07.03.1962
Sameinað þing: 40. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 515 í D-deild Alþingistíðinda. (3407)

84. mál, bygginarsjóður sveitabæja

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það er nú orðið nokkuð langt síðan þetta mál var hér til umr. Hv. 1. þm. Austf. talaði hér, að ég ætla, síðast í málinu, og hefði ég gjarnan viljað ræða dálítið við hann. Ég sé, að hann er ekki í sæti sínu. — Þá er hv. þm. mættur.

Enda þótt menn væru sammála um, að nauðsyn bæri til að hækka útlán til byggingarsjóða landbúnaðarins, urðu allsnarpar umr. í kringum málið, og hv. 1. þm. Austf. talaði hér um ýmislegt annað, sem kom þessu máli í rauninni ekki mikið við, og ég tel ástæðu til, þótt nokkuð sé langt síðan málið var til umr., að taka til athugunar nokkra þætti þeirra mála, sem hv. þm. ræddi helzt um.

Það var ekki deilt um það, hvort hækka þyrfti lánin eða ekki, og ekki heldur um það, að þau væru nú hlutfallslega lægri en oft áður, því að það eru þau ekki, heldur vegna þess, að útlánin hafa, síðan byggingarsjóður sveitabæja fór að starfa, alltaf verið of lág og bændur þess vegna setið uppi með lausaskuldir, eftir að byggingu var lokið. Tíminn sagði, að hv. 1. þm. Austf. hefði sagzt alveg sérstaklega vel við þessa umr., hann hefði eiginlega sett mig alveg út í horn. Hv. þm. getur vitanlega tekizt oft vel upp, en ég held, að hv. þm., sem hlustuðu á hann að þessu sinni, hafi verið sammála um, að í þetta sinn hafi það ekki verið. Ég held, að þessi ræða hv. þm. hafi verið óvenjulega málefnalaus og órökstudd, og það hefði vissulega verið mikilsvert sönnunargagn gegn Tímanum, ef almenningi hefði gefizt kostur á að hlusta á ræðuna eða sjá hana birta í heild. Það hefði þá komið sem sagt í ljós, að Tíminn hefði ekki sagt satt frá að þessu sinni, en það kemur nú oft fyrir það blað, eins og kunnugt er.

Ræðumaður talaði um lánasjóði landbúnaðarins. Það kom ekkert fram í ræðunni, á hvern hátt hann vildi efla sjóðina og hvað ætti að gera, til þess að lánin gætu hækkað. Hann taldi fjarstæðu að minnast á, að illa hafi verið búið að sjóðunum að undanförnu með því að taka erlend lán þeim til handa og láta þá bera gengisáhættuna. Hv. þm. leyfði sér að fullyrða, eftir að ég hafði talið nauðsyn bera til, að ríkissjóður tæki að sér að greiða gengistapið í einu eða öðru formi, að það væri það sama, sem framsóknarmenn hafi alltaf viljað láta gerast, enda hafi framsóknarmenn flutt frv, í Ed., þar sem lagt er til, að ríkissjóður taki á sig greiðslu á 160 millj, kr. vegna búnaðarsjóðanna. En sannleikurinn er sá, að meðan framsóknarmenn voru í ríkisstj. og hv. 1. þm. Austf. var fjmrh., lét hann búnaðarsjóðina taka erlendu lánin á sitt nafn og bera alla áhættu af gengistöpunum. Er það sönnun þess, að hann hefur talið eðlilegt, að sjóðirnir stæðu undir töpunum. Að öðrum kosti hefði hann sem fjmrh. tekið lánin á nafn ríkissjóðs og endurlánað búnaðarsjóðunum sömu upphæð í íslenzkum krónum. Segja má, að hv. 1. þm. Austf. hafi þannig fallið á sjálfs sín bragði í röksemdafærslunni, en það hefur venjulega þótt hin versta bylta.

