21.03.1962
Sameinað þing: 44. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 533 í D-deild Alþingistíðinda. (3422)

86. mál, landafundir Íslendinga í Vesturheimi

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Í sambandi við þessa till. tel ég rétt, að það komi fram, eins og hv. flm. drap á í máli sínu, að fyrir nokkrum vikum kom hingað til lands norski rithöfundurinn og fornleifafræðingurinn Helge Ingstad ásamt konu sinni og ræddi það bæði við íslenzk stjórnarvöld og íslenzka fræðimenn, með hvaða hætti samvinna gæti tekizt með honum og starfsmönnum hans og íslenzkum fræðimönnum í sambandi við þann leiðangur, sem fyrirhugaður er á næsta sumri til Kanadastrandar í framhaldi af þeim fornleifafundi, sem hann og starfsmenn hans gerðu þar fyrir nokkru. Er það einkum þessi — að ég tel — mjög merkilegi fornleifafundur Helge Ingstads, sem beint hefur augum manna víða um hinn menntaða heim að sannleiksgildi hinna fornu íslenzku sagna um siglingar Íslendinga vestur um haf og landnám þeirra í Vesturheimi á 10. og 11. öld. Helge Ingstad bauð þremur íslenzkum fræðimönnum aðild að hinum fyrirhugaða rannsóknarleiðangri sínum á sumri komanda undir forustu þjóðminjavarðar Íslands. En einmitt Íslendingar hafa yfir að ráða sérþekkingu á þessu sviði, sem telja má nær ómissandi, til þess að hægt sé að hagnýta til fulls þær upplýsingar, sem sumpart hafa fengizt við uppgröft á þessum slóðum og vonir standa enn fremur til að muni fást við frekari uppgröft. Þess vegna má segja, að aðild Íslendinga að þessum störfum, sem telja má hin allra merkustu, og að þeim leiðangri, sem án efa á eftir að leiða marga merkilega hluti í ljós, sé bæði eðlileg og jafnvel nauðsynleg.

Ríkisstj. samþykkti þegar að standa straum af kostnaði við þátttöku hinna þriggja Íslendinga í þessum leiðangri. Tilkynnti ég Helge Ingstad það strax, þannig að honum var ljóst, að íslenzka ríkisvaldið væri reiðubúið til að greiða að fullu kostnað af þátttöku og aðild Íslendinga í þessum væntanlega leiðangri. Mun nú fullráðið, að af þátttöku Íslendinganna verði.

Mér er nokkuð til efs, að tímabært sé á þessu stigi málsins að gera það, sem rætt er um í þessari till., að leita nú þegar samvinan við ríkisstjórnir Kanada og Bandaríkjanna um nýja rannsóknarleiðangra í þessu skyni. Ekki er svo að skilja, að ég sé ekki algjörlega sammála þeirri meginhugsun, sem í till. hv. flm. felst, þ.e. í fyrsta lagi, að Íslendingar eigi að hafa mestan hug allra þjóða á því að leiða í ljós sem mestan sannleika um þau efni, sem hér er um að ræða, og þá jafnframt, að Íslendingum beri að hafast að í þessum efnum. En ég tel vonir standa til, að svo mikilvægur árangur fáist af þátttöku hinna þriggja íslenzku fræðimanna í leiðangri Helge Ingstads á næsta sumri, að rétt sé að bíða eftir niðurstöðum þeirra rannsókna, sem þá fara fram, og skoðun hinna íslenzku fræðimanna á því, hvernig vænlegast sé að haga næstu sporum í málinu. Þess vegna er það skoðun mín, að nú sé mikilvægast að gera sem bezt við aðild Íslendinga að þessum væntanlega leiðangri á næsta sumri og gera það, sem unnt er, til þess að stuðla að því, að leiðangur Helge Ingstads og manna hans beri sem beztan árangur. Síðan ætti að hagnýta sem bezt upplýsingar þær og reynslu, sem fæst, og þá sérstaklega þá þekkingu, sem þátttakendur okkar afla sér í þessum leiðangri, og miða við það, þegar ákvarðanir eru teknar um næstu skref í málinu.