18.10.1961
Sameinað þing: 21. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 449 í B-deild Alþingistíðinda. (355)

1. mál, fjárlög 1962

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég verð að játa það, að mér þykir alltaf dálítið gaman að því, þegar pólitúrinn dettur af hæstv. fjmrh. Það er ekki þykkt lag, pólitúrinn utan á honum, en það er býsna mikill munur, sem verður á persónunni, þegar hinn hversdagslegi pólitúr er nuddaður af. Það var sannarlega ekki maður með góða samvizku, sem rauk hér upp áðan. Það var maður, sem vissi upp á sig skömmina. Hann varði það, að á þriggja ára tímabili, sem hæstv. ríkisstj. hefði hækkað heildarútgjöld fjárlaga um 70%, hefðu fjárveitingar til verklegra framkvæmda nálega staðið í stað. Um þetta er ekki til neins að þræta, þetta eru staðreyndir, og prósenttala þess fjármagns, sem fer nú til verklegra framkvæmda, hefur hrapað niður í tíð þessarar hæstv. ríkisstj. Hans vörn var svo í því fólgin, að hann sagði, að það hefði komið fram fjárlagafrv. í tíð vinstri stjórnarinnar og þar hefðu framlög til vega, brúa, hafna, sjúkrahúsa, íþróttasjóðs og flugmála lækkað frá árinu áður. En þegar hæstv. ráðh. hafði kjammsað á þessu, varð hann þó að klykkja út í lokin með því að segja: En afgreiðsla fjárlaganna varð samt sú, að krónutalan varð eins há og árið áður. — M.ö.o.: fjmrh., — ég var ekki fjmrh., svo að það var ekki til neins að skamma mig fyrir það, — hafði lagt fram frv., en ríkisstj. hafði séð um það í samvinnu við fjvn., að ekki urðu lækkanir. Og það var þetta, sem hæstv. ráðh. varð að játa, þrátt fyrir allar þær tölur til lækkunar, sem hann nefndi. Þetta varð niðurstaðan. Hér er þó engu sambærilegu saman að jafna á við það, þegar krónutalan til verklegra framkvæmda stendur í stað, eftir að búið er að framkvæma í fyrsta lagi gengislækkun, sem nam 50–79%, og aðra gengislækkun upp á 13% og krónutalan stendur samt nálega í stað. Það er afrek hæstv. fjmrh. núverandi.

Ég þorði nú ekki alveg að treysta á talnafullyrðingar hæstv. ráðh., svo að ég leit á fjárveitingarnar til vega og verklegra framkvæmda á árunum 1956, 1957, 1958 og 1959, og 1959 voru seinustu fjárlögin, sem vinstri stjórnin að miklu leyti undirbjó. Ég sé þá, að til vegamála voru á árinu 1956 ætlaðar 44 millj. 770 þús. kr. til vega og A-liðurinn alls var upp á 61363 017 kr. Þetta var á árinu 1956. Á árinu 1957 voru fjárframlögin til veganna sjálfra 49 millj. — móti 44 árið áður — 49 millj. 780 þús. og A-liðurinn alls 70148 407 kr., eða tæpum 9 millj. hærri en árið áður. 1958 voru þessir liðir 49 millj. 780 þús. beint til vegamálanna og A-liðurinn út 70 895 020 kr. Engin lækkun frá árinu áður, ívið er það þó hækkun. Og á árinu 1959 fer þetta upp í 60 millj. 780 þús. til vega og A-liðurinn út í 82 776 036 kr. Það er því búið að rekja það hér, hvernig þessar upphæðir breyttust þarna á fjögurra ára tímabili, og það er um engar lækkanir að ræða. Það er einmitt á árunum 1958–1959 um verulega hækkun að ræða, í öðru tilfellinu beint til vegamálanna um 11 millj. og A-liðurinn út um á 12. millj. kr.

Það fýkur því í þetta skjólið líka. Það er ekki einu sinni hægt að verja sig með vinstri stjórninni, og þótti hún þó ekki góð af þeim herrum, sem nú sitja í ráðherrastólunum, kannske að undanteknum einum, og stjórnarstuðningsliði þeirra. Það var þá ekki talað um, að það ætti að vera fyrirmyndin fyrir viðreisnarstjórninni. En samt sem áður er það svo, að það hafa fyrst verulega farið lækkandi framlög til verklegra framkvæmda á s.l. 3 árum, því að hlutfallslega fer nú miklu minna fjármagn til verklegra framkvæmda í landinu, miðað við heildarútgjöld ríkissjóðs, heldur en nokkru sinni áður um langt árabil.

Og þá kom að því tiltæki hæstv. ráðh. að ætla sér að gauka að atvinnuleysistryggingunum skuldabréfi í staðinn fyrir peninga. Og þá varð hann fyrst stórorður og gróforður. Hann sagði, að ef ekki væri frosið fyrir öll skilningarvit á þessum hv. þm., þ.e.a.s. mér, þá ætti ég þó að vita það, að atvinnuleysistryggingasjóðurinn væri ekki á nástrái staddur. Hann hefur verið með 170 millj. kr. innstæðu, tekjurnar væru um 70 millj. á ári og atvinnuleysisbæturnar, sem þyrfti að greiða, væru innan við eina millj, og hitt væri fryst í Seðlabankanum, hvað ekki er nú rétt, því að allmiklum upphæðum hefur verið varið til grundvallaratvinnuframkvæmda, til þess að fyrirbyggja atvinnuleysi, gera grundvöll atvinnulífsins traustari á ýmsum stöðum. En eitt láðist hæstv. ráðherra innan um allan stóryrðavaðalinn, og það var að svara því, hvort það væri lögleg athöfn, sem hann væri að framkvæma, að láta undir höfuð leggjast að ætla greiðslur samkvæmt löglegum skuldbindingum í gildandi lögum og ætla að snara út skuldabréfi í staðinn. Er það löglegt, hæstv. ráðh.? Á hvaða lagaákvæði byggist það? Hvers vegna er réttur ríkissjóðs meiri en annarra aðila, meiri en t.d. Reykjavíkurbæjar, meiri en atvinnurekendanna í landinu, sem líka vantar rekstrartekjur? Hvar stendur það, að ríkissjóður sé rétthærri en hinir? Ef hæstv. ráðh. getur ekki svarað þessu, þá ætti hann að spara sér öll stóryrði. Þá er hann hér að fremja löglausa athöfn, og það dugir ekki að segja: Það eru nógir peningar til í atvinnuleysistryggingunum. — Þó að það séu nógir peningar til í bönkunum, þá veit ég ekki annað en menn þurfi að koma og biðja um lán þar. Og hæstv. ráðh. verður að biðja um lán a.m.k. hjá atvinnuleysistryggingunum. Hann getur ekki seilzt þangað með sína hönd og tekið fé úr þessum sjóði. Það er ekki í hans umboði. Ég spyr því : Telur hæstv. fjmrh. það löglegt að breyta lagaákvæðum með fjárlagaákvörðunum? Og mér þætti afskaplega vænt um, að hann færði fyrir því lögfræðileg rök. En ef hann getur þetta ekki, þá ætti hann, til þess að ekki væri skrapað meira af pólitúrnum á honum, að spara sér stóryrðin.