28.03.1962
Sameinað þing: 46. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 608 í D-deild Alþingistíðinda. (3578)

191. mál, byggingarannsóknir

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. — Ég geri ráð fyrir því, að allir hv. þm. séu sammála um það, að byggingarannsóknir og rannsóknir í þágu landbúnaðarins séu nauðsynlegar og að það megi miklar fjárhæðir spara, ef rétt og skipulega er unnið að þeim málum. En það er ekki víst, og það er alls ekki eðlilegt, að menn séu sammála um það, hvaða leiðir ber að fara til þess að vinna að þessu marki. Hér hefur verið vitnað í n., sem var skipuð skv. lögum frá 1957, byggingarnefnd, sem átti að vera leiðbeinandi um hagkvæmar byggingar og gera till. um ódýrari byggingar en verið hefur.

Ég komst í snertingu við þessa n., og ég er viss um það, að n. vildi vinna, það voru mætir menn í henni, en það kom í ljós strax á fyrsta ári, að það veganesti, sem henni var veitt úr ríkissjóðnum, var allt of lítið, til þess að hún gæti látið nokkuð verulega að sér kveða. Á árinu 1958 hélt n. 6 fundi, eins og sagt var hér áðan, og ferðaðist nokkuð um landið, kynnti sér byggingar og ýmsar framkvæmdir í landinu og gerði sér áreiðanlega ljóst, að margt mátti betur fara en fer.

Nú er það svo, að á vegum Búnaðarbankans er teiknistofa, sem hefur verið leiðbeinandi um langt skeið og unnið landbúnaðinum að því leyti mikið gagn, og það hefur komið til tals að færa út verksvið teiknistofunnar og á vegum hennar væru gerðar vissar framkvæmdir og athuganir, sem n. var ætlað að vinna, því að sannleikurinn er sá, að til þess að vinna þetta verk vantar ekki nefnd manna, heldur fjármagn, og af því að fjármagnið vantar, þá þarf að standa að því á sem ódýrastan hátt og nota þau: tæki og þá aðstöðu, sem fyrir hendi er, í stað þess að vera að koma af stað nýju bákni og nýrri nefnd. Þetta segi ég, þótt ég viti það, að í þessari n., sem byrjaði að starfa, voru góðir og gegnir menn, sem vildu vel. En fjárveitingavaldið mun hafa hugsað sem svo, að aðstaðan væri fyrir hendi, ef hún væri nýtt: teiknistofa Búnaðarbankans, byggingarfulltrúar í flestum héruðum landsins og margir þeirra verkfræðingar. Þetta vitanlega á að nota sem allra bezt og vinna að því, eins og hér var sagt áðan, að rannsaka, á hvern hátt megi draga úr byggingarkostnaði og notfæra sér tækni og þekkingu, eftir því sem mögulegt er. Og ég hygg, að með því að sameina nú þetta, byggingarfulltrúana í sveitunum, sem margir eru verkfróðir menn, og bæta að einhverju leyti aðstöðuna í teiknistofunni, þá megi þetta verk vinnast, með því líka að vera í nánu sambandi við iðnaðardeild atvinnudeildar háskólans í sambandi við rannsóknir á byggingarefnum o.s.frv. Og það kemur vitanlega ekki til greina, að einstakir bændur séu að gera tilraunir í þessu skyni.

Það er vitanlega allt of kostnaðarsamt. Bændur verða að leita til þessara stofnana, og þeir, sem málum ráða, þurfa að beita sér fyrir því, að sú aðstaða, sem fyrir hendi er, verði hagnýtt, og hygg ég þá, að það megi ná því marki, sem að er keppt, með ef til vill kostnaðarminni hætti en þótt sú aðferð væri notuð, sem fyrirhuguð var með l. 1957, að fá nefnd manna til starfa í þessu efni. Það skal fúslega víðurkennt, að það var vel meint með þessari lagasetningu, en að athuguðu máli mun hitt vera kostnaðarminna, að bæta aðstöðuna frá því, sem hún er, í þeim stofnunum, sem þegar er yfir að ráða.