05.02.1962
Sameinað þing: 41. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 612 í D-deild Alþingistíðinda. (3631)

112. mál, fjárfesting Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna erlendis o.fl.

Flm. (Einar Olgeirsson):

Forseti. Ég flutti á síðasta þingi tillögu, sem að nokkru leyti var samsvarandi þeirri, sem nú liggur fyrir á þskj. 193, um, að þá yrði skipuð nefnd innandeildarmanna til þess að rannsaka alla aðstöðu viðvíkjandi Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, sérstaklega fjárfestingu hennar erlendis. Það urðu þó nokkrar umræður um þá tillögu í fyrra, og einn af þeim mönnum, sem eiga sæti í stjórn Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna, sem þá átti hér sæti á þingi, það var hv. 3. varaþm. Austf., Einar Sigurðsson, gaf allmiklar upplýsingar um það mál í þeim ræðum, sem hann flutti, og allmikið af þeim upplýsingum hef ég tekið upp í þá greinargerð, sem samin er nú fyrir þessu máli. Hins vegar komst málið ekki lengra en til nefndar þá, og tel ég það illa farið. Þó að raunar þessi stjórnandi úr Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna hafi þá brugðizt mjög vel við og gefið ýmsar veigamiklar upplýsingar í þeim málum, hefði verið mikil nauðsyn á, að þetta mál hefði verið rannsakað til fullnustu, skipuð í það rannsóknarnefnd af hálfu Alþ. og síðan unnið í þessu máli. Það er alltaf réttast að taka svona mál fyrir og kryfja þau til mergjar, þegar þau koma upp og áður en þau vandræði eða jafnvel þau hneyksli, sem kunna að vera í sambandi við þau, ná að þróast meira.

Eftir þeim upplýsingum, sem lágu fyrir í fyrra, ef ég man rétt, þegar hv, þáv. 3. varaþm. Austf. gaf þessar upplýsingar, þá nam það í kringum 150 millj. ísl. kr., sem Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna hafði fest erlendis í fyrirtækjum þar eða lánað þar út eða stóð í birgðum þar eða var á annan hátt raunverulega tekið út úr rekstrinum hér heima og varið til ýmissa ráðstafana erlendis, sem hvorki raunverulega lög Sölumiðstöðvarinnar né ríkislögin gera ráð fyrir. Eins og menn vita, er Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna fyrst og fremst sölufélag, sem á að annast sölu á vissum afurðum landsmanna og á yfirleitt að greiða til bankanna veðin, sem á fiskinum hvíla, þegar fiskinum er afskipað. En einmitt það, sem m.a. upplýstist í fyrra, kom þá greinilega fram, var, að svo og svo miklu af fiski hafi verið afskipað, án þess að veðin væru greidd, þannig að bankarnir áttu í raun og veru áfram veð í fiskinum, sem kominn var út til Ameríku og lá þar eða í öðrum löndum, og jafnvel í fiski, sem ef til vill var búið að einhverju leyti að vinna úr í verksmiðjum og kominn lengra áleiðis til smákaupmanna eða jafnvel neytenda.

Nú hefur það gerzt síðan í fyrra, — Alþingi gerði því miður ekki meira í þessari rannsóknarnefndartillögu en að láta hana fara til n., að þetta mál hefur haldið áfram að þróast, og nú hefur farið svo, að í blöðum hér, þ. á m. blöðum ríkisstj., hefur allmikið verið um þetta mál rætt, — og án þess að ég geti nokkuð um það fullyrt, þá veit ég, að það hefur verið sett fram, að aðstaða S.H. viðvíkjandi þeim fjármunum, sem hún hefur með höndum, hafi orðið lakari en hún var í fyrra, og það muni jafnvel vera allmiklu meira fé, sem nú er orðið meira og minna fast erlendis eða er í veltu þar, heldur en í fyrra. Og það virðast nú þegar hafa orðið nokkur átök í sambandi við þessi mál. A.m.k. hefur það gerzt, að starfsmenn hjá S.H. eða hennar fyrirtæki erlendis, Coldwater Seafood Corporation, hafa verið látnir fara, hafa komið hingað heim, hafa flutt hér skýrslur til stjórnar Sölumiðstöðvarinnar og hafa síðan, þegar þeir komu út aftur til Bandaríkjanna, að því er meira að segja stjórnarblöð hafa sagt, verið látnir fara, verið sagt upp af framkvæmdastjóra þar, þannig að það er alveg greinilegt, að uppi er í Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna allmikil deila og mismunandi skoðanir á meðal starfsmanna Sölumiðstöðvarinnar um, hvernig þessu máli sé komið og hvernig þessum málum hafi verið stjórnað.

Því miður er ekkí sá maður hér, sem í fyrra átti sæti hér á þingi sem 3. varaþm. Austf. og talaði hér allmikið um þetta og varði þá alveg sérstaklega framkvæmdastjóra Sölumiðstöðvarinnar, Jón Gunnarsson. Ég veit ekki, hvort hann mun vera sömu skoðunar nú, eins og hann var þá, að hefja þann mann mjög upp til skýjanna, en heyrt hef ég þó, að að einhverju leyti hafi hans skoðanir breytzt. Ég vona hins vegar, að eins og þetta mál er komið nú, þá verði þær umr. um þetta mál, að það komi greinilega fram, hvers konar skoðanir eru uppi innan Sölumiðstöðvarinnar um þetta. Ég held, að þörfin á að rannsaka þetta mál hafi vaxið mjög mikið frá því í fyrra. Mér er kunnugt um, að þeir tveir bankar, sem lána S. H. og hraðfrystihúsaeigendum og hraðfrystihúsunum nokkurt fé út á þeirra fisk, hafa þegar sent bankastarfsmenn, — það eru bæði Landsbankinn og Útvegsbankinn, — vestur um haf til þess að rannsaka þar ýmislegt viðvíkjandi fjárreiðum, þannig að þessir bankar, sem hafa gert alveg sérstakar ráðstafanir til þess að reyna að tryggja sín veð betur, þeir álíta ástæðu til þess að athuga, hvernig stendur nú með Sölumiðstöðina. Jafnframt verðum við varir við það, að Sölumiðstöðin fer fram á, að ríkið tryggi henni einokun sér til handa. Og þegar slíkar kröfur koma fram, þá er það ekki óeðlilegt, að Alþ. athugi sinn gang alveg sérstaklega vel og sjái til, hvernig stendur með þetta allt saman, og taki svo sínar ákvarðanir, því að eins og við vitum í sambandi við útflutninginn á freðfiski, er um að ræða stærsta vöruflokk, sem Íslendingar flytja úr landi, þýðingarmestu útflutningsvöru Íslendinga. Þess vegna er þarna um alþjóðarmál að ræða, sem óhjákvæmilegt er að taka fyrir. Og því hefur meira að segja verið skellt fram, að sumt af þeirri fjárfestingu, sem bætzt hefur síðan í fyrra við byggingar í þeirri verksmiðju, sem Sölumiðstöðin eða Coldwater Seafood Corporation á, hafi verið aukið við, án þess að tryggt væri og jafnvel að ýmissa áliti þannig, að það væri skakkt ráðið. Ég skal engan dóm á það leggja. Þessar skoðanir hafa hins vegar komið fram, að þarna hafi meira að segja verið framkvæmd fjárfesting upp á 25 millj. kr., sem væri mjög tvísýn, og þannig er hér allt í kringum okkur í blöðum höfuðstaðarins verið að koma fram með alls konar aðfinnslur, sem er alveg nauðsynlegt að Alþ. og rannsóknarnefnd, sem það setur, kryfji til mergjar.

Þegar við ræddum þessi mál hér í fyrra, var sá stjórnarmeðlimur úr Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, sem hér talaði og ég áður hef getið, mjög bjartsýnn á þá fjárfestingu, sem var erlendis. Nú hefur það verið upplýst síðan, að fjárfesting, sem hafin var í Hollandi, hafi verið stöðvuð, að það sé hætt við það fyrirtæki, sem Sölumiðstöðin hafði ætlað að byggja upp í Hollandi. Og það hefur verið upplýst, að ríkið hafi ekki beðið neitt tjón í því sambandi og sú ábyrgð sé brott fallin, sem veitt var á fjárlögum fyrir því fyrirtæki. En ég vil samt leyfa mér að spyrja: Skuldar S.H. allmikið fé í hollenzkum bönkum, kannske svo að skiptir allmörgum milljónum ísl. kr., vegna undirbúnings að þeirri fjárfestingu, sem hætt var við? Er m.ö.o. búið að hætta við það, sem meiningin var að reyna að gera í Hollandi? Í öðru lagi: gengur þetta erfiðlega í Bretlandi? Ég mun síðar koma að því, sem Sölumiðstöðin sjálf virðist nú segja um þau mál í sínu blaði, en að því er virðist gengur það mjög miklu verr en leit út eftir ræðum þeim, sem stjórnarmeðlimur S.H. flutti hér í fyrra. Og í þriðja lagi: það virðist hafa samfara aukinni fjárfestingu í Bandaríkjunum orðið nokkurt tap á rekstri þeirra fyrirtækja, sem Sölumiðstöðin á þar, þannig, eins og ég gat um áðan, að bankarnir eru farnir að óttast um sitt fé þar og farnir að láta athuga sérstaklega þessa hluti. Á öllum þessum þrem stöðum, þar sem Sölumiðstöðin hefur verið að berjast, í Hollandi, Englandi og Bandaríkjunum, virðist alls staðar ástæða til þess að athuga nokkuð, hvað þar sé að gerast.

