16.11.1961
Efri deild: 16. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 65 í B-deild Alþingistíðinda. (35)

74. mál, lækkun aðflutningsgjalda

Frsm. 2. minni hl. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Ég tel sjálfsagt að taka frv. þessu vel og mæla með samþykkt þess, þó að það sé ekki eins og ég hefði óskað. Ég tel, að í frv. felist vottur þess, að um afturhvarf sé að ræða hjá hæstv. ríkisstj., og ég tel mig ekki taka frv. illa, þó að ég geri við það nokkrar athugasemdir og flytji við það nokkrar brtt., sem ég tel að séu til mikilla bóta og í raun og veru felist stjórnarstuðningur í, stuðningur til fyllra afturhvarfs. Raunar má telja, að þetta afturhvarfsfrv. sé nokkuð seint á ferð, vegna þess að ég man ekki betur en hæstv. fjmrh. léti nokkuð snemma á sínu stjórnartímabili í það skína, að tollalöggjöfin mundi verða löguð til lækkunar. Og það var af fullum ástæðum, að hæstv. ráðh. gerði þetta, því að með efnahagslöggjöfinni 20. febr. 1960 og gengisfellingunni, sem í henni fólst, var gerð stökkbreyting að því er aðflutningsgjöld snerti til hækkunar. Útflutningssjóðurinn var lagður niður, gengisfellingin átti að fullnægja því verkefni, sem hann hafði haft, að bæta upp útfluttar afurðir, en tekjuöflun sú, er fyrir hann hafði verið gerð til að fullnægja því verkefni, var samt ekki lögð niður að sama skapi, heldur var henni ráðstafað til ríkissjóðs, og þetta þýðir vitanlega auknar álögur almennings frá því, sem þær áður voru. Í sumar var svo tollagrundvöllurinn hækkaður enn um 13%, og verðlagið tók þá stökk til hækkunar.

Höfuðgalli þessa frv. er, að mér virðist, sá, að það léttir ekki sem skyldi bagga þess fólks, sem erfiðastar byrðar ber, — byrðar, sem viðreisnin hefur bundið því. Hátollavörur, en það eru þær einar, sem frv. inniheldur, eru að meira leyti vörur, sem það fólk kaupir ekki, sem á við erfiðan fjárhag að búa. Það kaupir lífsnauðsynjarnar einar. Þegar að þessu var vikið við 1. umr. og þegar að þessu var vikið í fjhn., þá voru svörin á þá leið, að tollalöggjöfin í heild væri í endurskoðun. Það er sjálfsagt rétt. En þó að svo sé, tel ég enga tryggingu fyrir, að sú endurskoðun komi nógu fljótt til úrbóta, því að þannig er ástatt, að aðgerðir í þessum efnum þyrftu að koma strax. Hinn samvizkusami frsm. meiri hl. fjhn. sagði líka aðeins, að tillögur um frekari breytingar á tollalöggjöfinni mundu koma fram „innan langs tíma“. Þetta sagði hinn samvizkusami maður. Hann sagði ekki: innan skamms, nei, „innan langs tíma“. Og það er nokkuð teygjanlegt og það gefur þeirri hugsun undir fótinn, að ekki séu þarna hröð verk á ferð og skjótar úrbætur í nánd.

Málflutningurinn í athugasemdum frv. og í munnlegum greinargerðum um það er töluvert annarlegur. Það er aðallega talað um, að frv. sé flutt til þess að ráða bót á því mikla smygli, sem eigi sér stað og geri það að verkum, að hátollarnir nýtist ekki sem skyldi. Hvers vegna er áherzla lögð á þetta? Er hæstv. ríkisstj. það máske feimnismál, að dýrtíðin, sem viðreisnin hefur skapað, er lítt bærileg og verður að lækka. álögurnar þarf að lækka vegna almennings og atvinnurekstrarins í landinu, sem er undirstaða allrar afkomu þjóðarinnar. Á þetta er ekki minnzt í málflutningnum, svo að teljandi sé. Hitt er meginatriðið, eins og ég tók fram áðan, — hv. frsm. meiri hl. kallaði það líka aðalatriði, — að tollsvikin eru orðin að sögn svo mikil, að ekki verður rönd við reist. Og það á að laga með því að minnka ávinninginn, sem ólöglegur innflutningur hefur í för með sér fyrir þann, sem framkvæmir hann. Ég álít, að varlega skyldi því treyst, að þjóð okkar, sem er því miður ólöghlýðin þjóð og hefur tamið sér undanbrögð frá lagaboðum, láti sér segjast, þó að ávinningur lækki. Óknyttir fara oft og einatt ekki eftir ávinningi, og sá, sem hefur tamið sér að leita sér ávinnings á þennan hátt, hann er fundvís á nýjar leiðir, þó að aðrar séu gerðar ógreiðfærar, sem hann hefur áður komizt.