Það er tilgangslaust að reyna að telja almenningi trú um, að það hafi alltaf verið hans stefna og Framsfl. að koma sjóðunum undan þessum töpum. Sönnunargögnin liggja á borðinu og vitna gegn hv. þm. í þessu efni. Þessi sönnunargögn eru sýnileg öllum, sem vilja sjá. 1958 felldi vinstri stjórnin krónuna með 55% yfirfærslugjaldi, eins og kunnugt er, og síðar miklu meira á því sama ári með stöðugt vaxandi dýrtíð og óðaverðbólgu, eins og það var orðað af fyrrv. forsrh., Hermanni Jónassyni. Vitað var, að búnaðarsjóðirnir töpuðu stórum fjárhæðum, mörgum milljónatugum á yfirfærslugjaldinu 1958. Ef það hefði verið meining framsóknarmanna að bjarga sjóðunum, hefðu þeir þá strax gert ráðstafanir til að bæta þeim hin augljósu og stórkostlegu töp á einn eða annan hátt. Það er ekki fyrr en framsóknarmenn eru komnir úr ríkisstj., að þeim dettur í hug, að þörf sé á að bæta sjóðunum töpin. Það er þá, þegar hv. 1. þm. Austf. er ekki lengur fjmrh., sem frv. um 160 millj. var flutt af mörgum framsóknarmönnum og aftur nú á þessu þingi. Hv. þm. Eysteinn Jónsson leyfir sér, þrátt fyrir þessar staðreyndir, að halda því fram, að framsóknarmenn hafi alltaf viljað fara eins að og ég hef lagt til, að ríkissjóður leggi fram fé til þess að bæta gengistöpin á einn eða annan hátt.

Það þarf ekki anörgum orðum að því að eyða, að vinnubrögð hv. þm., meðan hann var fjmrh., eru óafsakanleg í þessu efni. Það er tilgangslaust fyrir hv. þm. að reyna að sannfæra þjóðina um, að það hafi verið á viti byggt að láta búnaðarsjóðina bera ábyrgð á gengisáhættunni án þess að leggja þeim samtímis til áhættufé, sem mætti nægja fyrir ófyrirsjáanlegum töpum. Hitt hefði þó verið eðlilegast, eins og áður er sagt, og vitanlega verið framkvæmt á þann hátt, ef vilji hefði verið fyrir hendi, að láta ríkissjóð taka hin erlendu lán og lána andvirði þeirra búnaðarsjóðunum, eins og gert hefur verið nú tvö undanfarin ár, þannig að þeir bæru ekki þá áhættu, sem þeir gátu á engan hátt staðið undir.

Ríkisstj. mun bera fram frv. til laga um endurreisn búnaðarsjóðanna. Það verkefni hefur ekki verið auðvelt til lausnar, en mun eigi að síður verða leyst á viðunandi hátt. Augljóst er, að ríkissjóður verður á einn eða annan hátt að hlaupa undir baggann, til þess að sjóðirnir geti orðið starfshæfir. S.l. 2 ár hefur ríkisstj. útvegað ræktunarsjóði og byggingarsjóði innlent fjármagn til útlána, en það er í samræmi við þá stefnu, sem felst í því, sem ég hef hér lýst að framan, og hefði tryggt framtið sjóðanna og forðað þeim frá þeim vandræðum, sem þeir nú eru í, ef þannig hefði verið að unnið alla tíð.

Það er ósvífni í hæsta lagi, þegar sá, sem ber höfuðábyrgð á ófremdarástandinu, kemur í ræðustól í hv. Alþingi með yfirlæti og þykist þess umkominn að veita núverandi ríkisstj. og þeim, sem vinna að því að leysa þann vanda, sem skapazt hefur, áminningu og lætur undrun í ljós yfir því, að sú dýrtíð, sem vinstri stjórnin skapaði, hefur ekki verið kveðin niður nú þegar af núv. stjórnarflokkum.