Ég átaldi nokkuð í fyrra það einræði, sem lengi vel hefur ríkt í Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna um framkvæmdir, sérstaklega af hálfu framkvæmdastjóra hennar, Jóns Gunnarssonar, og deildi allmikið á það mikla vald, sem honum hefði verið fengið í hendur. Ég sé nú þegar á þeim framkvæmdum, sem gerðar hafa verið af S.H. og hennar stjórn, að nokkrar breytingar hafa verið gerðar á um stjórnina í Bandaríkjunum á Coldwater Seafood Corporation, þannig að að einhverju leyti hefur S.H. þótt nauðsynlegt að taka í taumana og láta ekki þennan alheimsforstjóra vera þarna einan, bæði sem forstjóra og þann eina stjórnanda í því fyrirtæki. En það, sem þó alveg sérstaklega er eftirtektarvert og gefur Alþ. ástæðu til að athuga mjög nákvæmlega, hvernig þessum málum sé komið, er það, sem sjálf Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna eða hennar stjórn segir í síðast útkomna blaði, Frosti, sem Sölumiðstöðin gefur út, janúarblaðinu núna 1962. Þar er bókstaflega rekið upp neyðaróp til þjóðarinnar og gefin lýsing á ástandinu, sem gefur okkur fyllilega ástæðu til þess, ekki aðeins sérstaklega að taka þetta mál fyrir og taka upp þær rannsóknir, sem ég lagði til að teknar væru upp í fyrra, heldur líka ræða málið nokkuð almennt.

Í þessu blaði S.H. er sagt ýmislegt, sem ég mun nú vitna í og gefur okkur ástæðu til að kryfja þessi mál miklu betur til mergjar. Á fyrstu síðunni í því blaði stendur, með leyfi hæstv. forseta:

„Frjáls samkeppni í útflutningsverzluninni á því aðeins rétt á sér, ef hún getur tryggt framleiðendum og þjóðinni í heild hátt verð og góð viðskiptakjör í nútíð og framtíð.”

Það er mjög ánægjulegt að heyra það frá hálfu þeirra þingmanna, sem eiga sæti í stjórn S.H., og á þeim þingmönnum byggist nú meiri hl. hæstv. ríkisstj. og öll hennar pólitík, að þeir eru m.ö.o. ekkert sérstaklega trúaðir á frjálsa samkeppni og álíta, að það geti verið mjög efasamt, hvenær og að hve miklu leyti frjáls samkeppni eigi rétt á sér. Það, sem prédikað hefur nú verið fyrir okkur hér, þingmönnum og þjóðinni undanfarin þrjú ár, það hefur verið, að frjáls samkeppni væri fagnaðarboðskapur, sem okkur bæri að grípa fegins hendi við, og alveg sérstáklega hefur einn af þeim þm., sem ég gat um áðan, 3. varaþm. Austf., meðlimur í stjórn S.H., verið hvað mestur boðberi einmitt þessarar frjálsu samkeppni og hins frjálsa einstaklingsframtaks. En nú virðist svo komið, undireins og fer að bera eitthvað á því, að það sé farið að beita svokallaðri frjálsri samkeppni í sambandi við þessa útflutningsvöru Íslendinga, að þá komi Sölumiðstöðin og hrópi nú upp: Frjáls samkeppni á engan rétt á sér.

Mér þykir satt að segja ákaflega vænt um, að þessir hv. þm. og stjórnarmeðlimir Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna skuli vera að átta sig á þessu. Það var að vísu ekki seinna vænna, frjáls samkeppni dó að miklu leyti út á Íslandi í flestum greinum útflutnings á fiskafurðum fyrir rúmum 30 árum. Og frjáls samkeppni tók yfirleitt að deyja út í heiminum fyrir 70 árum, svo að það hafa ekki verið nema hreinar afturgöngur og vofur, sem hafa boðað hana síðan. En samt hefur hæstv. ríkisstj. og hennar fylgifiskum þótt rétt að vera að koma upp með þessar vofur yfir okkur síðustu tvö, þrjú ár. Það er þess vegna mjög gott, ef þessir menn, sem ráða meiri hl. hér á Alþingi, eru nú eitthvað farnir að átta sig. Enn fremur segja þeir, með leyfi hæstv. forseta, á 8. síðunni í áframhaldi þessarar sömu greinar, sem heitir: „Brezki fiskmarkaðurinn og frjáls samkeppni“, þessi orð:

„Þeir, sem eitthvað þekkja til markaðsmála og sölu hraðfrystra fiskafurða erlendis, vita, að á hinum stóru mörkuðum ræður ekki frjáls verðmyndun verði á hraðfrystum afurðum.”

Jæja, það var mikið, að þeir uppgötvuðu það. Þetta höfðu ýmsir fleiri vitað, áður en farið var að boða hér fyrir þremur árum, að það ætti að endurreisa hina gömlu, góðu daga frjálsrar samkeppni, og dálítið undarlegt, að þeir menn skuli hafa verið að taka þátt í þeim boðskap, sem nú virðast vera farnir að reka sig á, þegar einhverjir menn gera tilraun til þess að setja þeirra kenningar út í praxis með því að fara að beita þeirri frjálsu samkeppni.

Og hvað segja svo þessir herrar meir í þessari sömu grein, með leyfi hæstv. forseta? Þeir segja: „Höfuðeinkenni brezka markaðsins er, að fáeinir stórir aðilar ráða mestu um framleiðslu og sölu og þar með alla verðmyndun á hraðfrystum fiskafurðum.“

Jæja, eru þeir þá komnir að þeirri niðurstöðu, að það sé ekki frjáls samkeppni, sem ræður um verðmyndun á fiskafurðum? Og kannske, ef þeir athuguðu dálítið fleiri hluti, þá sæju þeir, að þorrinn af flestum vörum, sem framleiddar eru í okkar kapítalíska heimi núna, hlíta ekki lögmálum frjálsrar verðmyndunar, af því að frjáls samkeppni er ekki lengur til. Hún fór að deyja út fyrir 70 árum og er að mestu leyti dauð, af því að þar eru voldugir hringar á öllum þessum sviðum, sem ráða verðmynduninni. Ég sé, að þessir menn reka sig á, þar sem þeir eru með nefið og hagsmunina niðri í, en virðast lítið hugsa um allar hinar greinarnar, þar sem þetta sama ríkir.

Það heldur áfram hér í Frosti, með leyfi hæstv. forseta:

„Í Bretlandi eru 50 milljónir íbúa. Ofanskráð tafla, sem birt er hér, sýnir, að í Grimsby eru það sjö fyrirtæki, sem framleiða 98.8% allra hraðfrystra sjávarafurða. í Hull framleiða 7 fyrirtæki 86.7% af heildarframleiðslunni. Á öllu Stóra-Bretlandi framleiða og selja raunverulega aðeins 3 fyrirtæki 66% af heildarhraðfrystiframleiðslunni. Fyrirtæki þessi eiga auk þess hlutdeild í hundruðum togara, verzlana, geymslufrystihúsa og dótturfyrirtækja um allt England.“

Mér finnst nú satt að segja dálítið gaman að því, að loksins skuli þessir hv. stjórnendur í Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna - og þar með þrír þingmenn stjórnarflokkanna — fara að koma með þessar upplýsingar og það sérstaklega í sambandi við það, að þeir eru nú að ákalla sér til hjálpar hæstv. núv. forsrh., einmitt m.a. á móti þessum einokunarhring, sem þeir þarna nefna, Unilever.

