06.12.1961
Sameinað þing: 19. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 492 í D-deild Alþingistíðinda. (3378)

72. mál, veiði og meðferð á fiski

Jónas Pétursson:

Herra forseti. Þáltill. sú, sem hér liggur fyrir á þskj 93, er flutt af varamanni mínum, Einari Sigurðssyni, og fjallar um veiði og meðferð á fiski. Það mál allt er stórt mál, og þar er áreiðanlega mikið að vinna, og sérstaklega er aukin vöruvöndun og bætt nýting mál hins liðandi tíma.

Ég er ekki sérstaklega kunnugur fiskveiðum og útgerðarmálum yfirleitt, og ég ætla því ekki, enda álít ég þess ekki þörf, að fara í umræður um þetta mál. Ég vil aðeins leggja á það áherzlu, að hér er gripið á þýðingarmiklu máli. Það kemur svo í hlut þeirrar nefndar, sem fær þetta mál til meðferðar, að athuga tillöguna í einstökum liðum. Ég vil svo gera það að tillögu minni, að umr. nú verði frestað og till. vísað til hv. allshn.