16.11.1961
Efri deild: 16. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 58 í B-deild Alþingistíðinda. (34)

74. mál, lækkun aðflutningsgjalda

Frsm. 1. minni hl. (Björn Jónsson):

Við 1. umr. um þetta mál gerði ég það nokkuð að umtalsefni, að stofninn í vöruvalinu í þessu frv. væru þær vörutegundir, sem með ákvörðun verðlagsnefndar frá 31. ágúst s.l. voru undanþegnar verðlagsákvæðum. Ég sagði þá, að mér virtist svo við fljóta yfirsýn og án þess að um nákvæma athugun væri að ræða, að þá kæmu svo til allar þær vörur, sem taldar eru upp í þessari tilkynningu verðlagsnefndar, til skila í þessu frv. Við nákvæma athugun, sem ég hef síðar gert á þessu, hef ég komizt að raun um, að af 62 tollskrárnúmerum, sem tiltekin eru og undanþegin eru verðlagsákvæðum með ákvörðun verðlagsnefndar, eru 47 af þeim, sem nú á að lækka gjöldin á og koma til skila að því leyti í þessu frv. En 15 tollskrárnúmer samtals, sem þá voru felld undan verðlagsákvæðum, hafa hins vegar ekki hlotið lækkun á aðflutningsgjöldunum. Í þessum 15 vörutegundum, sem álagning hefur verið gefin frjáls á, en hins vegar hafa ekki verið lækkuð aðflutningsgjöld á, er aðallega um að ræða búsáhöld, hvers konar búsáhöld úr leir og gleri, niðursuðuglös, hitaflöskur og fleiri glervörur og skrifstofuvélar, einnig rafmagnsþræðir einangraðir og eitthvað fleira. Mér finnst það strax vera nokkuð einkennandi fyrir valið á þeim vörum, sem á að lækka aðflutningsgjöldin á, að búsáhöldin skuli þar algerlega hafa verið skilin eftir. Þau eru þó sannarlega nokkuð hátolluð vara, og í þessum tilvikum, sem ég nefndi sérstaklega, með búsáhöldin úr leir og gleri, þá er um að ræða, að þær vörur bera yfir 100% aðflutningsgjöld samtals og hærri en ýmsar af þeim vörum, sem hugmyndin er að lækka gjöldin á. Mér virðist því, að það hefði átt að koma mjög til greina, fyrst á annað borð var farið að breyta aðflutningsgjöldum á hátollavörum til lækkunar, að taka þessar vörutegundir með, og ég fæ ekki betur séð en að það að taka nokkurn hluta og það verulegan hluta af búsáhöldum undan verðlagsákvæðum án þess að lækka nokkuð aðflutningsgjöldin á þeim hafi það í för með sér, að þessar brýnu nauðsynjar, vil ég segja, þó að þær séu hátollaðar, muni, hækka í verði og það jafnvel stórlega umfram það, sem gengisfellingar og aðrar slíkar ráðstafanir, sem hæstv. ríkisstj. hefur staðið fyrir, gefa beint tilefni til.

Það er ekki heldur um það að ræða, að aðflutningsgjöld á öðrum heimilistækjum en þessum, sem ég nefndi hér og voru undanþegin verðlagsákvæðum í lok ágústmánaðar s.l., hafi verið tekin inn í þetta frv., þó að þau tæki séu í tiltölulega háum tollflokkum og séu nú orðin það dýr, að mjög mörg heimili í landinu verði að neita sér um að kaupa þau. Það mætti nefna ýmsar fleiri hátollavörur, sem telja má til almenns varnings og jafnvel nauðsynja, sem hefði ekki verið síður ástæða til að lækka aðflutningsgjöldin á og jafnvel enn þá ríkari en á ýmsum þeim vörum, sem hér hefur verið gert og í þessu frv. er að finna, eins og t.d. rafeldavélar, þvottavélar, ísskápar, viðtæki og önnur rafknúin heimilistæki. Það mætti nefna ýmis bökunarefni, sápur og ýmsa smærri hluti t.d. til bygginga, bifreiðavarahluti og varahluti í aðrar vélar. Allt saman eru þetta hátt tollaðar vörur og um leið vörur, sem almenningur verður að neita sér um að meira eða minna leyti og hefðu að mínu áliti ekki átt minni rétt til þess að vera lækkaðar í verði en þær vörur, sem fundið hafa náð fyrir augum þeirra, sem standa að þessu frv., heldur að af því hefði leitt meiri hagsbætur í ýmsum tilfellum fyrir almenning, ef tollalækkanirnar á annað borð kynnu að skila sér að einhverju leyti í því endanlega verði, sem neytandinn að síðustu greiðir fyrir þær. En ég nefni þessi dæmi fyrst og fremst til þess að sýna, að það sjónarmið að lækka aðflutningsgjöldin sérstaklega til hagsbóta fyrir neytendur hefur ekki ráðið þeirri tillögugerð, sem hér er á ferðinni, jafnvel ekki innan þess ramma, sem það markaði frv., að halda sig við hátollavörurnar.

