18.10.1961
Sameinað þing: 21. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 377 í B-deild Alþingistíðinda. (338)

1. mál, fjárlög 1962

Frsm. meiri hl. (Kjartan J. Jóhannsson):

Herra forseti. Fjvn. tók frv. til meðferðar 19. okt., hefur síðan haldið um það 37 reglulega fundi, fengið til viðtals forstöðumenn helztu ríkisstofnana auk fjölda athugana og viðtala utan funda. Þá hefur nefndin einnig athugað og rætt nær 500 erindi, sem til hennar bárust. Ég vil leyfa mér að þakka nefndarmönnum fyrir ágætt samstarf, sem hefur auðveldað störfin mjög.

Nefndin stendur öll að tillögum til breytinga á gjaldaliðum frv. Hv. þm. Framsfl. og Alþb. hafa þó áskilið sér rétt til að flytja eða fylgja brtt., er fram kunna að koma. Tillögur til breytinga á tekjuliðum frv. eru fluttar af meiri hl. n., en það, sem kemur fram í nál. meiri hl., að minni hl. hafi beint lýst sig andvígan þeim tillögum meiri hl., er byggt á misskilningi, og vil ég leiðrétta það hér með. Þá vil ég leyfa mér að ræða í fáum orðum nokkur atriði, sem nauðsynlegt var að hafa í huga við afgreiðslu þessa máls.

Það mun skoðun reyndustu sérfræðinga okkar og raunar erlendra sérfræðinga einnig, að það hafi náðst meira jafnvægi í efnahagsmálum hér en verið hefur alllengi undanfarið. Af því leiðir, að ef við ekki leikum af okkur eða stóróhöpp steðja að, má vænta þess, að þjóðartekjurnar geti vaxið hægt eða um ca. 3% á ári næstu árin og tekjur ríkissjóðs um tiltölulega svipaða upphæð, ef ekki er breytt þeim hlut, sem ríkissjóður fær af þjóðartekjunum. Nú má ekki draga af þessu þá ályktun, að fjárlagafrv. megi ekki hækka meira en hinum auknu tekjum ríkissjóðs nemur.

Á fjárlögum eru ýmsar ríkisstofnanir með sjálfstæðan fjárhag og tekjur. Má þar t.d. nefna póst og síma. Þar eru stórframkvæmdir árlega til þess að fylgjast með tímanum og leitast við, að fullnægt sé kröfum neytenda um aukna þjónustu. En það sýnir sig þar, að notkunin og þar með tekjur stofnunarinnar vaxa svo ört, að nægir til að standa undir auknum kostnaði. Svipuðu máli gegnir um aðra stofnun ríkisins, sem hefur vaxið mjög ört, ríkisútvarpið. En það stendur þó vel undir hinum auknu útgjöldum með vaxandi tekjum.

Þá vil ég minna á þau ummæli hæstv. fjmrh. við 1. umr., að þegar frv. var samið, hafði verið miðað við, að það væri ekki ætlun ríkisstj. að leggja á nýja skatta.

Eitt atriði enn vil ég nefna, sem nefndin hlaut að taka tillit til við afgreiðslu þessa máls, en það er tollalækkun sú, sem nýlega var samþykkt hér á Alþingi.

Þá má ekki gleyma því, þegar rætt er um afgreiðslu fjárlaga, að sumir liðir fjárlaga eru beinlínis ákveðnir fyrir fram, eins og t.d. þær breytingar, sem leiðir af hækkun kaups og launa, og hækkun á hluta ríkissjóðs vegna almannatrygginga, þar sem hvort tveggja kemur til: hækkun bóta og fólksfjölgun í landinu. Þegar þetta er haft í huga, verður skiljanlegra, hve það, sem eftir verður til verklegra framkvæmda og margra annarra nauðsynjamála, er takmarkað.