Það hefur sem sé komið fyrir áður, að við höfum minnzt á þennan hring hérna, og það hefur verið varað við honum og hans valdi. Og þetta smávald, sem hérna er lýst í sambandi við söluna á hraðfrystum fiski í Bretlandi, þó að hann algerlega ráði þar, það er ekki nema hverfandi, pínulítill hluti af valdi þessa hrings. Þessi hringur er sterkasti aðilinn í togaraútgerð Bretlands. Þessi hringur á meiri hlutann í togurum Vestur-Þýzkalands. Þessi hringur á helminginn af hlutafénu í hvalveiðiflota Norðmanna. Þessi hringur á allar lýsisherzluverksmiðjur í Vestur- og Norður-Evrópu. Og það er þó ekki nema tiltölulega litið hjá því, sem þessi hringur á í United African Company, sem hefur ginið yfir megninu af allri feitiframleiðslu veraldarinnar. Og þetta áttu þessir góðu menn að geta vitað, m.a. af því, að margir þeirra hafa verið svo lengi hér á þingi, að þeir hafa hlustað á, einmitt þegar ég og hæstv. núv. forsrh. vorum stundum að karpa um þennan hring hér á þingi áður, og hæstv. forsrh. vildi þá löngum gera sem minnst úr honum. Það er þessi sami hringur, sem hefur ráðið verðinu á síldarolíunni í öllu síðasta stríði, hélt því í 38 sterlingspundum allt stríðið. Og það var ekki í fyrsta skipti, sem hann kom við sögu hérna heima. Það var hann líka, sem stjórnaði nokkurn veginn öllu í fallinu á síldarlýsinu fram til 1933 og þar á eftir. Þetta er sá hringur, sem mest hefur einokað Íslendinga allan tímann. Og það er gott, að nú skuli loksins vera að opnast augu þessara hv. þm. fyrir, hvað þetta sé. Flestallir menn, sem eitthvað hafa hugsað um hagfræði og efnahagsmál í heiminum, vita þetta fyrir löngu. Ég meira að segja hef bent þessum hv. þm. á það hér áður að afla sér t.d. amerískra upplýsinga um þennan hring. Eitthvað það bezta, sem um hann hefur komið, hefur verið einmitt það, sem eitt af viðlesnustu fjármálablöðum Bandaríkjanna, Fortune, skrifaði í gamla daga, 1948, um Unilever-hringinn og um öll hans heimssambönd, vegna þess að yfirleitt hefur þessi hringur ekkert sérstaklega mikið um sig, að hætti t.d. olíuhringanna, en megnið af öltum fæðutegundum, sem seldar eru í Bretlandi, og öllu því, sem selt er til hreinlætistækja, og annað slíkt, það er eign þessa hrings, jafnvel þó að það sé selt undir fjöldanum öllum af vörumerkjum.

Þegar þess vegna Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna og hennar stjórnendur nú eru að kvarta yfir einokunaraðstöðunni á brezka fiskmarkaðinum, þá mátti það raunar ekki seinna vera, að þessir menn færu að reka sig á. En það er þá bezt, að þeir reyni að gera sér ljóst, hvað virkilega er að gerast og hvernig ástandið er í heiminum í þessum málum. Þetta er ekkert einstakt fyrirbrigði. Þó að þetta sé að vísu fimmti sterkasti hringur veraldarinnar og sterkasti hringur heimsins utan Bandaríkjanna, þá eru margir fleiri hringir, sem við Íslendingar eigum líka í höggi við. En það, sem mér þótti alveg sérstaklega gaman að fá í þessu blaði Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna og þessara þm. Sjálfstfl. var eftirfarandi yfirlýsing í þessari sömu grein, með leyfi hæstv. forseta, á 6. síðu í henni:

„Ef hagfræðilegar kenningar, sem byggðar eru á fræðilegum grundvelli, um æskilegt fyrirkomulag fyrirmyndarríkisins eru þyngri á vogarskálinni en dýrmæt reynsla og þær staðreyndir, sem blasa við um framkvæmd hliðstæðra mála í öðrum ríkjum, þá mun þess ekki langt að bíða, að sala og framleiðsla íslenzkra fiskafurða verði ekki lengur í íslenzkum höndum, heldur munu Íslendingar í umboði erlendra aðila annast þessi mál eða ríkiseinkasölur taka við:

Það er mjög ánægjulegt að fá þessa yfirlýsingu frá þessum þm. Sjálfstfl. og frá þessu sterkasta fjármálafyrirtæki í útflutningsgreinum Íslendinga. Og það er rétt að athuga þetta nokkru nánar.

Þetta er alveg rétt hjá Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna. Ef hagfræðilegar kenningar, sem eru byggðar á þessum svokallaða fræðilega grundvelli, sem ríkisstj. hefur verið að boða undanfarið og ekki sízt, hagfræðiprófessorinn í hæstv. ríkisstj., hæstv. viðskmrh., hefur sérstaklega verið að boða, — ef farið er að byggja á þessum hagfræðikenningum, þá verða það ekki Íslendingar, sem ráða lengur yfir sínu atvinnulífi, hvorki um freðfisksútflutning né annað. Allt þetta hjal um fyrirmyndarríki frjálsrar samkeppni er blekking, er ósannindi og það banvæn ósannindi. Og það að vera að prédika þetta yfir Íslendingum og vera að telja mönnum trú um, að hér í vesturlöndum ríki eitthvert fyrirmyndarríki, eitthvert lýðræðisfyrirkomulag í þessum efnum, það er lygi, og það er lygi, sem kostar ekki bara S.H. lífið, heldur getur kostað okkar þjóð lífið, ef við höldum áfram að trúa því eða fara eftir slíkum kenningum.

Við skulum alveg gera okkur ljóst, í hvers konar aðstöðu við erum í veröldinni. Ef til vill hefur mönnum fundizt, að Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna væri sterkt fyrirtæki hér heima. En þegar þeir eru komnir í kast við Unilever eða aðra slíka, — hvað reka þeir sig sjálfir á þá? Þeir reka sig á, að þeir eru of litlir, þeir eru of veikir, þeir eru of fátækir, þeir eru of barnalegir eða máske stundum of miklir braskarar til þess að standa í slíkum slag. Ég veit, að mönnum finnst S.H. kannske sterkt fyrirtæki hérna heima, af því að hún veltir nokkrum hundruðum millj. kr. En hvað eru þó þeir menn, sem standa fyrir þessari Sölumiðstöð, ef litið er á alþjóðamælikvarða? Jú, sumir þeirra eru kannske sæmilega efnaðir menn á alþjóðlegan mælikvarða. Aðrir eru hálfgjaldþrota eða algjaldþrota og haldið uppi af pólitískum ástæðum. Og svo á þetta fyrirtæki að fara að berjast við hring eins og Unilever.

Þegar ég gef svona lýsingu á Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, þá geri ég það ekki vegna þess, að mér sé illa við hana. Ég skal segja það alveg hreinskilnislega, að ég vil heldur S.H. með því ráðleysi, sem er á hennar stjórn, með þeirri vitleysu, sem hún gerir, — ég vil hana þúsund sinnum heldur en Unilever eða einhvern erlendan auðhring til að drottna hér yfir Íslandi. Meðan við höfum þessa litlu íslenzku hringa, þótt fáir séu og vitlaust stjórnað, þá höfum við þó aðstöðu til þess að reyna að bæta þá, við höfum aðstöðu til þess að reyna að koma í veg fyrir vitleysurnar, sem þeir gera, við höfum aðstöðu til þess að reyna að sjá um, að þeir setji ekki hlutina á hausinn. En þegar við einu sinni erum komnir undir stjórn — við skulum segja járnhæl Unilevers eða annarra slíkra, eins og við stundum höfum verið, þá ráðum við ekki lengur við það. Og þess vegna vil ég segja það við Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna og aðra þá, sem fást til að hugsa eitthvað um þá pólitík, sem ríkisstj. hefur verið að reka undanfarið: Þið komið í dag og biðjið hjálpar ríkisstj. og ríkisvalds á móti Unilever. En hvað eru þeir sjálfir, þessir þingmenn, sem standa í S.H., og aðrir þm. stjórnarflokkanna, — hvað eru þeir sjálfir að hugsa um? Þeir eru sjálfir að tala um það og ykkar hæstv. ríkisstj. er að tala um það að ganga í Efnahagsbandalagið. Og hvað þýðir það 7 Það þýðir að ofurselja að fullu og öllu, ekki bara ykkur, heldur Íslendinga yfirleitt undir Unilever og aðra slíka.

Til þess að berjast við Unilever og aðra slíka er Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna ein út af fyrir sig of veik. Og það er það, sem hljómar í gegnum þetta blað og þessa grein, Brezki fiskmarkaðurinn og frjáls samkeppni. Og það er sannleikurinn, sem er í henni. Það er aðvörunarhrópið, sem er í henni, og það hróp eiga Íslendingar að taka til greina: Þið eruð allt of litlir til að slást við Unilever og aðra slíka. Til þess að gera slíkt þurfið þið allt Ísland á bak við ykkur, og það mun ekki af veita.

