21.03.1962
Sameinað þing: 44. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 600 í D-deild Alþingistíðinda. (3566)

175. mál, ráðstafanir til verndar erninum

Flm. (Bjartmar Guðmundsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt þrem öðrum hv. þm. að flytja þáltill. þess efnis, að ríkisstj. sé falið að láta rannsaka og gera athugun á, hvað hægt muni vera að gera eða hvað tiltækilegast muni vera að gera til þess af afstýra því, að íslenzkt örninn verði aldauða í landinu.

Árið 1959 lét menntmrn. gera athugun á því, hvað margt muni vera til af þessum fuglum í landinu þá. Var mjög virðingarvert og nauðsynlegt að athuga þetta, og til þessarar athugunar valdist ungur náttúrufræðingur, ötull maður, og út úr þeirri rannsókn hefur það komið, að þetta ár, 1959, munu hafa verið 11 arnapör við hreiður, öll á Vestur- og Suðvesturlandi. Auk þess virtist athugun leiða í ljós, að nokkrir stakir fuglar væru hér og þar, sem ekki voru við hreiður, eða alls um 38 fuglar til í landinu.

Það er löngu vitað og var löngu vitað, að örninn var orðinn mjög fáliðaður hér á landi, og þess vegna var mjög nauðsynlegt að gera þessa athugun til að fá það nokkurn veginn ljóst fram, hvað margir fuglar væru til. Eins og allir vita, þá er þessi fugt alfriðaður og hefur verið um langan tíma, en þó mun honum alltaf hafa fækkað fyrir það. Og eins og vikið er að í grg. þessarar þáltill., þá munu ástæður vera þær, að þessum fugli hefur jafnt og þétt fækkað vegna eitrunar, sem borin hefur verið út fyrir refi. Og þrátt fyrir það, að hann er alfriðaður og það liggja við allháar sektir, að þessi fugl sé drepinn, þá leikur þó grunur á því, að honum sé eitthvað eytt viljandi af manna völdum. Það eru t.d. ekki nema fáir dagar síðan það kom fram í blaðagrein, að eitt par hefði verið drepið á eitri árið sem leið við Breiðafjörð, í eyju á Breiðafirði, við hreiður.

Það verður, held ég, naumast um það deilt, að það er mjög leitt og raunar mikill vansi fyrir þjóðina, ef hún lætur þennan fágæta og tilkomumikla fugl deyja út, enda þótt það sé á allra vitorði, að hann er ekki nytjafugl. Bændur þeir, sem undir því búa að hafa erni í sinni landareign, kvarta að sjálfsögðu mikið yfir því sumir hverjir, að þeir geri skaða. Þó er nokkurt álitamál um það, hvað örninn gerir mikinn skaða, það hefur ekki verið rannsakað, en einhvern skaða mun hann gera. Það vill þannig til, að ég hef í höndum bréf frá einum merkisbónda, sem leggur mjög raunhæfan og réttan skilning á þessi mál, en hefur arnarhreiður í sinni landareign eða hefur haft, og ég held, að ég geri þeim bónda fremur sóma en minnkun með því að leyfa mér að lesa hér upp kafla úr þessu bréfi, með leyfi hæstv. forseta:

„Fyrir að eyða erni er 500 kr. sekt,“ segir hann. „Þetta sektarákvæði er engin vörn gegn því, að ernir séu drepnir. En hitt er heldur ekki rétt, að einstöku menn verði fyrir stórtjóni af völdum arnarins og beri það að öllu leyti óbætt og þeirra eina vörn sé að fyrirfara þessum fuglum á einhvern hátt án þess að verða fyrir barði laganna. Ég held, að það sé óhjákvæmilegt, að ríkisvaldið taki þátt í því tjóni, sem örninn veldur, og að mínu áliti væri mikið öryggi fyrir líf arnarins að bæta þeim þetta í einhverri mynd, svo að þeir þyrftu ekki að byrja á því að drepa fuglinn, heldur leita bóta, ef hann veldur skaða í landareign þeirra. Margir hafa sagt við mig, að þeir væru alveg hissa á því, að ég, sem er góð skytta, skuli ekki þegjandi og hljóðalaust skjóta ernina. Það er þessi hugsunarháttur, sem ég óttast mjög, og eina ráðið gegn honum eru bætur, veittar í tíma, því að það er gamalt orðtak, að það sé of seint að iðrast eftir dauðann. Mér verður hugsað til þess, hefði ég farið í það að tortíma öllum örnunum, sem hér hafa alizt upp, — en hér hefur verið uppeldisstöð fyrir þá, — og ég held, að það hefði orðið erfitt síðar meir að bæta það tjón, sem þá hefði verið unnið. Eitt er enn, sem ég tel mjög nauðsynlegt til verndar erninum, það er áróður um fegurð þessa tignarlega fugls og að auka metnað okkar í að reyna að varðveita hann frá útrýmingu og benda þeim mönnum, sem sitja í æðri valdastólum, á það, að eitthvað þurfi að gera í þessu máli til þess að varðveita tilveru hans. Það þarf að skapa erninum sem bezt öryggi, svo að sá stofn, sem enn er til, réni ekki, heldur hitt, að hann heldur haldist fyllilega við og fari vaxandi og að stofninum megi skila í hendur afkomenda okkar og óborinna kynslóða, svo að ekki fari fyrir honum eins og geirfuglinum forðum. Mér sýnist, að að óbreyttu ástandi sé tilveru arnarins stefnt algerlega í voða og áður en langt um líður verði hann horfinn með öllu af landinu, en ef okkar kynslóð hendir það slys að útrýma íslenzka erninum, þá sé hún með réttu ámælisverð.”