Við athugun frv. í nefndinni var augljóst, að þeirri stefnu hafði verið fylgt við samningu þess að forðast fjölgun starfsliðs hjá ríkinu og stofnunum þess, nema sýnt væri, að brýna nauðsyn bæri til, og eins að gæta hófs og raunar ýtrasta sparnaðar um alla aukningu gjalda. Við afgreiðslu frv. hefur sömu stefnu verið fylgt.

Áður en ég sný mér að því að ræða einstakar greinar frv., vil ég leyfa mér að minna á það, sem hæstv. fjmrh. sagði í framsöguræðu sinni fyrir því, að enn vinna bæði innlendir og erlendir sérfræðingar að því að finna leiðir til meiri hagsýni og sparnaðar í rekstri ríkisins og stofnana þess. Ég er þess fullviss, að þess muni ekki langt að bíða, að góður árangur verði af því starfi.

Þá mun ég víkja máli mínu að einstökum greinum frv. eða þeim brtt., sem meiri hl. n. eða n. sameiginlega flytur við það. Skal ég þá fyrst ræða um brtt. meiri hl. n. við tekjuhlið frv. á þskj. 182.

Ég vil þá fyrst geta þess, að við samningu þessara tillagna nutum við ráða og fengum upplýsingar hjá ráðuneytisstjórunum Sigtryggi Klemenzsyni og Jónasi Haralz. Breytingarnar eru byggðar á því, sem vitað er nú um afkomuna í ár til nóvemberloka, og þær breytingar, sem ætla má að leiði af þeirri tollalækkun, sem nýlega var samþykkt á Alþingi. Breytingarnar eru þessar: Verðtollur er lagt til að hækki um 38.6 millj. kr. Gjald af innlendum tollvörum hækki um 2.3 millj. kr. Söluskattur, töluliðir 3–5 að frádregnu framlagi til jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, hækki um 35.4 millj. kr. 7. liðurinn, innflutningsgjöld, lækki um 50 millj. Það er vegna þeirra áhrifa, sem talið er að tollabreytingarnar hafi á þann lið. Samkv. þessu verður nettóhækkun tekjuáætlunar frv. 26.3 millj. kr.

Við næstu greinar frv. eru hvorki brtt. frá n. né meiri hl, hennar. Ég get þó ekki stillt mig um að segja frá því, að forstjóri Áfengis- og tóbaksverzlunar ríkisins sagði okkur frá því í n., að sameining stofnananna hefði gengið vel og virðist gefa eins góða raun og við var búizt. T. d. sagði hann okkur, að starfsfólki hefði fækkað um 14 manns við stofnanirnar báðar samtals og húsnæðiskostnaður og ýmis kostnaður annar hefði lækkað mjög verulega, eins og við var búizt.

Þá kem ég að brtt. á þskj. 181, sem n. flytur sameiginlega.

Þá er fyrst brtt. við 11. gr. A. 8. c, einkennisbúningar héraðsdómara. Lagt er til, að sá liður hækki um 100 þús. kr. vegna aukins kostnaðar. Þetta er leiðrétting vegna hækkunar, eftir að áætlunin var samin.

Liðurinn 10. b. 1, laun lögregluþjóna á Keflavíkurflugvelli, er lagt til að lækki um 300 þús. kr. það er vegna þess, að gert er ráð fyrir að fækka um 3 lögregluþjóna þar.

Liðirnir 14, 17 og 24 hækka um samtals 120 hús. kr., og er það leiðrétting vegna launahækkana og kostnaðar, eftir að áætlanirnar voru samdar.