En Ísland getur ekki hjálpað mönnum, jafnvel þó að það sé Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, til einhvers fyrirhyggjulauss gróðadans. Íslenzka þjóðfélagið getur ekki gefið ykkur einræðisvald t.d. handa einhverjum hrokagikk úr Hafnarfjarðarhrauni, einhverjum Jóni Gunnarssyni, til þess að stjórna þýðingarmestu málum Íslendinga eins og einhverjir einræðisherrar í Mið-Ameriku stjórna ríkjunum þar. Ísland er vafalaust reiðubúið til að berjast, líka um að ráða yfir sinum hraðfrysta fiski og líka berjast við auðhringa eins og Unilever og hefur gert áður. En það er því aðeins hægt, að það sé hægt að sameina alla krafta hér heima til slíkrar baráttu, með fullu lýðræði og með fullu eftirliti þjóðfélagsins — og ykkur þar með.

Þegar þið eruð að hræðast hér ríkiseinkasölu á þessum hlutum, þá er einmitt sérstök ástæða til þess. Ríkiseinkasölur þurfa ekki að vera með því móti, að það séu tómir asnar, sem það sé fengið í hendur að stjórna þeim. Ríkiseinkasölur geta verið þannig, að þær tvinna saman hagsmuni, bæði sjómanna og útgerðarmanna, atvinnurekenda og verkamanna. Það er hægt að sjá um það, að það sé hægt að stjórna ríkiseinkasölu þannig, að notað sé það fyllsta vit, sem nokkur útgerðarmaður og atvinnurekandi getur haft á þeim atvinnurekstri, sem um er að ræða.

Ég held, að það sé einmitt kominn tími fyrir S.H. og þá menn, sem gegna því þýðingarmikla starfi að stjórna útflutningsmálum Íslendinga, til þess að athuga sinn gang. Sölumiðstöðin er ekki einangruð frá því, sem er að gerast í okkar þjóðfélagi. Hvernig stendur á því, að það hefur versnað svona um afkomu Sölumiðstöðvarinnar á þessu síðasta ári? Á hverju byggðuð þið upp, mínir herrar í Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, ykkar fyrirtæki í Bandaríkjunum og annars staðar? Þið byggðuð það upp á þeim peningum, sem Sovétríkin greiddu ykkur kontant, staðgreiddu fyrir fiskinn. Þegar 2/5 hlutar, 50 þús. smálesta, af freðfiski á Íslandi voru keyptir gegn staðgreiðslu við útflutning, þá voru þeir peningar ekki greiddir út beint tafarlaust til framleiðendanna á Íslandi, heldur var svo og svo mikið af þeim tekið og sett í veltuna þar vestanhafs og í Bretlandi. Og ykkur átti nokkurn veginn að geta skilizt það, þegar hraðfrystiútflutningurinn var 76 þús. tonn, að með því að fá 50 þús. tonn af því staðgreitt, þá stóðuð þið tiltölulega sterkt að vígi einmitt til að verjast á hinum mörkuðunum, þar sem þið fluttuð út og selduð vöruna fullunna. En hvað gerðuð þið eða létuð ykkar ríkisstj. gera? Þið létuð hana skera á þessi sambönd austur eftir. Þið létuð hana eyðileggja að meira eða minna leyti markaðina í Rússlandi. Og við það, að þið hættuð sjálfir að miklu leyti að selja fiskinn til Rússlands, þá hættuð þið að fá þá staðgreiðslu og hættuð að fá það fé í veltu, sem þið þurftuð til þess að geta haldið ykkar fyrirtækjum gangandi í Ameríku. Og þess vegna safnast nú fyrir í staðinn fyrir 150 millj, kr., sem voru í fyrra, upp undir 300 eða 400 millj. kr. þar núna.

Jón Gunnarsson hafði ekki svo mikið við að vera að heimsækja þá nema víst einu sinni allan þennan tíma, sem hann hefur verið alheimsforstjóri, þar austur í Moskvu, þó að það væri stærsti viðskiptavinurinn. En honum þótti gott að nota peningana, sem hann fékk þaðan, til þess að festa í Bandaríkjunum og kannske græða sjálfur milljónir á því eða ýmsir aðrir, sem standa í sambandi við hann.

Nú kvarta fiskframleiðendur hér heima, að þeir fái ekki fiskinn sinn greiddan. Og Alþingi verður að taka það til athugunar, hvernig stendur á því og hvernig því, sem þið hafið greitt fyrir fiskinn á undanförnum árum, hefur verið varið. Ég held, að það sé alveg eðlilegt, að þið komið með þetta neyðaróp, sem þið nú rekið upp. Og ég held, að það sé rétt af þjóðinni, af Alþ. og af ríkisstj. að taka þetta nú þegar til gaumgæfilegrar athugunar. Hér er um svo stórfellt mál að ræða, að þetta er mál, sem við verðum hér að ræða og brjóta til mergjar.

Ég sé, að í lok bessarar greinar er flutt neyðaróp til hæstv. forsrh. Hann er því miður ekki viðlátinn nú, en þar standa þessi orð, með leyfi hæstv. forseta:

„Einn mikilhæfasti og merkilegasti stjórnmálamaður þessarar aldar, Ólafur Thors, núverandi forsrh., sem manna bezt þekkir til sjávarútvegs og útflutningsmála á Íslandi, komst í ræðu á landsfundi Sjálfstfl, árið 1953 m.a. svo að orði um bessi mál:

„Þeir af leiðtogum Alþýðuflokksins, sem útgerð reka, halda dauðahaldi í sölusamtök útvegsmanna.“

Svo er haldið áfram að vitna í Ólaf Thors. Og svo endar greinin með þessum orðum: „Íslenzkir fiskframleiðendur vænta þess, að undir styrkri forustu núv. forsrh. verði haldið þannig á útflutningsmálum þjóðarinnar af hálfu ríkisstj. og annarra, að fiskframleiðendur verði ekki settir í hættu vegna spákaupmennsku margra útflytjenda undir eftirliti ríkisins, heldur fái forustumenn fiskframleiðenda sjálfra að halda á fisksölumálum Íslendinga með öryggi og festu og gera þær ráðstafanir á framkvæmd sinni, sem kunna að vera nauðsynlegar á hverjum tíma til að uppfylla kröfur og þarfir sjávarútvegsins. Þá munu hagsmunir íslenzku þjóðarinnar vera tryggðir:

Mér fannst svo mikill klökkvi í þessu neyðarópi og skírskotun til hæstv. forsrh., að ég varð eiginlega næstum alveg hissa, að þeir skyldu ekki setja þetta í eins konar faðirvors-stellingar, þar sem þeir byrjuðu með: Ólafur Thors, þú sem ert í ríkisstj., forðaðu okkur frá frjálsri samkeppni, og gefðu okkur í dag okkar einokun handa Jóni Gunnarssyni, og frelsaðu okkur svo af Emil sem af velferðaríkinu og . . .

Ég held, að þessir hv. þm. hefðu átt að flytja þetta neyðaróp sitt dálítið hátíðlegar. En dálítið einkennilega verkar þetta nú á okkur, sem erum hér í stjórnarandstöðu, að heyra einmitt þá þm. Sjálfstfl., sem ráða nú meiri hlutanum hér í deildinni, vera að skora á hæstv. forsrh. að forða sér nú frá hæstv. sjútvmrh. Dálítið einkennilega verkar þetta nú á okkur. Fyrst eru þeir búnir að segja: Fyrirmyndarríkið hérna, sem hæstv. viðskmrh. og hans hagfræðingar boða, fyrirmyndarríkið með frjálsa samkeppni, það má ekki eiga sér stað, það steindrepur okkur. — Svo koma þeir og segja við hæstv. forsrh.: En í guðanna bænum forðaðu okkur líka frá velferðarríkinu hans Emils. — Er þetta nú ekki fullfrekt af stjórnarstuðningsmönnum, að fara fram á þetta? M.ö.o.: þeir virðast fara fram á: Vér einir, meðlimir Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna, stjórnendur Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna, vér einir eigum að fá að ráða og vér treystum Jóni Gunnarssyni og hann hefur staðið sig svo vel undanfarið, að hann á að fá að vera einræðisherra í þessu áfram. — Er þetta nú ekki fullfrekt? Ég vil segja við þessa góðu menn, ef þeir eru komnir á þá skoðun, að það fyrirmyndarríki frjálsrar samkeppni sé banvænt fyrir bæði þennan útflutning og annan, þá skuli þeir fara að taka höndum saman við aðra menn um að afnema það og hætta öllum þessum blekkingum, sem ríkisstj. er búin að vera að þvælast með í þrjú ár.

