06.04.1962
Sameinað þing: 50. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 591 í D-deild Alþingistíðinda. (3556)

174. mál, raforkumál

Flm. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Á þskj. 378 flytjum við nokkrir þm. Framsfl. till. til þál. um raforkumál. Till. er þannig, með leyfi hæstv. forseta: „Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta hraða áætlun um áframhaldandi framkvæmdir við rafvæðingu landsins, er miðist við það, að öll heimili hafi fengið rafmagn í síðasta lagi fyrir árslok 1968. Séu gerðar áætlanir um ný orkuver, aðalorkuveitur og dreifilínur um sveitir ásamt áætlun um aðstoð við að koma upp einkastöðvum fyrir einstök heimili, sem eru svo afskekkt, að ekki þykir fært að leggja raflínur til þeirra frá samveitum, og sé aðstoðin ákveðin með hliðsjón af þeim stuðningi, sem veittur er íbúum samveitusvæðanna. Áætlunum þessum verði lokið fyrir 1. jan. 1963:

Ég vil rifja það upp, að í byrjun febrúarmánaðar 1960 var einnig borin fram tillaga hér á hv. Alþingi um raforkumál, og voru flm. hennar úr hópi þeirra, sem flytja þessa till. Í þeirri till. var lagt til eins og hér, að ríkisstj. væri falið að láta hraða áætlunum um áframhaldandi framkvæmdir við rafvæðingu landsins með það fyrir augum, að öll heimili gætu fengið rafmagn svo fljótt sem unnt væri. Þessi till. hlaut ekki fullnaðarafgreiðslu á þinginu fyrir tveimur árum. En í umr. um það mál 2. marz 1960 skýrði hæstv. ráðherra, sá er fer með raforkumál, frá því, að raforkumálaskrifstofan hefði um nokkurt skeið unnið að þessu, en óformlega þó, en hann hefði þá fyrir nokkru lagt áherzlu á það við raforkumálastjóra, að hann hraðaði þessari áætlun, eftir því sem unnt er.

Síðan þetta var eru liðin rúmlega 2 ár. En enn er þessari áætlun eða undirbúningi að nýrri ákvörðun um raforkuveitur ekki lokið. Mun þetta vera þannig, að þetta hefur verið falið manni, sem hefur miklum öðrum störfum að gegna á raforkumálaskrifstofunni, og eftir því sem mér hefur skilizt ekki fengnir viðbótarstarfskraftar til að vinna að þessu. Við teljum því rétt með flutningi þessarar till. að ýta enn á eftir þessu máli, þar sem hér er um mikið nauðsynjamál að ræða.

Það hefur verið unnið mikið að framkvæmdum í raforkumálum undanfarinn áratug. Það hefur verið unnið að framkvæmd svokallaðrar 10 ára áætlunar, sem ákveðið var að framkvæma árið 1953. Hefur verið komið upp orkuverum, aðalorkuveitum og dreifilínum um ýmsar sveitir og kauptún. Eftir þeim upplýsingum, sem ég fékk nýlega hjá raforkumálaskrifstofunni, er talið, að um síðustu áramót hafi nokkuð yfir 2400 sveitabýli verið búin að fá rafmagn frá samveitum. Þá hef ég einnig fengið upplýst hjá rafmagnseftirlitinu, að um næstliðin áramót hafi 493 sveitaheimili haft raforku frá vatnsaflsstöðvum, þ.e.a.s. einkastöðvum, en nokkuð yfir 500 heimili höfðu þá rafmagn frá olíustöðvum. Ég geri ráð fyrir, að nokkuð mörg af þeim heimilum, sem notast nú við olíustöðvarnar, hafi komið upp slíkum stöðvum í bili, meðan beðið var eftir væntanlegum raflínum frá héraðsrafmagnsveitum ríkisins. En samkvæmt þessum upplýsingum eru það nokkuð yfir 2900 sveitaheimili, sem um síðustu áramót höfðu rafmagn frá héraðsrafmagnsveitum og vatnsaflsstöðvum, sérstökum vatnsaflsstöðvum. En hér er þó mikið verk enn óunnið, og hefur verið þessi árin og verður eins í ár væntanlega og næstu árin unnið að því að koma rafmagni út frá samveitum til sveitaheimila samkv. 10 ára áætluninni.