Ég álít, að manndómlegra væri að efla tollgæzlu mjög sterklega og enn fremur sjálfsagður hlutur að efla vöruskoðun við tollafgreiðslu, sem fullyrt er að sé mjög lélega framkvæmd. Mér skilst og skildist það á þeim mönnum, sem komu til fjhn. til að upplýsa hana um þessi mál, að einmitt allmiklar líkur væru til, að það ætti sér stað í stórum stíl, að fluttar væru inn vörur undir fölskum merkjum, og þetta gæti átt sér stað af því, að vöruskoðun hefði ekki verið framkvæmd.

Að leggja ekki á nauðsynlega tolla, til þess að enginn smygli, er heldur annarleg hagfræði. Það er hagfræði umrenningsins gamla, Hannesar stutta, sem sagðist aldrei hafa átt úr um dagana, til þess að enginn gæti stolið því frá sér. Skyldi ekki hæstv. ríkisstj. hafa smyglið sem tylliástæðu eins og Hannes stutti hafði þjófhræðsluna sem yfirbreiðslu þess, að hann hafði aldrei átt peninga til að kaupa sér vasaúr? Skyldi ekki hátollavaran vera að bregðast í innflutningnum af því, að viðreisnin dregur svo skarplega úr kaupgetunni? Skyldu ekki kaup á henni hafa minnkað af þeim sökum ískyggilega fyrir ríkissjóðinn? Er ekki frv. um tollalækkun á þessum vörum, sem það inniheldur, en ekki brýnni nauðsynjum, einmitt af þeim ástæðum gert, að það á að örva kaupin á þessum varningi með þessari þó takmörkuðu lækkun, sem þar er á ferð?

Í sumar sá ég þess getið í Morgunblaðinu, að hæstv. fjmrh. hefði boðið lækkun hátolla á samkomu einni, en aftur á móti gert ráð fyrir hækkun almennra söluskatta í staðinn. Er það sú stefna, sem er þarna með skýlu fyrir andlitinu á ferðinni? Um þetta var spurt við 1. umr. af hv. 3. þm. Norðurl. v., um það, hvort búast mætti við hækkun slíkri í kjölfarið, en engu var svarað. Þetta út af fyrir sig skiptir vitanlega mjög miklu máli í sambandi við þetta frv.

Efnahagsástandið er þannig hjá þjóðinni á þessu tímabili, sem við nú lifum, tímabili viðreisnarinnar, að almenningur þarf á tollalækkun að halda og atvinnuvegirnir líka og það strax, eins og ég sagði áðan. Ég flyt þess vegna á sérstöku þskj. tillögur, sem ganga einmitt í þá átt. Þær eru sumar um meiri lækkun á innflutningsgjöldum á vörum, sem eru í frv., aðrar um, að teknir séu inn í frv. nýir vöruflokkar, og skal ég nú gera grein fyrir þessum tillögum hverri fyrir sig.

Tillögurnar eru á þskj. 109. Þær eru allar við 2. gr. frv.