Við 12. gr. eru þessar brtt.: IV. A. 2 er nýr liður, 80 þús. kr., til landsspítalans. Það er vegna kaupa á röntgentæki — V. 1. a, rannsóknarstofa háskólans, er lagt til að hækki um 100 þús. kr. vegna nauðsynjar að auka starfslið stofnunarinnar. — VI, rekstrarstyrkur til sjúkrahúsa, er lagt til að hækki um 150 þús. kr., og er það vegna fjölgunar legudaga, en greiðslan er viss upphæð á legudag. — IX, bygging sjúkrahúsa o.fl., þessi liður er lagt til að hækki um 1725 þús. kr. Er það vegna mjög brýnnar þarfar að dómi landlæknis. — Loks er nýr liður, 20 þús. kr. vegna framhaldsnámskeiða fyrir lækna á vegum Læknafélags Íslands. Þessi námskeið voru tekin upp s.l. haust og þóttu gefast mjög vel, en Læknafélagið sér sér ekki fært að halda þeim áfram framvegis nema fá þennan styrk, og er lagt til, að því séu veittar 20 þús. kr. á þessum lið.

Við 13. gr. A eru þessar brtt.:

I, liðurinn hækki um 70 117 kr. Það er leiðrétting vegna hækkunar launa, eftir að áætlunin var gerð.

Við 13. gr. A. II. b er nýr liður, til samgöngubóta á landi, 1200 þús. kr., og raunar er sérstök brtt. á þskj. 204, sem n. hefur flutt, verði hún samþykkt, þá verður þessi liður 1400 þús. kr. Að þessu sinni er ætlazt til, að þessu fé sé skipt í kjördæmin utan Reykjavíkur, 200 þús. kr. í hvert kjördæmi. Nú er svo langt síðan vegalögum var breytt, að sums staðar er brýn nauðsyn að geta veitt nokkra úrlausn til aðstoðar á leiðum, sem eru ekki í tölu þjóðvega. Til dæmis um, hvernig nota má þetta fé, get ég sagt hér, hvernig þm. Vestfjarða hafa komið sér saman um að skipta því, sem í hlut þess kjördæmis kemur, ef till. verður samþykkt, en þeir ætla sér þá að skipta því þannig: Til Laugardalsvegar í Ögurhreppi 20 þús. kr., til Lokinhamravegar utan Stapadals 75 þús. kr., til Ingjaldssandsvegar í Önundarfirði 30 þús. kr. og til Trékyllisheiðar milli Breiðabólstaðar og Djúpuvíkur 75 þús. kr. Um þessa vegi er það að segja, að einn þeirra er sýsluvegur, en tveir eru nánast fjallvegir. En þess er þó vænzt, að þetta muni geta orðið til verulegra úrbóta, ef þetta fé fæst til þeirra.

Þá er V, fjallvegir, sem er lagt til að hækki um 165 þús. kr. Þar voru einkum hafðir í huga vegur á Austurlandi yfir svokallaða öxi, sem er fjallvegur, sem þeir hafa þar af miklum dugnaði ráðizt í að leggja sjálfir með lítils háttar styrk af fjallvegafé, og vegur, sem ráðgert er að ryðja milli Þingvalla og Laugardals yfir Lyngdalsheiði.

Þá kemur nýr liður, ferjubryggjur, 80 þús. kr. Þeir staðir, sem rætt var um í sambandi við þennan lið, voru eyjarnar Æðey og Vigur í Ísafjarðardjúpi, Gemlufall í Dýrafirði og Fjörður í Múlasveit.

Annar nýr liður, 200 þús. kr., er til að gera tilraunir samkvæmt þáltill. um rykbindingu á Þjóðvegum. Vegamálastjóri telur þetta mjög mikilsvert mál, en nokkur stofnkostnaður muni vera við það í byrjun. En hann segir okkur, að ef árangur verði eins góður hér og t.d. í Svíþjóð, þá geti fengizt með þessu móti vegir, sem gefa lítið eftir malbikuðum vegum, fyrir 1/10 kostnaðar, svo að af þessu er auðskilið, að það er mjög mikilsvert að gera þessa tilraun, þar sem það er komið í ljós núna með marga vegi hjá okkur, þar sem enn eru malarvegir í námunda við kaupstaðina t.d., að það er nær ógerningur að halda þeim við með þeim hætti, sem nú er gert.