Svo getur þessi bóndi um, að það sé mikið spurt um það af erlendum ferðamönnum, sem uppi séu hér á landi, hvort það séu tök á því, ef þeir komi á staðinn, eða líkur til þess, 30% líkur til þess, að fá að sjá örn, þá muni þeir hiklaust leggja í mjög mikinn kostnað til þess að koma og sjá hann.

Það er óþarfi, held ég, að fara um þetta mál miklu fleiri orðum. Ég trúi ekki öðru en að öllum Íslendingum sé það mikið metnaðarmál, að þessum fugli verði ekki algerlega útrýmt. En eftir þeim fregnum, sem berast af þeim stöðvum, þar sem hann hefur alið aldur sinn nú síðustu áratugina einungis, en það er á Vestfjörðum og við Breiðafjörð, þá berast af því árlega fregnir og það eftir mjög öruggum heimildum, að hann falli af mannavöldum árlega meira og minna, sumpart af því, að sumir þeir, sem hafa hann í landareign sinni, geta ekki liðið hann bótalaust og grípa til einhverra leyniráða til að ráða hann af dögum, og í öðru lagi af því, að það er borið út eitur fyrir önnur dýr, einkum refi og einnig fyrir svartbak, sem hlýtur undir ýmsum kringumstæðum að verða þessum fugli að skaða. Ég veit vel, að þetta er nokkuð mikið vandamál, hvernig eigi á þessu að taka, en ég hygg, að það sé ekki ýkjamikið vandamál að ná samkomulagi og samvinnu við bændur, þar sem ernir verpa, að þeir eyði þeim ekki þar, en það verður að sjálfsögðu að tryggja með einhverjum fébótum til þeirra í einhverju formi, einhverjum skaðabótum, svo að þeir telji sér frekar hlunnindi að því að hafa fuglinn í sinni landareign heldur en skaða.

Annað atriði í þessu máli er það, að ég er persónulega á þeirri skoðun, að þrátt fyrir það að takist að halda verndarhendi yfir þeim stöðum, þar sem hann verpir, þá hrökkvi það ekki til, meðan leyft er að eitra eins mikið og gert er, bæði fyrir svartbak og fyrir ref, eftirlitslaust. Það verður sjálfsagt öllu meira vandamál við að eiga, en eitrun er afskaplega mikil vandræðaframkvæmd til að eyða dýrum, og ætli að viðhafa hana með ákaflega mikilli varúð, og ég held, að það sé í raun og veru ekki sæmilegt að leyfa eitrun, nema aðeins af völdum mönnum, sem til þess væru hreint og beint fengnir að framkvæma slíkt.

Í lögum nú er að vísu fyrirskipað að eitra fyrir refi, en undanþága mun vera frá því, að eitrað sé fyrir refi á þeim svæðum, þar sem örninn heldur sig við hreiður. Þetta er náttúrlega mjög nauðsynlegt, það sem það nær. En hins vegar hlýtur það alltaf að koma fyrir meira og minna, að þessi fugl fljúgi út frá sínum hreiðurstöðvum eða sínum aðalstöðvum, og þá getur hann hitt á eitruð hræ annars staðar.

Þáltill. þessi gengur aðeins út á það að fela ríkisstj. að halda áfram þeirri virðingarverðu byrjun á rannsókn á þessum fugli, sem gerð var 1959. En rannsóknin ein er að sjálfsögðu gagnslítil, nema aðeins fræðilega, ef ekkert verður gert raunhæft í því að stemma stigu fyrir því, að þessi fágæti og tignarlegi og merkilegi fugl verði útdauður. Það má taka það fram, að sá stofn, sem hér er, þessir milli 30 og 40 fuglar, munu vera algerlega staðbundinn stofn, þótt að vísu séu til enn ernir hér í nágrannalöndum af sama stofni, eins og t.d. í Grænlandi og Skandinavíu, en ég hef lesið norska bók um örninn í Noregi, sem er gefin út fyrir eitthvað rúmum 20 árum, og þar segir, að hann sé alveg við það að verða útdauður þar í landi, og þar er kennt um eitrun.

Ég vildi óska þess, að hv. Alþingi gæti fallizt á að samþykkja þessa till., í von um það, að af henni spretti einhverjar raunhæfar aðgerðir, til þess að það komi ekki fyrir þá kynslóð, sem nú lifir í landinu, að vera völd að því, að þessi merkilegi fugl hverfi með öllu og landið verði um leið mun fátækara að því er snertir dýraríkið.