21.03.1962
Sameinað þing: 44. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 534 í D-deild Alþingistíðinda. (3423)

86. mál, landafundir Íslendinga í Vesturheimi

Flm. (Þórarinn Þórarinsson):

Herra forseti. Ég tel það rétt ráðið af hæstv. ríkisstj., eins og ég tók líka fram í fyrri ræðu minni, að styðja að því, að íslenzkir fræðimenn taki þátt í leiðangri Helge Ingstads á þessu ári. En ég álít jafnframt, að það þurfi ekki á neinn hátt að koma í veg fyrir samþykkt þessarar till. Það er augljóst og er í samræmi við það, sem allir fræðimenn hafa haldið fram um þessi mál, þeir sem hafa kynnt sér það, að Íslendingar þeir, sem hér um ræðir, hafi a.m.k. komið til austurfylkja Bandaríkjanna, og þess vegna geta rannsóknir Helge Ingstads ekki fjallað nema um lítinn hluta þess máls, sem hér um ræðir. Þær geta ekki skorið neitt úr um það t.d., hvort Íslendingar hinir fornu hafi komið til Bandaríkjanna, eins og almennt er haldið fram af þeim. Ég álit þess vegna, að hér þurfi að eiga sér stað miklu viðtækari rannsóknir en á þessum eina stað, þar sem Helge Ingstad stundar rannsóknir sinar, og við eigum ekki neitt að bíða eftir niðurstöðum hjá honum í því sambandi, á þessu takmarkaða svæði, sem hann er að rannsaka, heldur hef jast handa um það, að hér fari fram allsherjar athugun, sem getur ekki orðið, nema því aðeins að málið verði tekið upp á miklu breiðari grundvelli en hann hefur gert. Þess vegna held ég, að það sé einmitt rétta leiðin hjá okkur að fresta ekki að hefjast þegar handa um viðræður við stjórnir Kanada og Bandaríkjanna um rannsóknir í þessum málum og láta það ekki dragast neitt, þó að Íslendingar taki þátt í þessum takmarkaða rannsóknarleiðangri hins norska manns. Ég vænti þess líka, að hæstv. menntmrh. geri sér þessa grein við nánari athugun og eigi þess vegna sinn hlut að því, að sú till., sem hér verður samþykkt, og sú heildarrannsókn, sem þar er fjallað um, eigi sér stað, þó að Íslendingar taki þátt í þeirri takmörkuðu athugun, sem ráðgerð er á komanda sumri.