14.02.1962
Sameinað þing: 35. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 545 í D-deild Alþingistíðinda. (3441)

93. mál, haf- og fiskirannsóknir

Guðlangur Gíslason:

Herra forseti. Ég vil mjög taka undir þá till., sem hér hefur verið flutt af 12 þm. Reykv., og þau orð, sem hann lét falla, er hann gerði grein fyrir henni. Ég tel, að þetta sé mál, sem Íslendingar hafi dregið allt of lengi að láta athuga, og að menn almennt geri sér ekki ljóst, hvaða hætta getur þarna verið á ferðum, ef ekki er fylgzt nægilega með, hvort um ofveiði eða rányrkju geti verið að ræða á hinum stærstu veiðisvæðum hér við strendur landsins. Það þarf engin orð um það að hafa, að ef svo illa tækist til, þegar Íslendingar loksins eru búnir að fá ótakmarkaðan umráðarétt yfir stórum hluta af landgrunninu og öllum helztu fiskimiðum við strendur landsins, að þau yrðu uppurin og gerð verðminni en þau nú eru í dag með ofveiði, þá væri þar enga um að saka nema okkur sjálfa, og mætti það og hlyti að teljast illa farið, ef þannig tækist til.

Það eina, sem ég get haft út á þessa till. að setja, er, að ég tel, að það þurfi jafnvel fljótvirkari aðgerðir í þessu sambandi en hún gerir ráð fyrir. Ég viðurkenni, að það er nauðsynlegt, að rannsókn fari fram og að aðgerðir byggist á áliti og niðurstöðum okkar sérfræðinga í þessu sambandi. En hitt fer ekki á milli mála, að það hefur nú í nokkur ár verið álit þeirra manna, sem áratugi hafa stundað sjómennsku hér við land, að slíkra aðgerða hafi verið þörf fyrr en nú og þeirra sé brýn þörf nú þegar á þessu ári.

Ég leyfði mér í upphafi þings að flytja tillögu um þetta efni á þskj. 61, þar sem lengra var gengið, þar sem lagt var til, að Alþingi skoraði á hæstv. ríkisstj. að fela Fiskifélagi Íslands og fiskideild atvinnudeildar háskólans að gera tillögur um tímabundna friðun ákveðinna hrygningarsvæða við strendur landsins. Þessi till. er ekki flutt eða byggð á athugun eða umsögn sérfræðinga okkar um þetta mál. Hún er fyrst og fremst byggð á umsögn þeirra manna í Vestmannaeyjum, sem um áratugabil hafa stundað fiskveiðar þaðan, og þá kannske helzt þeirra manna, sem lengst hafa stundað fiskveiðar með þorskanet. Þegar á árinu 1957 samþykkti Skipstjóra- og stýrimannafélagið Verðandi í Vestmannaeyjum að beina þeirri áskorun til þáv. hæstv. ríkisstj., að slík athugun yrði látin fara fram og að ákveðin hrygningarsvæði á svæðinu milli Vestmannaeyja og Reykjaness yrðu þá þegar friðuð ákveðinn tíma vetrarvertíðar fyrir netaveiðum sumpart og fyrir öllum veiðum sumpart. Ég tel, að ráðamenn þjóðarinnar og þeir menn, sem hverri ríkisstj. eru til ráðuneytis í sambandi við þessi mál, megi ekki láta fara fram hjá sér aðvörun frá þeim aðilum, sem mesta og bezta reynslu hafa um þessi efni, ef þeir telja, að hætta sé á ferðum. Ég tel, að það hafi dregizt of lengi að gera gangskör að því að kanna þessi mál til hlítar og að það megi ekki draga lengur en búið er, og verður þegar á þessari vertíð að hefjast handa um að hrinda af stað fullkominni rannsókn og þá helzt, eins og gert er ráð fyrir í minni till., að ákveðin svæði, sem bent hefur verið á, verði þegar í vetur friðuð.

Ég ætla ekkert að vera að orðlengja um þetta. Ég gerði nokkra grein fyrir minni afstöðu og mínu áliti á þessu máli, þegar hér var til umr. till. sú, sem ég flutti á þskj. 61. En ég undirstrika, að þetta er svo mikilvægt mál, að það verður að gera allt til að fyrirbyggja, að við getum með of miklum seinagangi eða of miklum sofandahætti stuðlað að því, að þau fiskimið hér við strendur landsins, sem eru undirstaðan undir okkar aðalatvinnuvegi og ég vil segja undirstaðan undir þjóðarbúinu, verði á nokkurn hátt eyðilögð eða gerð verðminni en efni standa til með ofveiði eða rányrkju.