Það vakti athygli áheyrenda, þegar hv. 1. þm. Austf. lýsti því með mörgum orðum, að ástand þjóðmálanna hefði í rauninni verið í ágætu lagi 1958, þegar vinstri stjórnin fór frá völdum. Það var aðeins eitt að eða í mesta lagi tvennt, að hann sagði: Það var þessi ólukku vísitala, sem ríkisstj. réð ekkert við og hækkaði jafnt og þétt, og svo dýrtíðin, sem af henni leiddi. Þetta var orðrétt sagt hjá hv. þm., og vitanlega brostu margir áheyrendur í kampinn. Ræðumaður taldi, að allt hefði verið í stakasta lagi nema aðeins þetta. Það var ekki undarlegt, þótt hv. þm. brostu undir þessum málflutningi. Menn minnast orðanna: „Óðaverðbólga er skollin yfir, ekki samstaða um neitt til lausnar þeim vanda, sem af henni leiðir: Það var þetta, sem gerðist í árslok 1958. Þeir, sem stukku frá borði, tala nú eins og þeir hafi ráð undir hverju rifi. Þeir jafnvel bera þá ósk fram til þjóðarinnar kinnroðalaust, að hún veiti þeim fylgi á ný, veiti þeim traust til þess að taka við stjórnarforustunni aftur. Reynt er að villa um fyrir fólki með því að gera ráðstafanir núv. ríkisstj. tortryggilegar. Reynt er að telja fólki trú um, að þær hefðu verið óþarfar og lagfæring hefði getað átt sér stað á því litla, sem að var, með hægu móti.

Mál þetta hefur oft verið rætt. Þjóðin veit, að vinstri stjórnin fór frá völdum, af því að hún réð ekki við verkefnið. Þjóðin veit, að dýrtíðaraldan, sem á var skollin í árslok 1958, ógnaði hagsmunum almennings, ógnaði sjálfstæði og heiðri íslenzku þjóðarinnar. Alþjóð hefur gert sér grein fyrir því, að stefna vinstri stjórnarinnar mátti ekki vera ráðandi lengur. Stöðvun atvinnuveganna með hinni vaxandi dýrtíð og stöðugri hækkun vísitölunnar var augljós og þar með fullkomið atvinnuleysi og bjargarskortur. Með myndun núv. ríkisstj. hefur tekizt að forða þjóðinni frá þeim vandræðum, sem yfir vofðu. Atvinnuvegirnir ganga tafarlaust og gjaldeyrisöflun hefur verið með meira móti. Tekizt hefur að vinna á ný traust þjóðarinnar út á við og safna nokkrum gjaldeyrisvarasjóði. Atvinnutekjur almennings hafa aukizt með mikilli atvinnu og sparifjáraukning hefur aldrei verið meiri en s.l. ár. Skemmdarverkin s.l. sumar hafa ekki megnað að eyðileggja viðreisnarstefnuna, heldur aðeins tafið fyrir því, að fullur árangur komi í ljós. Nauðsynlegt er, til þess að fólkið í landinu geti notið varanlegra kjarabóta, að verðlagið geti orðið stöðugt og fullkomið traust megi verða á gjaldeyrinum.

