29.11.1961
Sameinað þing: 18. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 490 í D-deild Alþingistíðinda. (3371)

65. mál, jarðaskráning og jarðalýsingar

Flm. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Við hv. 4. þm. Sunnl. (BFB) höfum leyft okkur að flytja till. þá til þál., sem hér er til umr. Ég vil leyfa mér að fara nokkrum almennum orðum um till., áður en henni er vísað til nefndar, sem ég vona að verði samþykkt.

Ég vil taka það fram strax í upphafi, að við flm. till. vanmetum á engan hátt þau störf, sem hingað til hafa verið unnin í sambandi við fasteignamat og þ. á m. mat á bújörðum, sem við höfum nú sérstaklega í huga, heldur teljum við einmitt þvert á móti, að fasteignamat ríkisins ráði yfir mjög mikilvægum undirstöðuupplýsingum, þótt kerfi það, sem því er ætlað að starfa eftir, sé ófullkomið og þurfi breytinga við. Er rétt að benda á það strax í upphafi, að fasteignamat, eins og það er nú í framkvæmd, úreldist mjög fljótt. Vandasöm og dýr vinna, þótt unnin sé af fyllstu samvizkusemi, nær alls ekki tilgangi sínum og er að miklu leyti unnin fyrir gýg.

Svo sem kunnugt er, hefur fasteignamati og jarðalýsingum ávallt verið ætlaður sá megintilgangur að gefa sanna mynd af verðmæti og ásigkomulagi eignanna, bæði vegna skattlagningar í þágu hins opinbera og eins vegna sölugildis og veðhæfis þeirra. Rétt fasteignamat og trúverðugar jarðalýsingar geta haft mjög mikla þýðingu í almennum viðskiptum, bæði að því er snertir eignaskipti og veðsetningar og lán. Því miður verður að draga það mjög í efa, að núverandi framkvæmd fasteignamats nái þessum tilgangi vegna þess tvenns fyrst og fremst, að gerbreytingar hafa orðið og eru sífellt að gerast á aðstöðu og ásigkomulagi eignanna og að verðbreytingar hafa orðið svo örar á fáum árum, að matsgerðir gefa ekki rétta hugmynd um verðgildi. Þetta er alkunn saga, ekki sízt nú á síðari tímum eða frá 1940, þegar síðasta mat fór fram. Með sérstöku mati, sem fór fram 1955 eða 1956, var reynt að samræma eldra matið og lagfæra nokkra agnúa á aðalmatinu frá 1940, ekki sízt vegna þeirra breytinga, sem orðið höfðu á árabilinu milli 1940 og 1955, en líklegt má telja, að það verði orðið úrelt, þegar næsta aðalmat á að fara fram samkvæmt lögum árið 1965. Þegar þetta mat fer fram, eru liðin 25 ár síðan aðalfasteignamat fór fram, og að óbreyttum lögum munu liða önnur 25 ár, þar til næst verður unnið að allsherjarfasteignamati. Það er mál út af fyrir sig að ræða þann árafjölda, sem líður milli fasteignamata, en á það má benda, að samkvæmt eldri lögum skyldi fasteignamat fara fram á 10 ára fresti.

Hitt er þó ekki síður mikils virði, að koma á nýju skráningarkerfi fasteigna og þá sérstaklega jarðeigna, eins og við flm. þessarar tillögu viljum láta gera. Kerfi það, sem við höfum í huga, á að bæta verulega úr þeim ágalla, sem nú er, að fasteignamatsupplýsingar úreldist jafnharðan og þeirra er aflað, að segja má, þannig að þær hafa aðallega sögugildi, en sáralítið raunhæft gildi. Í stuttu máli er kerfi þetta fólgið í því, að árlega séu tilkynntar og skráðar hjá til þess kjörnum yfirvöldum eða yfirvaldi allar þær breytingar, sem varða jarðeignir í landinu, og þannig frá gengið, að þessar upplýsingar séu aðgengilegar á einum stað, svo að auðvelt sé að færa sér þær í nyt. Mundi slík skráning í fyrsta lagi vera til mikils hagræðis við endurskoðun fasteignamats, hvort heldur langt eða skammt líður þar í milli. Í öðru lagi yrði slíkt skráningarkerfi hagkvæmt fyrir lánastofnanir, því að þær gætu þá með tiltölulega auðveldu móti fengið nauðsynlegar upplýsingar á einum stað varðandi veðhæfi jarðeignanna. Í þriðja lagi hefur slík skráning gildi fyrir kaupendur jarða, því að þeir geta með sama hætti leitað upplýsinga um jörðina og fengið nokkurn veginn sanna mynd af ástandi hennar á hverjum tíma. Þetta kerfi hefur því að okkar dómi þann kost fyrst og fremst, að hinum gamalkunna tilgangi jarðaskráninga og jarðalýsinga er fyllilega náð, þ.e. að vera undirstaða jarðamatsins og sýna jafnframt búrekstrargildi jarðanna á hverjum tíma, svo að af því megi ráða sölugildi og veðhæfi þeirra.

En ég á eftir að nefna annan tilgang með þeirri jarðaskráningu, sem við flm. höfum í huga. Sá tilgangur er þó alls ekki sá ómerkasti. Má að vissu leyti segja, að það hafi einmitt verið ætlun okkar með flutningi þessarar till. að vekja sérstaka athygli á því atriði. En það er sá tilgangur með jarðaskráningu og jarðalýsingu, að hvort tveggja sé undirstaða undir skipulögðum framkvæmdaáætlunum í landbúnaði, hvort heldur er um að ræða áætlanir fyrir einstakar jarðir eða stærri svæði. Er það álit margra kunnáttumanna um þau mál, að það mundi auðvelda verulega framkvæmdaáætlanir í landbúnaði, ef fyrir lægju hagfræðilegar jarðalýsingar, og því er það, að við bendum á nauðsyn þess, að ríkisstj. hefjist handa um athugun þess máls og láti hana fylgja þeirri endurskoðun, sem við einnig teljum æskilega á framkvæmd jarðamats í landinu og jafnvel alls fasteignamats. Jarðaskráning, sem jafnframt væri hagfræðileg jarðalýsing, er að sjálfsögðu mikið vandaverk og verður ekki unnið af öðum en sérfróðum kunnáttumönnum, og ég ætla mér a.m.k. ekki þá dul, að ég geti gefið neinar bendingar, sem að gagni mættu verða um einstök framkvæmdaatriði, því að til þess brestur mig þekkingu. En eigi að síður hef ég þá leikmannstrú, að hér sé um nauðsynjaverk að ræða, sem Alþingi og ríkisstj. eigi að stuðla að. Samflm. minn er mér samdóma um þetta atriði og því höfum við ráðizt í að vekja máls á þessu á Alþingi.

Til frekari upplýsinga vil ég leyfa mér að benda á grein eftir Pálma Einarsson landnámsstjóra, sem prentuð er sem grg. með till. okkar. Mun ég ekki hafa þessi orð fleiri, en óska þess, herra forseti, að umr. verði frestað og málinu vísað til hv. fjvn.