En að sjálfsögðu hafa lækkanir á gjöldum af brýnustu nauðsynjum aldrei komið til greina í þessu sambandi af hálfu hæstv. ríkisstj. Um þetta stendur ekki í sjálfu sér mikil deila, vegna þess að það hefur í raun og veru verið viðurkennt, t.d. af hæstv. fjmrh., að þetta sjónarmið hefði ekki ráðið, heldur hitt sérstaklega, að tilgangurinn væri sá að reyna að hefta eða draga úr smyglinu. En það sjónarmið hefur þó sýnilega ekki heldur ráðið algerlega, því að inn í þetta frv. hafa verið teknar ýmsar vörur, sem jafnvel er algerlega útilokað að reynt sé að flytja inn á ólögmætan hátt, og aðrar, sem hafa ekki, svo að vitað sé, komið við sögu smyglmálanna. Það mætti t.d. nefna baðker og fleira þess háttar, hljóðfæri, jafnvel upp í stór hljóðfæri, ljósakrónur, jólatré, blómlauka, gólfábreiður og sitthvað fleira, þar sem smygl kemur alls ekki til greina. Ég spurði þá menn, sem skipuðu tollskrárnefndina og hafa undirbúið þetta frv. með hæstv. ríkisstj. eða fyrir hana, hvers vegna þessar vörur hefðu verið valdar, ef það hefði verið eini tilgangurinn eða aðaltilgangurinn að miða frv. við það, að komið yrði í veg fyrir smygl, og þeir nefndu sem helztu ástæðuna fyrir þessu, að það hefði verið leitazt við, jafnframt því sem þessu sjónarmiði væri þjónað, að lækka verð á nokkrum öðrum vörum en þarna er um að ræða með tilliti til þess, að sem flestar greinar verzlunarinnar fengju einhverjar lækkanir á aðflutningsgjöldum. Þetta svar þeirra manna, sem bezt mega hér um vita, styður að mínu áliti það, sem ég sagði hér við 1. umr. málsins, að ein höfuðástæðan fyrir frv. væri sú, að innflytjendur ættu fyrst og fremst að njóta góðs af þessum aðgerðum. En að öðru leyti gefur þetta svar og raunar allar staðreyndir málsins um vöruvalið jafnframt fulla ástæðu til þess að taka til athugunar um gjaldalækkanir á öðrum hátollavörum en frv. fjallar um. Með tilliti til þessa hef ég leyft mér að flytja brtt. um, að teknar verði upp í frv. nokkrar hátollaðar vörur, sem ég tel að veruleg hagsbót væri fyrir allan almenning að væru lækkaðar í verði, og ég hef gert það í því trausti, að hæstv. ríkisstj. og stuðningsmenn hennar hér í hv. d. vilji ekki aðeins sýna innflytjendum velvilja sinn og greiðasemi, heldur vilji líka hugsa ofur lítið um hagsmuni þeirra, sem kaupa vörurnar og skapa verzlunarstéttinni hagnað með vörukaupum sínum, og gera það með því að gera ráðstafanir til þess að lækka verð á nokkrum þeim vörum, sem sérstaklega koma til greina í þessu sambandi.