Hvað snertir hins vegar velferðarríkið afskipti ríkisins af freðfisksútflutningnum, þið þurfið ekkert að hræðast það, svo framarlega sem þið sjálfir eruð með í því. Það er engin von til þess, að íslenzka ríkið gefi neinum einstaklingum einokun yfir þessu, en íslenzka ríkið getur sjálft haft slíka einokun með höndum og getur reynt að vinna sem allra bezt að því að tryggja hlut allra aðila, sem þarna eiga hlut að máli, jafnt útgerðarmanna, hraðfrystihúsanna, sjómannanna sem verkafólksins. Og eingöngu með slíku móti getur þetta gengið. Það er ekki hægt að byggja einokun á freðfiskinum á því að ætla að koma upp stórfyrirtækjum erlendis, kannske koma undan stórfé til iðnrekstrar. Það getur þjóðin ekki fallizt á. En að reka heiðarlega útflutningsverzlun undir fullu eftirliti og með fullu lýðræði þjóðarinnar, það er mögulegt.

Ég minnti á það hér, þegar núv. pólitík ríkisstj. var tekin upp, að allt þetta þvaður um frjálsa samkeppni, allar þessar tilraunir um þetta svokallaða einkaframtak, hefði allt farið á hausinn hérna fyrir 30 árum. Þeir vita það ósköp vel, að meginið af allri íslenzkri útgerð var á hausnum þá, það voru sett skuldaskil í það allt saman. Og af hverju voru þeir stærstu ekki settir á hausinn, Kveldúlfur og Alliance, þeir, sem höfðu þá 94% af öllum saltfiskútflutningi Íslendinga? Af því að þeir voru það stórir og skulduðu það mikið, að Landsbankinn hefði farið á hausinn líka. Og hver var það, sem bjargaði þessu þá? Jú, það var núv. hæstv. forsrh., sem þá var ráðh. og bjó til þá einokun í skjóli ríkisins, sem síðan hefur staðið í S.Í.F. Með öðrum orðum: þegar þessir íslenzku kapítalistar, sem hafa reynt að kalla sig svo, hafa farið að prófa sig áfram með frjálsa samkeppni, þá hafa þeir ýmist farið á hausinn eða hafa komið til ríkisvaldsins á eftir og biðja ríkisvaldið að bjarga sér. Þetta er saga íslenzka auðvaldsskipulagsins, og það er anzi hart, ef við þurfum að fara að lifa þetta upp aftur núna 30 árum seinna.

Ég var að halda þessa ræðu fyrir ykkur hérna fyrir víst tveim árum, kannske stundum oftar. Ekkert gátuð þið lært af henni þá, en nú virðizt þið fara að koma niður í inntakið, niðurstöðurnar sjálfar. Ég held, að það sé nú bezt, svo að maður líka leggi allt spaug til hliðar í þessum efnum, að við reynum einmitt hér á Alþingi nú að ræða þessi mál almennilega. Við sjáum svo sem alveg, hvað er að gerast. Það er verið að drepa okkur, það er verið að drepa S.H., það er verið að drepa hana í Hollandi. Vissuð þið ekki, þegar þið byrjuðuð í Hollandi, að Unilever var þar líka og Unilever er hollenzkur hringur að sinum uppruna? Þurftuð þið að eyða 6 millj. kr. í það að reyna að koma af stað fyrirtækjum þar og taka það úr vösum íslenzkra fiskframleiðenda? Gátuð þið ekki vitað þetta áður? Eða er ekkí vitið meira? Vissuð þið ekki ósköp vel, hvernig Unilever var, hvers konar hringur þetta var við að eiga? Er hann ekki búinn að setja upp búðir hringinn í kringum ykkur, þar sem þið hafið einhverja útsölustaði í Bretlandi? Er hann ekki að reyna að drepa ykkur þar? Og haldið þið, að Ameríka sé alveg laus við alla auðhringi? Við skulum alveg hreint gera okkur ljóst, að þó að það gæti verið ósköp gaman að því, að við gætum gert hitt og þetta, Íslendingar, erlendis, þá höfum við ekki efni á því að leggja út í nein ævintýri. Og að svo miklu leyti sem við leggjum út í slíkt, sem getur oft verið nauðsynlegt, þá verðum við að tryggja, að það sé almennilega hugsað um hlutina hér að heiman, þannig að það sé ekki verið að stofna t.d. hagsmunum íslenzkra fiskframleiðenda í voða með einhverri ævintýramennsku. Það er allstór hlutur, ef 300—400 millj, kr. eru teknar af því fé, sem íslenzkir útvegsmenn og sjómenn eiga, og sett fast í fyrirtækjum í Bandaríkjunum, í máske mjög hetjulegum slag við stóra hringa, en máske líka í fyrirtækjum, sem geta orðið gróðafyrirtæki fyrir einhverja milliliði. Þess vegna er það, að þegar S.H. fer að biðja hæstv. forsrh. verndar á móti hæstv. sjútvmrh., þá verða þeir náttúrlega að leggja plöggin á borðið, til þess að Alþ. geti dæmt alveg um þessa hluti.

Þegar svo niðurstaðan kemur um þetta allt saman, þá virðist mórallinn, sem þessir hv. þm. Sjálfstfl, draga út af þessu öllu saman, a.m.k. eftir þessari grein þeirra í stjórnarnefnd S.H. að dæma, að vera þetta. Það er dálitið, sem stendur á fyrstu siðunni í þessari grein, Brezki fiskmarkaðurinn og frjáls samkeppni, með leyfi hæstv. forseta: „Er þá þýðingarmikið fyrir litla þjóð, að allir standi saman, ef góður árangur á að nást.“ Þetta er hárrétt. Þetta er það, sem þarf að vera. Þetta er það, sem allt saman veltur á í þessu, að allir standi saman, — ekki að Jón Gunnarsson standi einn og drottni yfir öllu saman, heldur að allir standi saman, þjóðin hafi sitt lýðræðislega vald yfir þessum hlutum, að hún hjálpi til, að hún hafi eftirlit með, að allt fari heiðarlega fram, og að hún láti í té allt það mikla vald, sem hún hefur, til þess að standa á bak við þá baráttu, sem við erum að heyja, máske í þessu tilfelli á móti svo og svo harðvítugum hringum.

Ég geri þetta að þetta miklu umtalsefni, vegna þess að mér finnst það svo lærdómsríkt, það sem kemur fram hjá þessum þm. Sjálfstfl., sem um leið eru stjórnendur í S.H. Mér datt satt að segja ekki í hug, að þeir væru svona barnalegir, hefðu svona litla þekkingu á því, sem þeir eru að fara út í, þegar þeir setja mörg hundruð millj. kr. af fé, sem þorri Íslendinga á, í fyrirtæki erlendis. Þegar hæstv. ríkisstj. og þessir þm. þar með voru að boða hina gömlu, góðu daga frá 1920 –1930, mundu þeir þá ekkert eftir, hvernig þeir voru? Vissu þeir þá ekkert, hvernig ástandið var í Englandi og Bandaríkjunum? Voruð hið orðnir svo töfraðir af öllu umtalinu um lýðræðisríkin, að þið gerðuð ykkur ekki grein fyrir því, að það er ekki snefill til af lýðræði í efnahagsmálum Vestur-Evrópu og Bandaríkjanna? Þar drottnar einræði nokkurra auðhringa, — auðhringa, sem við, ef við eigum að reyna að fara þarna inn, verðum að slást við upp á líf og dauða. Eruð þið búnir að láta gylla svo fyrir ykkur ástandið í þessum löndum, að þið gerið ykkur ekki ljóst, hvernig við verðum að berjast þarna? Og eru þessar sömu gyllingar kannske í augunum á ykkur, þegar þið eruð að hugsa, hvort eigi að ganga í Efnahagsbandalagið eða ekki? Þið biðjið íslenzka ríkið ykkur verndar, snúið ykkur hátíðlega með klökkva í röddinni til hæstv. forsrh. og biðjið hann verndar á móti frjálsri samkeppni, á móti Unilever, á móti hæstv. sjútvmrh. og velferðarríkinu. En sjálfir eruð þið um leið að tala um, að inn í Efnahagsbandalagið þurfið þið endilega að fara. Og gerið þið þá ykkur ekki ljóst, hvað það þýðir? Það er bókstaflega frumskógur villidýranna, sem þið eruð að hætta ykkur inn í, þessir voldugu, sterku auðhringar, sem trampa þá niður, sem eru smáir. Þið eruð að finna ofur lítið fyrir því núna í Hollandi og Englandi. Þá munduð þið finna fyrir því hérna heima líka.

