18.10.1961
Sameinað þing: 21. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 414 í B-deild Alþingistíðinda. (344)

1. mál, fjárlög 1962

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. fjvn. fyrir afgreiðslu þessa frv. Hún hefur lagt í það mikla vinnu og eins og í upphafi var óskað af hálfu ríkisstj. afgreitt málið af sinni hendi svo fljótt, að unnt væri að afgreiða fjárlögin endanlega fyrir jól. Ég vil sérstaklega þakka formanni fjvn., hv. 3. þm. Vestf. Ég veit, að honum hefur verið mikill vandi á höndum, þar sem hann nú í fyrsta sinn á sæti í nefndinni og auk þess hlutu veikindi hans að tefja nokkuð fyrir, en þrátt fyrir þetta hvort tveggja hefur hann stýrt starfi nefndarinnar með þeirri prýði, að bæði standast allar tímaáætlanir og álit og till. n. eða meiri hl. hennar eru svo vel úr garði gerð sem frekast verður á kosið. Ég vil einnig taka það fram í þessu sambandi, að tillögur frá meiri hl. hv. fjvn. um hækkanir á fjárlagafrv. munu vera minni nú en áður hefur gerzt.

Áður en ég vík að einstökum atriðum, sem fram hafa komið í þessum umr., þykir mér rétt að minnast á afkomuhorfur ríkissjóðs nú í ár, á árinu 1961. Ég minntist á það í fjárlagaræðunni í október, að eins og horfur væru þá og með hliðsjón af þeim atriðum, sem þá lágu fyrir, þá teldi ég víst, að jafnvægi mundi nást milli tekna og gjalda og ríkissjóður verða hallalaus á árinu 1961 og jafnvel einhver greiðsluafgangur. Á þeim vikum, sem síðan eru liðnar, hafa þessi mál skýrzt nokkru frekar, og verður að sjálfsögðu, þar sem árið er ekki á enda, að taka með nokkurri varúð og öllum fyrirvörum þeim upplýsingum, sem gefnar eru, þar sem aðeins liggur fyrir yfirlit um ellefu fyrstu mánuðina, en ekki síðasta mánuðinn né heildaruppgjör að sjálfsögðu.

Þess er þá fyrst að geta, að tekjurnar voru áætlaðar á fjárlögum 1588.7 millj. kr. Nú horfir svo, að tekjurnar muni fara nokkuð fram úr áætlun, og í þeim orðum, sem ég mæli um þetta hér, sleppi ég að sinni þeim hluta gengishagnaðar af útflutningsbirgðum, sem á að renna til ríkissjóðs, mun koma að því síðar. En það eru einkum þrír tekjuliðir, sem munu verða hærri en fjárlög gerðu ráð fyrir. Í fyrsta lagi er það verðtollurinn. Hann hækkar nokkuð vegna gengisbreytingarinnar í sumar, og enn fremur verður hann nokkru hærri en áætlað var út af þeim tilfærslum, sem gerðar voru með tollalækkunarfrv., en þá var innflutningsgjaldið fellt niður af ýmsum vörutegundum og í stað margra aðflutningsgjalda var ákveðinn einn verðtollur. Rétt er þó að taka það fram, að af sumum vörutegundum er verðtollurinn lægri en var eftir gildistöku tollalækkunarfrv. En í heild er niðurstaðan sú, að verðtollurinn mun skila nokkru meiri tekjum en gert var ráð fyrir. t öðru lagi mun tekju- og eignarskatturinn verða nokkru hærri en fjárlög gera ráð fyrir, og stafar það m.a. að álíti kunnugra manna af betri framtölum en áður, bæði tekju- og eignaframtölum, sem vafalaust á að verulegu leyti rót sína að rekja til þeirra breytinga, sem gerðar hafa verið á skattalögunum. Og í þriðja lagi eru gjöld af innfluttum bifreiðum, sem verða nokkru hærri en fjárlögin gera ráð fyrir, og stafar það að sjálfsögðu fyrst og fremst af því, að innflutningur bifreiða var gefinn frjáls á s.l. hausti. Með þeim fyrirvörum, sem ég gat um, má gera ráð fyrir, að tekjur ríkissjóðs verði á þessu ári a.m.k. 60 millj. hærri en áætlað var.

Varðandi útgjöldin skal ég fyrst minnast á rekstrargjöldin, sem voru áætluð 1476 millj. kr. Þau verða hærri í heild en áætlað hafði verið vegna kauphækkana og gengisbreytingar. Það hefur verið reynt eftir föngum að gera sér grein fyrir því, hversu mikið útgjöld ríkisins hækka á þessu ári vegna kauphækkananna og gengisbreytingarinnar. Ég minntist á það í fjárlagaræðunni, að gera mætti ráð fyrir, að sú hækkun yrði um eða rúmar 60 millj. kr., og býst ég við, að sú áætlun standist nokkuð vel. Aðalliðirnir eru hér hækkun vegna launabreytinga, sem mun verða um eða yfir 30 millj. kr. Það er fyrst og fremst 13.8% hækkunin, sem ákveðin var á laun opinberra starfsmanna síðari helming þessa árs. Nokkrir starfshópar fengu þó meiri hækkun, t.d. farmenn, ræstingarkonur, verkamenn í símavinnu og vegavinnu. Annar liðurinn er svo hækkun vegna gengisbreytingarinnar sjálfrar, og er þar um að ræða bæði hækkað verðlag á þeim erlendu vörum, sem ríkið eða ríkisstofnanir þurfa að nota, og hækkanir á vöxtum og afborgunum erlendra lána. Í þriðja lagi eru svo hækkanir vegna almannatrygginga, þ.e.a.s. þær uppbætur, sem ákveðnar hafa verið nú með lögum á greiðslur almannatrygginganna, lífeyri o.s.frv. Geri ég ráð fyrir, að þessir þrír liðir til samans nemi um eða rúmlega 60 millj. kr. á þessu yfirstandandi ári fram yfir það, sem fjárlög gerðu ráð fyrir.

