15.11.1961
Sameinað þing: 15. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 471 í D-deild Alþingistíðinda. (3339)

47. mál, innlend kornframleiðsla

Flm. (Karl Guðjónsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt hv. 2. þm. Austf. og hv. 4. og hv. 2. þm. Sunnl. að flytja hér till. til þál. um aðstöðujöfnun innlendrar kornframleiðslu við innflutning korns frá útlöndum. Í till. okkar felst það, að Alþingi feli ríkisstj. að taka upp verðbótagreiðslur á korn það; sem ræktað er í landinu, til jafns við þær niðurgreiðslur, sem nú eru framkvæmdar úr ríkissjóði á innflutt korn frá útlöndum.

Um margra ára skeið hafa á vegum ríkisins farið fram tilraunir með það hér á landi að rækta korn að nokkru marki. Þessar tilraunir hafa allt fram undir þetta verið á því stigi, að ekki hefur orðið um verulega kornframleiðslu að ræða. En nú hefur þetta breytzt á hinum allra síðustu árum, einkum nú á tveim hinum síðustu árum, sem kornframleiðslan hefur aukizt verulega og bændur eru að taka þetta upp sem búgrein. Enn fremur hefur sandgræðsla ríkisins staðið fyrir því, að nú er tekið að rækta upp sanda með því að sá í þá korntegundum, og gefur það slíka raun, að ætla má, að ef eðlileg aðstaða væri fyrir innlenda kornframleiðslu, mundi hér á næstunni rísa upp kornframleiðsla, sem væri árviss og ekki óhaganlegri búgrein, svo að vægt sé að orði komizt, heldur en aðrar þær búgreinar, sem hér eru reknar og lengri reynsla er fyrir. En eitt er það þó, sem hlýtur að draga úr og í rauninni koma í veg fyrir það, að hér hefjist kornframleiðsla í stórum mæli að öllu óbreyttu. Því er sem sagt svo háttað nú, að ríkissjóður greiðir niður allt það korn, sem inn í landið er flutt, greiðir það niður um 18.61% af fob-verði þess, en innlenda kornið nýtur engrar sambærilegrar fyrirgreiðslu. Hér við bætist það, að ræktun kornakra nýtur engrar fyrirgreiðslu í jarðræktarlögum, fær engan jarðabótastyrk, enda þótt ríkið verji á fjárlögum árlega nokkrum milljónum til styrks við ræktunarframkvæmdir. Með því að greiða þannig niður innflutt korn og láta síðan innlenda kornrækt keppa við aðflutning niðurgreidds korns er raunverulega verið að leggja verndartolla á erlendu framleiðsluna og ójafna þá aðstöðu sem íslenzka kornræktin hefur. Þetta er þeim mun ósanngjarnara sem kornrækt hér á landi er og hlýtur alltaf að verða þeim annmörkum háð, að við búum hér í landi, sem jafnan hlýtur að hafa takmörkuð skilyrði til kornræktarinnar, enda þótt við teljum hana æskilega að öllu því marki, sem hún getur gengið með skaplegum hætti. Það er efni tillögu okkar að fela ríkisstj. að bæta hér um og jafna aðstöðu innlendu kornræktarinnar við þá erlendu.

Það er ekki nauðsyn að flytja þetta mál í lagafrumvarpsformi, því að ríkisstj. hefur óumdeilanlega lagaheimild til þess að framkvæma þá niðurgreiðslu, sem við flm. þessarar tillögu leggjum til að Alþingi feli ríkisstj. að framkvæma. Sú heimild er fyrir hendi í 28. gr. l. um efnahagsmál frá því í febr. 1960.

Till. þessa efnis kom einnig fyrir síðasta Alþingi og fékkst þá ekki afgreidd. Nú eru það eindregin tilmæli okkar flm. þessarar till., að hún verði ekki látin bíða um of afgreiðslu og að þær samþykktir, sem Alþingi kann að gera í þessu efni, verði látnar ná til þeirrar kornuppskeru, sem fékkst á s.l. hausti.

Það er vert, um leið og þessi till. er rökstudd, að því leyti sem hún er sanngjörn, að það sé einnig gerð grein fyrir því, hvað líklegt er að það muni kosta ríkissjóð mikið að framkvæma hana. Það er að vísuekki auðvelt að slá upp tölum um það og af tvennum ástæðum. Í fyrsta lagi er kornrækt hér svo skammt á veg komin enn þá, að ekki liggja fyrir um afrakstur hennar sambærilegar skýrslur við það, sem úr öðrum búgreinum er árlega aflað. En ætla má þó að kunnugustu manna yfirsýn, að kornrækt á Íslandi hafi á árinu 1960 numið um það bil 3000 tunnum korns, en að í ár nemi hún tvöföldu því magni eða rösklega 6000 tunnum. Í tunnu eru þá talin 100 kg.