Hélduð þið, að þið væruð í einhverri íslenzkri berjalaut, þar sem þið getið legið og sleikt sólskinið og hámað í ykkur berin, þegar þið voruð að setja upp fyrirtæki við hliðina á Unilever í Bretlandi? Og haldið þið, ef þið færuð í Efnahagsbandalagið, að þetta séu einhver lömb að leika við? Þeir eru hræddir um að vera drepnir núna í Englandi, Hollandi eða Bandaríkjunum. En þeir væru drepnir hérna heima líka, ef þeir væru komnir út í Efnahagsbandalagið. Halda þeir, að Unilever og Findus og þeir, þegar þeir settu upp sín hraðfrystihús hérna á Íslandi, mundu ekki reka þau praktiskar en þið? Halda þeir, að aðilar, sem geta pakkað hér niður í sínar pakkningar til að selja í sínum búðum, — sem ráða, eins og þeir segja sjálfir, um 90% af allri umsetningunni í Bretlandi, — haldið þið, að þeir mundu ekki slá okkur út undireins? Haldið þið, að þið munduð verða eigendur hraðfrystihúsa hérna á Íslandi á eftir? Nei, þið skuluð reyna að hugsa ofur lítið, áður en þið gerið hlutina.

Þess vegna er það, sem ég álít, að neyðarópið frá S.H. eigi rétt á sér og það sé nauðsynlegt að taka það alvarlega, að S.H. þurfi hjálpar við. Það þýðir, að hún þarf ýtarlegrar rannsóknar við, til þess að þið sjáið, hvernig þetta allt saman stendur. Það þýðir, að hún þarf sterkrar stjórnar við, líka stjórnar af hálfu ríkisins, öðruvísi er ekki hægt að ætlast til þess, að hún fái neitt einkavald á Íslandi. Og þessa hluti þurfa þeir að gera sér ljósa, þegar menn nú biðja um vernd. Á forsíðunni í þessari grein, Brezki fiskmarkaðurinn og frjáls samkeppni, þá er með feitletri haft eftir merkum íslenzkum kaupsýslumanni, einum af máttarstólpum Verzlunarráðs Íslands, að hann hafi sagt nýlega um Íslendinga: Hafa þeir ekkert lært, eru Íslendingar búnir að gleyma Hellyer? Mér þótti mjög vænt um að heyra þetta, einmitt að þetta skyldi koma frá kaupsýslumönnum. Ég var nefnilega fyrir tveim árum í útvarpsræðu, sem ég flutti við kosningarnar 1959, að reyna að minna á Hellyer út frá þeim kröfum, sem einn aðalmaður S.H., Einar Sigurðsson, birti í Morgunblaðinu 20. marz 1959 um að taka öll þau fyrirtæki, sem ríki og bæirnir reka, og setja þau í hendur einstaklinga.

Það átti að vera fagnaðarboðskapur ríkisstj. Og um leið átti það að vera fagnaðarboðskapur að afhenda íslenzk fyrirtæki í hendurnar á útlendingum og leyfa útlendingum að koma upp fyrirtækjum hér. Og ég minnti á Hellyer Brothers í útvarpsræðu minni, og ég minnti á, hvað alþýðan í Hafnarfirði kallaði það, hún kallaði það Heljarbros. Og þegar þessir brezku togaraeigendur yfirgáfu Hafnarfjörð, þetta Heljarbros, þá var alþýðan í Hafnarfirði sjálf, sem varð að skapa sér sína bæjarútgerð til þess að lifa, til þess að hafa atvinnu, og það er sú bæjarútgerð og aðrar slíkar bæjarútgerðir, sem menn úr S.H., eins og Einar Sigurðsson, hafa verið að prédika um, að eigi að afhenda þeim.

Er nú ekki rétt fyrir þá menn, ekki sízt þm. Sjálfstfl., sem eru í stjórn S.H., að fara ofur lítið hóflegar í sakirnar, að koma ekki hér annað veifið til okkar og segja: Ég heimta til mín öll fyrirtæki ríkisins og öll fyrirtæki bæjanna, — og koma svo daginn eftir og segja: Í guðanna bænum, þið verðið að bjarga mér. Ætlið þið að láta frjálsa samkeppni drepa mig, ætlið þið að láta Unilever drepa mig? Þið verðið að gefa mér einokun, ríkiseinokun. — Ég held það sé tími til kominn, að þessir góðu herrar fari að athuga dálítið, hvar þeir standa. Ef þeir væru komnir í Efnahagsbandalagið, þá veit ég að vísu, eins og ég sagði áðan, að Unilever og Findus mundu ekki bara soga upp þessi smáhraðfrystihús þeirra, eða réttara sagt láta þau standa tóm og verða einskis virði, af því að þeir kæmu með önnur og fullkomnari. Ég veit líka, að þeir mundu kannske drepa svo og svo mikið af bæjarútgerðum og slíku. En þá hefðum við Íslendingar enga möguleika, þegar þeim hringum þóknaðist að fara burt héðan af Íslandi aftur, til þess að koma neinu upp í staðinn, því að þá værum við ekki lengur sjálfstæð þjóð, og gæti hvorki bær né ríki stofnað útgerð né hraðfrystihús, vegna þess að þá værum við búnir að binda okkur í Efnahagsbandalaginu þeim böndum, að við hefðum ekki leyfi til slíks, og getum ekki losað okkur úr þeim böndum, því að sá samningur er óafturkallanlegur.

M.ö.o.: við gátum bjargað okkur, þegar Hellyer Brothers yfirgáfu Hafnarfjörð, og bæjarútgerðin kom seinna meir og einstakir atvinnurekendur tóku þar við og reyndu að reisa úr rústunum. Við gátum bjargað okkur, af því að við vorum fullvalda þjóð. Og þess vegna mælti ég þessi orð áðan, að Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, með allri sinni vitleysu og kannske sínu svindli og öðru slíku, hana vil ég þó þúsund sinnum heldur en Unilever eða hvern þann útlenda hring, sem hér ætti að ráða. En þess vegna er líka tími til kominn, áður en slík spor væru stigin, sem yrðu óafturkallanleg, eins og að ganga í Efnahagsbandalagið, að við reynum að ráða þessum málum okkar til lykta sem sjálfstæð þjóð, að við reynum að ráða okkar fiskútflutningi sjálfir, að við reynum að hjálpast að við að stjórna honum og sjá um, að honum sé vel stjórnað og réttlátlega stjórnað og viturlega stjórnað, þannig að alþýða manna á Íslandi og þjóðin í heild hafi sem mesta hagsmuni af því

Ástandið, sem verið var að lýsa hér áðan, einmitt í þessari grein, á bls. 6, sem ég las upp, það er ástandið, sem mundi bíða okkar, ef við værum komnir í Efnahagsbandalagið. Þá mundu Íslendingar í umboði erlendra aðila annast þessi mál. Flýgur sú saga um bæinn, að hæstv. forsrh., — ég læt hana fjúka, því að hún er skemmtileg, eins og margt, sem eftir honum er haft, — flýgur sú saga um bæinn, að hæstv. forsrh. hafi átt að segja við hæstv. viðskmrh., þegar hann hafi einu sinni verið að mæla með Efnahagsbandalaginu í ríkisstj.: Ertu búinn að útvega þér agentúr? — Hæstv. forsrh. er mjög raunsýnn maður og mjög klár á þeim hlutum, sem annað eins og Efnahagsbandalagið þýðir, og veit þess vegna, að um leið og við værum komnir í Efnahagsbandalagið, þá værum við ekki sjálfstæðir íslenzkir atvinnurekendur, svo að hann spurði þann mikla teoretiker Efnahagshandalagsins og ríkisstj., hæstv. viðskmrh., hvort hann væri búinn að útvega sér agentúr. Það væri eina tækifærið þá fyrir Íslendinga upp á að reka nokkuð að reyna að hafa söluumboð fyrir einhverja erlenda aðila. Og það er einmitt það, sem þessir hv. þm. Sjálfstfl. í S.H. eru að lýsa, þegar þeir segja: Þá munu Íslendingar í umboði erlendra aðila annast þessi mál, agentúrinn. Ég held þess vegna, að það sé mjög heppilegt, einmitt með tilliti til Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna og freðfiskútflutningsins sérstaklega, að þessi mál koma til umr. núna, og með tilliti til þess, sem verið hefur rætt stundum undanfarið um Efnahagsbandalagið, að við fáum að sjá smásýnishorn af því, hvar við stæðum, ef Íslendingar ættu eftir að stiga það óheillaspor að fara inn í það.