Þessar brtt. mínar eru á þskj. 111, og þær vörur, sem þar er aðallega fjallað um, eru eftir þeirri röð, sem þær eru tilgreindar á þskj., og í samræmi við röðina í tollskránni. Það er í fyrsta lagi rís og aðrar korntegundir í 19. kafla, en það eru ýmis matvæli, sem flutt eru til landsins og eru úr korni, tilreidd. Þetta eru vörur, sem eru notaðar á hverju heimili meira eða minna og bera nú milli 90 og 100% heildaraðflutningsgjöld. Þá legg ég til, að handsápur og raksápur í 32. kafla verði einnig lækkaðar, lækkuð aðflutningsgjöld af þeim, en heildaraðflutningsgjöldin af þeim eru nú 107.9%. Þá legg ég til, að inn í þetta verði tekin búsáhöld úr leir og búsáhöld úr gleri, en eins og ég sagði áður, bera þessar vörur nú 108% heildaraðflutningsgjöld, og mér finnst sérstök ástæða til þess að taka þessar vörur inn í, af því að þær hafa verið undanþegnar öllum verðlagsákvæðum og því allar líkur á, að þær mundu hækka í verði til neytenda, ef aðflutningsgjöldin yrðu ekki eitthvað lækkuð á þeim. Þá er í till. mínum einnig um, að gjöld verði lækkuð á olíukyndingartækjum og enn fremur, sem er einn af stærri liðunum í mínum till., að heimilistæki í 73. kafla, þ.e.a.s. rafknúin heimilistæki, og útvarpsviðtæki verði lækkuð niður í verðtoll 30% og undanskilin öðrum aðflutningsgjöldum á sama hátt og þær vörur, sem hér eru í frv. Þetta eru vörur, sem bera nú almennt frá 84 og upp í 100% aðflutningsgjöld, flest þó um 84%. Og þá legg ég loks til, að bifreiðavarahlutir í 75. kafla verði lækkaðir nokkuð í aðflutningsgjöldum. Þessar vörur bera nú 77% heildaraðflutningsgjöld, en samkvæmt mínum till. mundu þau verða rösk 50%, þannig að aðflutningsgjöldin mundu lækka um 17%, sem mundi sennilega geta þýtt það, að ef álagningu er ekki breytt á þeim, þá mundu þær geta lækkað í verði í kringum 10%. En almennt mundu till. mínar, ef samþ. yrðu, geta haft í för með sér milli 10 og 20% verðlækkun á þeim vörum, sem þær fjalla um. Þessir vöruflokkar, sem ég hef tekið, eru alls upp á kringum 90 millj., en lækkanirnar eru yfirleitt minni en gert er ráð fyrir í frv. á þeim vörum, sem þar er um að ræða, þannig að heildartekjutap af þessum sökum fyrir ríkissjóð gæti lauslega áætlað að vísu ekki orðið meira en kringum 25 millj. kr. En ég vil þó taka það fram, að vegna þess að lítill tími hefur verið til þess að ganga nákvæmlega úr skugga um svona atriði, sem krefjast töluverðra útreikninga, þá eru þessar tölur ekki nákvæmar, en þær munu ekki vera fjarri sanni.

Hæstv. fjmrh. gat þess í frumræðu sinni fyrir þessu frv., að hér væri um að ræða vörur, sem vegna þess að þær hefðu haft há aðflutningsgjöld, hefðu yfirleitt borið lága álagningu. Hér kom hæstv. ráðh. inn á mjög mikilsvert atriði í málinu, sem hann gerði þó ekki frekari skil, en ég tel að bendi alveg í ákveðna átt og ég tel einnig að geti í raun og veru skoðazt sem eitt aðalatriði í þessu máli. Ég er þeirrar skoðunar, eins og ég hef áður tekið fram, að það sé alveg útilokað að meta þetta frv, alveg einangrað og til þess að rétt mynd fáist af því, hvert stefnt er með því, þá verði að skoða einnig þær aðgerðir í verðlagsmálunum, sem gerðar hafa verið alveg nýverið og ég hef minnzt á, og einnig hugsanlegar breytingar í sömu átt.