Það er oft talað um mikla erfiðleika hjá atvinnuvegunum, landbúnaðinum og öðrum atvinnuvegum, vegna hækkaðs verðs á tækjum og rekstrarvörum og byggingarkostnaði. Er það ekki að ástæðulausu. En þeir erfiðleikar eru tímabundnir, ef takast má að fá stöðugt verðlag og jafnvægi í fjármálum og atvinnumálum. Rétt er að minnast þess, að 1950 var nýtt gengi krónunnar skráð með samþykki framsóknarmanna. Þá voru þeir í ríkisstj. og töldu fráleitt að búa við falskt gengi. Fyrstu 2—3 árin eftir þá gengisbreytingu töldu bændur miklum erfiðleikum bundið að kaupa landbúnaðarvélar vegna hinna miklu hækkana, sem urðu vegna gengisbreytingarinnar. Árið 1954 var komið jafnvægi á í efnahagsmálunum, og heyrðist þá ekki lengur kvörtun undan verðlaginu á vélum eða öðrum nauðsynjum, sem nauðsynlegt var að kanpa. Þannig mun fara eftir þá gengisbreytingu, sem gerð var 1960 og einnig á s.l. sumri, ef ekki verður með skemmdarstarfi unnið gegn því, að það jafnvægi haldist, sem nú er unnið að og náðist á árinu 1954. Á árinu 1954 batnaði gjaldeyrisstaðan, atvinna var nóg fyrir alla, sparifjáraukning var með mesta móti, og batamerki voru augljós í atvinnu- og fjármálum þjóðarinnar, eins og greinilega er komið í ljós í dag eftir aðgerðirnar 1960, þrátt fyrir skemmdarverkin s.l. sumar. Á árinu 1954 voru sjálfstæðismenn og framsóknarmenn í samvinnu um ríkisstj. Þó má segja, að ekki hafi verið nema nokkur hluti Framsfl., sem studdi stjórnina. Formaður flokksins, hv. 2, þm. Vestf., var utan stjórnar og vann gegn ríkisstj. Það var þá, sem draumurinn um vinstra ævintýrið varð til. Á árinu 1955 voru skemmdarverk unnin af stjórnarandstöðunni, og er vitað mál, að formaður Framsfl. og ýmsir fleiri úr þeim flokki unnu dyggilega með kommúnistum að því að koma þjóðarbúskapnum úr jafnvægi. Það var hinn fyrsti undirbúningur að vinstri stjórninni. Þá fannst Eysteini Jónssyni, þáv. fjmrh., glæpsamlegt að spilla þeim árangri, sem náðst hafði í uppbyggingu og framfaramálum landsins. Þá taldi hann ekki eðlilegt að gera hærri kröfur til atvinnuveganna en þeir á hverjum tíma gætu staðið undir. Þá talaði hann um, að launþegar ættu að vinna að varanlegum kjarabótum, en ekki hlusta á blekkingar þeirra, sem grafa undan heilbrigðu atvinnulífi. Sú skekkja, sem kom á efnahagslifið eftir verkföllin 1955, var þó ekki meiri en svo, að úr því mátti bæta, ef vilji hefði verið fyrir hendi hjá báðum stjórnarflokkunum. í ársbyrjun 1956 flutti Eysteinn Jónsson ræðu og var þá sömu skoðunar ag sjálfstæðismenn, að mögulegt væri að leiðrétta það, sem aflaga fór. Hann fór hörðum orðum um skemmdarverkin 1955. Um það leyti lögðum við sjálfstæðismenn fram tillögur í því efni, að leiðrétta það, sem hafði skekkzt eftir verkföllin 1955, og gera verðlagið stöðugt. Þá voru framsóknarmenn ekki enn allir ráðnir í vinstra samstarfinu, a.m.k. ekki hv. 1. þm. Austf., þáv. fjmrh. Hann hlustaði því með athygli á þessar tillögur og virtist vera líklegur til að taka höndum saman við okkur sjáifstæðismenn og vinna að lausn mála. En hv. þm. snerist hugur, þegar formaður flokksins, Hermann Jónasson, sigraði á flokksþingi framsóknarmanna, sem haldið var í febrúar eða marz 1956. Síðan hefur hv. 1. þm. Austf. ekki talað af miklu viti um fjármál eða þjóðmál, heldur hefur hann hagað sér eins og sá, sem misst hefur áttina og ráfar um í villu. Og þjóðin hefur vitanlega beðið skaða af því, þar sem hann fékk tækifæri til þess að vera ráðamaður hátt á þriðja ár, eftir að hann missti áttina.

Á flokksþinginu var Framsfl. svo blindaður af áróðri vinstri manna, að það samþykkti með öllum atkv. gegn 5 að ganga út í það dýra ævintýri að mynda vinstri stjórn og rjúfa samstarf við Sjálfstfl. Í kosningunum 1956 töluðu vinstri flokkarnir mikið um það, að efnahagsmálin væru ekki í góðu lagi og nauðsyn bæri til að mynda stjórn hinna vinnandi stétta, þar sem alþýðan í landinu, eins og þeir kölluðu það, gæti ráðið sem mestu. Í júlímánuði sama ár varð vinstri stjórnin til, og var þá miklu lofað. Það var lofað hættum lífskjörum og lækningu á öllum þjóðfélagsmeinum. Þjóðarbúið skyldi tekið út og almenningi gerð full grein fyrir, hvernig viðskilnaður Ólafs Thors hefði verið. Vitað er, að þessi úttekt fór fram og erlendir sérfræðingar fengnir til þess að vinna verkið. En úttektin var aldrei birt, vegna þess að hún staðfesti ekki þær fullyrðingar, að efnahagslífið væri í slæmu ásigkomulagi. Úttektin sýndi hins vegar, að vinstri stjórnin tók við blómlegu búi, en það þótti ekki æskilegt að birta alþjóð þann sannleika eftir fullyrðingarnar, sem viðhafðar voru fyrir kosningarnar 1956.