Þess vegna vil ég segja það af fullri alvöru við einmitt mennina úr S.H., af því að mér er ljóst, að þeir þrír þingmenn, sem þar sitja, mynda um leið meiri hl. ríkisstj.: Þið skuluð venja ykkur af því að vera að heimta, að ríkisfyrirtæki verði lögð niður. Þið skuluð venja ykkur af því að heimta, að bæjarfyrirtæki verði lögð niður. Þessi frekja, sem menn úr ykkar hópi hafa hvað eftir annað sýnt, hún er ósæmileg. Þetta hafa verið bjargvættir fyrir íslenzka þjóð. Og þið eruð ekki sjálfir það sterkir, að þið standið ykkur nokkurn skapaðan hlut í þeirri baráttu, sem þið heyið erlendis, nema því aðeins að þjóðin og ríkið standi á bak við ykkur, og það er ykkur sjálfum orðið ljóst. Þess vegna skuluð þið ekki vera að reyna að brjóta niður þær stoðir, sem íslenzka þjóðin á beztar í þessu, hennar bæjar og ríkisfyrirtæki, eftirlit og yfirtöku ríkisins á þessum málum.

Það er eins og hver annar ungæðisháttur, þó að hann sé óviðkunnanlegur hjá rosknum manni, eins og það, sem ég var að geta um áðan einmitt með Einar Sigurðsson, að koma með það, um leið og ríkisstj. er með allan sinn fagnaðarboðskap, að það eigi undireins að selja öll ríkisfyrirtækin og bæjarfyrirtækin, eins og hann setur fram í Morgunblaðinu 20. marz 1959. Ég þóttist vita, að það væri ekki hægt að selja, nema þá þannig, að það væri á mjög lágu verði, og vafalaust áttu þeir að fá lán í bönkunum til þess að borga þau með, ríkisbönkunum, hvort sem þeir ætluðu að kaupa ríkisbankana á eftir kannske með áburðarverksmiðjufyrirkomulagi.

M.ö.o.: niðurstaðan af þessu neyðarópi, sem stjórn S.H. rekur upp í sínu síðasta blaði, á því að vera sú, að Alþ. og ríkisstj eigi að svara. Það er rétta hjálpin. Það dugir ekki að sleppa svona unglingum, — eða ef menn vilja orða það eitthvað á annan veg, — svona bröskurum eftirlitslaust út í heiminn. Það verður að hafa beizli á þeim. Menn verða að vita, hvert þeir eru að fara með fjármunina. Þess vegna verður, um leið og þeir endurskoða sina afstöðu til ríkisins, þá verður ríkið líka að endurskoða alla afstöðuna til þeirra. Og það er það, sem ég fer fram á að sé gert. Áður en hægt er að taka þetta neyðaróp til endanlegrar afgreiðslu, þá verðum við að sjá, hvar við lendum með Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna. Ég man að vísu, að það var stóra slagorðið, þegar hæstv. ríkisstj. byrjaði með sína núverandi pólitík, að atvinnurekendur ættu að standa á eigin fótum. Það hafði annars heyrzt lítið nú seinustu árin, en það var lögð mikil áherzla á þetta, að atvinnurekendur ættu að standa á eigin fótum. Ég hef nú satt að segja aldrei séð þessa fætur, sem íslenzkir atvinnurekendur hafa staðið á. Mér sýnist þeir alltaf hafa staðið á bönkum, á lánum úr bönkum og engu öðru. Það eru kannske tíu menn, sem standa án þeirra. En engu að síður, þá hafa nú fundizt hagfræðingar hér á Íslandi, sem hafa prédikað þetta, að atvinnurekendur ættu að standa á eigin fótum. Nú kemur sjálf Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, sterkasta fyrirtækið á Íslandi, flytur a.m.k. mest út af öllum, veltir mestu af öllum, hundruðum milljóna kr., og segir: Ég get ekki staðið á eigin fótum. Ríkið verður að hjálpa mér. — Mér þykir þetta mjög gott, að þeir skuli sjá þetta. En ríkið verður þó að athuga allan ykkar gang áður, mínir herrar. Mér þykir mjög gott einmitt, að S.H. og þingmennirnir, sem þar eru í stjórn, skuli sjá, að þessar kenningar, sem hagfræðingarnir hafa haldið fram um fyrirmyndarríkið, kenningarnar, sem ríkisstj. hefur byggt á núna í 3 ár, þær séu tóm vitleysa og muni bara verða til þess að drepa niður íslenzk fyrirtæki. Mér þykir það mjög gott. En þá verða þeir að byrja á því að taka afleiðingunum af því, að þeir hafa nú rekið sig á. Það er vissulega svo, að þessir íslenzku atvinnurekendur geta ekki staðið á eigin fótum. En engu að síður verður þessi atvinnurekstur að geta staðið. Það þýðir, að við verðum að hjálpast að. Það þýðir, að Íslendingar verða að standa saman um þetta. Það þarf samstarf alþýðumanna og atvinnurekenda um þetta. Það þarf allan mátt bæja og ríkis, til þess að við Íslendingar getum haldið uppi okkar atvinnurekstri og barizt í þessum heimi fyrir því, að þessari þjóð vegni vel. Við þurfum ekkert einræði þarna, ekkert einræði Jóns Gunnarssonar eða neinna slíkra. Við höfum ekkert einræðisvald til handa einhverjum spekúlant. En við þurfum samheldni þjóðarinnar með fullu eftirliti með öllum þeim aðilum, sem þarna eru að verki. Þess vegna fór ég fram á í fyrra, að þetta væri tekið upp. Það fékkst ekki. Ég fer fram á það núna, og nú vona ég, að það verði gert, vegna þess að nú hafa sjálfir mennirnir í S.H. rekið upp neyðaróp, beðið um aðstoð ríkisins, beðið um einokun sér til handa, og það er alveg greinilegt, að það eru svo miklir hagsmunir, sem þjóðin á þarna í veði, að því neyðarópi verður að sinna.

Ég rakti það hér áðan, hve mikið þetta hefur versnað, hve mikið fé hefur festst þar vestra, það, sem var 150 millj. í fyrra, sé kannske komið upp í 300–400 millj. núna. Ég rakti, hvernig það gengi að nokkru leyti saman við þá pólitík, sem rekin hefur verið um freðfiskútflutninginn, sem sé, að það hefur verið minnkað stórkostlega, sem flutt hefur verið út til þeirra landa, sem taka á móti vörunni gegn staðgreiðslu, eins og Sovétríkjanna, og sýndi þess vegna fram á, að einmitt í útflutningspólitík okkar Íslendinga væri skynsamlegt og nauðsynlegt að reyna að selja mikið af hraðfrysta fiskinum til sósíalistísku ríkjanna gegn staðgreiðslu, til þess að vera færir um að berjast við þá hringi, sem við þyrftum að berjast við í Englandi og Bandaríkjunum, og til þess að þurfa að verja hlutfallslega sem minnstu fé í að festa þar eða eiga þar á hættu. Það þýðir m.ö.o., að þessi pólitík í okkar útflutningsverzlun, það er hlutur, sem stjórn S.H. og þeir þingmenn Sjálfstfl., sem hafa meirihlutaaðstöðu hér á Alþ., hefðu átt að láta sig skipta, ef þeir hefðu verið það framsýnir, að þeir hefðu séð, hvað þetta þýddi fyrir þá. Það var ópraktískt að skera á viðskiptin við Sovétríkin, eftir að þeir höfðu um árabil notað alla þessa Rússapeninga til þess að setja þá fasta í nýjum fyrirtækjum í Bandaríkjunum, þótt þeir hugsuðu ekki lengra en það.