Það, sem hér liggur fyrir með þessu frv., er, að það á að lækka aðflutningsgjöld á tilteknum hátollavörum um 46 millj. kr. og e.t.v. rýra tekjur ríkissjóðs um þá upphæð eða hluta af þeirri upphæð, því að það er vissulega rétt, sem hv. 11. þm. Reykv. (ÓB) sagði hér áðan, að hér er um tilraun að ræða, og það kom greinilega fram í þeim viðræðum, sem fjhn. átti við þá, sem höfðu samið frv., að þeir voru ekki jafnbjartsýnir og hæstv. fjmrh. á það, að þetta hefði engan tekjumissi í för með sér fyrir ríkissjóð, og tóku það skýrt fram, að þar væri um algert vafaatriði að ræða, sem fengist ekki úr skorið á neinn hátt annan en með reynslunni. Þetta er kannske ekki stór upphæð, ef hún er borin saman við fjárl. og ekki ef hún er borin saman við þær stórfelldu gjaldahækkanir, sem hæstv. núv. ríkisstj. hefur framkvæmt, og að sjálfsögðu er hér aðeins um örsmátt brot að ræða af öllum þeim gífurlegu verðhækkunum, sem ríkisstj. hefur leitt yfir með aðgerðum sínum. Vísitala vöru og þjónustu hefur nú hækkað yfir 30 stig, frá því að viðreisnin tók gildi, eða um milli eitt og tvö stig á hverjum mánuði að meðaltali, þannig að þótt hér komi frv., sem felur það í sér, að vísitalan lækki aftur um ca. ½ stig, — útreikningar hagstofunnar eru upp á 0.4, — þá virðist það ekki duga nema til þess að svara á móti hálfs mánaðar verðhækkunum hjá hæstv. ríkisstj., eins og þær hafa verið að meðaltali, frá því að hún tók við völdum. Þegar þetta er skoðað í því ljósi, þá er ekki um stóra hluti hér að ræða. En þetta er þó á hinn bóginn samt svo stór upphæð, að menn hljóta að spyrja: Hvert fara þessar 46 millj.? Lenda þær hjá innflytjendum eða öðrum kaupsýslumönnum að miklu eða öllu leyti eða skila þær sér til neytendanna í landinu með lækkuðu vöruverði? Eða er það tryggt, — og um það hefur verið spurt hér af öðrum þm. en mér og ekki fengizt enn nein svör við því, — er það þá tryggt, að ekki verði lagðar á nýjar álögur í einhverju formi í staðinn fyrir þær, sem nú er af létt? Vill hæstv. ríkisstj. gefa yfirlýsingar um það? Þetta eru allt saman spurningar, sem skipta miklu máli, þegar þetta mál allt saman er metið.

Það er alkunnugt, að ákvörðun verðlagsnefndar, sem gerð var 31. ágúst, var gerð að tilhlutan ríkisstj. og eftir kröfum verzlunarstéttarinnar. En þær kröfur, sem verzlunarstéttin bar þá fram í sambandi við þær viðræður, voru víðtækari en að fá álagninguna frjálsa á ákveðnum vörutegundum. Krafan var einnig um það, að aðflutningsgjöldin yrðu lækkuð, vegna þess að þessar vörur væru orðnar svo dýrar, að það væri útilokað, að verzlunarstéttinni væri nokkur hagur að því að fá frelsi til álagningar, ef vörurnar yrðu ekki eitthvað lækkaðar í innkaupsverði um leið. Ég veit það, að þessari staðhæfingu minni muni ekki verða neitað, vegna þess að hún er rétt. Og það hefur verið gengið að báðum þessum kröfum verzlunarstéttarinnar nú þegar varðandi meiri hlutann af þeim vörum, sem hér er rætt um. Um það er ekkert að villast. En þá kann að vakna sú spurning: Hvað um þær vörur, sem enn þá eru undir verðlagsákvæðum? Eru engar líkur á því, að svo kunni að fara, að þær verði að einhverju eða öllu leyti teknar undan verðlagsákvæðum og verzlunarstéttinni gefið fullt frelsi til þess að leggja einnig á þær eftir vild sinni? Hv. frsm. meiri hl. fjhn. sagði, að sér væri kunnugt sem nm. í verðlagsnefnd, að engar slíkar ákvarðanir hefðu verið teknar og engar ætlanir væru uppi um slíkt. En ég vil þá í sambandi við þetta, sem ég efast reyndar ekki um að sé út af fyrir sig rétt, spyrja þennan hv. þm. um það, hvort honum sé einnig ókunnugt um það, að slíkar kröfur séu uppi hjá verzlunarstéttinni. Og þegar við nú höfum fyrir okkur þá undanlátssemi, sem innflytjendum hefur verið sýnd af hæstv. ríkisstj. og af verðlagsnefndinni, þá verður maður tæplega borinn þungum sökum, þó að hjá manni vakni verulegar grunsemdir um það, að síðar kunni að verða horfið að þessu ráði. Hv. þm. sagði það líka, sem er út af fyrir sig alveg rétt, á sama hátt og hin fullyrðing hans, að ákvörðun verðlagsnefndar hefði ekki verið tekin varanlega, heldur aðeins í bili, þ.e.a.s. til 1. sept. n.k., og það yrði fylgzt með álagningunni. Þetta er alveg rétt, að skylda kaupsýslumanna til þess að skila verðútreikningum hefur ekki verið numin úr gildi, og vitanlega er alltaf möguleiki fyrir því, að gerðum ákvörðunum sé breytt í þessu efni. En telur hv. þm., að einhverjar líkur séu á því, að þetta verði gert?

