11.04.1962
Sameinað þing: 52. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 589 í D-deild Alþingistíðinda. (3547)

172. mál, ferðir íslenskra fiskiskipa

Flm. (Pétur Sigurðsson):

Herra forseti. Ég hef ásamt 6 öðrum hv. alþm. leyft mér að flytja till. til þál. á þskj. 373 um, hvernig daglega megi fylgjast með ferðum íslenzkra fiskiskipa. Tillagan hljóðar á þessa leið: „Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að athuga og gera till. um, hvaða ráðstafanir þurfi að gera, til þess að samband megi hafa við íslenzk fiskveiðiskip á ákveðnum tímum sólahringsins og þannig verði fylgzt með, hvar þau eru stödd hverju sinni, svo að hjálp megi berast sem fyrst, ef slys ber að höndum eða skipi hlekkist á. Athugun þessa skal gera í samráði við Slysavarnafélag Íslands og samtök sjómanna og útvegsmanna.“

Ég hef ákveðið að hafa ekki mörg orð um þessa till. hér í framsöguræðu minni. Bæði er það, að mörg mál eru á dagskrá og bíða afgreiðslu og langt liðið á þingtíma. Ég hef tekið fram í grg. það, sem ég tel máli skipta í sambandi við þetta mál. Ég hef leyft mér þar að benda á hin miklu sjóslys, sem hafa orðið hér við land á þessum vetri, og ég hef jafnframt leyft mér að benda á það hörmulega slys, sem er m.a. orsök þess, að till. þessi er flutt. Ég veit, að bæði sjómenn og útvegsmenn hafa rætt þetta mál í röðum sínum, hvort ekki mætti betur fylgjast með ferðum fiskiskipa okkar heldur en raun ber vitni um, svo að hjálp mætti berast hið fyrsta, ef slys bæri að höndum eða skipi hlekktist á. Mér er kunnugt um, að þegar árið 1946 var þessi háttur tekinn upp í einni af stærri verstöðvum landsins, Vestmannaeyjum, og mun vera enn við haldið í líkri mynd. Þetta var gert að forgöngu útvegsmanna þar og skipstjóra og hefur gefizt vel. Ég geri ráð fyrir, að ef af þessu gæti orðið, þá mundi þetta verða útfært til fleiri verstöðva en þeirrar einu, sem mér er kunnugt um að þetta er framkvæmt í nú. Það er nú þegar komnar radíóstöðvar í flestar stærri verstöðvarnar. Kostnaður af þessu mundi ekki heldur verða ýkjamikill, heldur mundi ég segja, að hér væri um skipulagsatriði að ræða, sem mundi bezt verða fram úr ráðið af þeim mönnum, sem til þekkja okkar fiskveiða og ferða okkar fiskiskipa, en það eru af skiljanlegum ástæðum samtök sjómanna og útvegsmanna, og að sjálfsögðu ætti þarna að hafa með í ráðum fulltrúa frá Slysavarnafélagi Íslands, sem alltaf hefur með ráðum og dáð stuðlað að auknu öryggi sjófarenda við strendur landsins.

Ég mun gera till. um það, að málinu verði vísað til hv. allshn. En ég vil mjög beina þeirri ósk til n., að hún sjái sér fært að taka málið fyrir, áður en þingi lýkur, því að eins og getið er um í grg., ef Alþingi og hv. alþm. mættu stuðla að því á einhvern hátt að fyrirbyggja, þótt ekki væri nema lítinn hluta af þeim slysum, sem á hverju ári höggva skörð í sjómannastétt okkar, þá held ég, að allir mættu þar vel við una. Og eins og ég segi, ég vil mjög eindregið mælast til, að n. sjái sér fært að taka þetta mál fyrir og afgr. það. Ég tel mig ekki þurfa að hafa fleiri orð um þessa till. Ég legg til, að umr. verði frestað og þá verði henni vísað til allshn.