Næst kemur liðurinn XII, til fyrrverandi vegaverkstjóra og ekkna þeirra. Það er lagt til, að sá liður hækki um 193 þús. kr. Það er talið, að þessi upphæð nægi til þess, að þessir aðilar fái sama eða svipaðan styrk og þeir hefðu að venju fengið af 18. gr., en n. taldi heppilegra að fara þessa leið.

Þá kem ég að 13. gr. B. VII. Er lagt til, að sá liður hækki um 300 þús. kr. — Og næst er VIII, til hafnarbótasjóðs. Er lagt til, að sá liður hækki um 4 millj. kr. Það er vegna skemmda, er nýlega urðu í ofviðri og talið er óhjákvæmilegt að veita fé til nú þegar, til þess að hægt sé að byrja á lagfæringu og forða frekari skemmdum. En auk þess eru þarna teknar með fjárveitingar til lagfæringar eldri skemmda í Vestmannaeyjum og Bolungarvík, sem nauðsynlegt er talið að taka upp fjárveitingu til nú.

Við 13. gr. eru tvær tillögur, samtals 50 bús. kr., hvort tveggja leiðréttingar.

Við 13. gr. F er lagt til, að liðurinn til landmælinga hækki um 200 þús. kr. vegna kortagerðar. Auk þess eru tveir nýir liðir, 50 þús. kr. til áhaldakaupa fyrir flugbjörgunarsveit Akureyrar og 100 þús. kr. til lagfæringar vegna jarðrasks í Hveragerði. Auk þess eru smávægilegar leiðréttingar á nokkrum liðum, samtals 50 þús. kr., á þessari grein.

Um 14. gr. A er þetta að segja, að það eru smávegis leiðréttingar á kostnaði við skólastjórn við menntaskólana í Reykjavík, á Akureyri og Laugarvatni, 10 þús. kr. til hvers.

Liðurinn X. 23, framlag til byggingar barnaskóla, er gert ráð fyrir að hækki um rúmar 5 millj. kr. Þó að þetta sé mikil hækkun, þá er þörfin víða svo brýn og ríkissjóður orðinn svo langt á eftir með greiðslu á sínum hluta, að þörf hefði verið á miklu hærri upphæð, þótt það hafi ekki þótt fært að þessu sinni. — XI, 1. liður, Eiðaskóli, þar er lagt til, að komi á 14. gr. nýr liður, til byggingar skólans 1 millj. kr., en niður falli 450 þús. kr. fjárveiting af 20. gr., svo að hækkunin nemur á þessum lið til byggingar Eiðaskóla 550 pús. kr. — Liðurinn XI. 30 hækki um 306071 kr., það er bygging héraðsskóla. — Næst er XV. 2, til íþróttasjóðs, sem lagt er til að hækki um 250 þús. kr. Það hefði raunar verið þörf á að hækka framlagið til íþróttasjóðs miklum mun meira, því að hann er orðinn langt á eftir með sinn hluta af kostnaðinum við íþróttamannvirki. En íþróttafulltrúi lagði mikla áherzlu á, að sjóðurinn fengi nokkra hækkun, til þess að hann gæti framvegis eins og hingað til veitt fyrstu fyrirgreiðslu við byggingu íþróttamannvirkja, nefnilega ráðleggingar um stærð og fyrirkomulag, en til þess væri sjóðurinn vegna fjárskorts orðinn mjög illa fær, og til þess að bæta úr því ákvað n. að hækka framlag til sjóðsins um þessa upphæð. — Þá er lagt til, að 6. liður hækki um 10 þús. kr. og 9. liður um 30 þús. kr. — Loks er svo nýr liður, til íþróttaskólans í Reykjadal, 50 þús. kr., það er byggingarstyrkur. Og til íþróttasambands Íslands 150 þús. kr. byggingarstyrkur, fyrsta greiðsla af þremur. Þetta er gert m.a. í tilefni þess, að Íþróttasamband Íslands mun verða 50 ára á þessu ári.