Þá má í öðru lagi gera ráð fyrir því varðandi rekstrargjöldin, að einn liður þeirra fari nokkuð fram úr áætlun, og það eru niðurgreiðslur. Orsökin er m.a. og kannske að mestu leyti sú, að neyzla á sumum þeim vörum, sem mest eru greiddar niður, hefur aukizt meira og jafnvel miklu meira en allar áætlanir sögðu til um í byrjun ársins. Ég vil taka það fram, að það má gera ráð fyrir, að þessi útgjöld á rekstrarreikningi, sem ég nú hef minnzt á, fari fram úr fjárlagaáætlun um sem næst sömu upphæð og tekjurnar fara fram úr áætlun, eða í kringum 60 millj., m.ö.o., að þessi auknu rekstrarútgjöld, sem að mestu leyti stafa af kauphækkunum og þar af leiðandi gengisbreytingu, muni standast nokkurn veginn á við hinar auknu tekjur.

Varðandi 20. gr. fjárl. er sýnt, að einn liður þar, þ.e.a.s. greiðslur vegna ríkisábyrgða, fer langt fram úr áætlun. Í fjárlögum fyrir yfirstandandi ár eru ríkisábyrgðirnar áætlaðar 38 millj. kr., sem gert var ráð fyrir að kynnu að falla á ríkissjóð. Nú um síðustu mánaðamót voru þær orðnar 78 millj., eða 40 millj. umfram áætlun. Það má gera ráð fyrir því, að greiðslur ríkissjóðs vegna ábyrgðarlána í vanskilum verði á árinu um 85 millj., svo að maður nefni þá tölu, sem einna líklegust þykir í dag. Þegar gengisbreytingin var ákveðin í ágústmánuði, lá það að sjálfsögðu fyrir, að ríkisábyrgðalánin mundu verða ríkissjóði ákaflega þungur baggi og fara langt fram úr áætlun. Þessar miklu greiðslur stafa fyrst og fremst af hinum miklu og óvenjulegu erfiðleikum togaraútgerðarinnar. Og vegna þess að stundum hefur það heyrzt, að erfiðleikar togaraútgerðarinnar ættu að einhverju leyti rót sína að rekja til efnahagsaðgerða ríkisstj. og þingmeirihlutans, þá er rétt að minnast á, hverjar eru hinar raunverulegu orsakir þessara erfiðleika, því að því fer víðs fjarri, að efnahagsaðgerðirnar eigi nokkurn minnsta þátt í þessum erfiðleikum.

Erfiðleikar togaraútgerðarinnar stafa, eins og öllum er kunnugt, fyrst og fremst af hinni óvenjulegu aflatregðu togaranna nú á þessu og síðasta ári. Í rauninni á þetta miklu dýpri rætur, því að í heilan áratug hefur hlutur togaranna verið að sumu leyti af ríkisvaldsins hendi gerður rýrari en efni standa til. Árum saman urðu togararnir að búa við lægra fiskverð í sinn hlut en bátaútgerðin, og hlaut því þegar af þeirri ástæðu svo að fara, að þessir erfiðleikar, þegar þeir söfnuðust saman frá ári til árs, hlytu að enda með öngþveiti fyrir þennan atvinnuveg. Í annan stað er það svo að sjálfsögðu útfærsla landhelginnar 1. sept. 1958, sem hafði mjög alvarleg áhrif fyrir togaraútgerðina, þar sem hún með þeirri útfærslu var svipt mörgum af sínum beztu fiskimiðum. Að vísu koma að sjálfsögðu fleiri ástæður hér til, sem ég skal ekki rekja á þessum vettvangi, en þessir miklu örðugleikar, sem eru eitt af þeim stærstu viðfangsefnum, sem stjórnarvöldin eiga við að glíma nú og á næstunni, hafa átt meginþáttinn í því, að ríkisábyrgðirnar hafa farið og fara svo mjög fram úr áætlun á þessu ári. Að vísu er einnig rétt að taka það fram, að þær breytingar á lánum útgerðarinnar að breyta lausaskuldum hennar í lengri lán á vegum stofnlánadeildarinnar hafa einnig gert það að verkum fram til þessa, að meira hefur fallið á ríkissjóð af ábyrgðarlánum, af þeirri ástæðu, að meðan fram hefur farið athugun á afkomu þessara fyrirtækja, sem sótt hafa um stofnlánin, og þau mál hafa verið til meðferðar í stofnlánadeildinni og hjá bönkunum, hefur ríkissjóður að sjálfsögðu orðið að halda meir að sér höndum en hann ella hefði gert um innheimtu slíkra lána.