Ég álít, að það sé þjóðarvoði fyrir dyrum, ef þetta leysist allt saman upp, Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna hrynur, eins og er viðbúið að hún geri, þegar önnur eins krítik er komin fram eins og nú og svona samkeppni komin þarna. Við skulum alveg gera okkur ljóst, að það er þarna hætta á ferðum. Þarna þarf ríkið sem sé að grípa inn í, eða a.m.k. virðast þeir vera komnir nokkuð á þá skoðun, þessir þm. Sjálfstfl., sem ráða ríkisstjórnarmeirihlutanum á Íslandi. Og nú vill svo til, að eftir því sem ég veit til, þá er ekki aðeins einn stjórnandi úr S.H., heldur líka sjálfur formaður Coldwater Seafood Corporation hér, einn af okkar hv. þdm., þannig að nú ættum við að geta við þessa umr., einmitt þessa umr., rætt þetta mál mjög ýtarlega hér. Við ættum að geta fengið hér upplýsingar um, hvernig þetta stendur, og við ættum hér á Alþ. að geta tekið þetta mál til fullrar athugunar og krufið það til mergjar. Ég vona, að það verði ekkert dulið í þessu máli og við fáum að vita allt, hvað þarna er. Ég vil vona það, að hér eftir hætti þm. Sjálfstfl, að tala um fyrirmyndarríki þeirrar frjálsu samkeppni, eftir þá áminningu, sem þeir hafa fengið frá S.H. Ég vona, að þeir, sem hafa haldið, að það væri einhver yndisleg samkeppni í þessum svokölluðu lýðræðisríkjum, hafi nú rekið sig það rækilega á, að þarna eru voldugir vargar að verki, sem ætla að háma í sig Sölumiðstöðina, og geri sér ljóst, að það er enginn gamanleikur að fást við efnahagslega baráttu þar, og að ríkið íslenzka þurfi þess vegna mjög vel að athuga alla sina hluti, og við fáum nú við þessa umræðu plöggin lögð á borðið af hálfu S.H. Þá álít ég, að það gæti vel svo farið, að hv. fjhn., sem ég legg til að taki þetta mál til meðferðar, geti jafnvel gert meira en að hafa með höndum þá rannsókn, sem hér er lagt til, og það er kannske líka hugsanlegt, að hún gæti komið með tillögur um skipan þessa máls. Ég sé, að þetta mál er nú svo þróað frá því í fyrra, að það er ekki bara lengur um það að ræða að bara rannsaka fjármálaástandið hjá S.H., heldur beinlínis um það, hvernig verður skipulagið á freðfiskútflutningnum frá Íslandi héðan í frá. Því spursmáli hef ég ekki upp stillt. Því hefur stjórn S.H. sjálf upp stillt. Hún virðist jafnvel fara svo langt að vitja beinlínis sprengja núv. ríkisstj. með því að biðja nú verndar forsrh. móti velferðarríki sjútvmrh., og þegar svona langt er gengið, þá er greinilegt, að það er eitthvað alvarlegt, sem þjarmar að þar erlendis, í frumskógi villidýranna, hjá auðhringunum í þessum margumtöluðu lýðræðisríkjum.

En við þurfum að fá plöggin á borðið. Við þurfum að fá að vita, hvernig þessir hlutir standa. Við vitum, að það hefur verið flutt út á undanförnum 5–6 árum mjög mikið af fiski til Bandaríkjanna, að það hefur verið — að miklu leyti í einni verksmiðju — unnið úr tugum þúsunda tonna á undanförnum árum af íslenzkum freðfiski og selt sem vara tilbúin handa neytendum. Ég vildi mjög gjarnan beina þeirri spurningu til hv. form. Coldwater Seafood Corporation, sem rekur þessa verksmiðju, hvernig hefur verið með innkaupin til þessarar verksmiðju á undanförnum árum. Segjum t.d., að á svo og svo löngu árabili hafi verið seldar vörur út úr þessari verksmiðju fyrir t.d. 650 millj. ísl. kr., ef maður reiknaði með kannske 20—30 þús. tonnum á ári, a.m.k. 20 kr. kg, held ég, að það hljóti að kosta, og til að framleiða vörur fyrir neytendur fyrir 650 millj. kr. mun þurfa að kaupa inn í Bandaríkunum fyrir ekki minna en 150 millj. kr. þurrmjólk, egg, umbúðir, rasp og ýmislegt fleira, — vörur, sem allar eru meira eða minna niðurgreiddar í Bandaríkjunum. Það er algengt í Bandaríkjunum að gefa allt upp í 33% afslátt af vöru, sem er keypt. Hefur verið séð um það í öllum tilfellum, að sá afsláttur rynni til viðkomandi félags og fiskframleiðendanna hér heima, eða hefur slíkur afsláttur máske farið til einhverra milliliða þarna úti? Það er greinilegt, að það er hægt bara á slíkum innkaupum, ef menn láta ekki afsláttinn renna á réttan stað, að láta renna til ýmiss konar milliliða 45—50 millj. kr. á nokkru árabili.

Það er enn fremur vitanlegt, að það er auglýst fyrir tugi millj. ísl. kr., og ég veit, að blöð, sem taka á móti auglýsingum, gefa venjulega líka afslætti. Hefur verið séð um, að þeir afslættir renni hingað heim? Enn fremur fara tugir millj. í flutninga í þessum löndum. Hefur verið grandgæfilega rannsakað allan tímann, að allt það, sem hægt væri að spara í þessum efnum, rynni hingað heim? Við þurfum að fá að vita þessa hluti. Bara slík smáatriði eins og þetta, sem ég nefndi hér áðan, með afsláttinn á þessum þurrmjólkurvörum og öðru slíku, það mundi á nokkrum tíma nema ekki minna en 80—100 aurum á kg hérna heima á fiskinum. Við þurfum að fá þessi plögg á borðið, plöggin frá Coldwater Seafood Corporation. Við þurfum að fá að rannsaka þetta til fullnustu, hvernig þessir hlutir standa. Við verðum að tryggja það, þegar íslenzka ríkið ætlar máske að standa á bak við eitt stórt fyrirtæki, jafnvel kannske tryggja því einokun eða annað slíkt, eins og hér er farið fram á, að þetta sé rekið með þeim heiðarleika og því viti, og ef nauðsynlegt er með þeirri hörku, sem tryggir, að það sé verið að vinna fyrir þjóðarheildina með því, fyrir þá menn, sem eiga þennan fisk, fyrir hraðfrystihúsin, fyrir útgerðarmennina, fyrir sjómennina, fyrir verkafólkið. Við getum ekki þolað það, að það sé máske stungið undan milljónum króna vestanhafs eða annars staðar og siðan sé sagt við menn hérna heima: Það verður að greiða lægra kaup til verkakvennanna eða verkafólksins, sem vinnur að því — Það getum við ekki þolað. Ef menn fara fram á það, eins og farið er fram á í þessu blaði, að íslenzka ríkið standi á bak við, allir Íslendingar standi sameinaðir, öll þjóðin sé eitt, eins og stendur í blaðinu um Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, þá verður þjóðin að fá 100% vissu, hafa 100% eftirlit með því, að þarna sé alls staðar skynsamlega og heiðarlega að farið. Plöggin verðum við þess vegna að fá á borðið. Við getum ekki þolað það, að einhverjir og einhverjir menn, sem kannske hafa verið íslenzkir um einhvern tíma, jafnvel þó að þeir eigi villu suður í Hafnarfjarðarhrauni, að þeir séu kannske allt í einu, áður en við vitum af, orðnir eiginlega amerískir fiskkóngar og séu farnir að hafa fyrst og fremst hagsmuni af því að reka fyrirtæki vestanhafs og fyrst og fremst hagsmuni af því að fá ódýran fisk frá Íslandi. Og það þarf ekki mikið til, ef búið er að festa 400 millj, kr. erlendis, í nokkrum fyrirtækjum þar, og þeim mönnum, sem finna sig hafa hagsmuna þar að gæta, finnist: Ja, það er nú bezt fyrir mig, að þessi fyrirtæki gangi vel, ég hef til ýmsar aðferðir til að ná mínum peningum út úr þeim, en ég ætla að fá fiskinn ódýrari frá Íslandi. Eini tilgangurinn með því að halda uppi Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, jafnvel að ríkið fari að vernda hana og tryggja, eins og þeir fara fram á, stjórnendurnir, það er þó, að það séu Íslendingar, íslenzkir verkamenn, íslenzkir sjómenn og verkafólk, íslenzkir útgerðarmenn og íslenzkir hraðfrystihúsaeigendur, sem njóta góðs af.

Ég vil vonast til þess, einmitt vegna þeirra kvartana, sem nú hafa komið fram frá sjálfri S.H. í hennar blaði, að nú verði þessi till. mín tekin til rækilegrar athugunar og umræðu nú þegar. Mér þótti leitt, að hún skyldi ekki vera afgreidd í fyrra. Ég álít, að það hefði getað afstýrt margs konar tjóni, sem siðan hefur orðið, ef hún hefði verið afgreidd þá og verið gripið nægilega snemma inn í. En ég þykist viss um og sé það einmitt á því neyðarópi, sem S.H. hefur rekið upp, að það er enn þá meiri hætta fram undan núna heldur en ég nokkurn tíma hafði hugmynd um. Þess vegna vonast ég til þess, að hv. 2. þm. Vesturl. (SÁ), sem er formaður Coldwater Seafood Corporation, sjálfur meðlimur í Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, hann leggi nú plöggin á borðið hér fyrir okkur, við fáum hér tækifæri til þess að ræða þetta mál, kryfja þetta mái til mergjar, og að við síðan finnum leiðir til þess að sameinast um það að tryggja íslenzkan freðfiskútflutning og tryggja það, að íslenzkir sjómenn og íslenzkir útgerðarmenn, íslenzkt verkafólk og íslenzkir hraðfrystihúsaeigendur og aðrir slíkir fái andvirði sins fisks, þ.e.a.s. hans rétta verð, hingað heim og okkur takist að ná þessu úr klónum, hvort heldur er á Unilever í Bretlandi eða jafnvel einhverjum, sem kynni að vera skyldur Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna í Bandaríkjunum.