21.03.1962
Sameinað þing: 44. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 577 í D-deild Alþingistíðinda. (3510)

152. mál, útflutningssamtök

Flm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Það dregur saman með okkur hv. 1. þm. Norðurl. v., þó að umr. hafi ekki staðið lengi, og ég býst við, að við séum í raun og veru nær því að vera sammála en í fyrstu virtist. Ég vildi aðeins leiðrétta það, sem mér fannst koma fram hjá honum í lokin, að það væri hugmyndin að setja lög, sem ættu að koma í staðinn fyrir samvinnulögin. Þetta fannst honum óþarfi, af því að samvinnufélögin hefðu starfað vel eftir þeim lögum í 40 ár. Þetta er alls ekki hugmyndin. Auðvitað starfa samvinnufélög eftir samvinnulögum áfram og hlutafélög eftir hlutafélagslögum. Hér er aðeins um að ræða löggjöf fyrir sérstaka starfsemi, sem er aðeins ein deild í starfsemi samvinnufélaga og snertir þau ekki að öðru leyti. Þessi löggjöf yrði sniðin við það svið og samtök, sem byggð yrðu upp til þess að starfa á því sviði, en alls ekki til þess að ryðja burt samvinnulögunum eða hlutafélagslögunum eða neinu öðru slíku. Fyrirtækin verða skipulögð í grundvallaratriðum eftir þeirri löggjöf eftir sem áður.

Ég vil einnig bæta við, að hann virðist líta svo á, að einokun eða cartel, sem talað er um, sé eingöngu það, þegar viðkomandi fyrirtæki hefur öll ráð, 100%, á sínu sviði. Þetta er allt of þröng skilgreining, vegna þess að vald fyrirtækis eða samsteypu getur orðið óeðlilega mikið og leitt til misnotkunar, þó að fyrirtækið hafi ekki 100% allra viðskipta eða framleiðslu á viðkomandi sviði. Hundraðstalan, sem yfirleitt er miðað við, er miklu lægri, og er þess vegna ekki fullkominn mælikvarði, hvort um algera einokun er að ræða. Það getur verið, að það vanti annað orð en einokun, þó að það sé mikið notað. Þarna er um að ræða of mikil áhrif einstakra aðila á einstökum sviðum, þannig að þeir geti ráðið verðlagi, takmarkað framleiðslu eða aukið hana eftir eigin vild, m.ö.o. geti raskað venjulegum lögmálum um verðmyndun og framleiðslu.