Með gengisbreytingarlögunum var svo ákveðið, að sá gengishagnaður, sem yrði af útflutningsbirgðum, sem þá voru til í landinu, skyldi fyrst og fremst ganga til þess að greiða, eftir því sem þyrfti, það tap, sem yrði á erlendum lánum ríkissjóðs. Í öðru lagi skyldi af þessum hagnaði tekinn hluti af útflutningsgjaldinu, þ.e.a.s. sá hluti þess, sem félli á vörubirgðirnar, og því, sem eftir yrði, skyldi varið til þess að létta byrðar ríkissjóðs af ríkisábyrgðunum. Nú hafa verið greiddar af þessum gengishagnaði birgðanna 75 millj. kr. í ríkissjóð.

Til þess að hv. þm. geti glöggvað sig nokkru betur á því, hvernig þessi ábyrgðarmál standa, er rétt að skýra frá því, að um s.l. áramót hafði ríkissjóður samtals þurft að leggja út 125 millj. kr. vegna áfallinna ábyrgðarlána. Ég vil taka það fram, til þess að ekki valdi misskilningi, að þessi heildarupphæð er að sjálfsögðu ekki nándar nærri einungis vegna togaraútgerðarinnar. Það eru ákaflega margvíslegar skuldir og margs konar skuldunautar, sem þar eiga hlut að máli. En það, sem ég sagði hér um erfiðleika togaraútgerðarinnar í sambandi við ríkisábyrgðarlánin, á fyrst og fremst við yfirstandandi ár. 30. nóv. var þessi samtala áfallinna ábyrgða á ríkissjóð komin upp í 199 millj., og má því reikna með, að það, sem ríkissjóður hefur útlagt samtals vegna ábyrgðarlána í vanskilum, verði komið yfir 200 millj. nú um áramót.

Ef við lítum á síðustu ár, kemur það fram, að þessar ábyrgðargreiðslur hafa þrátt fyrir hækkandi áætlanir í fjárlögum farið mjög fram úr þeirri áætlun. Árið 1959 fóru þessar greiðslur 9 millj. fram úr áætlun, á s.l. ári 15 millj. fram úr áætlun fjárlaga, og nú, ef við notum þessa tölu, 85 millj., sem ég nefndi, þá eru það 47 millj. umfram áætlun, eða samtals á þessum þremur árum, 1959, 1960 og 1961, fara ríkisábyrgðirnar rúml. 70 millj. umfram áætlun fjárlaga. Ég skal ekki rekja þetta mikla vandamál, sem ríkisábyrgðirnar eru, hér, aðeins skýra frá þessum staðreyndum og undirstrika þá um leið, að það er vissulega ekki að ófyrirsynju, að ríkisstj. taldi nauðsynlegt í ágústmánuði að gera alveg sérstakar ráðstafanir til þess að mæta þessum erfiðleikum, og sá gengishagnaður birgðanna, sem þannig var ákveðið að rynni að verulegu leyti í ríkissjóð, er því með þessum ráðstöfunum fyrst og fremst notaður til þess að létta af ríkissjóði þeim byrðum, sem á hann hafa fallið vegna útvegsins eða vegna atvinnuveganna.

Þegar litið er á horfurnar um afkomu ríkissjóðs á þessu ári, má endurtaka það, sem ég sagði í fjárlagaræðunni, að það má telja víst, að jöfnuður náist milli tekna og gjalda og meira en það, nokkur greiðsluafgangur muni verða.

Það eru nokkur atriði í sambandi við ræður hv. framsögumanna beggja minni hl., sem ég vildi aðeins drepa hér á. Það eru í fyrsta lagi ummæli þeirra sjálfra og eins ummæli í nál. Þeirra um áætlun fjárlaga til niðurgreiðslna og útflutningsuppbóta. Mér þykir rétt að taka það í fyrsta lagi skýrt fram, að engu hefur verið slegið föstu um breytingar á niðurgreiðslum. Ég tók það fram í minni fjárlagaræðu, að bæði niðurgreiðslurnar í heild og útflutningsuppbæturnar væru til athugunar og endurskoðunar hjá ríkisstj. og trúnaðarmönnum hennar. Og þessi upphæð, sem í fjárlagafrv. er, 300 millj., var sett þar og slegið saman í eina upphæð, í stað þess að þessir liðir hafa verið aðgreindir áður. En nú er því slegið föstu af hv. framsögumönnum minni hl., að þessar 300 millj. eigi að óbreyttum reglum að vera 373.8 millj. M.ö.o.: okkur eru fluttar þær fréttir, að hér vanti á nærri 74 millj., til þess að fjárlagafrv. sýni rétta mynd, og það, að í fjárlagafrv. eru ætlaðar 300 millj. til þessara greiðslna, sýnir þá annaðhvort, að eigi að svíkja bændur um útflutningsuppbætur þær, sem lögboðnar eru nú á útfluttar afurðir, eða lækka stórkostlega niðurgreiðslur á nauðsynjavörum almennings og valda þar með stóraukinni dýrtíð. Og þessar 73.8 millj. munu byggðar á því, að útflutningsuppbæturnar muni verða á þessu ári 46 millj. og niðurgreiðslurnar 328 millj. tæpar að óbreyttu skipulagi.

