11.04.1962
Sameinað þing: 52. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 588 í D-deild Alþingistíðinda. (3538)

165. mál, geðveikralög

Flm. (Alfreð Gíslason tæknir):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja till. í Sþ., þess efnis, að Alþingi skori á hæstv. ríkisstj. að undirbúa geðveikralöggjöf. Hér hefur ekki verið til nein löggjöf af slíku tagi fram á þennan dag, en alls staðar erlendis, þar sem ég þekki til a.m.k., hafa um langan aldur verið til sérstök lög um geðveikramál. Erlendis er þessi löggjöf mjög misjöfn að magni. Víða eru þetta stórir lagabálkar, þar sem ákvæði eru um svo að segja öll þau atriði, sem geðveikramál snerta. Með öðrum þjóðum eru þessi lög minni að vöxtum og fjalla þá fyrst og fremst um það, hvernig að skuli farið, þegar geðsjúklingar eru vistaðir á stofnunum, hvernig með skuli farið, á meðan þeir eru vistaðir þar, og hvernig með skuli farið um brautskráningu þeirra af slíkum stofnunum.

Hér á landi eru að vísu til lög, sem ná til geðsjúklinga í víðtækustu merkingu þess orðs, og auk þess er víða í íslenzkum lögum að finna ákvæði, sem snerta geðsjúklinga sérstaklega. En það eru engin samfelld ákvæði um það, hvernig að skuli farið, þegar þörf telst á því að vista geðsjúkling í spítala. Það eru ekki heldur til ákvæði um það, hvernig að skuli farið, ef slíkur sjúklingur, kominn inn á geðveikrahæli, heimtar sig brautskráðan þaðan. Og það eru heldur engin ákvæði til um, hvernig með skuli farið, þegar að því kemur að brautskrá geðsjúkling af hælinu. Fyrir þessa vöntun geta skapazt ýmiss konar vandkvæði og jafnvel vandræði, og það sem verst er, að fyrir vöntun á slíkum ákvæðum er alltaf hætta á, að fólki, geðsjúku eða ekki geðsjúku, sem komið hefur verið á geðveikrahæli, sé gert rangt til. Og vitanlega er það mjög alvarlegt mál hverju sinni, þegar um slíka frelsissviptingu er að ræða sem þessa.

Ég tel, að geðveikralög hefði átt að setja hér á landi fyrir langalöngu. Eins og ég tek fram í grg., þá kemur það greinilega fram í löggjöf íslenzkri, að árið 1932 var þetta talið sjálfsagður hlutur, að setja geðveikralög í landinu. En þetta hefur komið fyrir nokkrum sinnum a.m.k. á síðustu árum, að menn, sem hafa verið vistaðir á Kleppi, hafi farið í mál út af því og þeir hafa unnið þau mál. Þannig hefur ríkissjóður orðið fyrir skakkaföllum að mínum dómi fyrir það, að engin gildandi lagaákvæði eru til í þessum tilvíkum. Það má gera ráð fyrir því, að ef svo heldur fram sem verið hefur í þessu efni, þá fari slíkum málsóknum á hendur ríkissjóði fjölgandi á næstum árum. Það er því einnig af þessari ástæðu nauðsyn að setja geðveikralög hér á landi. Ég tei, að slík lagasetning sé alls ekki neitt auðvelt verk. Það getur ekki hver sem er setzt niður og samið geðveikralög. Til þess þarf að mínum dómi sérfróða aðila, sem hafi aðstöðu og tíma til að kynna sér það bezta í þessum efnum erlendis og sniða siðan lög með þær fyrirmyndir fyrir augum í samræmi við aðstöðu og þarfir okkar Íslendinga.

Ég held, að ég þurfi ekki að hafa þessi orð fleiri. Ég vænti þess, að málið fái góðar undirtektir hjá hv. alþm. og að hæstv. ríkisstj. sé ekki ófús til að verða við þeirri áskorun, sem í till. felst. Ég legg til, að till. verði vísað til hv. fjvn. og til síðari umr.