18.10.1961
Sameinað þing: 21. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 412 í B-deild Alþingistíðinda. (343)

1. mál, fjárlög 1962

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég vil hefja mál mitt með því að bjóða herra forseta velkominn til þingsins eftir langa fjarveru í Vesturheimi.

Ef marka má af umr., sem hér hafa farið fram í dag, og þeim hita, sem liggur á bak við þær, þá verð ég að segja, að meiri hl. fjvn. hefur sannarlega leyst þann vanda vel af höndum, sem fyrir honum hefur legið, því að oft hefur nú hvesst meira hér í hv. Alþ, við umr. fjárlaga en hefur gert í dag, svo að ég held, að bæði hv. formaður og meiri hlutinn geti því verið ánægðir yfir því verki, sem þeir hafa lagt hér fram. Annars ætla ég ekki að ræða almennt um afgreiðslu fjárl.

Ég á hér á þskj. 205 eina litla till. um, að við 14. gr. B. XXIII bætist nýr liður: „Til Jochums Eggertssonar til ritstarfa og skóggræðslu að Skógum 10 þús. kr.“ Jochum Eggertsson er, eins og kunnugt er, bróðursonur Matthíasar Jochumssonar, skáldsins, sem orti þjóðsönginn okkar. Hann hefur helgað sig því starfi nú í seinni tíð að græða upp skóg á fæðingarstað Matthíasar, starfar við það af mikilli fátækt, en auk þess hefur hann í tómstundum ritað allmargar blaðagreinar, sögur og kvæði, og ég tel, að hann sé vel kominn að því að njóta þeirrar upphæðar, sem ég fer fram á, og vænti þess vegna. að hv. Alþingi samþykki þessa tillögu mína.

Úr því að ég stóð hér upp, þykir mér rétt að minna á, að mér sýnist, að bæði 1. og 2. minni hl. í fjvn. séu sammála um að halda því fram, að fjárlög hafi hækkað yfir 50% frá því, að fjárlög voru samþ. hér í tíð hinnar ágætu vinstri stjórnar. En þeim gleymist alveg að geta um aðalástæðuna fyrir þessari niðurstöðu. Hún er sú, eins og hv. frsm. 2. minni hl. ætti að vera bezt kunnugt um, þar sem hann var þá formaður fjvn., að vinstri stjórnin hafði tvenn fjárlög, ein fjárlög, sem hún lét samþykkja á Alþingi, en önnur fjárlög, sem hún lét Alþingi aldrei samþykkja og gerði það bara fyrir utan þingsalina að ákveða nokkur hundruð millj. til ýmissa þarfa fyrir ríkið. Mér þykir það ljóður á ráði þessara ágætu manna, að þeir skuli ekki hafa látið þessa getið, því að engum var kunnugra um það en einmitt þeim, að svona var farið að við fjárlagaafgreiðsluna á þeim árum. En þetta er ein af þeim meginástæðum, sem þeir hafa haft hér til gagnrýni á hæstv. ríkisstj. Hin meginástæðan er, að það hafi verið lagðir á nýir skattar, sem hvergi komi fram, vegna þess að gengið hafi fallið. Þessum ágætu mönnum er einnig vel kunnugt um, að það er ekki Alþingi eða þessi ríkisstj., sem hefur fellt gengið, heldur eru það aðgerðir þessara sömu manna fyrir utan Alþingi, sem gerðu það að verkum, að það varð að skrá gengið á því verði, sem þeir felldu það í. Og ef það er nokkur, sem hefur lagt aukaskatt á þjóðina með gengisfellingu, þá eru það fyrst og fremst þessir menn, sem hafa gert það og eiga þá að beina geiri sínum þangað, en ekki til hæstv. ríkisstj. Það þarf hvorki að hafa verið formaður fjvn.þm. í nokkur ár til þess að vita, að það er gersamlega ógerningur að auka tekjur þjóðar með launahækkunum á einu ári um 600 millj. kr., svo að það komi ekki fram á gengi krónunnar. En það er einmitt það, sem þessir ágætu menn, sem nú voru að gagnrýna gerðir ríkisstj., stóðu að og fengu framgengt í landinu, það er að rýra kaupmátt fólksins með því að hækka kaupgjaldið í tölum eða raunverulega klippa í sundur hvern seðil, sem því var réttur í kaup, af því að þjóðin sjálf hafði ekki aukið tekjur sínar að sama skapi til þess að geta staðið undir launahækkununum. Ekki einungis vita þessir menn vel, að svona var þetta, heldur er þjóðin sjálf, sem betur fer, farin að skilja, að þetta er það raunverulega, og þess vegna hikar hún við að fylgja áfram þeirri stefnu, sem þessir ágætu menn hafa verið að telja henni trú um að væri bezta stefnan til betri lífskjara. — Mér þótti rétt að láta þetta koma fram svona til að fræða þessa ágætu menn um það, sem þeir þó áttu að vita um í þessum málum.