Eftir að Hermann Jónasson, þáv. formaður Framsfl., hafði lesið úttektina, hélt hann fund hér í Reykjavík með flokksmönnum sínum og fullyrti þar, að hér væru að vísu nokkrar skekkjur í efnahags- og fjármálalífinu, sem þyrfti að lagfæra, en það væri auðvelt að gera án þess að leggja álögur á landsmenn, því að hér væri ekki um svo stórvægilegt atriði að ræða. Þetta er sú kvittun, sú viðurkenning, sem ríkisstj. Ólafs Thors fékk af hendi þess manns, sem tók við því búi, sem skilað var. Er ekki ástæða til annars en vera ánægður með þá viðurkenningu, sem kvittunin gaf.

Ég hef talið eðlilegt að rifja upp þessa sögu, til þess að þeir, sem hafa gleymt ýmsum þáttum hennar, eigi hægara með að gera sér grein fyrir, hverjir eiga þyngstu sökina á því, sem gerðist næstu árin á eftir. Enginn vafi er á því, að margir harma hið glæpsamlega ævintýri gegn íslenzku þjóðinni, sem framsóknarmenn vorn upphafsmenn að, þegar þeir slitu stjórnarsamstarfi við Sjálfstfl. og mynduðu vinstri stjórnina. Augljóst er, að komast hefði mátt hjá því að leiða þau óhöpp yfir íslenzku þjóðina, sem vinstri stjórnin og vinstri samvinnan hefur valdið. Þau rúmlega tvö ár, sem þessi ógiftusamlega stjórn sat, eru raunatimi í íslenzkri þjóðarsögu. Framsfl. hafði forustuna og var langstærsti flokkurinn í þessari samsteypu. Hann ber því höfuðsökina á því, sem gerðist. Framsóknarmenn vita, að þjóðin kann þessa sögu. Þess vegna hafa þeir nú gert tilraun til þess að blekkja almenning í landinu með því að kasta fyrir borð fyrrv. forsrh., Hermanni Jónassyni, og reyna að halda því fram, að hann beri höfuðábyrgðina á því, hvernig fór. Reynt er að telja þjóðinni trú um, að Framsfl. sé trausts verður, eftir að formannsskipti hafa orðið í flokknum. Þessi vinnubrögð eru samboðin Framsfl., en munu ekki ná þeim tilgangi, sem þeim er ætlað. Flokkurinn fær ekki aukið traust með því að taka hv. 1. þm. Austf. í formannssæti í stað hv. 2. þm. Vestf., Hermanns Jónassonar. Verknaður hv. þm. Hermanns Jónassonar er með öllu óafsakanlegur. Vissulega á hann mikla sök á því, að farið var út í ævintýrið dýra og skaðlega með myndun vinstri stjórnarinnar. En hlutur hv. þm. Eysteins Jónssonar er sízt betri, og ábyrgð hana er ekki minni. Hv. þm. Eysteinn Jónsson hefði getað komið í veg fyrir, að vinstri stjórnin væri mynduð, ef hann hefði haft þrek til að fylgja fram þeirri stefnu, þeirri skoðun, sem hann túlkaði í janúarmánuði 1956. En hann gafst upp, hafði ekki þrek og lét undan síga og rauf samstarfið við Sjálfstfl. Ekki stóð hv. þm. Eysteinn Jónsson einn uppi, ef hann hefði reynt að forða slysinu. Vitað var, að Steingrímur Steinþórsson, þáv. landbrh., var tilbúinn að standa við hlið hans og ýmsir fleiri framsóknarmenn, ef forustan hefði ekki bilað. Vitað er, að Steingrímur Steinþórsson gafst ekki upp, fyrr en séð var, hvernig málum var ráðið og engum vörnum varð við komið. Þeir, sem þekkja þessa sögu, en það munu vera fjöldamargir, vita, að hv. 1. þm. Austf. ber ekki minni ábyrgð en hv. þm. Hermann Jónasson á því öngþveiti, sem þjóðin var leidd í á þeim rúmlega tveimur árum, sem vinstri stjórnin sat að völdum.

