06.12.1961
Sameinað þing: 19. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 540 í D-deild Alþingistíðinda. (3428)

89. mál, upphitun húsa

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. 1. þm. Reykn. fyrir, að hann tekur hér undir það, sem fram kemur í þessari till. um, að nauðsyn sé á því að láta athuga þetta mál. Það er rétt, að það mál, sem þessi till. fjallar um, kemur nokkuð saman við annað mál, sem hann og fleiri aðilar hafa hreyft hér, þótt á nokkuð öðru sviði sé. Hann hafði ásamt nokkrum öðrum þm. flutt hér till. um að skora á ríkisstj, að láta rannsaka möguleika á gufuveitu frá Krýsuvík til þéttbýlissvæðanna í Reykjavík og í nánd við Reykjavík, bæði til iðnaðarþarfa og svo til annarrar orkunotkunar á þessu sviði.

Þegar ég talaði fyrir till. okkar, minntist ég á það, að ég teldi engan vafa á því leika, að þar sem hægt væri að ná til jarðhitans, þá yrði hann að sjálfsögðu notaður, því að það ætti ekki að leika mikill vafi á því, að hann mundi verða okkur hagstæðastur til upphitunar, þar sem sæmileg aðstaða væri til að hagnýta jarðhitann, svo að ekkert virðist út af fyrir sig stangast í því, sem fram kemur í okkar till. og till. hans og þeirra, sem með honum fluttu till. á þskj. 110. En það var eitt atriði, sem kom fram í ræðu hv. þm., sem ég er honum hins vegar ósammála um. Hann virðist telja á því einhvern verulegan mun, hvort Alþingi tilnefni þá fimm manna nefnd, sem ætti að rannsaka það verkefni, sem hér er óskað eftir rannsókn á, eða hvort ríkisstj. hefði þá rannsókn með höndum. Og mér fannst hann túlka það þannig, að ef Alþingi kysi nefndina, þá væri komin pólitísk togstreita í þetta, en hins vegar væri það allt upphafið yfir alla pólitíska togstreitu, ef málið væri komið til ríkisstj. Þessu er ekki svona farið, þó að oft sé togazt á um ýmis efni á pólitískum grundvelli hér á Alþingi, og munurinn á hæstv. ríkisstj. og Alþingi í þessum efnum er ekki þessi, sem hv. þm. virðist halda. Nei, það er auðvitað rétt, að það væri mjög æskilegt, að í þá nefnd, sem kosin yrði til að hafa þessa rannsókn með höndum, veldust beinlínis sérfróðir menn í þessum efnum, og það getur Alþingi gert, þegar það velur menn í nefndina, engu síður en ríkisstj., því að auðvitað er ekkert bundið við það að kjósa alþm. í nefndina. Til þess er ekki ætlazt. Auk þess er svo aftur hitt, sem líka er oft gert og út af fyrir sig aðeins eðlilegt, og það er það, að sú nefnd, sem kosin er, hvort sem hún er valin af ríkisstj. eða Alþingi, getur síðan kallað fyrir sig sérfræðinga og óskað eftir ráðleggingum þeirra og umsögnum þeirra og safnað saman því efni, sem safna þarf saman, og lagt það síðan fyrir Alþingi. Það er það, sem er tilgangurinn með þessari tillögu. Ég fyrir mitt leyti tel miklu eðlilegra, að það sé Alþingi, sem kýs þessa nefnd. Þetta er ekkert sérstakt ríkisstjórnarmál, og á því er í rauninni enginn munur, nema maður vilji endilega gera þetta að slíku máli, að ríkisstj. ein skuli velja menn í nefndina, og er þá miklu hættara við því óneitanlega, að öll sjónarmið fái ekki að koma fram í stórmáli eins og þessu, því að hér er um almennt þjóðmál að ræða, sem getur haft mjög almenna þýðingu í okkar þjóðarbúskap. En það er hins vegar ekkert stórt atriði, hvort ríkisstj. yrði látin velja menn í þá nefnd, sem lagt er til í till., eða Alþingi, — það raskar ekki þeim grundvelli, sem við virðumst vera algerlega sammála um, að það sé þarft verk að láta þessa athugun fara fram. — En ég teldi þó eðlilegra og réttara að hafa það eins og það er í till., að Alþingi kysi nefndina.