Á 14. gr. B, 3. lið, þjóðminjasafnið, þar eru nokkrir liðir, sem þurfti að leiðrétta um samtals 47 þús. kr. vegna hækkana, eftir að áætlunin var gerð. — Þá eru nokkrar hækkanir á þessari grein vegna leikfélaga, er ekki hafa áður notið styrks, og til landssambands kóra og lúðrasveita, einn nýr tónlistarskóli og einn nýr námsstyrkur. Auk þess nýr liður vegna endurbóta á Þingvallabæ, 150 þús. kr.

Um 15. gr. er lagt til, að 10. liður, til kirkjubyggingasjóðs, hækki um 200 þús. kr. Tveir aðrir liðir eru nánast leiðréttingar um samtals 30 þús. kr.

Við 16. gr. A eru gerðar tillögur um hækkun. Það eru fyrirhleðslur á nokkrum stöðum, sem gert er ráð fyrir að hækki samtals um 260 þús. kr. Hér er um lágmarksupphæð að ræða að dómi vegamálastjóra, svo að unnt sé að forða frekara tjóni en orðið er. — 23, b-liður, sandgræðsla ríkisins, er lagt til að hækki um 320 þús. kr. Þessi hækkun er nauðsynleg vegna síaukinna verkefna sandgræðslunnar og par af leiðandi parfar hennar á auknu fé. — Sauðfjársjúkdómavarnir, b-liður, hækki um 240 þús. kr. — 44. a, bændaskólinn á Hólum, við bætist nýr liður, til lagfæringa og endurbóta 1½ millj. kr. Við athugun og úttekt staðarins vegna skólastjóraskipta kom í ljós, að óhjákvæmilegt var að vinna þessi verk. Til dæmis má taka, að rafmagnseftirlit ríkisins taldi nauðsynlegt að endurnýja raflagnir allar, ef staðurinn ætti að fá rafmagn áfram. — Þá eru á þessari grein leiðréttingar á nokkrum liðum og auk þess lagt til, að liðurinn 45. j hækki um 200 þús. kr., það er til byggingar húsmæðraskóla í sveitum.

Við 16. gr. B er lagt til, að 5. liður, til haf- og fiskirannsókna, hækki um 250 þús. kr. Er það m.a. með tilliti til umsóknar, sem kom um frekari rannsókn á smásíldarveiðum við Norðurland. — 8. liður, leit nýrra fiskimiða, er lagt til að hækki um 1 millj. kr. Það er talin alveg óhjákvæmileg hækkun vegna þess, hvað fiskimiðaleit er dýrt verkefni, að það er ekki hægt að vinna þar verulegt gagn nema með allháum upphæðum. — Þá er nýr liður við þessa grein, aukavinna matsmanna, 90 þús. kr.

16. gr. C, 7. liður, til byggingar iðnskóla í Reykjavík, lagt er til, að liðurinn hækki um 550 þús. kr.

Við 16. gr. E. I. 2 er leiðrétting, tæpar 30 þús. kr., og 3. b hækki um 110 þús. kr. vegna aukinnar starfsemi, það er búnaðardeild atvinnudeildarinnar. — Þá er IV, liður, til Verzlunarskóla Íslands, lagt er til, að liðurinn hækki um 355 þús. kr.

17. gr. Við bætist í lið I: til vatnsöflunar í Kelduhverfi og Hellnum, samtals 125 þús. kr. V : Þar eru nokkrir styrkir til barnaheimila, elliheimilisins í Skjaldarvík og Sjálfsbjargar á Akureyri, samtals 135 þús. kr. Nýr liður á þessari grein, 1 millj. kr. til almannavarna.