Framsfl. þvær ekki af sér blettinn með því að skipta um formann. Hv. þm. Eysteinn Jónsson ætti að hliðra sér hjá því að koma opinberlega fram og boða kenningu í atvinnu- og fjármálum, sem leiðir á ný til sama öngþveitis og ríkti, þegar vinstri stjórnin hrökklaðist frá völdum. Hv. þm. vill nú opna allar gáttir og ausa öllu því fé út, sem almenningur hefur safnað í góðri trú, að gjaldmiðillinn verði traustur og krónan megni nú að halda því gildi, sem hún hefur verið skráð á. Hv. þm. heimtar meiri framkvæmdir, meiri fjárfestingu, enda þótt allir hafi vinnu, eftir því sem hægt er að afkasta. Ekki hefur hv. þm. gert enn tillögu um innflutning á verkamönnum, en óhjákvæmilegt virðist að flytja inn fólk, ef framkvæmdir eiga að vera öllu meiri en þær hafa verið nú undanfarið.

Bjargráðin 1958 með 55% yfirfærslugjaldinu voru dauðastimpill á stjórnina. Yfirfærslugjaldið var grímuklætt gengisfall, sem leiddi yfir þjóðina dýrtíðarskriðu, sem hélt áfram að renna árið út, þannig að í árslok, um það leyti sem stjórnin fór frá, hafði krónan fallið miklu meira en það, sem yfirfærslugjaldinu nam. Haustið 1958 var svo komið, að enginn treysti stjórninni til góðra hluta eða vildi framlengja lif hennar. Þótt fyrrv. forsrh., Hermann Jónasson, og fyrrv. félmrh., Hannibal Valdimarsson, hafi talið sig rétt kjörna foringja hinna vinnandi stétta, fengu þeir enga áheyrn á Alþýðusambandsþingi, þegar þeir komu með bónir sínar þangað. En þessir menn, sem höfðu blekkt launþegana og lofað bættum kjörum, leituðu til Alþýðusambandsþings með tillögur sinar, og var vitanlega ekkert við því að segja, en eftir að þeim hafði verið hafnað þar, datt þeim ekki í hug að flytja raunhæfar tillögur á Alþingi til lausnar vandanum, vegna þess að þeir sáu engin ráð út úr þeim vanda, sem þjóðin var komin í. Það er þess vegna, sem margir undrast, þegar framsóknarmenn tala um, að það hafi í rauninni allt verið í lagi, þegar þeir hrökkluðust frá, og það sé núv. ríkisstj., sem hefur skapað dýrtíðina og erfiðleika atvinnuveganna. Þetta er meira en hægt er að bera á borð á hv. Alþingi, meira en hægt er að bera á borð fyrir alþjóð, sem þekkir þessa sögu, þessa harmasögu vinstri stjórnarinnar.

Launþegar á Alþýðusambandsþingi höfðu gert sér ljóst, að það varð að losna við vandræðastjórnina, og þess vegna var ekki hlustað á fyrrnefnda ráðherra á ráðstefnu launþeganna. Launþegar höfðu gert sér ljóst, að verðbólga og dýrtíð er þeim ekki í hag. Atvinnurekendur vissu þetta einnig. Þess vegna var fylgi stjórnarinnar horfið og hún sat ein í strandaðri þjóðarskútunni.