Varðandi útflutningsuppbæturnar vil ég fyrst taka það fram, að þessi tala, 48 millj., er ekki þess eðlis, að nokkur minnsta ástæða sé að reikna með henni í fjárlagafrv. Reynslan hefur sýnt, að það er ákaflega erfitt að áætla fyrir fram þessar útflutningsuppbætur á landbúnaðarafurðir. Reynslan sýnir það. Í fyrrahaust gerði framleiðsluráð landbúnaðarins áætlanir tvívegis um það, hverjar uppbæturnar mundu verða. Þær áætlanir voru ekki samhljóða, en voru eitthvað á milli 20 og 30 millj. Uppbæturnar munu verða í ár, eftir því sem næst verður komizt nú, 18 millj. Í ágústmánuði s.l. fékk ég áætlun framleiðsluráðsins um, hverjar uppbæturnar mundu verða nú fyrir fjárlagaárið 1962. Áætlunin var 21 millj. Í næsta mánuði, septembermánuði, kom önnur áætlun frá framleiðsluráði, að uppbæturnar mundu ekki verða 21 millj., eins og í ágúst, heldur 46 millj. Því er ekki að neita, að þegar tölurnar taka þvílík stökk á fárra vikna fresti, þá er ekki að undra, þó að menn staldri við og athugi, hvað er hér á ferðinni. Og það, sem hér er á ferðinni, er fyrst og fremst það, að hinum kunnugustu mönnum, eins og þeim, sem stjórna og sitja í framleiðsluráði, þeim er í rauninni ekki mögulegt, ekki fært að áætla þetta fyrir fram. Þessi geysilegi munur á áætlunum í ágúst og september stafar annars vegar af því, að í annarri áætluninni er reiknað með miklu meira útflutningsmagni af kjöti og öðrum afurðum en áður, og í öðru lagi af því, að í annarri er reiknað með allt öðru verðlagi á erlendum markaði á kjötinu. Seinni áætlunin, sem hoppaði úr 21 millj. upp í 46, er byggð m.a. á því, að verð á kjöti hefði fallið mjög í Englandi. Hvort þar er um varanlegt verðfall að ræða eða ekki, ég treysti mér ekki til að dæma um það, og ég sé ekki eftir það, sem á undan er gengið, og þessar gerólíku áætlanir, sem við höfum fengið, nokkra minnstu ástæðu til þess að vera í þessu fjárlagafrv. að slá því föstu, að uppbæturnar verði 46 millj. fremur en 20 eða 25. Það, sem við verðum að gera í þessu efni, er að sjálfsögðu að bíða reynslunnar, og ef niðurstaðan verður sú, að uppbæturnar verði hærri en rúmast innan þessara áætlunarfjárlaga, eins og þau eru nú, þá verður auðvitað að bæta það upp með fjárlögum næsta ár.

Þetta dæmi varðandi útflutningsuppbæturnar ætla ég að geti verið hv. þm. til nokkurrar leiðbeiningar um, að það er ekki hægt að taka töluna 46 millj. og slá henni fastri. En einnig er þess að gæta, að skipulag þessara mála, útflutningsmála landbúnaðarafurða, ætla ég að þurfi mjög rækilegrar endurskoðunar og umbóta við. Ég minntist á það í umr. um fjárlögin í fyrra, að það skipulag, sem við búum við í þessu efni, er með öllu úrelt. Meðan aðrir atvinnuvegir hafa gerbreytt vinnslu og öllum útbúnaði sinna afurða, unnið sér nýja markaði með nýjum frágangi, nýrri vinnslu og vinnslutegundum á sínum tegundum, þá virðist allt hafa staðið í stað líklega helming aldar eða jafnvel síðan á 19. öld um útflutning á kjöti. Og það er vissulega ekki að ófyrirsynju, að þrír hv. þm. hafa flutt till. til þál. á þskj. 194 um það að skora á ríkisstj. að beita sér fyrir, að tilraunir verði gerðar með útflutning á dilkakjöti, þar sem reyndar yrðu nýjar aðferðir með pökkun og verkun á kjötinu, verði kannaðir til þrautar hugsanlegir markaðsmöguleikar fyrir dilkakjötið í hverju því formi, sem gefur hagstæðast verð. Og flm. benda á það, að búnaðarþing, hið síðasta, hafi talið nauðsyn að hefja markaðsleit erlendis fyrir íslenzkt dilkakjöt á víðara grundvelli en verið hefur. Í grg. þessarar till. til þál. er einnig á þetta bent, hversu mjög þessi útflutningur er á eftir tímanum. Nú tekur það vafalaust nokkurn tíma að fá hér þá breytingu á, sem kröfur tímans útheimta og aðrar atvinnugreinar, fyrst og fremst sjávarútvegurinn, hafa fyrir löngu komið í framkvæmd. En þeir forustumenn landbúnaðarins, sem hér hafa verið að verki, hafa því miður verið of lengi í gömlum farvegi í þessum efnum, og þarf hér vissulega umbóta og lagfæringa við. Það má vera, að þær endurbætur, sem þarf að gera frá grunni í þessum efnum, skili ekki hagnaði þegar í stað. En á því er enginn vafi, að með það framúrskarandi kjöt, sem framleitt er hér á landi, því að íslenzka dilkakjötið er viðurkennt fyrir bragðgæði, hlýtur að vera hægt með réttum vinnubrögðum að vinna því markað, þannig að fyrir það fáist miklu hærra verð en nú er. Það er auðvitað hagsmunamál þjóðarinnar allrar, það er metnaðarmál bændastéttarinnar, og það er að sjálfsögðu líka stórfellt hagsmunamál fyrir ríkissjóðinn til að draga úr þessum uppbótum. En það vil ég undirstrika, að vitanlega hefur ekki nokkrum manni komið í hug annað en að standa fyllilega við greiðslu útflutningsbóta, sem lög ákveða fyrir íslenzkar landbúnaðarafurðir.