Eftir þeim upplýsingum, sem ég fékk frá raforkumálaskrifstofunni nú í marzmánuði, er talið, að 1958 hafi 143 býli verið tengd við héraðsrafmagnsveitur ríkisins, 139 árið 1959, 215 árið 1960 og 158 árið 1961. Þannig er mér sagt, að þetta hafi verið síðustu árin. Árið 1956 munu um 300 býli hafa fengið rafmagn frá héraðsrafmagnsveitum ríkisins, svo að þau eru nokkru fleiri það ár, en þó kann að vera, að einhver af þeim býlum hafi ekki fengið raflínur tengdar fyrr en 1957, en þá er talið, að heimilin hafi verið um 150.

Í grg., sem fylgir okkar till., er skýrt frá því, hvað ríkissjóður hefur lagt fram á árunum 1954–60 til raforkuframkvæmdanna. Samkvæmt ríkisreikningum hafa framlögin verið á þessum árum: til nýrra raforkuframkvæmda samtals 551/2 millj. rúmlega og til raforkusjóðs 75 millj. 650 þús. Beinu framlögin úr ríkissjóði hafa verið nokkru minni síðustu 3 árin heldur en næstu árin har á undan. Árin 1957 og 1958 voru um 12 millj. kr. veittar til nýrra raforkuframkvæmda hvort árið fyrir sig. 1959 féll þetta framlag alveg niður, en hefur verið 10 millj. hvort árið 1960 og 1961. Til raforkusjóðsins voru veittar 15 millj. kr. samkv. ríkisreikningi árið 1957, 17 millj. 1958, en árið 1959 og 1960 14 millj. 250 þús. hvort árið fyrir sig, og sama fjárveiting var árið 1961. En framkvæmdakostnaður hefur hækkað mjög síðustu árin og fjárþörfin vaxið. Er því mikil nauðsyn á því að auka ríkisframlögin, og svo þarf að sjálfsögðu að útvega lánsfé til áframhaldandi framkvæmda. Þessi beinu fjárframlög úr ríkissjóði hafa vitanlega ekki hrokkið til að borga kostnað við þessar framkvæmdir, og þess vegna hefur hér að miklu leyti verið unnið fyrir lánsfé.

Ég hef gert nokkra athugun á því, hvað miklu fé hefur verið varið samtals til greiðslu á kostnaði rafmagnsveitna ríkisins og héraðsrafmagnsveitna ríkisins undanfarin ár, samkv. reikningum raforkumálaskrifstofunnar. Með stofnkostnaði er þá talið það, sem greitt hefur verið til að koma upp virkjunum, sjálfum orkuverunum, einnig aðalorkuveitum og dísil- og hjálparstöðvum, sem rafmagnsveitur ríkisins eiga á mörgum stöðum, enn fremur birgðahúsum og áhöldum, en sá eignaliður var um síðustu áramót hjá rafmagnsveitum ríkisins 14.3 millj. eða um það bil. Hjá héraðsrafmagnsveitum ríkisins er hins vegar talið það, sem lagt hefur verið á þessum árum í það að koma upp dreifilinum. Þegar þetta er lagt saman, hjá báðum þessum fyrirtækjum, sem hafa aðskilinn fjárhag eða sérstaka reikninga, hvort fyrirtækið fyrir sig, rafmagnsveitur ríkisins og héraðsrafmagnsveitur ríkisins, þegar það er lagt saman, sem varið hefur verið í stofnkostnað síðustu árin við framkvæmdir þessara fyrirtækja, þá kemur það fram, að árið 1957 voru framlögin 75.2 millj., ég sleppi minni einingum, 75.2 mill,j. 1957, 117.3 millj. 1958, 36 millj. 1959, en það ár voru þar að auki lagðar rúmlega 22.7 millj. í svonefnda Keflavíkurveitu, en sú framkvæmd var utan við 10 ára áætlunina og til hennar fékkst lánsfé erlendis frá, 10 millj. af svokölluðu PL–480 láni og þar að auki sérstakt lán fyrir erlendu efni til þessarar Keflavíkurlínu, svo að ekki þurfti að verja til hennar neinu fé, sem ætlað var til 10 ára áætlunarinnar, enda utan hennar, eins og ég áðan sagði. Árið 1960 nema þessar greiðslur vegna stofnkostnaðar alls 86.2 millj., en 1961 54.9 millj. Samtals sýna reikningarnir, að frá upphafi þessara framkvæmda og til síðustu áramóta er búið að leggja í stofnkostnað hjá rafmagnsveitum ríkisins og héraðsrafmagnsveitum ríkisins um 572 millj. kr.