Svo er að heyra, að sumir hinna fyrri stjórnarherra, svo sem Eysteinn Jónsson, hv. 1. þm. Austf., hafi lítið lært af hrakförum vinstri stjórnarinnar, og er það út af fyrir sig mjög raunalegt. Hv. þm. taldi að vísu, að það hefði aðeins verið vísitalan og dýrtíðin, sem varð henni að falli, en allt annað hefði verið í lagi. Og það er enn raunalegra, að hv. þm., fyrrv. fjmrh., skuli bera þessa röksemd einnig á borð. Það væri þess vegna eðlilegt að álykta, að þessi hv. þm. hefði reynt að gera sér grein fyrir, hvers vegna veróbólgan og dýrtíðin magnaðist svo mjög í tíð vinstri stjórnarinnar. Vissulega væri ástæða til þess, að hann hefði eitthvað lært af þessu. En það er ekki að heyra á hans málflutningi. Skyldi það hafa verið vegna þess, að það var meira eytt en var aflað, hvernig fór? Skyldi það hafa verið vegna þess, að bankarnir lánuðu meira fé en það, sem nam sparifjáraukningu og erlendum lántökum, meira en þeir raunverulega höfðu til umráða? Skyldi það hafa verið af því, að þjóðin treysti illa stjórninni og sparifjármyndunin var tiltölulega litil þess vegna? Það væri hollt fyrir hv. 1. þm. Austf. að velta þessu fyrir sér og hugleiða, hvort þessi atriði hafi átt nokkurn þátt í dýrtíðaröldunni, sem skall á vinstri stjórnina. Og ef hv. þm. vildi fyrir því hafa, mætti svo fara, að hann gæti áttað sig á ný og farið að tala af viti um fjármál og atvinnumál.

Hv. þm. hefur oft talað um 300 millj. kr., sem liggja óeyddar í Seðlabankanum. Þessa fjárfúlgu vill hv. þm. fá strax í umferð, því að eins og hann sagði í ræðu hér, voru slíkir fjármunir ekki látnir liggja í bönkum óeyddir, þegar hann var fjmrh. Nei, það voru ekki látnir peningar óeyddir, því að það var eytt miklu meira en til var. Ef vinstri stjórnin hefði haft efni á að leggja nokkuð til hliðar, eins og nú er gert, í stað þess að eyða öllu og safna botnlausum skuldum, þá má vera, að holskefla dýrtíðar hefði ekki orðið henni að fjörtjóni.

Ég hygg, að það sé hollt fyrir hv. þm. Eystein Jónsson að hugleiða nokkrar staðreyndir og sigild lögmál, sem óhjákvæmilegt er að fara eftir, ef ekki á illa að fara. Það væri einnig eðlilegt, að þessi hv. þm. mannaði sig upp og játaði það hreinskilnislega, að þegar hann fór úr ráðherrastóli 1958, var gengi krónunnar raunverulega fallíð og stóð ekki betur en sem svaraði skráningunni í febrúar 1964. Og mundi hv. þm. vaxa stórum í áliti Alþ., ef hann hefði hreinskilni og þrek til að játa þessa staðreynd.

Hv. þm. ætti einnig, ef hann vill sæmilegur maður heita, að játa þau mistök, sem urðu í stjórnartíð vinstri stjórnarinnar, og mætti þá svo fara, að honum og fleirum yrði fyrirgefinn mannlegur breyskleiki, í von um, að reynslan mætti verða þeim ólygin. Hv. þm. mundi vaxa af því, ef hann viðurkenndi hér í hv. Alþingi, að aðgerðir núv. ríkisstj. hafi verið nauðsynlegar vegna þess ástands, sem vinstri stjórnin hafði skapað. Hv. þm. ætti í samræmi við þá viðurkenningu að fella niður það moldvörpustarf, sem hann hefur að undanförnu unnið að ásamt fleiri stjórnarandstæðingum, þjóðinni til skaða. Það er nauðsynlegt vegna framtíðar þjóðarinnar, sjálfstæðis hennar og velgengni, að ekki verði spillt frekar þeirri viðleitni, sem stjórnarflokkarnir hafa sýnt með viðreisninni og hafin var 1960. Allt bendir til, að viðreisnin muni heppnast. Ýmis batamerki eru þegar augljós í þjóðlífinu, þrátt fyrir skemmdarverkin s.l. sumar. Enginn vafi er á því, að alþjóð er að skiljast, að rétt er stefnt og að frá settu marki má ekki hvika. Sú stefna, sem nú hefur verið mörkuð í efnahags- og atvinnumálum, mun tryggja öllum almenningi batnandi lífskjör og þjóðinni farsæla framtið, ef skemmdaröflin láta nú staðar numið. Sú stefna verður því að sigrast á þeim öflum, sem vinna gegn heilbrigðri efnahagsþróun.