1. till. er, að í kafla nr. 40 komi til viðbótar skíði og skíðastafir í nr. 55 og verði álag 30%. Enn fremur kastkringlur og kastspjót í nr. 65a með sama tolli. Þetta snertir íþróttamenn. Í frv. eru á tveimur stöðum ívilnanir í tollum frá því, sem nú er, á hlutum, sem íþróttamenn þurfa á að halda. Annað er á fatnaði, sem að vísu er ekki eins brýnt að létta tollum af eins og ýmsu öðru, sem íþróttamennirnir þurfa til sín, vegna þess að framleiðsla er innanlands á þeim vörum. Hitt er á áhöldum sambærilegum við þau, sem hér eru upp tekin. Ég tel, að það sé ákaflega þýðingarmikið fyrir þjóðina, að íþróttalífið geti dafnað, og það sé eitt af mikilsverðustu atriðunum til uppeldis að gera íþróttamönnunum sem léttast fyrir og örva þá sem mest til þess að nota frístundir sínar til þess að iðka íþróttir, sem geta eflt þá andlega og líkamlega. Þegar vinnutíminn hefur verið styttur, eins og nú er orðið, frá því, sem var í gamla daga, og þegar vélarnar eru farnar að létta erfiðinu af fólkinu, svo að það þarf ekki á þeim átökum að halda, sem styrkja líkamann og efla hreysti hans, Þá þarf íþróttalíf að koma í staðinn. Það þarf að koma, bæði til þess að menn verði líkamlega hraustir og þeir noti tómstundirnar ekki til ónytja, sem er svo hætt við að bjóði æskunni heim. Ég álít, að þegar farið er að lækka tolla, þá eigum við að taka tillit til þessa. Það er að vísu gagnstætt því að veita fararleyfi á Keflavíkurflugvöll til að taka þar þátt í dansleikjum, en ég álít, að það sé gagnstætt því eins og á að vera.

2. till. er, að kafli nr. 46B breytist svo, að vefnaður úr gerviþráðum í nr. 6, 12a og 12c verði með 50% álagi. Að öðru leyti er þessi kafli óbreyttur frá því, sem er í frv., aðeins tekin upp umorðun, sem leiddi af því, að þessi brtt. er borin fram og sleit sundur samsetninguna í kaflanum. Hér er um það að ræða að lækka úr 62% niður í 50% gerviþræði og vefnað, sem almenningur notar mjög mikið, og ég hygg, að þetta geti komið sér vel fyrir margan og sé sjálfsagt að gera, úr því að tök eru á því og farið er að lækka tolla, og segja má þá, að eftir svona breytingu, yrði hún samþykkt, sé tekið tillit til í þessu efni þarfar, sem er almenn.

3. tillagan er, að í stað 62 í kafla 47 komi 50, þ.e.a.s. lækkað verði á sama hátt það, sem sá kafli hefur inni að halda í nr. 47, en það er mjög hliðstætt efni og er í kafla 46 B. Með þessu er ekki farið niður fyrir það lágmark, sem höfundar frv. virðast aðallega hafa bundið sig við, að tollarnir samtals verði 50%, en ekki minna. Hins vegar sé ég enga ástæðu til þess að binda sig við þessa reglu, af því að ég vil gefa frv. fyllra innihald og gera það líka ávinning fyrir almenning, sem þarf að kaupa, en ekki aðeins miða við smyglarana. Ég hef ekki heldur séð ástæðu til þess með tillögum mínum að binda mig við lækkun á tollum aðeins á vörum, sem hafa verið í 100% tollum samanlögðum eða meira. Ég tel, að það verði að fara eftir því, hvers konar vörur það eru, er meta skal, hvort tollar séu of háir eða of lágir.

4. tillagan er, að í stað 70% í kafla 51, í síðasta lið, komi 62%. Hér er um að ræða það, sem heitir „aðrir sokkar úr gerviþráðum“, er færast í nýtt tollskrárnúmer, 8b, í þessum kafla. Næsti liður á undan eru heilsokkar kvenna úr gerviþráðum, er færast í nýtt tollskrárnúmer, 8a, í sama kafla, og þá er tollur færður niður í 30%, og það er víst eini staðurinn, þar sem út af er brugðið, þannig að farið er niður fyrir 50%, — nei, það eru tveir eða þrír, — ég bið afsökunar, þessi regla hefur ekki verið eins bindandi og ég sagði áðan við samningu frv. Þarna er um kvensokka að ræða, sem færðir eru niður í 30%. Ég tel rétt að færa niður aðra sokka einnig úr gerviþráðum, en legg þó ekki til, að farið sé neðar með þá en í 62 úr 70, og miða þá við það, að framleiðslan á þessari vöru innanlands er dálítið fullkomnari en á kvensokkunum og þar af leiðandi ekki rétt vegna iðnaðarins innanlands að fara eins langt niður með þá og kvensokkana, en hins vegar ekki rétt að mínu viti að hafa tollana hærri en 62%, eins og er á fatnaði yfirleitt samkvæmt frv.

