06.04.1962
Sameinað þing: 50. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 599 í D-deild Alþingistíðinda. (3561)

174. mál, raforkumál

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég skal nú ekki lengja mikið þær umr., sem fram hafa farið um þetta mál. Hæstv. ráðh., sem hér talaði áðan, lét, að ég ætla, orð falla um það, að hann vonaðist eftir, að þeim framkvæmdum, sem gert hefði verið ráð fyrir í 10 ára áætluninni, yrði lokið á tilsettum tíma. Þannig skildi ég orð hæstv. ráðh. Þessi 10 ára áætlun var, eins og kunnugt er, hafin árið 1954 og í viðauka við raforkulögin, sem um hana fjallaði, var gert ráð fyrir því, að henni yrði lokið á árinu 1963. Nú veit ég ekki með vissu, hvað hæstv. ríkisstj. hefur í huga, þegar hún ræðir um 10 ára áætlunina og framkvæmd hennar, en þegar ég tala um þá áætlun, þá á ég við þá áætlun, sem mér var kunnugt um, að fyrir lá á árinu 1957 um þessar framkvæmdir. Aðrar áætlanir hef ég ekki séð. Og ef það er svo, að þess megi vænta, að þeirri áætlun, sem fyrir lá á árinu 1957, í aprílmánuði, að ég ætla, á raforkumálaskrifstofunni, verði lokið á árinu 1963, þá er náttúrlega mjög ánægjulegt til þess að vita. Hins vegar, ef raunverulega hafa verið gerðar breytingar á þeirri áætlun siðan, sem núv. hæstv. ríkisstj. hefur fallizt á, þá væri náttúrlega einnig æskilegt að fá að vita um það.

Það kom fram hjá hæstv. ráðh., að áfram mundi hafa verið haldið undanfarin ár lagningu lína á sveitabæi, þannig að ekki hefði orðið neitt hlé á þeim framkvæmdum og að ekki færri sveitabæir hefðu nú á síðustu árum fengið rafmagn árlega heldur en undanfarið. Ég geri ráð fyrir því, að um þetta liggi fyrir skýrslur, sem hæstv. ráðh. og raforkuráð hafa í höndum. En ég vil leyfa mér að benda á það í þessu sambandi, sem hv. síðasti ræðumaður raunar gerði, að 10 ára áætlunin fjallar jöfnum höndum um undirstöðuframkvæmdir, þ.e.a.s. raforkuver og aðalorkuveitur, og um þær síðari framkvæmdir, sem á þeim byggjast, þ.e.a.s. dreifingu rafmagnsins til einstakra heimila í sveit og við sjó. Ég hygg, að nú síðustu árin hafi minna verið að því gert, sem ég leyfi mér að kalla undirstöðuframkvæmdir. Á árunum 1956 og 1957 var, ef ég man rétt, unnið að byggingu raforkuvera, bæði á Austfjörðum og Vestfjörðum, sem kostuðu mjög mikið fé, og einnig lagðar aðalorkuveitur miklar, en siðan hefur minna verið unnið að slíkum framkvæmdum. Ég man ekki eftir, að neitt verulega hafi verið unnið að byggingu raforkuvera síðan og að ég ætla ekki mjög mikið að lagningu aðalorkuveitna, en hins vegar byggist auðvitað dreifing orkunnar á heimilin á því, að raforkuver eða aðalorkuveita sé til staðar. Þó að til séu byggðarhverfi eða þéttbýlar byggðir í sveitum, þar sem meðalfjarlægð á milli býla er lítil, þá kemur það ekki að haldi, á meðan ekkert raforkuver er þar nálægt eða aðalorkuveita, sem hægt er að dreifa rafmagninu frá. Þess vegna er ekki hægt að framkvæma rafvæðinguna um land allt, nema þessar undirstöðuframkvæmdir séu fyrir hendi. Og ég leyfi mér alveg sérstaklega að benda á það, að hlé hefur orðið á þessum framkvæmdum. T.d. hefur ekki verið lögð aðalorkuveita til Norðausturlands, þ.e.a.s. um byggðir Norður-Þingeyjarsýslu, frá Laxá, ekki heldur um sunnanverða Austfirði og ekki norður til Vopnafjarðar, svo að ég nefni dæmi, frá orkuveri á Austurlandi. Þessar undirstöðuframkvæmdir hafa stöðvazt, en á 10 ára áætluninni voru þær. Á þessu vil ég leyfa mér að vekja athygli.

Varðandi það, hverjir sveitabæir eigi að fá rafmagn frá orkuveitum, þá vildi ég nú mjög taka undir það, sem hv. 1. þm. Vestf. (GíslJ) sagði hér áðan, að ég held, að við verðum að stefna að því, að sem allra flestir sveitabæir fái raforku frá orkuverum, það eigi að vera aðalstefnan, að sem allra flest og helzt öll sveitaheimili fái raforku á þann hátt. Hitt er svo annað mál, að það getur náttúrlega í einstaka tilfelli staðið svo á, að þetta sé ekki mögulegt, en þetta er það, sem fyrir okkur á að vaka í þessum málum. Ég tel, að það nái engri átt að binda sig við þá fjarlægð, sem raforkumálaskrifstofan hingað til hefur aðallega bundið sig við, sem mun vera eitthvað lítið yfir 1 km á milli bæja. Við verðum að setja markið miklu hærra í þeim efnum og gera ráð fyrir því sem takmarki, að það teljist til undantekninganna, ef heimilin fá ekki rafmagn á þennan hátt. (Forseti: Má ég spyrja hv. þm., hvort hann á miklu ólokið af ræðu sinni?) Hæstv. forseti. Ég hef lokið því, sem ég ætlaði að ræða að þessu sinni, og skal ljúka máli mínu.