráðsákvæðið, heldur en með almennri atkvgr. Ríkisvaldið hefur í vinnulöggjöfinni óbreytta aðstöðu til þess að ganga tafarlaust úr skugga um, að ákvæðið um, að það sé virkilega vilji meiri hl., sem þarna sé að verki, sé ekki misnotað. Hins vegar er rétt að vekja athygli á því, að það eru mörg félög, sem eiga mjög óþægilegt með að nota sér þá demókratísku reglu. Ég vil bara taka dæmi um sjómannafélögin, og eiginlega mörg verkamannafélögin líka, þegar verkamenn eru kannske í vinnu hér og hvar úti um allt land, dreifðir hér og hvar. En hvað sjómannafélögin snertir, er það ákaflega erfitt. Þess vegna vildi ég aðeins skjóta þessu fram, án þess að misnota þann ræðutíma, sem hæstv. forseti hefur gefið mér, til athugunar, þegar við ræðum þessi mál seinna.