06.12.1961
Sameinað þing: 19. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 538 í D-deild Alþingistíðinda. (3427)

89. mál, upphitun húsa

Sveinn S. Einarsson:

Herra forseti. Ég held, að þessi þáltill. veki máls á mjög athyglisverðu máli. Á síðasta fundi Sþ. kom ég nokkuð inn á ýmis atriði, sem þetta snerta, í sambandi við annað mál, gufuveitu frá Krýsuvík, vegna þess að þá var ekki víst, hvort þetta mál, sem nú er til umr. í dag, kæmi fyrir, meðan ég sit á þingi. Ég vildi leyfa mér, vegna þess að þá voru ekki margir þm. á fundi, að minna á örfá atriði, sem ég drap þá á og snerta í veigamiklum atriðum það mál, sem hér er á dagskrá.

Ég reyndi að gera mér grein fyrir því miðað við dreifingu byggðar á Íslandi, eins og hún er í dag, og núverandi fólksfjölda, að hve miklu leyti hægt væri að láta innlenda orkugjafa, svo sem jarðhita og vatnsorku, koma í stað innfluttra orkugjafa við húsahitun, en mér taldist svo til, að við notuðum aðeins innan við 40% innlenda orkugjafa í því skyni. Í meginatriðum voru niðurstöðurnar þær, að um það bil 65% landsmanna byggju nú í dag á svæðum, sem hugsanlegt væri að fengju afnot af jarðhita. Þau 35% eða liðlega 50 þús. manns, sem nú í dag, eftir því sem séð verður núna, hafa mjög litla von um að geta fengið jarðhitaafnot, mundu þurfa að fá rafmagn frá vatnsorku til upphitunar, ef stefnt væri að því marki að taka innlenda orkugjafa sem mest í notkun í þessu skyni, eins og vafalaust er eðlilegt.

Ég benti einnig á það, að svo virtist sem fólksfjölgun undanfarin ár hafi einmitt fallið að verulegu leyti á þau svæði, sem hafa von um jarðhitaafnot. Ég gerði tilraun til þess að gera lauslegan samanburð á kostnaði, bæði stofnkostnaði og framleiðslukostnaði, hitunarorku með jarðhita annars vegar og rafmagni hins vegar, og þær niðurstöður bentu til þess, að virkjun vatnsafls til upphitunar húsa mundi verða allt að tvisvar sinnum dýrari á sambærilegar hitaeiningar heldur en reynslan hefur sýnt að hægt væri að fá með jarðhita, og enn fremur, að framleiðslukostnaðarverð í jafnvel því sem við köllum stórvirkjanir, þ.e. virkjanir af þeirri stærð, sem nú er talað um í sambandi við stóriðju, þar sem hugsanlegt væri, að framleiðslukostnaðarverð næmi einhvers staðar á sviðinu ofan við 13 aura, — að jafnvel þar yrði raforkan a.m.k. 50% dýrari en sama hitaorka kostar frá Hitaveitu Reykjavíkur til upphitunarhúsa. Og í minni vatnsaflsstöðvum yrði þetta enn þá hærra, a.m.k. tvöfalt eða meir.

Ég benti þá líka á það, að þessi samanburður er miðaður við það, að hús, sem eru hituð með rafmagni, séu allt að því betur einangruð en gerist og gengur í dag með íbúðarhús, en hins vegar var jarðhitaáætlunin miðuð við þá einangrun, sem nú er algengust.

Mig langar í þessu sambandi að minnast á það, að í grg. þeirrar till., sem hér er til umr., eru nefnd á bls. 4 dæmi um kostnað við olíur kyndingu annars vegar og rafhitun hins vegar og reiknað út, hvað þær tölur, sam þarna eru gefnar, þýða í hitaeiningum, þá kemur í ljós, að íbúð, sem miðað er við fyrir olíukyndingu, notar liðlega tvisvar sinnum meiri hita á ári heldur en sú, sem er rafmagnshituð. Þetta getur ekki legið í nema einu, og það er það, að þessi íbúð sé alveg sérstaklega vel einangruð. Í þeim löndum, sem lengst eru komin í því að nota raforku til upphitunar, eru gerðar alveg sérstakar kröfur til einangrunar húsa. Þannig er t.d. í Noregi og Svíþjóð. Og það mun skilyrðislaust þurfa að gera, þegar við færum inn á þá braut hér á landi. En í því sambandi verðum við að hafa í huga, að ofan á stofnkostnað orkuveranna, stofnkostnað dreifikerfanna, verðum við að reikna með mjög verulegum kostnaði við það að einangra stórum betur þau hús, sem fyrir eru í þeim hlutum landsins, sem raforku mundu fá, þ.e. íbúðarhús rúmlega 50 þús. manna í dag. Og sú framkvæmd kostar, eins og allir vita, gífurlegt fé. Ég vildi aðeins vekja athygli á þessu máli.

Ég skal svo víkja aðeins að till. sjálfri. Hún felur það í sér, að Alþingi álykti að kjósa 5 manna nefnd til þess að rannsaka til hlítar stofn- og rekstrarkostnað við hitun. Ég vil vekja athygli hv. þm. á því, að sú athugun, sem hér er talað um, er greinilega hreint tækni- og fjárhagslegt viðfangsefni, tæknilegt í fyrsta áfanga og hagfræðilegt í síðari áföngum. Það er því ljóst, að þau rannsóknarstörf, sem hér er miðað að, verða ekki unnin, svo að að gagni sé, nema af mönnum, sem hafa sérfræðilega þekkingu á þessu sviði, og það þeim mun fremur sem hér er, a.m.k. á tæknilega sviðinu, í mörgum tilfellum um mjög flókin málefni að ræða. Mér er þess vegna ekki alveg ljóst, hvaða hlutverki fimm manna nefnd, sem kosin væri pólitískri kosningu hér á Alþingi, hefur að gegna í þessu sambandi, en augljóst er hins vegar, að slík nefnd mundi hafa vissan kostnað í för með sér, sem ég vildi telja óþarfan, meðan á frumrannsókn stendur.

Í minni stuttu setu hér á Alþingi hef ég oftar en einu sinni heyrt á það, að menn deila um staðreyndir, og ég verð að segja, að mér hefur þótt þetta heldur ófrjó iðja og átt bágt með að sjá, hvaða tilgangi það þénar. Staðreyndir haggast ekki, hvort sem þær henta ákveðnu pólitísku sjónarmiði betur eða verr. Þegar rannsókn sem sú, er till. þessi miðar að, á að fara fram, þá veltur allt á því, að komizt sé að niðurstöðum, sem draga í ljós hinar hlutlægu staðreyndir málsins. Og ég óttast beinlínis, að afskipti pólitísk kosinnar nefndar gætu beinlínis orðið til trafala við athugun málsins. Hins vegar tel ég æskilegt, að athugun sú, sem hér er stungið upp á, fari fram og mætti þá gjarnan fara fram á töluvert breiðari grundvelli en till. sjálf segir til um. Og mér sýnist, að hér sé hreint framkvæmdaratriði að láta slíka athugun fara fram, og þess vegna eðlilegast, að ríkisstj. hefði forgöngu í því máli og tilnefndi til þess þá menn, sem hún teldi til þess hæfa. Hitt er annað, að þegar niðurstöður slíkrar rannsóknarnefndar lægju fyrir, þá er sjálfsagt og eðlilegt, að álit hennar og niðurstöður verði lagðar fyrir Alþingi, því að þá er komið að hlutverki stjórnmálamannanna að taka ákvarðanir um þær aðgerðir, sem gera skuli í málinu.