Varðandi svo niðurgreiðslu á vöruverði, hefur framkvæmd niðurgreiðslunnar í ýmsum greinum verið mjög gagnrýnd, ekki aðeins nú, heldur um langan aldur, og niðurgreiðslurnar hafa ár frá ári oft og tíðum meira og minna aflagazt. Við niðurgreiðslur verður auðvitað að gæta margs. Það er dýrara fyrir ríkissjóð að greiða niður þessa vörutegund en aðra. Stundum kemur það í ljós, að niðurgreiðslurnar skapa misræmi milli verðs á ýmsum vörutegundum, þannig að ef niðurgreiðslan er tiltölulega mikil á einni vörutegund, þá eykst svo mikið sala á henni, að fer fram úr öllum áætlunum, eins og í vissum greinum hefur komið fyrir á þessu ári, þannig að sala eða neyzla vissra vörutegunda hefur farið langt fram úr því, sem hagstofan áætlaði snemma á þessu ári. Hér þarf auðvitað að gæta jafnvægis, og eins og ég tók fram í minni fjárlagaræðu, hefur ríkisstj. haft þessi niðurgreiðslumál öll í heild til athugunar og endurskoðunar með sínum ráðunautum, og ríkisstj. mun að sjálfsögðu freista þess að gera þær umbætur, sem þykja æskilegar og nauðsynlegar, á öllu þessu kerfi. Að sjálfsögðu mun verða kostað kapps um, að þær breytingar, sem hér verða gerðar, komi að sem beztu gagni fyrir almenning og skerði ekki kjör almennings nema sem allra minnst. Ég er í engum vafa um, að það er hægt að breyta á ýmsa lund niðurgreiðslukerfinu með samræmingum og ýmsum umbótum, án þess að það þurfi að skerða kjör almennings.

Ég vil sem sagt undirstrika nú þegar þetta tvennt: Annars vegar, að vitanlega verða útflutningsuppbætur greiddar framleiðendum landbúnaðarafurða, eins og lög standa til, þó að brýn nauðsyn sé á því að fá umbætur á þessum málum öllum, og í öðru lagi, að það er engu slegið föstu um breytingar á niðurgreiðslum, en málið er allt í heild til endurskoðunar.

Hv. frsm. beggja minni hluta hafa gert sér tíðrætt um framlög til verklegra framkvæmda í þessu fjárlagafrv., og þeir mála það sterkum litum, hversu núv. ríkisstjórn sker við nögl allar fjárveitingar til verklegra framkvæmda og sé það nú eitthvað annað en í þeirri sælu vinstri stjórn, þar sem þeir voru báðir áhrifamenn miklir. Nú er að sjálfsögðu rétt að hafa það í huga, að við ákvörðun fjárveitinga til verklegra framkvæmda verðum við að hafa tvö meginsjónarmið í huga: Annars vegar, að fjárfestingu af hálfu hins opinbera sé þannig í hóf stillt, að efnahagsjafnvægið sé ekki í hættu. Við vitum það öll ákaflega vel, hvort sem menn vilja viðurkenna það í ræðustól eða ekki, að það efnahagsöngþveiti, sem hér hafði verið árin fyrir viðreisnina, árin fyrir efnahagsaðgerðirnar, það öngþveiti stafaði að verulegu leyti af því, að fjárfestingin á sumum sviðum var of ör, og þann mikla greiðsluhalla við útlönd, sem setti þetta úr skorðum, þurfti að laga með því að koma jafnvægi á í þessum efnum. Um leið og við verðum að hafa það í huga, að fjárveitingar hins opinbera til framkvæmda og fjárfestingar verða að vera í því hófi, að jafnvægi geti haldizt í efnahagsmálunum, þá verðum við að sjálfsögðu um leið að hafa vakandi auga á þeim miklu og brýnu þörfum, sem eru um allt land fyrir auknar fjárveitingar til hvers konar verklegra framkvæmda, og í þessu efni verður að finna og fara hinn gullna meðalveg, eins og jafnan, ef vel á að fara.