20. gr. IX, til flugvallagerðar og öryggistækja, hækki um 2 millj. kr. Það hefur sýnt sig með flugvellina, að þar er þörfin á auknum aðgerðum mjög brýn. Einkum var það mjög aðkallandi vegna þess, að sjóflugvél sú, sem hafði verið í notkun hjá Flugfélagi Íslands, varð að hætta flugi á s.l. ári, vegna þess að ekki þótti fært lengur að halda henni við. Þá var aðkallandi að bæta flugvallakost á Vestfjörðum, og sama er reyndar sagan víðs vegar á landinu, þörfin kallar víða að um að bæta flugvelli og gera nýja. Er alveg óhjákvæmilegt að hækka um þessa upphæð.

XII, 2. liður, til byggingar menntaskólans í Reykjavík, er lagt til að hækki um 1 millj. kr. En það er orðið svo þröngt í menntaskólanum, að það er orðið alveg óhjákvæmilegt að hefja byggingu, og mun í ráði að hefja byggingu viðbótarhúsnæðis þar á þessu ári.

XII. liður 7 hækki um 150 þús. kr., það er garðyrkjuskólinn á Reykjum í Ölfusi. — 9. liður, Eiðaskóli, hverfi hér, eins og áður var sagt, en í stað þess kemur nýr liður: til byggingar bústjórahúss á Eiðum, 100 þús. kr. — XXIV. liður, embættisbústaðir dýralækna, er lagt til að hækki um 158 þús. kr. — Við bætast tveir nýir liðir: Tilraunastöðin á Reykhólum 200 þús. kr., það er vegna kaupa á húsi við tilraunastöðina. Og 500 þús. kr. vegna kaupa á Vestdalseyri í Seyðisfirði.

Um 22. gr. er þetta að segja: Við bætast nýir liðir: 1) Ríkisstj. er heimilt að taka allt að 4 millj. kr. lán til eldisstöðvar fyrir lax og silung í Kollafirði, til byggingar stöðvarinnar. 2) Ríkisstj. er heimilt að selja prestsseturshúsið á Ísafirði. 3) Ríkisstj. er heimilt að verja 100 þús. kr. til byggingar kláfferju á Tungnaá hjá Haldi. 4) Ríkisstj. er heimilt að veita Dráttarbraut Akraness ríkisábyrgð fyrir láni allt að 3½ millj. kr., það er endurveiting. 5) Heimild til að gefa eftir aðflutningsgjöld af bifreið kirkjubyggingarsjóðs Kópavogskirkju. 6) Ríkisstj, skal heimilt að ábyrgjast lán að upphæð 1 millj. kr. vegna rannsóknarstöðvar háskólans við Barónsstíg. Það er orðið svo þröngt um þá stofnun, að það verður með engu móti lengur hjá því komizt að stækka þar húsnæðið. Það var raunar sótt um að fá nokkurn byggingarstyrk á þessu ári, en að þessu sinni var látið við sitja að veita þessa ábyrgðarheimild á láni. 7. liður: Ríkisstj. skal heimilt að ábyrgjast 500 þús. kr. lán fyrir Barðstrendingafélagið vegna gistihúsbyggingar.

Þá skal þess getið, að enn eru nokkur mál óafgreidd eða ætlunin að taka þau til frekari athugunar hjá n. Samvinnunefnd samgöngumála mun gera tillögur um flóabátastyrki, eins og venja er til, og 18. gr. verður endurskoðuð fyrir 3. umr.

Þá vil ég geta þess, að á sérstöku þskj., nr. 204, eru tvær till. frá n., önnur raunar aðeins leiðrétting vegna misritunar, þar sem Ögurvegur á að standa í stað þess, að Vestfjarðavegur var á þskj. Veitt er hækkun á fé, eins og ég sagði frá áðan, til samgöngubóta á landi um 200 þús. kr.

Að lokum legg ég til, að þessar tillögur nefndarinnar og tillögur meiri hl. n., sem ég hef lýst hér að framan, verði samþykktar og frv. síðan vísað að lokinni umr. til 3. umr.