06.12.1961
Sameinað þing: 19. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 541 í D-deild Alþingistíðinda. (3429)

89. mál, upphitun húsa

Eggert G. Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir það með hv. 1. þm. Reykn. (SvE), að hér er mjög merkilegu máli hreyft, sem væntanlega gæti orðið til þess, að nánar yrði að þessum málum almennt hugað heldur en gert hefur verið til þessa. Þær umr., sem þegar hafa farið fram um þessa tillögu, hafa þó að langmestu leyti snúizt um hitakostnaðinn sjálfan, þ.e.a.s. um það, hve hitakostnaðurinn er orðinn mikill hluti lífsframfærisins, er alveg rétt að mínu viti. Þessi liður lífsframfærisins er sífellt að aukast og orðinn geigvænlega stór hluti þess. Ég vil aðeins, áður en þetta mál fer til nefndar, koma því einnig að, að þó að við gætum fengið einhverja jákvæða niðurstöðu, og enn þá er sú jákvæðasta jarðhitinn, þá er það ekki þar með endir málsins. Einangrun húsanna, frágangur glugganna í húsunum, sem eru aðalhitatapið, er einnig eitt meginvandamálið í þessum efnum, þ.e.a.s. hvernig húsin sjálf geyma þann hita, sem inn í þau er kominn. Þetta verkefni hafa okkar færustu menn á undanförnum árum verið að glíma við, og ég held, að það ætti mjög vel heima í sambandi við slíka rannsókn, sem hér er áformuð, ef hún færi fram, að þá yrði einnig gerð gaumgæfileg athugun á því, hvaða einangrunargerð og hvaða frágangur glugga og glers í húsunum tryggir það, að hitinn sé bezt geymdur.

Ég vildi, að þetta kæmi hér fram, því að þetta hlýtur að vera lokaatriði þess leiks að lækka hitunarkosnaðinn, þ.e. hvernig frá húsunum sjálfum er gengið, og því nátengt því máli, sem tillagan fjallar um, nánast lokaatriði þess.