Ef við nú athugum fjárveitingar til verklegra framkvæmda, berum saman t.d., hvernig þær verða eftir þessu frv., ef brtt hv. meiri hl. fjvn. verða samþ., og hins vegar hverjar voru fjárveitingar til þessara sömu flokka verklegra framkvæmda á síðasta ári vinstri stjórnarinnar, 1958, en báðir frsm. hv. minni hl. höfðu mikil áhrif á afgreiðslu þeirra fjári., þá má geta þess fyrst, að 1958 voru framlög til nýbygginga vega, og tek ég þá benzínskattinn með, 18.4 millj. kr., en verða nú 28.7 millj., hækkun um 10.3 millj. varðandi nýbyggingar vega. Ef við tökum vegaviðhaldið, þá var það árið 1958 33 millj. skv. fjárl., er núna 58 millj., hækkun um 25 millj. Ef við lítum á hafnir og lendingarbætur, þá voru fjárveitingar í fjárl. 1958 12.8 millj., en nú 21.3 millj., hækkun um 8.5 millj. Þetta kalla hv. frsm. að standa í stað, algera kyrrstöðu. Ef við tökum skólana, þá voru fjárveitingar til þeirra árið 1958, til bygginga skóla, 19.8 millj., nú 48.4 millj., sem sagt hækkun úr 19.8 um 28.6 millj. í 48.4. Ef við tökum sjúkrahúsin, þá voru fjárveitingar 8.2 millj., nú 14.2, eða hækkun um 6 millj. Ef við tökum flugvellina, þá var fjárveiting 1958 6.7 millj., núna 11.2, hækkun um 4.6. En þegar maður nú lítur yfir þessar tölur, þá er eitt, sem er ákaflega athyglisvert og sýnir, hversu skemmtilegt viðfangsefni þeir hafa haft með höndum, þessir tveir hv. frsm. í fjvn., þetta ár, 1958, því að þeir hafa háð þar harða glímu, meðan fjárl. voru til meðferðar, við þáv. hæstv. fjmrh. um að fá hækkaðar þessar fjárveitingar. Svo er nefnilega mál með vexti, að í fjárl. fyrir árið 1957 voru t.d. fjárveitingar til hafna, ef maður tekur hafnarbótasjóðinn með, 12.6 millj. Þegar hæstv. fjmrh. lagði frv. fyrir, ætlaði hann aðeins 9.3 millj. til hafna, hafði lækkað það um 3.3 frá gildandi fjárl., og það var ein glíma þessara hv. þm. að fá þetta hækkað aftur upp í það sama og það var í fjárl. síðastliðins árs, og það tókst. Og það tókst meira að segja svo vel, að í stað 12.6 millj. árið 1957 tókst þeim að tosa það upp í 12.8 millj., eða hækka það um nærri 200 þús. kr. Ef við lítum á skólabyggingarnar, þá voru fjárveitingarnar á árinu 1957 19.6 millj. Hæstv. fjmrh., hv. 1. þm. Austf., lækkaði það niður í 15.1 millj. í fjárlfrv., um 4.4 millj. Eftir glímu þessara tveggja frsm. fram að jólum unnu þeir frægan sigur, því að þeim tókst að fá fjárveitingar til skóla hækkaðar upp í 19.8 millj., eða í rúmlega 200 þús. kr. meira en þær voru árið áður. Varðandi flugvellina, þá var fjárveitingin 6.7 millj. árið 1957, fjmrh. lækkaði það niður í 6 millj. í frv., og þeim tókst að fá þetta hækkað upp í 6.6 millj., upp undir það eins og það hafði verið árið áður.

Þannig var nú yfirleitt þeirra glíma í fjvn., þegar fjallað var um fjárl. fyrir 1958, að þeirra glíma var fyrst og fremst við þáv. hæstv. fjmrh. að reyna að fá fjárveitingar til verklegra framkvæmda hækkaðar á árinu 1958 upp undir eða upp í það sama sem það hafði verið árið áður, og var þó á árinu 1958 framkvæmd stórfelld gengisfelling með 55% yfirfærslugjaldinu. Það er von, að þessir hv. þm. komi hingað eftir sína stóru sigra á árinu 1958 og telji sig hafa staðið sig nokkru betur í vinstri stjórninni en gert sé nú. Og þeir eru ákaflega hneykslaðir á því, að nú í dag skuldi ríkissjóður eða eigi vangoldin framlög, langa hala í ýmsum greinum, sem séu ekki staðin skil á, eins og vegna skólabygginga, vegna hafna og sjúkrahúsa o.s.frv. Þessir tveir hv. þm. virðast hafa gleymt því, að í þeirra valdatíð, á árinu 1958, var halinn eða skuldabagginn vegna skólanna 12½ millj. eða vel það, skuldabagginn vegna hafnanna var þá á 15. milljón, og þannig mætti lengi telja. Eins var það með sjúkrahúsin, íþróttasjóðinn o.fl. Því fór fjarri, að á þeirri tíð hefðu verið greiddar upp skuldir eða vangoldin framlög til sveitarfélaga eða annarra aðila á sviði sjúkrahúsa, hafna, spítala eða íþróttamannvirkja, heldur ætla ég, að einmitt á þessum árum hafi þessi hali heldur lengzt og stækkað, að upphæð hinna vangoldnu framlaga hafi heldur hækkað en minnkað.