Enn er eftir að koma upp orkuverum og aðalorkuveitum fyrir allmörg byggðarlög samkv. 10 ára áætluninni, og vitanlega þarf að ljúka því sem allra fyrst.

Raforkumálaskrifstofan hefur unnið að því nú undanfarið að athuga vegalengdir milli býla í sveitum, sem ekki hafa enn fengið rafmagn. Það er sú athugun, sem við fórum fram á með tillöguflutningi fyrir 2 árum, að væri hraðað sem mest og ekki er lokið og því flutt till. enn á ný um, að þessu verki verði lokið, þessum undirbúningsathugunum, á þessu ári, og í framhaldi af því verki verði gerðar áætlanir um dreifilínur um byggðir, sem enn hafa ekki fengið rafmagnið og þá yrði unnið að framkvæmd á strax og 10 ára áætluninni er lokið. Við dreifingu raforkunnar um sveitir hefur undanfarið verið fylgt þeirri reglu aðallega, að lagt hefur verið um þau svæði, þar sem línulengd frá aðalveitu er ekki meiri en um það bil 1 km á býli að meðaltall. í síðari áfanga þarf auðvitað að ganga miklu lengra og leggja raflinur um sveitir, þó að meðallinulengd milli býla sé miklu meiri, því að það er sjálfsagt að fullnægja raforkuþörf fólksins, að svo miklu leyti sem mögulegt er, með samveitum eða með byggingu vatnsaflsstöðva fyrir einstök býli, þar sem skilyrði eru til þess. En þar sem svo hagar til, að byggðin er svo strjál eða einstök býli eru svo afskekkt, að ekki þykir fært að leggja raflínu til þeirra frá samveitum og ekki eru heldur skilyrði til vatnsaflsvirkjunar, þar þarf vitanlega að grípa til annarra úrræða, þótt lakari séu og ekki komi að eins góðum notum. Þar þarf að koma til aukin aðstoð af opinberri hálfu frá því, sem nú er. Það er sanngirnismál, að þeir, sem búa við þessi erfiðu skilyrði, fái aðstoð frá því opinbera, sem ákveðin verði með hliðsjón af þeim framlögum, sem veitt hafa verið frá þjóðfélaginu í heild til þess að leggja raflínur um kauptún og sveitir.

Flestir landsmenn hafa þegar fengið rafmagnið á heimili sín. Og það má segja, að þeir hafi undantekningarlítið fengið þessi þægindi með verulegri aðstoð frá því opinbera, þótt nokkuð mismunandi sé. Ég held mér sé óhætt að fullyrða, að engu af hinum stærri orkuverum hér á landi, sem komið hefur verið upp til þess að fullnægja raforkuþörfinni á fjölbýlustu stöðum, hafi verið komið upp án ríkisaðstoðar. Ríkið hefur gengið í ábyrgð fyrir lánum til virkjananna og veitt fyrirgreiðslu á ýmsan hátt. Auk þess hafa þeir, sem þegar hafa fengið rafmagn, fengið verulegan beinan fjárhagslegan stuðning á undanförnum árum, eins og ég hef gert grein fyrir.

Þó að nú sé svo komið, eins og ég sagði áðan, að flestir landsmenn hafa þegar fengið rafmagnið inn á heimili sín, þá er það ekki nóg. Öll heimili landsins þurfa að fá rafmagnið og njóta þeirra mikilsverðu þæginda, sem það veitir. Og þetta þarf að vera svo fljótt sem mögulegt er. Og það er ekki svo mikið eftir til þess að ljúka þessu nauðsynjaverki, að það ætti að vera mögulegt að ljúka því á tiltölulega skömmum tíma, ef vel er að unnið. Og þeir, sem bíða eftir rafmagninu óþreyjufullir, eins og eðlilegt er, þurfa að vita hið allra fyrsta, hvers þeir megi vænta og hvenær. Þess vegna leggjum við flm. þessarar till. áherzlu á það, að rannsóknum og áætlunum um áframhaldandi framkvæmdir verði lokið hið allra fyrsta, svo að menn viti, hvers þeir mega vænta, og framkvæmdirnar fylgi svo á eftir með þeim hraða, sem mögulegt er.

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að óska þess, að þessum umr. verði frestað og málinu vísað til hv. allshn. til athugunar.