Í sambandi við þetta vil ég bæta því við, að ef það væri trú þessa hv. þm. og raunar enn frekar ef það væri trú ríkisstj., að verzlunarstéttin hefði alls ekki sótzt eftir álagningarfrelsinu til þess að hækka álagninguna, heldur mundi hún sízt fara hækkandi, eftir hverju var þá sótzt? En ef þetta væri samt sem áður rétt, þá væri það með öllu útlátalaust að samþ. þá till., sem ég flyt á öðru þskj., á þskj. 106, um það, að verðlagsnefnd skuli ákveða hámark álagningar í heildsölu og smásölu á allar þær vörutegundir, sem lög þessi taka til, og eftir þeirri meginreglu, að álagningin verði ekki hærri en hún hefur verið að undanförnu og ekki hærri en hún var við síðustu verðlagsákvarðanir í þeim tilvikum, sem álagningin hefur nú verið gefin frjáls. Ef allt er hér í þessum efnum eins og þessir hv. þm. vilja halda fram, hvers vegna má þá ekki setja þessi ákvæði til frekari tryggingar, til þess að taka af allan vafa um, að hér sé allt sem þeir vilja vera láta?

Það er líka vert að benda á það, að hér hefur verið t.d. af hæstv. fjmrh. farið með tölur um það, hvað þessar aðflutningsgjaldalækkanir hefðu miklar lækkanir á vöruverði í för með sér, og ég hygg, — og það verður þá leiðrétt, ef það er rangt hjá mér, — að í öllum þeim útreikningum hafi hann gengið út frá því, að álagningin lækkaði að hundraðstölu á sama hátt og varan komin til landsins lækkaði, að gjöldunum meðtöldum. En hvernig ætlar nú hæstv. ráðh. að fullyrða það, eftir að öðrum aðila hefur verið gefið fullt frelsi — og án þess að stjórnarvöld fái þar nokkru um ráðið — til þess að ráða því raunverulega verði, sem neytendur kaupa vöruna fyrir, — hvernig ætlar hann að heimfæra það við þessa staðhæfingu sína? Hvernig getur hann fullyrt slíkt, þegar hann er búinn að afhenda öðrum aðila valdið til þess að ákveða, hvað varan kosti? Hvernig getur hann þá staðhæft það, að verðlækkunin muni verða slík, sem hann segir og byggir á því, að álagningin verði algerlega óbreytt? Ég held, að hæstv. ráðh. verði því að endurskoða þessar staðhæfingar sínar eða a.m.k. að setja það stóra „ef“ við þær, ef verzlunarstéttin notfærir sér ekki það frelsi, sem hann hefur beitt sér fyrir að veita henni í þessum efnum. Og ég verð að segja það, að ég fyrir mitt leyti tel það alls ekki láandi fyrir verzlunarstéttina, eftir að hún er búin að sækjast eftir því að fá álagninguna hækkaða í þeim tilgangi auðvitað að bæta hag sinn og hefur fengið til þess fullt leyfi stjórnarvalda, þó að hún notfæri sér það til þess að auka sinn hagnað.