Hv. þm. hafa að því vikið, að það sé fjarri öllu lagi að áætla ekki í fjárl. nú 28½ millj. til greiðslu á framlagi ríkissjóðs til atvinnuleysistryggingasjóðs. Ég hef skýrt hér áður, hverjar ástæður liggja til þess, að gert er ráð fyrir að fresta þessari greiðslu. Ástæðurnar eru þær, að atvinnuleysistryggingasjóðurinn hefur mjög mikið fé handbært og hefur enga þörf fyrir að fá þetta greitt í reiðu fé. Atvinnuleysistryggingasjóður hafði á s.l. ári í tekjur 68½ millj. kr., en atvinnuleysisbætur urðu aðeins 800 þús. kr. Þessum gífurlega tekjuafgangi safnar hann í sjóð, lánar nokkurn hluta, en ekki nema nokkurn hluta þeirra út. Og þegar þess er gætt, að handbært fé sjóðsins um síðustu áramót var 170 millj. kr., þá sér það hver heilskyggn maður, að sjóðurinn hefur ekki minnstu þörf fyrir það að fá þessar 28½ millj. greiddar út í beinhörðum peningum. Sjóðurinn er alveg jafnvel stæður, þótt hann fái þetta greitt með skuldabréfi eða verðbréfi. Það verður auðvitað gert annaðhvort með því, að stjórn sjóðsins og ríkisstj. semji um kjör á slíku skuldabréfi, eða með lagaákvæði, þar sem skýrt er tekið fram, að ríkissjóður geti greitt framlag sitt með skuldabréfi. Þessi háttur er heldur ekkert einsdæmi. Ég man eftir einu dæmi alveg hliðstæðu. Svo er ákveðið í lögunum um sauðfjárveikivarnir, að þegar niðurskurður á sér stað, þá er ríkissjóður skyldur að greiða þeim, sem fyrir tjóni verða, bætur. Þetta eru greiðslur, sem ríkissjóði er skylt að inna af hendi. En ríkissjóður greiðir nokkurn hluta, jafnvel verulegan hluta af þessum tjónbótum með skuldabréfum, og þannig hefur það verið um margra ára skeið og öllum þótt eðlilegt. Vitanlega hefur aldrei komið til mála í slíku tilfelli að telja til gjalda í fjárlögum heildarupphæð þeirra tjónbóta, sem til falla á því ári. Þetta er auðvitað fært í fjárlögum þannig, að inn í þau eru teknir vextir og afborganir, sem til falla á hverju ári. Og alveg á sama hátt er um þetta, að að því leyti sem ríkissjóður greiðir eða mun greiða sitt framlag til atvinnuleysistryggingasjóðs með skuldabréfi, þá er ekki rétt að telja þessa upphæð að fullu til útgjalda nú á næsta ári, 1962, heldur í fjárlögum jafnóðum og afborganir og vextir af skuldabréfinu falla til.

Meðal þess, sem kom fram í ræðu hv. frsm. 1. minni hl., hv. 3. þm. Vesturl., var lýst í rauninni mætavel skilningi hans og hans flokksbræðra á vissum atriðum. Hann segir: Halli Skipaútgerðar ríkisins er framlag ríkissjóðs til dreifbýlisins, og um leið og halli Skipaútgerðarinnar er áætlaður nú aðeins 10 millj. eða nokkru lægri en hann hefur verið, þá er þar með verið að skerða rétt dreifbýlisins og minnka framlag til strjálbýlisins um þessar milljónir. — Það er eins og það sé gersamlega lokuð bók fyrir þessum hv. þm., að það sé hægt að veita á nokkru sviði jafngóða þjónustu fyrir minna fé með bættu skipulagi. Vitanlega kemur það í einn stað niður fyrir fólkið úti á landsbyggðinni, ef Skipaútgerðin getur veitt því sömu þjónustu varðandi samgöngur, ef hægt er að skipuleggja þetta fyrirtæki betur, þannig að rekstur þess kostar minna fé. Það er alger misskilningur, að meiri eða minni halli Skipaútgerðarinnar þýði meiri eða minni styrk eða þjónustu við hinar dreifðu byggðir. Þvert á móti, auðvitað er það hinum dreifðu byggðum í hag einnig, að reynt sé að gæta hófs, sparnaðar og góðs skipulags í opinberum rekstri. Varðandi Skipaútgerð ríkisins hafa undanfarin 2 ár farið fram mjög rækilegar athuganir á því, hvernig megi draga úr hinum gífurlega halla þessa fyrirtækis með þeim hætti að veita þó fólkinu úti á landi jafngóða eða betri þjónustu. Því miður hafa þessar umbætur ekki komizt í framkvæmd vegna mikillar tregðu hjá forráðamönnum. Ég er sannfærður um það, að í rekstri Skipaútgerðarinnar má spara milljónir án þess að draga úr þjónustunni.

