04.04.1962
Sameinað þing: 48. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 584 í D-deild Alþingistíðinda. (3520)

154. mál, stýrimannaskóli Íslands og sjóvinnuskóli

Eggert G. Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins til að leiðrétta það í framsöguræðu minni áðan, er ég taldi upp það, sem þegar hefur verið gert í þessum málum, taka fram til viðbótar þetta:

Fiskifélag Íslands hefur undanfarin fjögur ár haldið uppi námskeiðum í meðferð fiskleitartækja víðs vegar um landið, og hefur, að því er ég bezt veit, á þriðja hundrað manns sótt þessi námskeið. Auk þess hefur sjútvmrh. gengizt fyrir svonefndum fiskiðnaðarnámskeiðum, sem hafa verið starfrækt s.l. 8—10 ár undir forustu fiskmatsstjóra. Þetta taldi ég rétt, að kæmi fram til viðbótar því, sem ég áðan nefndi.

Hv. 4. þm. Norðurl. e. taldi nokkuð vafasamar ýmsar ábendingar þeirrar þáltill., sem ég er 2. flm. að og var að mæla hér fyrir áðan. Var mér þó ekki alveg fyllilega ljóst af hans ræðu, þótt hann flytti til viðbótar framsöguræðu með næsta máli hér á eftir á dagskránni, þá var það ekki heldur skýrt, hverjar þessar raunverulegu aðfinnslur hans væru að þessari tillögu okkar. Eins og ég margtók fram í minni framsöguræðu áðan, þá er höfuðtilgangur tillögu okkar sá, að fram fari endurskoðun á tögum um stýrimannaskólann, m.a. með hliðsjón af því, hvort ekki megi samræma þar þá hluti, sem okkur hv. 4. þm. Norðurl. e. og sjálfsagt okkur alla hér inni greinir ekki á um að nauðsyn sé að endurskoða. Höfuðatriðið er, að þessi endurskoðun fari fram, og mér er kunnugt um það, að skólastjóri stýrimannaskólans er mjög hlynntur því vegna breyttra aðstæðna, að sú endurskoðun fari fram á lögum um skólana í heild, og hefur ekki farið dult með þá skoðun sína.

Hv. þm. spyr að því, hve náið eigi að fara út í kennsluna í einstökum atriðum í sambandi við fiskmatið, freðfiskmat og annað, sem ég tók fram að nauðsynlegt væri að fá kennslu um og undirbúning í. Ég verð að segja, að ég tel mig nú vart dómbæran um það í einstökum atriðum, hvað náið á að fara út í þessa kennslu. Hitt er mér ljóst, sem hefur verið mjög ríkjandi skoðun, bæði meðal skipstjórnarmanna og þeirra, sem við fiskmat fást, að þar vantar nánari tengsl á, og það torveldar mjög framþróun þeirra mála, þ.e.a.s. fiskmatsins í heild, hve takmarkaður skilningur er milli þeirra aðila, sem fyrst veiða fiskinn, og þeirra, sem meta hann, eftir að í land er komið. Þetta hefur mjög glögglega komið fram í fréttum úr einni aðalverstöð landsins, Vestmannaeyjum. Þar er mjög mikil óánægja ríkjandi með þetta freðfiskmat, og sjómenn telja sig þar hlunnfarna í þessu mati, en matsmenn standa hins vegar á því, að þeir fari þar einungis að reglum. Þessar fréttir einar eru aðeins enn ein sönnun þess, að nauðsyn sé á því að auka þarna skilning í milli, og ég tel, að það ætti að vera höfuðskylda og markmið þessarar fræðslu. Það verður svo endurskoðunin að meta, hvað langt þarf að ganga í þessum efnum á gagnfræðastigi, hve langt í stýrimannaskóla eða skipstjórnarskóla og hvort tilefni er til þess og hvenær þörf sé talin á því að stofna um þetta sérstakan skóla. Það er rétt hjá hv. þm., að meðal milljónaþjóða erlendis er þetta mjög sundurgreint og hafðir sérstakir skólar nánast í hverri grein. Við höfum orðið að hafa þá framkvæmd hér á, ekki einungis í þessum málum, heldur líka svo mörgum öðrum í okkar fámenni, að sameina margs konar fræðslu undir einu þaki, til margra skyldra hluta, sem aðrar þjóðir hafa um sérstakar skólabyggingar. Ég hygg, að það eigi vel að huga að þessum málum, enda kom það fram í ræðu hv. þm., að hann telur, að á þessu sé full þörf. Og ég held, að það torveldi ekki framgang einstakra atriða í hans tillögu og hans félaga um fiskmatið, þótt þessi athugun fari fram. Ef það er talið mögulegt að hafa þetta undir einu og sama þaki, þessa fræðslu, án þess að það skaði hana, þá mundi ég telja það, þvert gegn því, sem hann sagði, mjög vel farið. Held ég, að endurskoðunin ætti að ná yfir nógu vítt svæði og þeir, sem í endurskoðuninni kynnu að vinna, hafi þar nógu rúmar hendur um, því að það ber okkur þó saman um, að nauðsyn sé á, að þessi endurskoðun fari fram.

Ræðumaðurinn sagði, eins og ég hef þegar drepið á, að hann teldi, að það væri mjög vafasamt, að öll þau atriði, sem í tillögu okkar felast, ættu þarna samleið. Ég verð nú að segja, að ég held, að hann hljóti að vera einn af fáum um þá skoðun, því að þarna er um mjög skyld atriði að ræða, og væri miklu meiri vandi að skilja þarna á milli heldur en raunverulega að koma þeim saman á einn og sama stað.

Þær aðfinnslur, sem hv. þm. tilfærir um till., hafa ekki sannfært mig um nauðsyn þess, að þessari till. sé breytt. Hins vegar hefur sú þn., sem málið fær til meðferðar, að sjálfsögðu frjálsar hendur þar um, og höfuðatriðið er þó, að þessi mál séu skoðuð, því að eins og ég vildi leggja megináherzlu á áðan í minni ræðu, þá tel það til stórtjóns, hvert ár sem enn líður, án þess að við endurskoðum þessi mál öll og virðum fyrir okkur nauðsynlegar endurbætur og úrbætur á þeim.