Í kafla nr. 63 koma í viðbót skautar í nr. 82, fari niður í 30%. og kastkúlur til íþróttaiðkana, skíðabindingar og skíðastafir í nr. 104a færist niður í 30%. Þetta eru áhöld, sem íþróttafólkið þarf til sín og er erfitt að fá innanlands, þarf að kaupa erlendis frá, og fyrir því eru sömu rök og ég flutti í sambandi við fyrstu tillöguna um að færa tollana á þessum vörum niður.

Þá er ég kominn að 6. till. Hún er um það, að á eftir kafla 71 komi kafli nr. 72, vélar og áhöld til landbúnaðar og landbúnaðarframleiðslu í tollskrárnr. 10, 11, 12a, 12b, 13a, 13b, 14, 15, 16, 17, 18, 19, 21a, 21b, 21c, verði tollfrjálst allt. Þessar vörur eru: plógar, vörumagnstollur á þeim er nú 8.8 og verðtollur 3.6%, herfi, vörumagnstollur 8.8 aurar og 3.6% verðtollur, hjóladráttarvélar, vörumagnstollur 8.8 aurar og verðtollur 14.4%, og hlutar til dráttarvéla, 8.8 vörumagnstollur og 14.4% verðtollur. Þá eru það líka sláttuvélar, rakstrarvélar, snúningsvélar, mjaltavélar, strokkar, skilvindur, sáðvélar, ostapressur, áburðardreifarar, kartöfluupptökuvélar o. fl. Á öllum þessum tegundum véla eru 8.8 aura vörumagnstollur og 3.6% verðtollur. Þetta eru allt saman áhöld, sem landbúnaðarmaðurinn notar, og svo er nú komið búskaparháttum, að þessi áhöld mega teljast til lífsnauðsynja við búskapinn. Það verður að segja um bóndann, að engin stétt hefur, að því er virðist, orðið harðar úti undir viðreisnarráðstöfunum hæstv. ríkisstj. heldur en hans stétt. Og það hefur farið svo, að dráttarvélarnar, sem eru óhjákvæmilegur búshlutur, ef landbúnaðarstörf eiga að geta gengið nokkuð og búskapur blessazt, þær hafa orðið svo dýrar, að bændur treysta sér alls ekki til þess að kaupa þær, en kaupa yfirleitt gamlar vélar, sem erlendir menn hafa fleygt frá sér. Þetta er sönnun þess, hvernig ástæður bændanna eru. Ég geri ráð fyrir því, að hv. þdm. séu misjafnlega kunnugir högum bænda, í raun og veru ókunnugir sumir, en ég vænti þess, að þó að hv. stjórnarliðar kunni máske að hlusta á mig með tortryggni, þegar ég tala um þessi mál, þá muni þeir taka gildan vitnisburð hv. 10. landsk. þm., sem hann flutti hér við 1. umr. Ég vitna til þess vitnisburðar í þessu sambandi. Ég legg til, að þessi áhöld verði skattfrjáls í innflutningi, en vil benda á, að á þeim hvílir auðvitað söluskatturinn óhreyfður, þó að þessi till. verði samþykkt, svo að hann borgar nokkuð fyrir sig, þrátt fyrir það.

Þá er 7. till., að í kafla nr. 73 bætist við: vélar og áhöld, einkum til heimilisnotkunar, í nr. 37, 38b–45. Ég legg til, að tollar á þessum vörum verði lækkaðir niður í 30%. Þessar vörur eru rafmagnstæki alls konar, eldavélar og þess háttar, hitunar- og suðutæki, strauvélar, þvottavélar, hrærivélar, eldhúsvélar og önnur áhöld, kæliskápar, bónvélar, ryksugur. Á þessum varningi eru nú tollar þannig, að á eldavélum og bökunarofnum er 8.8 aura vörumagnstollur, en 14.4% verðtollur og svo innflutningsgjald 68.2%. Og sams konar tollar eru á þessum vörum öllum, nema 45, lið, það eru önnur áhöld, þar er 8.8 aura vörumagnstollur og 27% verðtollur, en eins og á hinum vörunum 68.2% innflutningsgjald. Hér er því um háa tollun að ræða, og ég legg til, að hún verði færð niður í 30%. Þetta eru hlutir, sem almenningur þarf á að halda og heimili, þar sem rafmagn er á annað borð, geta naumast neitað sér um og verða þess vegna að teljast til lífsnauðsynja, eins og komið er.