Þá hefur því verið haldið fram hér, að sú staðhæfing okkar í ríkisstj., að fjárlögin verði nú afgreidd án þess að leggja á nýja skatta, sé röng, vegna þess að tollar og aðflutningsgjöld í heild verði hærri á næsta ári en þau hafa verið. Það er vissulega ákaflega leitt, að hér á Alþingi skuli vera deilt um jafnaugljósar staðreyndir og jafnskýr hugtök og hér er um að ræða. Þessir hv. þm. vita það ákaflega vel, að hingað til hefur það aldrei verið talin skatta- eða tollahækkun, ef prósenttala skatta eða tolla er óbreytt, þó að sú óbreytta prósenttala gefi í ríkissjóð eitt árið hærri tekjur en ella. Við skulum taka dæmi. Við skulum segja, að meðalaðflutningsgjöld af innfluttum vörum séu 30%. Ef nú verðlag hækkar á erlendum markaði, þá hækka auðvitað í krónutali þær tekjur, sem ríkissjóður fær af óbreyttu innflutningsmagni. Dettur þessum hv. þm. í hug að kalla þetta tollahækkanir af hálfu íslenzkra stjórnarvalda, ef tollahundraðshlutinn er sá sami og hann var, fyrir það eitt, að varan hækkaði á erlendum markaði? Ég held, að engum manni detti þetta í hug. Ef varan hækkar vegna þess, að gengi íslenzkrar krónu breytist, þá vitanlega gefur sama tollaprósenta að óbreyttu útflutningsmagni fleiri krónur í ríkissjóð. Þetta er að því leyti alveg hliðstætt, að það er fjarstæða ein að tala um tollahækkanir í þessu sambandi. Ef tekjuskattur er t.d. af einhverjum tilteknum tekjum 30% og tekjur manna í landinu hækka, þannig að heildartekjur ríkissjóðs og heildartekjur sveitarsjóða af útsvörum verða hærri af þessum ástæðum, þá hefur hingað til engum manni dottið í hug að kalla þetta skatta- eða útsvarshækkanir. Ég held, að hv. þm. ættu að vara sig á svona hugtakabrengli. A.m.k. veit ég frá fyrri árum á hv. Alþingi, að aldrei mátti sá fjmrh., sem sat hér árin 1950–1958, formaður þingflokks Framsfl., heyra nefnt annað en það væri hrein fölsun að kalla þetta skatta- eða tollahækkanir, ef prósenturnar voru þær sömu. Ég hélt, að um svona einfalda hluti ættu þm. að geta verið sammála. Það, sem hér gerist, er þetta, að skatta- og tollaprósentur hækka ekki. M.ö.o.: Í viðurkenndum og almennum skilningi þessara hugtaka og túlkun þeirra er ekki um skatta- og tollahækkanir að ræða, þó að heildartekjur ríkissjóðs verði á næsta ári í krónutölu eitthvað hærri en áður.

Varðandi hinar verklegu framkvæmdir vil ég svo að lokum taka það fram til viðbótar því, er ég sagði hér áðan, að vitanlega er fjárhæðin, sem veitt er á hverju ári til verklegra framkvæmda, ekki það atriði, sem sker úr. Það er fleira, sem kemur til greina, og ekki hvað sízt nýting fjárins. Þó að fjárveiting sé sú sama í krónutölu á einhverju sviði og áður, þá má vel vera, að raunverulega hækki hún, vegna þess að féð nýtist betur. Og þannig er það t.d. varðandi vegafé, svo að við tökum dæmi. Á tvennan hátt hefur núv. ríkisstj. reynt að bæta þar nýtingu vegafjárins. Annars vegar með því að auka mjög vélakost vegagerðarinnar, og það var gert á síðasta ári með þeim hætti, að bæði voru bein framlög og lán miklu hærri en áður til vélakaupa. Þetta atriði, að vegagerðin er betur búin að stórvirkum tækjum, gerir það að verkum, að vegaféð nýtist betur, að meira fæst fyrir hverja krónu. Og í öðru lagi hefur nú á tveimur árum orðið sú gerbreyting á, að í stað þess að árið 1959 var vegafénu dreift á 219 vinnustaði með tiltölulega lágum upphæðum á hvern, þá er nú gert ráð fyrir á næsta ári, að vinnustaðirnir verði rúml. 100. Þetta þýðir það, um leið og vinnustöðunum fækkar og miklu hærri upphæð kemur á hvern, að vegaféð nýtist miklu betur en áður. Þessa bættu hagnýtingu verða menn vitanlega að hafa í huga í sambandi við umr. um fjárveitingar til verklegra framkvæmda.

Út í það, hvað áunnizt hefur með hagræðingu, betra skipulagi og sparnaði í rekstri, skal ég ekki fara hér, ég gerði því nokkur skil í fjárlagaræðu minni. En í ummælum hv. frsm. 1. minni hl., 3. þm. Vesturl., beindist hugur hans mest að því, hvort hann talaði um 50 eða 60 atriði, sem ríkisstj. hefði ætlað að spara, þá væri það nú ekki allt komið í framkvæmd. Og það, sem virðist eiginlega efst í huga þessa hv. þm. og undrar hann mest, er, að núv. ríkisstj. skuli ekki á tveimur árum vera búin að leiðrétta og lagfæra allar vitleysur og bæta úr öllum syndum flokksbræðra hans fyrr á árum. En það er nú þannig, að eftir þann langa valdatíma Framsfl. og þau löngu og erfiðu ár, sem sá flokkur fór með fjármálin, fer svo margt aflaga í þessu þjóðfélagi, að það tekur lengri tíma, þrátt fyrir mikinn áhuga og þótt við viljum sýna ötulleika í þeim efnum, þá tekur það meira en 2 ár að kippa því öllu í lag.