Ég varpaði hér áðan fram þeim spurningum, og ég vil enn þá endurtaka þær, hvort hæstv. ráðh, vilji gefa yfirlýsingu um það, að engar nýjar álögur verði lagðar á í stað þeirra, sem hér hefur verið létt af, og í öðru lagi, hvort hann vilji gefa yfirlýsingu um það, að ríkisstj. muni hindra það, að nokkrar breytingar á verðlagsákvæðum í hækkunarátt verði gerðar á þeim vörutegundum, sem eru að vísu minni hlutinn af þeim vörum, sem hér er um að ræða, — að nokkrar ráðstafanir af hálfu verðlagsyfirvalda eða ríkisstj. verði gerðar í þá átt að auka álagningarfrelsi varðandi þær vörur. Ég tel, að með þessum spurningum sé í raun og veru komið að kjarna þessa máls, því aðalatriði, hvort þessar lækkanir eigi að verða til hagsbóta almenningi, sem hefur þolað þyngstar búsifjar af verðhækkunarstefnu hæstv. ríkisstj., eða hvort það eigi að einskorðast að mestu eða öllu leyti við innflytjendur, sem er sú stétt manna, sem mest hefur bætt aðstöðu sína í skjóli stjórnarstefnunnar og þó alveg sérstaklega nú á síðustu mánuðum.

Eins og ég sagði áður, er meginbrtt. mín við frv. þess efnis, að bætt verði inn í það ákvæðum um, að allar vörur, sem gjöld hafa verið lækkuð á, verði eftirleiðis háðar verðlagsákvæðum, sem fylgi þeirri meginreglu, að álagningin standi að hundraðstölu óbreytt frá því, sem verið hefur að undanförnu. Ef þessi till. mín yrði samþ., væri staðfest, að fullyrðingar hæstv. fjmrh. um verðlækkanirnar hefðu við full rök að styðjast, og líka væri með samþykkt hennar girt fyrir það, að slakað yrði á verðlagshömlum á þeim vörum, sem nú eru undir verðlagsákvæðum, og þá væri þeirri vafalausu kröfu alls almennings, að þessir milljónatugir, þó að þeir séu ekki fleiri en fjórir, sem lækkanirnar nema, kæmu fram í lækkuðu verðlagi og yrðu til ótvíræðra hagsbóta fyrir hann. Ef svo þessu til viðbótar kæmi ótvíræð yfirlýsing um það, að ekki yrðu hækkuð önnur gjöld í stað þeirra, sem lækkuð hafa verið, þá teldi ég að væri um tvímælalaust batamerki að ræða hjá hæstv. ríkisstj. og hæstv. fjmrh. sérstaklega. En mæti þessi meginbrtt. mín hins vegar fullri andstöðu hv. stjórnarþingmanna, hlýtur hins vegar að staðfestast sá grunur, sem ég lét strax í ljós viðkomandi þessu máli, að hér fylgi lítill hugur í verðlækkunarátt máli, heldur sé sýndarmennskan og þjónustan við innflytjendastéttina það, sem fyrst og fremst ræður fyrirhuguðum aðgerðum, en ekki umhyggja fyrir hagsbótum almenningi til handa. Og með því að samþ. þessa brtt. mína væru líka auknar líkur fyrir því, að þeim tilgangi að hefta ólögmætan innflutning yrði náð, því að eins og ég hef áður rakið og reyndar fleiri, þá veltur allt á í því efni, að gjaldalækkanirnar leiði af sér verðlækkanir, sem eitthvað dregur um, og að samkeppnisaðstaða lögmæts innflutnings á þessum vörum batni þannig verulega á markaðnum, því að annars hlýtur að bregðast með öllu sú von, að frv. hafi nokkur áhrif í þessa átt.

Eins og þróunin hefur verið í tíð hæstv. ríkisstj. í verðlagsmálum, hljóta auðvitað allir að telja hverja þá ráðstöfun, sem felur í sér einhvern lækkunarsnefil, til bóta fremur en hitt, og af þeirri ástæðu hef ég lýst mig fylgjandi þessu frv., svo langt sem það nær. En hitt verða svo hv. aðstandendur frv. að afsaka, þó að bæði ég og áreiðanlega margir aðrir falli ekki beinlínis í stafi yfir því, eins og það er að heiman búið og með hliðsjón af forsögu þess, og þó enn þá síður ef svo færi, að vísu á móti veikri von minni, að engar tryggingar verði settar fyrir því, að þetta hugsanlega hálfa vísitölustig til lækkunar reyndist eitthvað meira en orðin tóm, þegar til reyndarinnar kemur.