14.03.1962
Sameinað þing: 41. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 550 í D-deild Alþingistíðinda. (3462)

122. mál, hlutdeild atvinnugreina í þjóðarframleiðslunni

Flm. (Jónas Pétursson):

Herra forseti. Þáltill. sú, sem hér liggur fyrir, var flutt, svo sem alþm. rekur minni til, á síðasta þingi og að mestu leyti í því formi, sem hún er nú. Meiri hl, fjvn. afgreiddi till. þá frá nefndinni, en til hennar var henni vísað, en það gerðist í lok síðasta þings. Fjvn. eða meiri hl. hennar afgreiddi hana á þann hátt, að hann lagði til, að hún yrði samþ. með smábreytingu. Till. kom til framhaldsumr. í sameinuðu Alþ. síðasta dag þingsins, og hafði hv. 6. þm. Norðurl. e. stutta framsögu fyrir henni af hálfu meiri hl. fjvn. En þá stóð upp hv. þm. Skúli Guðmundsson og hafði margt á hornum sér út af þessu máli og gagnrýndi tili., og mig minnir, að það hafi helzt verið á máli hans að heyra þá, að Alþ. ætti að leysa þá hlið málsins, sem nefna mætti hina tæknilegu. Á eftir ræðu hv. þm. Skúla Guðmundssonar var bankað hart í borð af nokkrum framsóknarmönnum og beðið hljóðs. Þetta var síðasti fundur Alþ. að því sinni, tími mjög nákvæmlega afmarkaður. Þetta þýddi því beint stöðvun málsins, enda augljóslega sá einn tilgangur. En ég minni á þetta nú og spyr: Hvers vegna var slík nauðsyn að stöðva þetta mál?

Í grg. þáltill. okkar Bjartmars Guðmundssonar, sem við nú endurflytjum, er m.a. vikið að samþykkt, sem gerð var á síðasta búnaðarþingi og gekk alveg í sömu átt og sú þáltill., sem hér liggur fyrir, aðeins þó talað þar um landbúnað. En eins og við víkjum að í grg, okkar, þá er það alveg ljóst, að þeim spurningum, sem þar er óskað svars við, flestum a.m.k., verður ekki svarað, nema alger rannsókn á atvinnu- og framleiðslumálum og tekjum þjóðarinnar o.s.frv. fari fram. Þess vegna er framkvæmd á þeirri þáltill., sem hér liggur fyrir, alger nauðsyn, til þess að unnt sé að svara þeim spurningum, sem m.a. er fjallað um í till. búnaðarþings.

Mér þykir rétt að segja frá því hér, að á síðasta Alþ. komu á fund okkar flm. fulltrúar frá kvenþjóðinni. Þeirra erindi var að vekja athygli okkar á hlut húsmæðranna í landinu í sköpun þjóðarteknanna. Ég vil geta þessa hér, af því að það er m.a. vottur áhuga fyrir þessu máli, og allir, sem gera sér grein fyrir því, þeir sjá, að hlutur húsmæðranna er stór í lífsbjörg þjóðarinnar. En ýmsir mundu hins vegar telja eðlilegast, að húsmæðurnar skiptust á fjölskyldugrundvelli milli hinna ýmsu atvinnugreina og þjónustustarfa. En vitanlega kemur þetta til athugunar ásamt mörgu öðru við framkvæmd málsins.

Ég vil ekki fara mikið út í mitt eigið álit á ýmsum starfsgreinum þjóðfélagsins, þegar þarf að meta mikilvægi atvinnugreina, þótt ég kunni að hafa mínar skoðanir þar um. Ég tel þó t.d., að öflun fisks á Skagaströnd eða Bakkafirði sé meira virði en t.d. iðnaður, eins og brjóstsykurgerð. Og ég tel framleiðslu dilkakjöts á Jökuldal meira þjóðþrifaverk en t.d. sumt af þeirri list, ef því mætti jafna saman, þeirri svonefndu list, sem nú virðist þó nokkur liður í lifibrauði margra, t.d. svonefndri málaralist, orðaröðun ljótra eða fallegra orða í svonefnd ljóð, sem þykja þá bezt, er þau geta orðið sem mest dægradvöl lesendum að geta sjálfir í eyðurnar. Það kann að vera, að það sé örðugt að bera þessa hluti saman, og til að fyrirbyggja allan misskilning, þá vil ég segja það skýrt hér, að sú list í litum eða ljóði, sem færir sumarið eða vorið inn í veturinn, hún verður aldrei ofmetin.

Ég skal ekki fara lengra út í þessa þætti. En þegar ég er að velta fyrir mér gildi atvinnugreina okkar Íslendinga, þá er mér landbúnaðurinn jafnan ofarlega í huga. Og eins og ég hef stundum víkið að hér áður, þá finnst mér stundum sem hann sé ekki rétt metinn eða gildi hans lægra metið í hugum sumra en ætti að vera að mínu viti.