Þá eru í 6. till. bifvélar (mótorar) og hlutar til þeirra, ótaldir annars staðar, í kafla nr. 30, verði tollfrjálst. Þetta eru bátavélar og hlutar til þeirra. Á þeim hvílir nú 8.8 aura vörumagnstollur og 3.6% verðtollur, ekkert innflutningsgjald. En sú undantekning er með bátavélar, sem fluttar eru inn vegna nýsmíðis, að heimilt er að fella niður af þeim verðtollinn, og það hefur verið gert. Enn fremur eru engir tollar á þeim vélum, sem fluttar eru inn í bátum, sem smíðaðir eru erlendis. Ég tel fyrir mitt leyti, að engin ástæða sé til þess að tolla þær vélar, sem fluttar eru inn til að setja í eldri báta, þar sem eru orðnar útslitnar vélar. Ég tel, að það eigi eins að létta tollum af vélum til þess, engin ástæða að vera að hvetja menn til að brenna skip sín strax og vél er ónothæf og fara heldur yfir í það að láta smíða nýjan bát. Ég held þess vegna, að þessi breyting geri ekki það aðeins að lyfta undir, létta þeim, sem sjóinn sækja, tilkostnað í stofnkostnaði, heldur líka blátt áfram hvetji til þess að hagnýta þær eignir, sem til eru.

Þegar ég talaði um landbúnaðarvélarnar áðan, benti ég ekki á það, sem ég vil leyfa mér að benda á nú, að úr því að veittur er afsláttur á tollum, eins og nú er, að því er snertir bátavélar, þá er alveg sambærilegt að veita líka afslátt á tollum að því er snertir vélar til landbúnaðarins. Hjóladráttarvélar eru í raun og veru bátur bóndans.

Loks er þá í þessum till. mínum 8. till., við kafla nr. 47, við hann bætist: radartæki, dýptarmælar, fisksjár í nr. 16a og verði tollfrjálst. Radartæki, dýptarmælar og fisksjár eru nú tollaðar að því er vörumagnstoll snertir með 30.8 aurum og að því er verðtoll snertir með 14.4%. Þessi tæki eru nú orðin lífsnauðsynjatæki þeirra, sem veiðiskap stunda á sjónum, og nútíðarveiðitæknin er það, sem lyftir aflabrögðunum á seinustu árum. Þetta eru dýr tæki, og ég held, að það sé óviðeigandi, þegar farið er að lækka tolla á annað borð og þykir ára til þess, að létta ekki tollum af þessum dýru og merkilegu og arðgæfu tækjum sjómannanna.

Ég hef nú minnzt á þessar tillögur hverja og eina, og ég leyfi mér að vænta þess, að þeim verði vel tekið. Þær eru allar til að gera frv. miklu frambærilegra og því í raun og veru, eins og ég tók fram áðan, stuðningur við hæstv. ríkisstj. Í þeim er tekið tillit til almennings, sem vantar í frv., og tillit til atvinnuveganna, bæði til lands og sjávar, sem líka vantar í frv. Ég trúi ekki að óreyndu öðru en hv. þdm. vilji laga frv. með því að samþykkja inn í það till. mínar.

Um till. hv. 1. minni hl., get ég sagt það, að ég er þeim yfirleitt fylgjandi, sumar koma nokkuð inn á það svið, sem ég hafði í till. mínum. Um sértillögu hans og aðaltillögu, að því er snertir verðlagsákvörðun, verð ég að segja það, að ég legg ekki mikið upp úr nauðsyn þeirra ákvæða, vegna þess að ég treysti samvinnufélögunum til þess að stilla í hóf álagningu og hafa þar fordæmi um, sem að gagni kemur fyrir alla.