21.03.1962
Sameinað þing: 44. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 603 í D-deild Alþingistíðinda. (3567)

175. mál, ráðstafanir til verndar erninum

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Enginn skilji orð mín svo, að ég vilji örninn feigan eða aldauðan úr íslenzku dýraríki, því fer fjarri. Það yrði áreiðanlega mikill sjónarsviptir að svo tígulegum fugli og til vansæmdar, ef svo tækist til af manna völdum. En í þessu máli vil ég alveg sérstaklega benda á eitt atriði. Þess er getið í grg. till., að örninn sé enginn nytjafugl og sé óboðinn gestur í grennd við æðarvörp og víðar. Þetta mun orð að sönnu. Á hinn bóginn verður ekki um það deilt, að æðarfuglinn er einhver mesti nytjafugl íslenzkur og að þeim stofni steðja árásir úr ýmsum áttum. Margir bændur við Breiðafjörð hafa lagt fram mikla vinnu og ástundun á undanförnum árum við að hlúa að æðarfuglinum og rækta upp æðarvarp. En þeir hafa oft átt í vök að verjast, bæði gegn loftárásum ránfugla og skotgrafahernaði minksins, þar sem hann kemur við sögu. Svartbakar og minkar eru hvarvetna réttdræpir og fé lagt til höfuðs þeim, örninn á hinn bóginn alfriðhelgur, svo sem eðlilegt og sjálfsagt er.

Þótt örninn sé orðinn mjög fáliðaður, að því er talið er, er þó álitið, að hann valdi tilfinnanlegu tjóni á vissum stöðum. Mér er kunnugt um nokkra bændur í Barðastrandar- og Dalasýslu, sem leitað hafa bóta til hins opinbera út af usla, sem örninn er talinn valdur að. Þessir aðilar hafa engin svör fengið, hvað þá fébætur, enda mun enginn þeirra hafa leitað til dómstóla enn sem komið er. Mun þó eitt slíkt mál vera í undirbúningi, að því er ég frétti, um eyjabónda nokkurn, þar sem örn settist upp í varplandi. Að því er sagan segir, þá hringdi hann hingað suður til hins opinbera, í ráðuneytið, og spurði, hvort hann mætti skjóta örninn, en fékk að sjálfsögðu neitandi svar. Örn þessi sat svo uppi í varplandinu um lengri tíma og skildi við það svo að segja í rúst. Þetta var vorið 1957, en varpið mun ekki vera búið að ná sér enn. Skaðabótamál út af þessu efni mun nú vera í undirbúningi. En hvað sem því liður, þá þurfa að fást hrein og greið svör í þessu efni, og ég vil sérstaklega beina því til nefndar þeirrar, er fær tillögu þessa til meðferðar, að hún gefi þessu atriði fullan gaum, svo sem raunar er að vikið í grg., og reyni að finna viðunandi lausn á þessu máli.