Ég vil leyfa mér í þessu máli að vekja athygli á grein, sem nýlega birtist í blaði, sem heitir Búnaðarblaðið og er fylgirit, gefið út með tímaritinu Víkunni, þar sem tekið er til athugunar um hagkvæmni fjárfestingar í landinu á hinni miklu fjárfestingaröld, sem ríkt hefur að undanförnu í þessu landi. Slíkar athuganir snerta það mál, sem hér er til umr. og hér er lagt til að rannsókn verði gerð um. Og með leyfi hæstv. forseta, þá langar mig til að lesa hér stuttan kafla úr þessari grein. En þar segir svo:

„Framkvæmdabankinn hefur reiknað út, að þjóðartekjur á íbúa, reiknaðar á föstu verði, hafi aukizt um 8% frá 1947—1959, þ.e.a.s. að hver maður hefur árið 1947 getað keypt hund,rað einingar af einhverri vörn, en 108 einingar 12 árum síðar, ef verð á þeirri vöru hefur þróazt eins og verðlag yfirleitt. Ef bændur búa jafnvel árið 1947 og 1959 og verð á einstökum þáttum í framleiðslukostnaði mjólkur og kjöts hefur þróazt í samræmi við verðlag almennt, á hver maður að geta keypt 8% meira af mjólk eða kjöti árið 1959 en árið 1947. En raunin er sú, að hver einstaklingur getur keypt 39% meira af kjöti og 21% meira af mjólk, þegar miðað er við verð til framleiðenda. Þetta bendir til þess, að framfarir í landbúnaði hafi fært þjóðinni meiri rauntekjur en framfarir í öðrum atvinnugreinum, að þeir fjármunir, sem landbúnaðurinn hefur fengið til umráða, hafi gefið þjóðinni betri arð en það fjármagn, sem iðnaður, sjávarútvegur, verzlun og þjónusta hafa fengið til ráðstöfunar:

Þetta er aðeins stuttur kafli úr þessari grein, og að þessu máli er víkið nokkru nánar, en í þessari tilvitnuðu setningu felst þó meginatriði málsins. Höfundur þessarar greinar er ungur búvísindamaður frá Búnaðarháskólanum í Ási í Noregi, Björn Stefánsson að nafni. Ég legg engan dóm á það vitanlega, hvort þessar niðurstöður muni standast við nánari rannsókn, en mér þótti ástæða til að vekja athygli á þeim og einmitt við umræður um þessa till., og ég held, að það sé rétt, að þessi niðurstaða verði heyrinkunn.

Í sambandi við þetta mál, rannsókn á hlutdeild atvinnugreinanna í þjóðarframleiðslunni, þá hvarflar mér mjög í hug það, sem nefnt er starfsfræðsla. Eins og kunnugt er, þá er mjög vaxandi áhugi fyrir starfsfræðslunni núna síðustu árin. Ég tel augljóst mál, að hún er eitt nauðsynlegasta námsefni allra skóla. Það er ekkert nauðsynlegra hinum uppvaxandi þjóðfélagsborgurum en haldgóð þekking á því, hvernig blóðrás þjóðarinnar er, ef svo mætti segja, eða hvaðan orkan berst og einnig vítamínin, ef svo mætti að orði komast. Rannsókn á þeim atriðum, sem við drepum hér á, er þess vegna alveg nauðsynlegur grundvöllur fyrir þeim leiðbeiningum, fyrir þeirri starfsfræðslu, sem þarf að veita í skólum landsins. Það þarf að leiðbeina hinum ungu Íslendingum í starfsvali og vekja athygli á því, hvar unnt er að leggjast þyngst á ár til vaxandi velgengni. Og þá koma vitanlega jöfnum höndum til athugunar hinar efnislegu og andlegu hliðar.

Við höfum leitað álits hagfræðinga um þessa till., og ég vil geta þess hér, að það er þeirra álit, að sumt, sem hér er rætt um, sé mjög örðugt í framkvæmd. Að sumum þáttum er nú verið að vinna. En þetta mál er sem sagt í vaxandi mæli á framkvæmdastigi, og mér finnst það mjög eðlilegt, þar sem ég fæ ekki betur sáð en þetta sé grundvallaratriði í öllu okkar lífi. Þó að grg. okkar flm, sé stutt, sem fylgir þessari till., þá eru þó þar dregin fram meginrökin, sem við viljum láta fylgja. Ég hef ofur lítið fyllt betur í eyður í þessu stutta máli, en ég sé ekki ástæðu til að tala um þetta langt mál. Mér finnst málið ljóst og eigi ekki að geta verið um það deilur, og ég vildi vænta þess, að Alþ. afgreiddi nú þessa till. Alþ. á að láta í ljós vilja sinn og það á að gefa fyrirmæli um tilhögun og tilgang.

Ég legg svo til, að umr. verði nú frestað, og eins og á s.l. þingi vil ég leggja til, að málinu verði vísað til hv. fjvn. til athugunar.