Nú mætti þess vegna ætla, að þetta þýddi aukin útgjöld ríkissjóðs á þessu ári, sem svarar niðurgreiðslu á 6000 tunnum korns. En svo er ekki. Ég geri ráð fyrir því, án þess þó að vita það með vissu, að við undirbúning fjárlagafrv. fyrir árið 1962 hafi verið reiknað með því, að korninnflutningur til landsins mundi verða með svipuðum hætti á árinu 1962 og hann var á árinu 1960. Þá komu reyndar, á árinu 1960, 3000 tunnur korns af innlendri framleiðslu til frádráttar innflutningi korns til landsins, svo að það er í rauninni ekki nema helmingur af ársframleiðslu þessa árs, sem kæmi til sérstakra verðbóta, því að 3000 tunnur af þessa árs framleiðslu hafa óumdeilanlega komið til minnkaðs innflutnings á erlendu korni, sem verður þá auðvitað að draga frá þeirri upphæð, sem kæmi til útgjalda ríkissjóðs við samþykkt þessarar tillögu, enda hefur sá innflutningur þegar verið eða verður greiddur niður með 18.61%. Ég vildi því ætla, að fyrir yfirstandandi ár þýddi þetta verðbætur á helming kornframleiðslunnar til aukinna útgjalda fyrir ríkissjóð, en það eru 3000 tunnum.

Mestur hluti þess korns, sem hér er ræktaður, mun vera bygg. Bygg er nú selt við verði, sem nemur einhvers staðar á fimmtu krónunni, milli 4 og 5 kr. kg, og ef við vildum áætla, að það innflutningsverð, sem verðbætur nú koma á, væri nálægt 4 kr., má ætla, að verðbætur á hvert kg af innfluttu korni væru um það bil 75 aurar. Það þýddi það, að verðbætur á alla ársframleiðslu Íslendinga sjálfra í ár ætti þess vegna að nema um það bil 450 þús. kr. En eins og ég hef áður tekið fram, sparast frá þeim áætlunum, sem þegar hafa verið gerðar, væntanlega verðbætur á 3000 tunnur af innfluttu korni, og kemur því aðeins helmingurinn af þessari upphæð til aukninga fjárveitinga á þessu ári, eða sem svarar 226 þús. kr. Á fjárlögum þessa árs eru ætlaðar til niðurgreiðslu á vöruverði 302.9 millj. kr. Það er því ólíklegt, að ekki væri hægt að koma þessari greiðslu fyrir innan þess ramma, sem þar er markaður, þar sem einungis er að ræða innan við einn milljónarfjórðung, en áætlunarupphæðin til almennrar niðurgreiðslu á vöruverði er yfir 300 millj. í fjárlögum, svo að þetta er ekki stórt mál í fjárreiðum ríkissjóðs. Á fjárlagafrv. fyrir 1962 er þessi upphæð lækkuð nokkuð, en á hinn bóginn má gera ráð fyrir aukinni innlendri framleiðslu á korni, svo að það er ekki auðvelt að gera áætlun um það, hvað það þýddi, en það má að öllu samanlögðu reikna með því, að það sé ekkert dýrara fyrir ríkissjóð að verðbæta innlendu framleiðsluna heldur en innflutninginn, svo að einungis væri þar um að ræða verðbætur á þær 3000 tunnur korns, sem látnar hafa verið óverðbættar á árinu 1960, og að því leyti sem innlenda kornframleiðslan kann að vaxa á komandi árum, þá kemur hún líka til frádráttar á innflutt korn, svo að hún ætti ekki að hafa neinn aukakostnað í för með sér.

Þetta vildi ég aðeins hugleiða hér með hv. alþm., áður en málið kemur til endanlegrar afgreiðslu. Ég ætla, að það sé flestum hv. þm. ljóst, að það vantar nýjan lagabálk um það, að kornrækt njóti sambærilegar fyrirgreiðslu af opinberri hálfu og önnur ræktun í landinu, enda hafa hér þegar verið flutt frumvörp um það. En þrátt fyrir það, þótt slík frumvörp hafi verið sýnd hér á Alþingi, verður þess ekki vart, að afgreiðsla þeirra sé alveg á næsta leiti, og m.a. af þeim sökum þykir okkur flm. eðlilegt, að Alþingi taki híð fyrsta til meðferðar þessa litlu tillögu okkar og bæti að þessu leyti úr vanrækslu hins opinbera, svo að hætt verði af opinberri hálfu að gera kornrækt hér torveldari en ástæða er til. Þess vegna leggjum við kapp á það, að þessi leiðrétting verði ekki látin dragast von úr viti, því að ég ætla, að það muni engum hv. alþm. finnast ósanngjarnt, að hún verði samþykkt.

Herra forseti. Ég leyfi mér að leggja til, að þessari umr. verði á einhverju stigi frestað og mátínu visað til hv. fjvn.